Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Leggurðu þig fram um að sýna trúsystkinum virðingu?

Leggurðu þig fram um að sýna trúsystkinum virðingu?

Leggurðu þig fram um að sýna trúsystkinum virðingu?

„Verið ástúðleg hvert við annað í bróðurlegum kærleika og keppist um að sýna hvert öðru virðingu.“ — RÓMV. 12:10.

1, 2. (a) Hvaða hvatningu gefur Páll í Rómverjabréfinu? (b) Hvaða spurningar ætlum við að skoða?

PÁLL postuli leggur áherslu á það í Rómverjabréfinu að kristnir menn sýni hver öðrum kærleika innan vébanda safnaðarins. Hann minnir á að kærleikurinn eigi að vera „flærðarlaus“. Hann talar einnig um ,bróðurlegan kærleika‘ og bendir á að við eigum að vera „ástúðleg hvert við annað“. — Rómv. 12:9, 10a.

2 Bróðurlegur kærleikur er auðvitað meira en að þykja bara vænt um aðra. Ástúðin þarf að birtast í verki. Enginn veit af kærleika okkar og ástúð nema við gefum fólki sýnishorn, ef svo má að orði komast. Þess vegna bætir Páll við: „Keppist um að sýna hvert öðru virðingu.“ (Rómv. 12:10b) Hvað er fólgið í því að sýna öðrum virðingu? Af hverju er mikilvægt að vera fljót til að sýna trúsystkinum virðingu? Hvernig förum við að því?

Hvað er fólgið í því að sýna virðingu?

3. Hverju lýsa frummálsorðin sem eru oft þýdd „virðing“ í Biblíunni?

3 Algengasta hebreska orðið, sem er þýtt „virðing“ eða „heiður“, merkir bókstaflega „þyngd, það að vera þungur“. Sá sem nýtur virðingar er álitinn þungur á metunum eða mikilvægur. Þetta hebreska orð er stundum notað í Biblíunni til að lýsa upphefð, völdum og virðingu sem menn njóta. (1. Mós. 45:13) Gríska biblíuorðið, sem er þýtt „virðing“, gefur til kynna gott álit, vegsemd og ágæti. (Lúk. 14:10) Þeir sem við sýnum virðingu eru okkur dýrmætir.

4, 5. Hvað er fólgið í því að sýna virðingu?

4 Hvað er fólgið í því að sýna öðrum virðingu? Ef við berum virðingu fyrir trúsystkinum okkar birtist það í framkomu okkar við þau. Virðingin á sér hins vegar rætur innra með okkur. Hún er sprottin af því hvernig við lítum á trúsystkini okkar og hvað okkur finnst um þau.

5 Hvernig getur kristinn maður sýnt trúsystkinum virðingu ef honum finnst þau ekki verðskulda hana? (3. Jóh. 9, 10) Jurt getur ekki dafnað nema hún vaxi í góðum jarðvegi. Virðing getur ekki heldur verið sönn eða varanlega nema hún eigi sér rætur í hjartanu. Ef við berum ekki einlæga virðingu fyrir öðrum visnar virðingin og deyr fyrr eða síðar. Það er því skiljanlegt að Páll skyldi segja stutt og laggott: „Elskan sé flærðarlaus,“ áður en hann hvatti trúsystkini sín til að sýna virðingu. — Rómv. 12:9; Lestu 1. Pétursbréf 1:22.

Virtu þá sem eru skapaðir „í líkingu Guðs“

6, 7. Af hverju eigum við að sýna öðrum virðingu?

6 Það liggur ljóst fyrir að við getum ekki sýnt öðrum raunverulega virðingu nema hún eigi sér rætur í hjartanu. Því er gott að hafa skýrt í huga hvers vegna við eigum að sýna öllum trúsystkinum okkar virðingu, að sögn Biblíunnar. Lítum á tvær ástæður.

7 Ólíkt öllum öðrum lifandi verum á jörð voru mennirnir skapaðir „í líkingu Guðs“. (Jak. 3:9) Þess vegna höfum við til að bera góða eiginleika eins og kærleika, visku og réttlætiskennd. Lítum á fleira sem skaparinn hefur gefið okkur. Sálmaskáldið segir: „Drottinn, Guð vor . . . Þú breiðir ljóma þinn yfir himininn . . . Þú gerðir [manninn] litlu minni en Guð, krýndir hann hátign og heiðri.“ (Sálm. 8:2, 5, 6; 104:1) * Guð hefur krýnt alla menn ákveðinni tign og heiðri. Þegar við sýnum annarri manneskju virðingu erum við því í rauninni að heiðra Jehóva sem gaf öllum mönnum vissa ,hátign og heiður‘. Fyrst við höfum gilda ástæðu til að sýna fólki almennt virðingu ættum við ekki síður að virða trúsystkini okkar. — Jóh. 3:16; Gal. 6:10.

Við tilheyrum öll sömu fjölskyldunni

8, 9. Hvaða ástæðu höfum við, að sögn Páls, til að virða trúsystkini okkar?

8 Páll nefnir aðra ástæðu fyrir því að við virðum hvert annað. Rétt áður en hann hvetur okkur til að sýna hvert öðru virðingu segir hann: „Verið ástúðleg hvert við annað í bróðurlegum kærleika.“ Gríska orðið, sem er þýtt,ástúðlegur‘, lýsir þeim sterku böndum sem sameina kærleiksríka og samheldna fjölskyldu. Með því að nota þetta orð bendir Páll á að tengsl fólks innan safnaðarins eigi að vera jafn sterk og hlýleg og í samheldinni fjölskyldu. (Rómv. 12:5) Höfum einnig hugfast að Páll beindi orðum sínum til andasmurðra kristinna manna, og að faðirinn Jehóva hafði ættleitt þá alla sem börn sín. Þeir voru samheldin fjölskylda í mjög sérstökum skilningi. Hinir andasmurðu á dögum Páls höfðu því ærna ástæðu til að virða hver annan. Hið sama gildir um andasmurða kristna menn á okkar tímum.

9 Hvað um þá sem eru, aðrir sauðir‘? (Jóh. 10:16) Enda þótt Jehóva Guð hafi enn ekki ættleitt þá sem börn sín geta þeir með réttu notað ávarpsorðin „bróðir“ og „systir“. Það kemur til af því að hvar sem þeir búa í heiminum mynda þeir eina sameinaða fjölskyldu. (1. Pét. 2:17; 5:9) Ef þeir skilja til fullnustu af hverju þeir nota ávarpsorðin „bróðir“ og „systir“ hafa þeir líka ærna ástæðu til að virða hver annan. — Lestu 1. Pétursbréf 3:8.

Af hverju er það mikilvægt?

10, 11. Af hverju er mikilvægt að bera virðingu fyrir öðrum og sýna það í verki?

10 Af hverju er mikilvægt að bera virðingu fyrir öðrum og sýna það í verki? Ástæðan er þessi: Með því að sýna bræðrum og systrum virðingu stuðlum við drjúgum að því að söfnuðurinn sé sameinaður og að öllum líði vel.

11 Okkur er auðvitað ljóst að ekkert veitir meiri styrk en náið samband við Jehóva og stuðningur heilags anda hans. (Sálm. 36:8; Jóh. 14:26) En það er jafnframt hvetjandi fyrir okkur að finna að trúsystkini meta okkur mikils. (Orðskv. 25:11) Það er okkur hvatning og uppörvun þegar aðrir sýna í orði eða verki að þeir kunna að meta okkur og virða. Það styrkir okkur til að halda áfram glöð og einbeitt að ganga veginn til lífsins. Eflaust þekkirðu þessa tilfinningu af eigin raun.

12. Hvernig getum við öll stuðlað að hlýlegu og kærleiksríku andrúmslofti í söfnuðinum?

12 Þar eð Jehóva veit að okkur er meðfædd sú þörf að njóta virðingar er eðlilegt að hann skuli hvetja okkur til að ,keppast um að sýna hvert öðru virðingu‘. (Rómv. 12:10; lestu Matteus 7:12.) Allir kristnir menn, sem fara eftir þessum sígildu ráðum, stuðla að hlýlegu og kærleiksríku andrúmslofti innan bræðrafélagsins. Við ættum því að staldra við og spyrja okkur: Hvað er langt síðan ég lét í ljós, í orði og verki, að ég bæri einlæga virðingu fyrir bróður eða systur í söfnuðinum? — Rómv. 13:8.

Sérstakt verkefni handa öllum

13. (a) Hvernig sýna safnaðaröldungar hver öðrum virðingu? (b) Hvað má álykta af orðum Páls í Rómverjabréfinu 1:7?

13 Í fyrra bréfi sínu bendir Pétur á að safnaðaröldungar eigi að vera „fyrirmynd hjarðarinnar“. (1. Pét. 5:3) Öldungarnir eru söfnuðinum til fyrirmyndar á marga vegu. Sem hirðar hjarðarinnar þurfa þeir að ganga á undan með góðu fordæmi og sýna trúsystkinum virðingu, þar á meðal samöldungum sínum. Þegar öldungar funda til að ræða um þarfir safnaðarins sýna þeir hver öðrum virðingu með því að hlusta vel þegar samöldungar þeirra tjá sig. Þeir sýna sömuleiðis virðingu með því að taka tillit til skoðana og ábendinga allra öldunganna þegar ákvarðanir eru teknar. (Post. 15:6-15) Við skulum þó hafa hugfast að Rómverjabréfið var ekki aðeins stílað á öldunga heldur allan söfnuðinn. (Rómv. 1:7) Hvatning Páls til að keppast um að sýna öðrum virðingu á því við alla í söfnuðinum.

14. (a) Lýstu með dæmi muninum á því að sýna virðingu og keppast um að gera það. (b) Hvaða spurningar gætum við spurt okkur?

14 Lítum einnig á leiðbeiningar Páls frá öðrum sjónarhóli. Hann hvatti trúsystkini sín í Róm ekki aðeins til að sýna hvert öðru virðingu heldur keppast um að gera það. Hver er munurinn? Tökum dæmi til glöggvunar. Ætli kennari myndi hvetja læsa nemendur til að læra að lesa? Nei, þeir kunna að lesa. Kennarinn myndi öllu heldur reyna að hjálpa nemendunum að taka framförum í lestri. Kristnir menn elska hver annan — það er aðalsmerki þeirra — og kærleikurinn er þeim hvatning til að bera virðingu hver fyrir öðrum. (Jóh. 13:35) Við getum hins vegar gert enn betur með því að keppast um að sýna hvert öðru virðingu, rétt eins og læsir nemendur geta gert enn betur með því að bæta lestrarkunnáttu sína. (1. Þess. 4:9, 10) Þetta er sérstakt verkefni sem okkur er öllum falið. Við gætum spurt okkur: Legg ég mig allan fram um að sýna öðrum í söfnuðinum virðingu eins og hvatt er til?

Sýnum virðingu þeim sem mega sín minna

15, 16. (a) Hvað þurfum við að hafa í huga varðandi það að sýna virðingu og hvers vegna? (b) Hvernig getum við metið hvort við berum djúpa og einlæga virðingu fyrir öllum trúsystkinum okkar?

15 Fyrst við eigum að keppast um að sýna öllum í söfnuðinum virðingu þurfum við að gæta þess að enginn verði út undan. Í orði Guðs segir: „Sá lánar Drottni sem líknar fátækum, hann mun endurgjalda honum.“ (Orðskv. 19:17) Hvað má læra af þessari meginreglu varðandi það að sýna virðingu?

16 Þú fellst trúlega á að flestum takist að sýna virðingu þeim sem eru hærra settir. Hins vegar getur verið að þeir sýni litla eða enga virðingu fólki sem þeir telja sér óæðra. En Jehóva er ekki þannig. „Ég heiðra þá, sem mig heiðra,“ segir hann. (1. Sam. 2:30, Biblían 1981; Sálm. 113:5-7) Jehóva sýnir virðingu öllum sem þjóna honum og heiðra hann. Hann horfir ekki fram hjá lágum og lítilmagna. (Lestu Jesaja 57:15; 2. Kron. 16:9) Við viljum auðvitað líkja eftir Jehóva. Ef við viljum kanna hvernig okkur gengur að sýna einlæga virðingu gætum við spurt okkur: Hvernig kem ég fram við þá sem hafa ekki nein sérstök verkefni í söfnuðinum? (Jóh. 13:14, 15) Svarið við spurningunni segir heilmikið um það hve djúpa og einlæga virðingu við berum fyrir öðrum. — Lestu Filippíbréfið 2:3, 4.

Sýnum virðingu með því að vera örlát á tíma okkar

17. Nefndu eina góða leið til að sýna öðrum virðingu. Af hverju er það góð leið?

17 Ein góð leið til að keppast um að sýna öllum í söfnuðinum virðingu er að gefa okkur tíma til að sinna þeim. Af hverju er það góð leið? Kristnir menn hafa margt á sinni könnu og safnaðarstarfið í sínum mörgu myndum heldur okkur býsna uppteknum. Það er því ósköp eðlilegt að hugsa sem svo að tíminn sé dýrmætur. Við gerum okkur einnig ljóst að við eigum ekki að ætlast til þess að trúsystkini okkar gefi sér óheyrilegan tíma til að sinna okkur. Að sama skapi erum við þakklát fyrir að aðrir í söfnuðinum skuli átta sig á að þeir megi ekki vera heimtufrekir á tíma okkar.

18. Hvernig getum við sýnt trúsystkinum að við séum reiðubúin að gefa okkur tíma til að sinna þeim, samanber myndina á bls. 18?

18 Við vitum engu að síður (ekki síst hirðar í söfnuðinum) að við sýnum trúsystkinum virðingu með því að vera fús til að leggja frá okkur það sem við erum að gera til að gefa þeim gaum. Hvernig víkur því við? Með því að taka okkur hlé frá því sem við erum að gera til að sinna trúsystkinum erum við í reynd að segja þeim: Þú ert svo verðmæt(ur) í mínum augum að það er mikilvægara fyrir mig að gefa gaum að þér en að halda áfram því sem ég er að gera. (Mark. 6:30-34) Það má líka snúa dæminu við. Ef við erum treg til að taka okkur hlé til að ræða við trúbróður getur það vakið þá tilfinningu hjá honum að hann sé lítils virði í augum okkar. Allir gera sér auðvitað ljóst að sumt getur verið svo áríðandi að það þolir enga bið. Engu að síður sýnum við hvort við berum djúpa virðingu fyrir bræðrum okkar og systrum með því að vera annaðhvort fús eða treg til að gefa okkur tíma til að sinna þeim. — 1. Kor. 10:24.

Vertu ákveðinn í að sýna öðrum virðingu

19. Hvernig getum við sýnt trúsystkinum virðingu, auk þess að gefa þeim af tíma okkar?

19 Það eru ýmsar aðrar góðar leiðir til að sýna trúsystkinum virðingu. Þegar við gefum þeim af tíma okkar ættum við líka að veita þeim óskipta athygli. Sem fyrr er Jehóva okkur góð fyrirmynd. Sálmaskáldið Davíð segir: „Augu Drottins hvíla á réttlátum og eyru hans gefa gaum að hrópi þeirra.“ (Sálm. 34:16) Við reynum að líkja eftir Jehóva með því að beina augum okkar og eyrum, það er að segja fullri athygli, að trúsystkinum, ekki síst þeim sem leita hjálpar okkar. Þannig sýnum við þeim virðingu.

20. Hvað ættum við að hafa hugfast varðandi það að sýna hvert öðru virðingu?

20 Eins og fram hefur komið þurfum við að hafa skýrt í huga ástæðurnar fyrir því að okkur ber að sýna trúsystkinum einlæga virðingu. Við reynum að vera fyrri til að sýna öllum virðingu, einnig þeim sem ber minna á í söfnuðinum. Þá styrkjum við bróðurkærleikann og eininguna í söfnuðinum. Við skulum því öll keppast um að sýna hvert öðru virðingu. Ertu staðráðinn í að gera það?

[Neðanmáls]

^ gr. 7 Orð Davíðs í áttunda sálminum eru einnig spádómleg og eiga við Jesú Krist meðan hann var fullkominn maður. — Hebr. 2:6-9.

Manstu?

• Hvað er fólgið í því að sýna öðrum virðingu?

• Hvaða ástæður höfum við til að sýna trúsystkinum virðingu?

• Af hverju er mikilvægt að sýna hvert öðru virðingu?

• Hvernig getum við sýnt trúsystkinum virðingu?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 18]

Hvernig getum við sýnt trúsystkinum virðingu?