Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva heyrir hróp hins þjakaða

Jehóva heyrir hróp hins þjakaða

Jehóva heyrir hróp hins þjakaða

SALÓMON, hinn vitri konungur í Ísrael til forna, tók eftir því að ,tími og tilviljun hittir okkur öll fyrir‘. (Préd. 9:11) Sorglegur atburður eða sársaukafull reynsla getur sett allt líf okkar úr skorðum. Skyndilegt dauðsfall í fjölskyldunni getur borið mann ofurliði. Næstu vikur og mánuði getur sorgin og örvæntingin orðið yfirþyrmandi. Svo ráðvilltur getur maður orðið að manni finnst maður vera óverðugur þess að nálgast Jehóva í bæn.

Þegar þannig stendur á þarfnast maður uppörvunar, nærgætni og ástúðar. Söngur sálmaritarans Davíðs er hughreystandi: „Drottinn styður alla þá sem hníga og reisir upp alla niðurbeygða.“ (Sálm. 145:14) Í Biblíunni segir: „Augu Drottins skima um alla jörðina til þess að geta komið þeim til hjálpar sem eru heils hugar við hann.“ (2. Kron. 16:9) Hann er „hjá iðrunarfullum og þjökuðum í anda til að glæða þrótt hinna lítillátu og styrkja hjarta þjakaðra“. (Jes. 57:15) Hvernig styrkir Jehóva og huggar þá sem eru þjáðir og þjakaðir í anda?

„Orð í tíma talað“

Ein leið Jehóva til að veita hjálp á réttum tíma er fyrir milligöngu kristna safnaðarins. Kristnir menn eru minntir á að þeir eigi að ,hughreysta ístöðulitla‘. (1. Þess. 5:14) Huggunar- og ástúðarorð frá samúðarfullum trúsystkinum geta verið styrkjandi á tímum þjáninga og sorgar. Hughreystandi orð, jafnvel í stuttu samtali, geta glætt niðurdregna þrótti. Hugulsemi annarra sem hafa liðið álíka hugarvíl og sálarkvöl getur verið mikils virði. Og skilningsrík ábending frá vini, sem hefur mikla lífsreynslu að baki, er hughreystandi. Þannig getur Jehóva endurvakið þrótt hins þjakaða.

Alex er öldungur í söfnuðinum. Hann var nýkvæntur þegar hann missti eiginkonu sína óvænt úr ólæknandi sjúkdómi. Samúðarfullan farandumsjónarmann langaði til að hughreysta Alex. Hann hafði einnig misst eiginkonu sína en hafði síðan kvænst á ný. Farandumsjónarmaðurinn lýsti því hvernig tilfinningarnar hefðu gagntekið hann. Honum leið vel þegar hann var með öðrum í starfinu og á samkomum. En þegar hann kom inn í herbergið sitt og lokaði dyrunum á eftir sér helltist einmanaleikinn yfir hann. „Það var mikill léttir að vita að tilfinningar mínar væru eðlilegar og að aðrir hefðu upplifað hið sama,“ segir Alex. „Orð í tíma talað“ getur svo sannarlega reynst hughreystandi þegar maður þjáist. — Orðskv. 15:23.

Annar safnaðaröldungur, sem þekkti nokkra einstaklinga sem höfðu misst maka sína, fann til með Alex og hughreysti hann. Hann benti honum vingjarnlega á að Jehóva vissi hvernig honum liði og hvers hann þarfnaðist. „Ef þér finnst þig vanta lífsförunaut á komandi mánuðum og árum,“ sagði bróðirinn, „hefur Jehóva gert þá kærleiksríku ráðstöfun að við megum giftast á ný.“ Auðvitað geta ekki allir sem missa maka sinn gifst aftur þó að þá langi til þess. Þegar Alex velti fyrir sér orðum bróðurins sagði hann: „Með því að minna sig á að þetta sé ráðstöfun Jehóva losnar maður við þá hugsun að maður yrði ótrúr maka sínum eða fyrirkomulagi Jehóva með hjónabandið ef maður giftist á ný.“ — 1. Kor. 7:8, 9, 39.

Sálmaritarinn Davíð varð sjálfur fyrir mörgum prófraunum og erfiðleikum. Hann sagði: „Augu Drottins hvíla á réttlátum og eyru hans gefa gaum að hrópi þeirra.“ (Sálm. 34:16) Eitt er víst. Jehóva getur svarað hrópi hins þjakaða á réttum tíma fyrir milligöngu samúðarfullra og þroskaðra trúsystkina sem sýna skilning og umhyggju. Það er verðmætt að eiga þau að.

Safnaðarsamkomurnar hjálpa

Hætt er við að hugsanir þeirra sem eru niðurdregnir verði neikvæðar og geti leitt til þess að þeir einangri sig. En í Orðskviðunum 18:1 er að finna viðvörun: „Sérlyndur maður fer að eigin geðþótta og hafnar hverju hollráði.“ Alex viðurkennir að þegar maður missi maka sinn fyllist hugurinn skyndilega af neikvæðum hugsunum. Hann minnist þess að hafa spurt sig: „Hefði ég getað gert eitthvað öðruvísi? Hefði ég getað verið hugulsamari og skilningsríkari? Mig langaði ekki til að vera einn. Mig langaði ekki til að vera einhleypur. Það er mjög erfitt að hætta að hugsa þannig því að á hverjum degi er maður minntur á að maður er einn.“

Sá sem er þjáður og þjakaður í anda þarf sárlega á hollum félagsskap að halda. Safnaðarsamkomurnar bjóða upp á slíkan félagsskap og þar erum við opin fyrir jákvæðri og uppbyggilegri leiðsögn Guðs.

Á samkomum fáum við hjálp til að sjá aðstæður okkar í réttu samhengi. Þegar við hlustum á og hugleiðum biblíuvers leiðir það hugann frá þjáningum sjálfra okkar og við einbeitum huganum að því sem er mest um vert — hvernig Jehóva ver drottinvald sitt og helgar nafn sitt. Og auk þess að fá fræðslu um Jehóva á samkomunum styrkjumst við vegna þess að við vitum að þótt aðrir geri sér ekki grein fyrir að við þjáumst né skilji hvernig okkur líður gerir Jehóva það. Hann veit að ,hryggð í hjarta gerir hugann dapran‘. (Orðskv. 15:13) Hinn sanna Guð langar til að hjálpa okkur og það hvetur okkur og gefur okkur styrk til að halda áfram. — Sálm. 27:14.

Þegar Davíð konungur var undir miklu álagi af hendi óvina sinna hrópaði hann til Guðs: „Kjarkurinn bregst mér, hjartað stöðvast í brjósti mér.“ (Sálm. 143:4) Mótlæti dregur oft úr líkamlegum og tilfinningalegum þrótti. Hjartað getur meira að segja orðið dofið. Þetta getur komið fram í veikindum eða langvarandi heilsuleysi. Við getum treyst því að Jehóva hjálpar okkur að halda út. (Sálm. 41:2-3) Enda þótt hann lækni engan með kraftaverki nú á tímum veitir hann hinum þjáða næga visku og styrk til að ráða fram úr ástandinu. Höfum hugfast að þegar prófraunir lögðust þungt á Davíð sneri hann sér til Jehóva. Hann söng: „Ég minnist fornra daga, hugleiði allar gjörðir þínar, ígrunda verk handa þinna.“ — Sálm. 143:5.

Að þessi innblásnu sjónarmið skuli koma fram í Biblíunni gefur til kynna að Jehóva skilur hvernig okkur líður. Orð sem þessi veita okkur tryggingu fyrir því að hann hlustar á bænir okkar. Ef við þiggjum hjálp hans ,mun hann bera umhyggju fyrir okkur‘. — Sálm. 55:23.

„Biðjið án afláts“

Í Jakobsbréfinu 4:8 stendur: „Nálægið ykkur Guði og þá mun hann nálgast ykkur.“ Ein leiðin til að nálægja sig Guði er bænin. Páll postuli minnir okkur á að ,biðja án afláts‘. (1. Þess. 5:17) Jafnvel þótt við eigum erfitt með að koma orðum að tilfinningum okkar ,biður sjálfur andinn fyrir okkur með andvörpum‘. (Rómv. 8:26, 27) Jehóva skilur vel hvernig okkur líður.

Monika á náið samband við Jehóva. Hún segir: „Með því að biðja, lesa í Biblíunni og stunda sjálfsnám er Jehóva smám saman orðinn nánasti vinur minn. Hann er orðinn mér svo raunverulegur að ég finn stöðugt fyrir umhyggju hans. Það er huggun að vita að jafnvel þegar ég get ekki útskýrt líðan mína þá skilur hann mig. Ég veit að góðvild hans og blessun er takmarkalaus.“

Við skulum því fyrir alla muni þiggja þá ástúð og huggun sem trúsystkini veita okkur, fara eftir góðum ráðum og trústyrkjandi áminningum sem við heyrum á samkomum og bera allar óskir okkar fram fyrir Jehóva í bæn. Allt er þetta merki um umhyggju Jehóva fyrir okkur. Alex talar af eigin reynslu þegar hann segir: „Ef við gerum okkar besta til að fylgjast með öllu sem Jehóva Guð lætur okkur í té til að halda góðu sambandi við sig mun ,krafturinn mikli‘ gera okkur kleift að standast hverja prófraun sem við verðum fyrir.“ — 2. Kor. 4:7.

[Rammi/​mynd á bls. 18]

Huggun fyrir hinn þjakaða

Sálmarnir tjá í ríkum mæli mannlegar tilfinningar ásamt endurteknum loforðum um að Jehóva heyri hróp þess sem er bugaður af tilfinningaálagi. Lítum á eftirfarandi vers:

„Í angist minni kallaði ég á Drottin, til Guðs míns hrópaði ég. Hann heyrði hróp mitt í helgidómi sínum, óp mitt náði eyrum hans.“ — Sálm. 18:7.

„Drottinn er nálægur þeim sem hafa sundurmarið hjarta, hann hjálpar þeim sem hafa sundurkraminn anda.“ — Sálm. 34:19.

„Hann [Jehóva] græðir þá sem hafa sundurkramið hjarta og bindur um benjar þeirra.“ — Sálm. 147:3.

[Mynd á bls. 17]

„Orð í tíma talað“ getur reynst mjög hughreystandi þegar við þjáumst.