Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Hann hjálpar mér að ná til hjartna fólks“

„Hann hjálpar mér að ná til hjartna fólks“

„Hann hjálpar mér að ná til hjartna fólks“

Í BORGINNI Porto Alegre í suðurhluta Brasilíu var fyrir nokkru haldin alþjóðaráðstefna um þjóðfélagsmál. Tugþúsundir manna frá 135 löndum sóttu ráðstefnuna. Hópur votta úr söfnuði í Porto Alegre notaði dagskrárhléin til að vitna fyrir ráðstefnugestum og segja þeim frá fagnaðarerindinu. Hvernig fóru þeir að?

„Við notuðum bæklinginn Good News for People of All Nations (Fagnaðarerindi fyrir fólk af öllum þjóðum),“ segir brautryðjandi sem heitir Elizabete. Hún bætir við: „Margir af ráðstefnugestunum höfðu aldrei heyrt fagnaðarerindið um Guðsríki áður, en þeir brugðust vel við því. Við töluðum við fólk frá Bólivíu, Frakklandi, Indlandi, Ísrael, Kína og Nígeríu. Sumum gátum við boðið biblíutengd rit á sínu tungumáli sem þeir þáðu með ánægju.“

Raúl, brautryðjandi í Mexíkó, notar líka þennan bækling með góðum árangri. Fyrir nokkru talaði hann við áttræðan arabískan mann sem nýlega hafði misst eiginkonu sína. Þegar maðurinn hafði lesið um Guðsríki á arabísku í bæklingnum táraðist hann af gleði. Hvers vegna? Loforð Guðs í Opinberunarbókinni 21:3, 4 snart hann djúpt þegar hann las það á móðurmáli sínu. Þar kemur fram að dauðinn muni ekki framar vera til. Við annað tækifæri vitnaði Raúl óformlega fyrir manni sem talar portúgölsku. Hann hafði líka misst ástvin, son sinn. Raúl bað hann um að lesa portúgölsku blaðsíðuna í bæklingnum. Eftir að hafa gert það lét maðurinn í ljós að hann hefði áhuga á að kynna sér Biblíuna betur og þáði biblíunámskeið.

Raúl hefur notað bæklinginn Good News for People of All Nations til að vitna fyrir fólki sem talar armensku, ensku, frönsku, hindí, kínversku, kóresku, mixe, persnesku, rússnesku, sapótek og þýsku. Hann segir: „Ég uppgötvaði hvað það er mikilvægt að nota þennan bækling í boðunarstarfinu. Hann hjálpar mér að ná til hjartna fólks, þó að við tölum ekki sama tungumál.“

Þar sem fólk ferðast æ meira og flytur milli landa aukast líkurnar á að við hittum einhverja sem tala annað tungumál. Við getum sagt þeim frá Guðsríki ef við notum bæklinginn Good News for People of All Nations. Ertu vanur að hafa hann meðferðis?

[Myndir á bls. 32]

Raúl notar bæklinginn til að ná til hjartna fólks.