Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hjálpaðu börnunum að kynnast söfnuði Jehóva

Hjálpaðu börnunum að kynnast söfnuði Jehóva

Hjálpaðu börnunum að kynnast söfnuði Jehóva

BÖRN eru námfús. Hugsaðu þér spurningarnar sem hafa brunnið á vörum ísraelskra barna í Egyptalandi kvöldið sem fyrsta páskahátíðin var haldin: „Af hverju þurfti lambið að deyja? Af hverju er pabbi að bera blóð á dyrastafina? Hvert erum við að fara?“ Ljóst er af fyrirmælum Jehóva til ísraelskra feðra að hann tók spurningum barnanna fagnandi. Hann sagði eftirfarandi um páskahátíðir ókominna ára: „Þegar börn ykkar spyrja: Hvaða merkingu hefur þessi siður í augum ykkar? skuluð þið svara: Þetta er páskafórn handa Drottni sem gekk fram hjá húsum Ísraelsmanna í Egyptalandi þegar hann laust Egypta banahögg en þyrmdi húsum okkar.“ (2. Mós. 12:24-27) Seinna meir minnti Jehóva ísraelska foreldra á hve mikilvægt það væri að svara spurningum barnanna um þau „lög og ákvæði“ sem hann hafði sett. — 5. Mós. 6:20-25.

Ljóst er að Jehóva vildi að börnin fengju viðunandi svör við spurningum sínum um sanna tilbeiðslu — svör sem yrðu þeim hvatning til að elska hann sem Guð sinn og frelsara. Jehóva óskar hins sama handa börnum nú á tímum. Ein leið fyrir foreldra til að innræta börnunum sterkan kærleika til Jehóva og þjóðar hans er að fræða þau um söfnuð hans og sýna þeim fram á hvernig söfnuðurinn er þeim til góðs. Við skulum nú líta á nokkur dæmi um hvernig hægt er að hjálpa börnum að kynnast söfnuði Guðs frá ýmsum hliðum.

Heimasöfnuðurinn

Börnin þurfa að þekkja söfnuðinn sem fjölskyldan tilheyrir. Til að svo verði ættuð þið foreldrarnir að taka börnin með ykkur á allar safnaðarsamkomur. Þá fylgið þið fyrirmyndinni sem Jehóva gaf Ísraelsmönnum. Hann sagði þeim: „Stefndu fólkinu saman, bæði körlum, konum og börnum . . . til þess að þeir hlusti á [lög Guðs] og læri þau, óttist Drottin, Guð ykkar, og gæti þess að framfylgja öllum ákvæðum þessara laga. Börn þeirra, sem þekkja ekki lögin enn þá, skulu hlýða á og læra að óttast Drottin.“ — 5. Mós. 31:12, 13.

Börnin geta byrjað að kynnast orði Jehóva á unga aldri. Páll postuli sagði í bréfi til Tímóteusar: „Þú hefur frá blautu barnsbeini þekkt heilagar ritningar.“ (2. Tím. 3:15) Börnin þurfa ekki að vera há í loftinu til að meðtaka sumt af því sem fram kemur á samkomum í ríkissalnum og kynnast ríkissöngvunum. Þar læra þau að nota Biblíuna og biblíutengd rit og bera virðingu fyrir þeim. Á samkomunum skynja þau eiginleika sem er auðkennandi fyrir alla sem fylgja Kristi í sannleika — kærleikanum. Jesús sagði: „Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hvert annað. Eins og ég hef elskað yður skuluð þér einnig elska hvert annað. Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóh. 13:34, 35) Kærleikurinn og öryggiskenndin, sem er augljós í ríkissalnum, höfðar til barnanna og stuðlar að því að samkomurnar verði fastur þáttur í lífi þeirra.

Börnin hafa tækifæri til að eignast vini ef þið venjið ykkur á að koma tímanlega í ríkissalinn og doka við um stund eftir að samkomunum er lokið. Væri ekki góð hugmynd að kynna þau fyrir bræðrum og systrum á öllum aldri í stað þess að láta þau einvörðungu vera með öðrum krökkum? Ef þau fá að kynnast eldra fólkinu í söfnuðinum uppgötva þau mikinn fjársjóð visku og reynslu. Sakaría, sem var uppi endur fyrir löngu, „skýrði það sem Guð opinberaði“ og hafði góð áhrif á Ússía Júdakonung meðan hann var ungur. (2. Kron. 26:1, 4, 5) Á sama hátt geta þeir sem hafa þjónað Jehóva dyggilega árum saman haft góð áhrif á unga fólkið á meðal okkar. Þú getur líka skýrt fyrir börnunum tilganginn með bókasafninu í ríkissalnum, tilkynningatöflunni og mörgu öðru.

Alþjóðleg starfsemi safnaðarins

Börnin þurfa að gera sér grein fyrir því að söfnuðurinn þeirra er hluti af stærri heild sem í eru meira en 100.000 söfnuðir. Skýrðu fyrir þeim hvernig þessi stóra heild starfar og hvernig þau geta stutt starfsemina á alþjóðavettvangi. Segðu þeim af hverju þú hlakkar til svæðismóta, landsmóta og heimsókna farandhirðisins. — Sjá rammagreinina „Efni sem fara mætti yfir í fjölskyldunáminu“, á bls. 28.

Þegar tækifæri gefst skaltu bjóða í mat farandumsjónarmönnum, trúboðum, Betelítum og öðrum sem þjóna í fullu starfi. Hugsaðu ekki sem svo að þessir þjónar Guðs séu of uppteknir til að sinna börnum. Þeir leggja sig fram um að líkja eftir Jesú og hann gaf sér alltaf tíma til að sinna börnum og tala við þau. (Mark. 10:13-16) Þegar börnin þín heyra þessa þjóna Jehóva segja frásögur og sjá að þeir njóta þess að þjóna honum getur það verið þeim hvatning til að setja sér það markmið að þjóna Jehóva í fullu starfi.

Hvað annað getið þið gert sem fjölskylda til að hjálpa börnunum að kynnast söfnuði Jehóva betur? Þið gætuð prófað eitthvað af þessu: Notið bókina Jehovah’s Witnesses — Proclaimers of God’s Kingdom ef þið getið lesið ykkur hana að gagni. Dragið fram guðrækni þjóna Jehóva, auðmýkt þeirra og hollustu. Ræðið hvernig Jehóva notaði þá til að útbreiða fagnaðarerindið um alla jörðina. Notið mynddiskana, sem söfnuðurinn hefur gefið út, til að kenna mikilvæga lærdóma úr fortíð og nútíð. Heimsækið deildarskrifstofuna og Betelheimilið í heimalandi ykkar eða í öðrum löndum ef þið hafið tök á. Með slíkum heimsóknum getið þið sýnt börnum ykkar hvernig jarðneskur hluti alheimssafnaðar Jehóva starfar. Undir forystu hins trúa og hyggna þjónshóps er unnið skipulega að því að sjá bræðrum og systrum um allan heim fyrir andlegri fæðu og leiðsögn, rétt eins og á fyrstu öld. — Matt. 24:45-47; Post. 15:22-31.

Lagaðu efnið að þörfum barnanna

Þegar þið kennið börnunum skuluð þið hafa í huga hvernig Jesús fræddi postulana. Einu sinni sagði hann við þá: „Enn hef ég margt að segja yður en þér getið ekki skilið það nú.“ (Jóh. 16:12) Hann drekkti ekki lærisveinunum í upplýsingum heldur kenndi þeim mikilvæg sannindi smám saman þannig að þeir gætu meðtekið þau og tileinkað sér. Kaffærið ekki börnin. Ef þið kennið þeim jafnt og þétt í hæfilegum skömmtum haldið þið áhuganum vakandi og börnin hafa gaman að því að læra um kristna söfnuðinn. Þegar þarfir barnanna breytast getið þið byggt á því sem þau eru búin að læra og aukið við það.

Kristni söfnuðurinn er traustur bakhjarl sem styrkir samband okkar við Guð. Börn og unglingar, sem starfa dyggilega með söfnuðinum, eru vel í stakk búin til að verjast áhrifum frá heimi Satans. (Rómv. 12:2) Við treystum að þið hafið mikla ánægju af því að hjálpa börnunum að kynnast söfnuði Jehóva. Með blessun hans geta þau tengst söfnuði hans nánum böndum og átt sterkt og innilegt samband við ástríkan föður sinn á himnum.

[Rammi/​mynd á bls. 28]

Efni sem fara mætti yfir í fjölskyldunáminu

Hér eru nokkur dæmi um efni sem tengist söfnuðinum og hægt væri að fara yfir á námskvöldi fjölskyldunnar.

▪ Farið yfir sögu heimasafnaðarins. Hvar og hvenær var hann stofnaður? Hvaða ríkissali hefur hann notað? Hvernig væri að bjóða bróður eða systur, sem hefur verið lengi í söfnuðinum, í heimsókn til að svara spurningum barnanna?

▪ Ræðið markmiðið með hinum ýmsu safnaðarsamkomum og mótum og bendið börnunum á hvernig þau getið notið góðs af þeim.

▪ Ræðið um skólana sem söfnuður Jehóva starfrækir. Hvaða hlutverki þjóna þeir? Segið frásögur sem lýsa árangrinum af starfi trúsystkina sem hafa sótt þessa skóla.

▪ Sýnið börnunum fram á gildi þess að boða fagnaðarerindið að staðaldri. Bendið þeim á hvernig þau geti lagt sitt af mörkum til ársskýrslunnar sem birtist í árbókunum og Ríkisþjónustunni.

▪ Segið börnunum frá hvernig ungt fólk í söfnuði Jehóva geti þjónað í fullu starfi. Í tíunda kafla bókarinnar Söfnuður skipulagður til að gera vilja Jehóva eru greinargóðar upplýsingar um það.

▪ Skýrið fyrir börnunum af hverju fylgt er ákveðnum starfsaðferðum í söfnuðinum. Sýnið þeim fram á hvers vegna þau eigi ekki að fara sínar eigin leiðir óháð söfnuðinum, ekki einu sinni í smáum atriðum. Bendið þeim á hvernig þau geti stuðlað að góðri reglu í söfnuðinum með því að fara eftir leiðbeiningum öldunganna.

[Mynd]

Það gerir börnunum gott að vingast við þá sem hafa þjónað Jehóva árum saman.

[Myndir á bls. 26]

Foreldrar leitast við að gefa börnunum skýr og góð svör við spurningum þeirra um söfnuð Jehóva, rétt eins og ísraelskir foreldrar gerðu forðum daga.