Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig lítur Jehóva á afsakanir?

Hvernig lítur Jehóva á afsakanir?

Hvernig lítur Jehóva á afsakanir?

„KONAN sem þú hefur sett mér við hlið, hún gaf mér af trénu og ég át,“ sagði maðurinn. „Höggormurinn tældi mig og ég át,“ svaraði konan. Það voru fyrstu hjónin, þau Adam og Eva, sem sögðu þetta við Guð og upp frá því hafa menn sífellt verið að afsaka sig. — 1. Mós. 3:12, 13.

Jehóva dæmdi Adam og Evu fyrir að óhlýðnast sér af ásettu ráði og sýndi þar með að hann tók afsakanir þeirra ekki gildar. (1. Mós. 3:16-19) Getum við þá dregið þá ályktun að Jehóva taki engar afsakanir gildar? Eða tekur hann sumar afsakanir til greina? Ef svo er, hvernig getum við greint þar á milli? Til að svara því skulum við fyrst athuga hvernig hugtakið afsökun er skilgreint.

Afsökun felur í sér útskýringu á því hvers vegna eitthvað var gert, látið ógert eða verður ekki gert. Afsökun getur verið gild skýring á mistökum og getur falið í sér einlæga afsökunarbeiðni sem gefur tilefni til miskunnar eða fyrirgefningar. Hins vegar getur afsökunin verið fyrirsláttur, byggð á fölskum röksemdum til að leyna hinni eiginlegu ástæðu eins og Adam og Evu gerðu. Þar sem afsakanir eru oft af þeim toga vekja þær gjarnan tortryggni.

Þegar við afsökum okkur — einkum í sambandi við þjónustu okkar við Guð — verðum við að gæta þess að ,svíkja ekki sjálf okkur‘ með rangri röksemdafærslu. (Jak. 1:22) Við skulum þess vegna íhuga fáein dæmi og meginreglur úr Biblíunni sem auðvelda okkur að ,meta rétt hvað Drottni þóknast‘. — Ef. 5:10.

Hvers væntir Guð af okkur?

Í orði Guðs er að finna skýr fyrirmæli sem við, þjónar hans, eigum að fara eftir. Til dæmis eru fyrirmæli Krists um að ,fara og gera allar þjóðir að lærisveinum‘ enn í fullu gildi fyrir alla sanna fylgjendur hans. (Matt. 28:19, 20) Það er reyndar svo mikilvægt að hlýða þessu boði að Páll postuli sagði: „Vei mér ef ég boða [fagnaðarerindið] ekki.“ — 1. Kor. 9:16.

Samt sem áður hika sumir við að boða fagnaðarerindið um Guðsríki enda þótt við höfum verið að leiðbeina þeim við biblíunám í langan tíma. (Matt. 24:14) Aðrir sem tóku áður þátt í boðunarstarfinu hafa hætt því. Hvaða skýringu gefa þeir stundum sem taka ekki þátt í boðunarstarfinu? Hvernig brást Jehóva við fyrr á tímum þegar fólk færðist undan að fara eftir ákveðnum boðum hans?

Afsakanir sem Guð tekur ekki gildar

„Það er of erfitt.“ Þeim sem eru feimnir að eðlisfari getur fundist sér ofviða að taka þátt í boðunarstarfinu. Við skulum nú íhuga hvað við getum lært af fordæmi Jónasar. Hann fékk verkefni sem honum fannst mjög erfitt — Jehóva sagði honum að boða yfirvofandi dóm yfir Níníve. Það er ekki erfitt að skilja hvers vegna Jónas kveið fyrir að taka þetta verkefni að sér. Níníve var höfuðborg Assýríu og Assýríumenn voru alræmdir fyrir grimmd. Jónas hefur eflaust hugsað með sér: „Hvernig ætli mér vegni meðal þessa fólks? Hvað ætli það geri mér?“ Ekki leið á löngu þar til hann hljópst á brott. Jehóva sætti sig samt ekki við afsökun hans. Þess í stað sendi hann Jónas aftur til að prédika fyrir Nínívebúum. Í þetta skipti sýndi Jónas hugrekki og leysti verkefni sitt af hendi og málalokin bera vott um blessun Jehóva. — Jónas 1:1-3; 3:3, 4, 10.

Ef þér finnst of erfitt að boða fagnaðarerindið skaltu hafa í huga að „Guði er ekkert um megn“. (Mark. 10:27) Þú getur treyst því að Jehóva veiti þér styrk þegar þú biður hann staðfastlega um að hjálpa þér, og að hann blessi þig þegar þú herðir upp hugann til að taka þátt í boðunarstarfinu. — Lúk. 11:9-13.

„Mig langar ekki til þess.“ Hvað getur þú gert ef þig skortir einlæga löngun til að taka þátt í boðunarstarfinu? Ekki gleyma því að Jehóva getur haft áhrif á löngun þína. Páll sagði: „Það er Guð sem verkar í ykkur bæði að vilja og að framkvæma sér til velþóknunar.“ (Fil. 2:13) Þú getur því beðið Jehóva um að veita þér löngun til að gera vilja hans. Það gerði Davíð konungur einmitt. Hann sárbað Jehóva: „Lát mig ganga í sannleika þínum.“ (Sálm. 25:4, 5) Þú getur gert eins og Davíð og beðið Jehóva einlæglega í bæn um að vekja hjá þér löngun til að þóknast honum.

Þegar við erum þreytt eða niðurdregin þurfum við að vísu stundum að þvinga okkur til að sækja samkomu í ríkissalnum eða að fara í boðunarstarfið. Þegar þannig er ástatt ættum við þá að álykta sem svo að okkur þyki ekki nógu vænt um Jehóva? Nei, alls ekki. Trúfastir þjónar Guðs til forna þurftu líka að leggja hart að sér til að gera vilja Guðs. Páll sagðist til dæmis þurfa að ,aga líkama sinn‘ til að geta hlýtt boðum Guðs. (1. Kor. 9:26, 27) Við getum treyst því að Jehóva blessi okkur jafnvel þótt við þurfum að þvinga okkur til að fara í boðunarstarfið. Af hverju? Af því að við beitum okkur hörðu af réttu tilefni — við gerum vilja Jehóva af kærleika til hans. Þannig sýnum við fram á að Satan fer með rangt mál þegar hann fullyrðir að þjónar Guðs afneiti honum þegar þeir verða fyrir prófraunum. — Job. 2:4.

„Ég er of upptekinn.“ Ef þú tekur ekki þátt í boðunarstarfinu vegna þess að þér finnst þú vera of upptekinn, þá er nauðsynlegt fyrir þig að endurskoða forgangsröðina hjá þér. Jesús sagði: „Leitið fyrst ríkis hans og réttlætis.“ (Matt. 6:33) Þú þarft ef til vill að einfalda líf þitt til að fylgja þessum fyrirmælum eða taka tíma frá afþreyingu til að fara í boðunarstarfið. Vissulega hafa afþreying og önnur persónuleg hugðarefni sinn sess, en slíkt telst ekki gild afsökun fyrir að vanrækja boðunarstarfið. Þjónn Guðs lætur ríki hans hafa forgang í lífinu.

„Ég er ekki nógu duglegur.“ Ef til vill finnst þér þú ekki vera hæfur til að vera boðberi fagnaðarerindisins. Sumum trúföstum þjónum Jehóva á biblíutímanum fannst þeir ekki vera nógu duglegir til að taka að sér verkefni sem Jehóva fól þeim. Tökum Móse sem dæmi. Þegar hann fékk ákveðið verkefni frá Jehóva sagði hann: „Æ, Drottinn, ég hef aldrei málsnjall verið, hvorki áður fyrr né nú eftir að þú fórst að tala við mig, þjón þinn. Mér er tregt um mál og tungutak.“ Enda þótt Jehóva teldi í hann kjark þá sagði Móse: „Æ, Drottinn, sendu einhvern annan.“ (2. Mós. 4:10-13) Hvernig tók Jehóva á málinu?

Jehóva leysti Móse ekki undan þessari ábyrgð heldur skipaði Aron sem aðstoðarmann hans í þessu verkefni. (2. Mós. 4:14-17) Jehóva studdi Móse enn fremur næstu árin og veitti honum allt sem hann þurfti til að geta leyst verkefni sitt af hendi. Þú getur líka reitt þig á að Jehóva fái reynslumeiri trúsystkini þín til að hjálpa þér í boðunarstarfinu. Við erum umfram allt fullvissuð um það í orði Guðs að hann geri okkur hæf til að leysa það verkefni af hendi sem hann fól okkur. — 2. Kor. 3:5, sjá rammann „Ánægjulegustu árin í lífi mínu“.

„Mér sárnaði.“ Sumir hætta að taka þátt í boðunarstarfinu eða að sækja safnaðarsamkomur vegna þess að þeim hefur sárnað við einhvern og telja sér trú um að Jehóva taki þessa afsökun góða og gilda fyrir athafnaleysi þeirra. Það er að vísu skiljanlegt að okkur líði illa ef einhver særir okkur, en er það gild ástæða fyrir að hætta að taka þátt í starfi safnaðarins? Páli og Barnabasi, trúbróður hans, hefur eflaust sárnað þegar ósætti á milli þeirra leiddi til þess að þeim varð „mjög sundurorða“. (Post. 15:39) En varð þetta til þess að þeir hættu að taka þátt í boðunarstarfinu? Nei, alls ekki.

Hafðu sömuleiðis í huga þegar trúsystkini hefur sært þig að ófullkominn trúbróðir eða trúsystir er ekki óvinur þinn heldur er það Satan, því að það er hann sem reynir að tortíma þér. Honum mun þó ekki takast það ef þú,stendur gegn honum stöðugur í trúnni‘. (1. Pét. 5:8, 9; Gal. 5:15) Þeir sem hafa þess konar trú verða alls ekki fyrir vonbrigðum. — Rómv. 5:5.

Þegar geta okkar er takmörkuð

Af þessum dæmum um afsakanir er ljóst að það er engin biblíuleg ástæða fyrir því að framfylgja ekki ákveðnum fyrirmælum frá Jehóva, eins og þeim að boða fagnaðarerindið. Við gætum engu að síður haft fullgilda ástæðu fyrir takmarkaðri þátttöku í boðunarstarfinu. Aðrar biblíulegar skyldur geta sett því skorður hvað við tökum mikinn tíma frá fyrir boðunarstarfið. Auk þess getum við af og til verið of þreytt eða veik til að gera eins mikið og við myndum vilja gera í þjónustu Jehóva. Hvað sem því líður erum við fullvissuð í Biblíunni um að Jehóva þekki einlæga löngun okkar og að hann taki tillit til takmarkana okkar. — Sálm. 103:14; 2. Kor. 8:12.

Við verðum þess vegna að gæta þess að dæma hvorki okkur sjálf né aðra of hart í þessum efnum. Páll postuli skrifaði: „Hvað átt þú með að dæma þjón annars manns? Hann stendur og fellur herra sínum.“ (Rómv. 14:4) Í stað þess að bera aðstæður okkar saman við aðstæður annarra ættum við að hafa í huga að „sérhvert okkar [skal] gera Guði skil á sjálfu sér“. (Rómv. 14:12; Gal. 6:4, 5) Þegar við nálgumst Jehóva í bæn og berum fram afsakanir þá viljum við geta gert það með góðri samvisku. — Hebr. 13:18.

Það veitir gleði að þjóna Jehóva

Við getum öll þjónað Jehóva af hjartans gleði — hverjar svo sem aðstæður okkar eru í lífinu — því að hann gerir alltaf sanngjarnar og viðráðanlegar kröfur til okkar. Hvers vegna getum við sagt það?

Í orði Guðs segir: „Synjaðu ekki góðs þeim sem þarfnast ef það er á þínu valdi að veita það.“ (Orðskv. 3:27) Vakti eitthvað athygli þína í þessum orðskviði í sambandi við kröfur Guðs? Jehóva segir þér ekki að keppast við að gera eins mikið og er á valdi bróður þíns, heldur að þjóna sér eins mikið og er á „þínu valdi“. Já, við getum öll þjónað Jehóva af heilum hug, óháð því hve mikið er á okkar valdi. — Lúk. 10:27; Kól. 3:23.

[Rammi/​mynd á bls. 14]

„Ánægjulegustu árin í lífi mínu“

Enda þótt við stríðum við alvarlega vanheilsu, hvort heldur líkamlega eða tilfinningalega, ættum við ekki að vera fljót að álykta að það hindri okkur í að taka virkan þátt boðunarstarfinu. Til að skýra það skulum við kynna okkur sögu Ernests, trúbróður okkar í Kanada.

Ernest var með málgalla og var mjög feiminn. Hann varð fyrir alvarlegum bakmeiðslum og þurfti því að hætta að vinna, en hann hafði unnið byggingavinnu. Þótt hann væri óvinnufær gerðu þessar nýju kringumstæður honum kleift að verja meiri tíma en áður í boðunarstarfinu. Það hafði sterk áhrif á hann að heyra hvatningu á samkomum um að gerast aðstoðarbrautryðjandi. Honum fannst hann samt ekki fær um að taka þátt í þessu starfi.

Til að sanna fyrir sjálfum sér að það væri ekki á hans færi að vera aðstoðarbrautryðjandi sótti hann um að starfa sem aðstoðarbrautryðjandi í einn mánuð. Honum til mikillar undrunar tókst honum að leysa þetta verkefni af hendi. Þá hugsaði hann með sér: „Ég gæti aldrei gert þetta aftur.“ Til að sannfæra sjálfan sig um að hann hefði á réttu að standa sótti hann um í annað sinn — og honum tókst aftur að ljúka ætlunarverki sínu.

Ernest starfaði sem aðstoðarbrautryðjandi í eitt ár. Þá sagði hann við sjálfan sig: „Ég er viss um að ég gæti aldrei verið brautryðjandi.“ Hann vildi enn á ný reyna að sanna þetta fyrir sjálfum sér svo að hann lagði inn umsókn um brautryðjandastarf. Hann kom sjálfum sér virkilega á óvart þegar honum tókst að starfa heilt ár sem brautryðjandi. Hann ákvað að halda áfram og varð þeirrar blessunar og ánægju aðnjótandi að starfa sem brautryðjandi í tvö ár, þar til fylgikvillar bakmeiðslanna drógu hann til dauða. Áður en hann dó sagði hann oft tárvotum augum við þá sem heimsóttu hann: „Árin, sem ég þjónaði Jehóva sem brautryðjandi, voru ánægjulegustu árin í lífi mínu.“

[Mynd á bls. 13]

Við getum yfirstigið allt sem hindrar okkur í að taka þátt í boðunarstarfinu.

[Mynd á bls. 15]

Það gleður Jehóva þegar við þjónum honum af heilum hug með því að gera eins mikið og aðstæður okkar leyfa.