Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hver hefur þekkt huga Jehóva?

Hver hefur þekkt huga Jehóva?

Hver hefur þekkt huga Jehóva?

„Hver hefur þekkt huga Drottins að hann geti frætt hann? En við höfum huga Krists.“ — 1. KOR. 2:16.

1, 2. (a) Hvaða vanda þekkja margir af eigin raun? (b) Hvað þurfum við að hafa hugfast varðandi hugsanir okkar og hugsanir Jehóva?

HEFUR þú einhvern tíma átt erfitt með að skilja hugsanagang annarrar manneskju? Kannski hefurðu nýlega gengið í hjónaband og þér finnst ómögulegt að skilja að fullu hvernig maki þinn hugsar. Reyndar er það svo að karlar og konur hugsa ekki eins og þau tala jafnvel ekki eins. Í sumum menningarsamfélögum tala konur og karlar meira að segja hvort sína mállýskuna! Ólík menning og tungumál geta einnig valdið því að fólk hugsi og hegði sér ólíkt. En því betur sem þú kynnist öðrum því fleiri tækifæri hefurðu til að átta þig á hvernig þeir hugsa.

2 Það ætti því ekki að koma okkur á óvart að við skulum hugsa allt öðruvísi en Jehóva. Hann sagði Ísraelsmönnum fyrir munn Jesaja spámanns: „Mínar hugsanir eru ekki yðar hugsanir og yðar vegir ekki mínir vegir.“ Síðan tók Jehóva líkingu til að undirstrika það. „Eins og himinninn er hátt yfir jörðinni eru mínir vegir hærri yðar vegum og mínar hugsanir hærri yðar hugsunum.“ — Jes. 55:8, 9.

3. Nefndu tvennt sem hægt er að gera til að eignast nánara samband við Jehóva.

3 Þýðir þetta að við eigum ekki einu sinni að reyna að skilja hvernig Jehóva hugsar? Nei, þó að við getum aldrei skilið til fullnustu hvernig Jehóva hugsar erum við engu að síður hvött til þess í Biblíunni að öðlast trúnað hans og vináttu. (Lestu Sálm 25:14; Orðskviðina 3:32.) Ein leið til að eignast nánara samband við Jehóva er að kynna okkur verk hans sem sagt er frá í Biblíunni og hafa áhuga á þeim. (Sálm. 28:5) Önnur leið er að kynnast „huga Krists“ en hann er „ímynd hins ósýnilega Guðs“. (1. Kor. 2:16; Kól. 1:15) Ef við gefum okkur tíma til að lesa og hugleiða frásagnir Biblíunnar getum við fengið vissa innsýn í huga og eiginleika Jehóva.

Spornum gegn rangri tilhneigingu

4, 5. (a) Hvaða röngu tilhneigingu þurfum við að forðast? Skýrðu svarið. (b) Hvernig fóru Ísraelsmenn að hugsa?

4 Þegar við hugleiðum verk Jehóva þurfum við að forðast tilhneiginguna til að dæma hann eftir mannlegum viðmiðum. Ýjað er að þessari tilhneigingu í Sálmi 50:21 þar sem Jehóva segir: „Þú taldir mig vera eins og þú ert.“ Biblíufræðingur sagði fyrir rúmlega 175 árum: „Mönnum hættir til að dæma Guð út frá sjálfum sér og gera ráð fyrir að hann sé bundinn af þeim lögum sem þeir telja að þeir eigi sjálfir að fylgja.“

5 Við þurfum að gæta þess að hugmyndir okkar um Jehóva mótist ekki af eigin viðmiðum og löngunum. Af hverju er það mikilvægt? Þegar við lesum í Biblíunni getur okkur virst sem sum af verkum Jehóva séu ekki alls kostar rétt miðað við sjónarmið okkar, því að við erum ófullkomin og okkur eru takmörk sett. Ísraelsmenn til forna fóru að hugsa þannig og voru ósáttir við hvernig Jehóva tók á málum þeirra. Tökum eftir hvað Jehóva sagði við þá: „Nú segið þið: ,Drottinn breytir ekki rétt.‘ En hlustið nú, Ísraelsmenn: Er það breytni mín sem ekki er rétt? Eruð það ekki öllu fremur þið sem breytið ekki rétt?“ — Esek. 18:25.

6. Hvað lærði Job og hvernig getum við notið góðs af því?

6 Til að falla ekki í þá gildru að dæma Jehóva eftir okkar eigin viðmiðum er mikilvægt að hafa hugfast að sjónarmið okkar eru takmörkuð og stundum alröng. Job þurfti að læra þá lexíu. Meðan hann var sem þjáðastur varð hann örvæntingarfullur og svolítið sjálfhverfur. Hann missti sjónar á heildarmyndinni. En Jehóva sýndi honum kærleika og hjálpaði honum að víkka sjóndeildarhringinn. Hann spurði Job meira en 70 spurninga og Job gat engri svarað. Þannig sýndi Jehóva honum fram á að skilningur hans væri takmarkaður. Job var auðmjúkur og leiðrétti viðhorf sín. — Lestu Jobsbók 42:1-6.

Tileinkum okkur „huga Krists“

7. Af hverjum fáum við innsýn í huga Jehóva með því að kynna okkur frásagnir af Jesú?

7 Jesús líkti fullkomlega eftir föður sínum í öllu sem hann sagði og gerði. (Jóh. 14:9) Þess vegna getum við fengið innsýn í huga Jehóva með því að kynna okkur frásagnir af Jesú. (Rómv. 15:5; Fil. 2:5) Við skulum nú líta á tvær af frásögum guðspjallanna.

8, 9. Hvað varð þess valdandi samkvæmt Jóhannesi 6:1-5 að Jesús spurði Filippus ákveðinnar spurningar og af hverju gerði hann það?

8 Reynum að sjá fyrir okkur eftirfarandi atburð. Þetta var skömmu fyrir páska árið 32. Postular Jesú voru nýkomnir úr vel heppnaðri boðunarferð um Galíleu. Þeir voru þreyttir eftir ferðina svo að Jesús fór með þá á afskekktan stað á norðausturströnd Galíleuvatns. En fólk elti þá þúsundum saman. Eftir að Jesús hafði læknað fólk og kennt því margt kom upp ákveðinn vandi. Hvernig gat allur þessi mannfjöldi fengið að borða á þessum afskekkta stað? Jesús var meðvitaður um þessa þörf og spurði Filippus sem var heimamaður: „Hvar eigum við að kaupa brauð svo að þessir menn fái mat?“ — Jóh. 6:1-5.

9 Af hverju spurði Jesús Filippus þessarar spurningar? Hafði Jesús áhyggjur af stöðunni? Nei. Hvað var hann þá að hugsa? Jóhannes postuli, sem var einnig viðstaddur, segir svo frá: „Þetta sagði [Jesús] til að reyna hann því hann vissi sjálfur hvað hann ætlaði að gera.“ (Jóh. 6:6) Jesús lét reyna á trúarþroska lærisveinanna. Með því að varpa fram þessari spurningu náði hann athygli þeirra og gaf þeim tækifæri til að láta í ljós trú á mátt hans. En þeir nýttu sér ekki tækifærið heldur sýndu að skilningur þeirra var fremur takmarkaður. (Lestu Jóhannes 6:7-9.) Jesús sýndi þeim þá hvers hann var megnugur og vann kraftaverk sem hafði ekki einu sinni hvarflað að þeim að hann gæti gert. Hann mettaði allar þessar þúsundir. — Jóh. 6:10-13.

10-12. (a) Hver er hugsanlega ástæðan fyrir því að Jesús varð ekki strax við beiðni grísku konunnar? Skýrðu svarið. (b) Hvað könnum við í framhaldinu?

10 Þessi frásaga getur ef til vill hjálpað okkur að skilja hvernig Jesús hugsaði við annað tækifæri. Skömmu eftir að hann mettaði allan þennan mannfjölda ferðaðist hann norður á bóginn með postulunum. Þeir fóru út fyrir landamæri Ísraels, allt til byggða Týrusar og Sídonar. Þar kom grísk kona til Jesú og sárbændi hann um að lækna dóttur sína. Jesús ansaði henni ekki í fyrstu. En þegar hún hélt áfram sagði Jesús við hana: „Lofaðu börnunum að seðjast fyrst, ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana.“ — Mark. 7:24-27.

11 Af hverju vildi Jesús ekki hjálpa þessari konu í fyrstu? Var hann að reyna hana líkt og hann reyndi Filippus? Vildi hann sjá viðbrögð hennar og gefa henni tækifæri til að sýna trú? Í textanum segir ekkert um raddblæ Jesú en greinilegt er að hann fældi ekki konuna frá. Og samkvæmt frummálinu mildaði Jesús líkinguna með því að tala um ,litla hunda‘ eða hvolpa. Kannski var Jesús eins og foreldri sem ætlar sér að verða við beiðni barns, en lætur það ekki í ljós í fyrstu til að reyna hvort barninu sé alvara. Hvað sem því líður varð Jesús fúslega við beiðni konunnar þegar hún lét trú sína í ljós. — Lestu Markús 7:28-30.

12 Í þessum tveim frásögum guðspjallanna fáum við verðmæta innsýn í „huga Krists“. Við skulum nú kanna hvernig þessar frásögur geta hjálpað okkur að skilja huga Jehóva betur.

Samskipti Jehóva við Móse

13. Af hverju er hjálplegt fyrir okkur að fá innsýn í huga Jesú?

13 Það er hjálplegt fyrir okkur að fá innsýn í huga Jesú vegna þess að það auðveldar okkur að skilja torskildar ritningargreinar. Tökum sem dæmi það sem Jehóva sagði við Móse eftir að Ísraelsmenn höfðu gert gullkálf til að tilbiðja. Jehóva sagði: „Nú sé ég að þessi þjóð er harðsvírað fólk. Skildu mig eftir einan svo að reiði mín blossi upp gegn þeim og eyði þeim en þig mun ég gera að mikilli þjóð.“ — 2. Mós. 32:9, 10.

14. Hvernig brást Móse við orðum Jehóva?

14 Í frásögunni segir áfram: „Móse reyndi að blíðka Drottin, Guð sinn, og sagði: ,Hvers vegna, Drottinn, á reiði þín að blossa upp gegn þjóð þinni, sem þú leiddir út af Egyptalandi með miklum mætti og styrkri hendi? Hvers vegna eiga Egyptar að geta sagt: Hann hafði illt í huga þegar hann leiddi þá þaðan út til að svipta þá lífi á fjöllum uppi og afmá þá af yfirborði jarðar. Snúðu frá brennandi reiði þinni og hættu við að valda því böli sem þú ætlaðir þjóð þinni. Minnstu þjóna þinna, Abrahams, Ísaks og Ísraels. Þú sórst þeim við sjálfan þig og hést þeim: Ég mun gera niðja ykkar marga sem stjörnur himinsins og allt landið, sem ég hef talað um, mun ég gefa niðjum ykkar og það skal vera ævarandi eign þeirra.‘ Þá hætti Drottinn við það sem hann hafði hótað þjóð sinni.“ — 2. Mós. 32:11-14. *

15, 16. (a) Hvaða tækifæri gafst Móse vegna orða Jehóva? (b) Hvað ákvað Jehóva að gera? (Sjá einnig neðanmálsgrein.)

15 Þurfti Móse virkilega að leiðrétta hugsunarhátt Jehóva? Auðvitað ekki. Þótt Jehóva hafi látið í ljós hvað hann langaði helst til að gera var þetta ekki endanlegur dómur hans. Jehóva var í rauninni að reyna Móse, rétt eins og Jesús reyndi Filippus og grísku konuna löngu síðar. Móse fékk tækifæri til að láta álit sitt í ljós. * Jehóva hafði skipað hann milligöngumann milli sín og Ísraelsmanna og virti skipan hans í þá stöðu. Myndi Móse láta gremju og vonbrigði ná tökum á sér? Myndi hann nota tækifærið til að hvetja Jehóva til að vísa Ísrael á bug og mynda mikla þjóð af afkomendum hans sjálfs?

16 Viðbrögð Móse bera vitni um að hann trúði og treysti að Jehóva væri réttlátur. Hann hugsaði greinilega ekki um eigin hag heldur var honum umhugað um nafn Jehóva. Hann vildi ekki að það yrði fyrir lasti. Þannig sýndi Móse að hann skildi „huga Drottins“ Jehóva í þessu máli. (1. Kor. 2:16) Hvernig lyktaði málinu? Jehóva var ekki búinn að einsetja sér að grípa til ákveðinna aðgerða þannig að hann „hætti . . . við“ það sem hann hafði hótað að gera, eins og segir í hinni innblásnu frásögu. *

Samskipti Jehóva við Abraham

17. Hvernig sýndi Jehóva mikið langlundargeð í samskiptum við Abraham?

17 Beiðni Abrahams varðandi Sódómu er annað dæmi um að Jehóva gefi þjónum sínum tækifæri til að láta í ljós trú sína og traust. Í frásögunni kemur fram að Jehóva sýndi mikið langlundargeð með því að leyfa Abraham að bera fram fyrirspurn átta sinnum í röð. Í eitt skiptið höfðar Abraham til Jehóva með tilfinningaþrungnum hætti og segir: „Fjarri þér sé að gera slíkt, að deyða hinn réttláta með hinum guðlausa. Fer þá hinum réttláta eins og hinum guðlausa. Fjarri sé það þér. Mun dómari allrar jarðarinnar ekki gera rétt?“ — 1. Mós. 18:22-33.

18. Hvað lærum við af samskiptum Jehóva við Abraham?

18 Hvaða upplýsingar gefur þessi frásaga okkur um huga Jehóva? Þurfti Jehóva að rökræða við Abraham til að komast að réttri niðurstöðu? Nei, Jehóva hefði auðvitað getað sagt strax í upphafi af hverju hann tók þá ákvörðun sem raun bar vitni. En með því að leyfa Abraham að spyrja gaf Jehóva honum ráðrúm til að meðtaka ákvörðunina og skilja hvernig hann hugsaði. Abraham fékk einnig tækifæri til að skilja djúpa umhyggju Jehóva og réttlæti hans. Jehóva kom fram við hann eins og vin. — Jes. 41:8; Jak. 2:23.

Lærdómur fyrir okkur

19. Hvernig getum við tekið Job til fyrirmyndar?

19 Hvað höfum við lært um „huga Drottins“? Til að fá réttan skilning á huga Jehóva þurfum við að leita til Biblíunnar. Við skulum aldrei ímynda okkur að Jehóva sé háður sömum takmörkum og við og dæma hann eftir okkar viðmiðum og hugsanagangi. Job sagði: „Guð er ekki maður eins og ég, að ég geti svarað honum og við mæst fyrir rétti.“ (Job. 9:32) Þegar við förum að fá innsýn í huga Jehóva getum við ekki annað en tekið undir með Job þegar hann sagði: „Þetta eru ystu mörk verka hans, það sem vér heyrum um hann er hvískur en hver fær skilið þrumu máttar hans?“ — Job. 26:14.

20. Hvað ættum við að gera ef við rekumst á biblíuvers sem við eigum erfitt með að skilja?

20 Hvað ættum við að gera þegar við lesum í Biblíunni og rekumst á ritningarstað sem við eigum erfitt með að skilja, ekki síst varðandi huga Jehóva? Ef við fáum ekki skýr svör eftir að hafa rannsakað málið getum við hugsað sem svo að nú reyni á að við treystum Jehóva. Höfum hugfast að sumt sem stendur í Biblíunni gefur okkur tækifæri til að sýna að við treystum því sem hún segir um eiginleika Jehóva. Við skulum viðurkenna í auðmýkt að við skiljum ekki allt sem hann gerir. (Préd. 11:5) Þá getum við ekki annað en tekið undir með Páli postula sem sagði: „Hvílíkt djúp ríkdóms, speki og þekkingar Guðs! Hversu órannsakandi dómar hans og órekjandi vegir hans! Hver hefur þekkt huga Drottins? Eða hver hefur verið ráðgjafi hans? Hver hefur að fyrra bragði gefið honum og átt að fá það endurgoldið? Frá honum, fyrir hann og til hans eru allir hlutir. Honum sé dýrð um aldir alda. Amen.“ — Rómv. 11:33-36.

[Neðanmáls]

^ gr. 14 Svipaða frásögu er að finna í 4. Mósebók 14:11-20.

^ gr. 15 Sumir fræðimenn telja að skilja megi hebreska orðtakið „skildu mig eftir einan“, sem er að finna í 2. Mósebók 32:10, sem boð eða tillögu um að Móse fengi að miðla málum og ,ganga á milli‘ Jehóva og þjóðarinnar. (Sálm. 106:23; Esek. 22:30) Hvað sem því líður er ljóst að Móse hikaði ekki við að tjá Jehóva skoðun sína opinskátt.

^ gr. 16 Samkvæmt frummálinu segir að Jehóva hafi „iðrast“ þess, og það getur einfaldlega merkt að hann hafi ekki hrint í framkvæmd þeirri ógæfu sem hann langaði helst til að leiða yfir alla þjóðina.

Manstu?

• Hvernig getum við spornað gegn tilhneigingunni til að dæma Jehóva eftir okkar eigin viðmiðum?

• Hvernig geta frásagnir Biblíunnar af Jesú hjálpað okkur að eignast trúnað og vináttu Jehóva?

• Hvað lærðir þú af samræðum Jehóva við Móse og Abraham?

[Spurningar]

[Myndir á bls. 5]

Hvað lærum við um huga Jehóva af samskiptum hans við Móse og Abraham?