Spurningar frá lesendum
Spurningar frá lesendum
Jesús sagði við áheyrendur sína: „Verið . . . fullkomin eins og faðir yðar himneskur er fullkominn.“ Hvernig getur fólk nú á dögum verið fullkomið? — Matt. 5:48.
Til að geta svarað þessari spurningu þurfum við fyrst að skilja hvernig orðin „fullkominn“ og „fullkomleiki“ eru notuð í Biblíunni. Það sem sagt er í Biblíunni að sé „fullkomið“ er ekki endilega fullkomið í strangasta skilningi orðsins. Jehóva er að sjálfsögðu fullkominn á allan hátt. Fólk eða hlutir geta aðeins verið fullkomnir í vissum skilningi. Hebresku og grísku biblíuorðin, sem eru þýdd „fullkominn“, þýða oft „heill“, „þroskaður“ eða „gallalaus“ miðað við ákveðinn mælikvarða sem æðra yfirvald setur. Við notum þetta orð oft í afstæðum skilningi í daglegu tali. Við getum til dæmis talað um „fullkomið veður“.
Adam og Eva voru sköpuð siðferðilega, andlega og líkamlega fullkomin. Þau voru það miðað við mælikvarða skaparans. Vegna þess að þau óhlýðnuðust stóðust þau ekki mælikvarða hans og glötuðu fullkomleikanum. Afkomendur þeirra urðu einnig ófullkomnir. Þannig fékk mannkynið synd, ófullkomleika og dauða í arf frá Adam. — Rómv. 5:12.
En eins og Jesús sagði í fjallræðunni getur ófullkomið fólk verið fullkomið í vissum skilningi. Í ræðunni setti hann fram mælikvarða á fullkominn eða algeran kærleika. Það er þannig kærleikur sem Guð sýnir mannkyninu. Jesús sagði: „Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður. Þannig sýnið þér að þér eruð börn föður yðar á himnum er lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta.“ (Matt. 5:44, 45) Með því að sýna kærleika í þessum mæli væru lærisveinar Jesú að líkja eftir fullkomnu fordæmi Guðs.
Vottar Jehóva leggja sig fram um að halda sig við þennan háa mælikvarða á náungakærleika. Þeir þrá að hjálpa fólki að eignast nákvæma þekkingu á sannleikanum í Biblíunni óháð uppruna þess, kynþætti eða trú. Um þessar mundir aðstoða vottarnir meira en 7.000.000 áhugasamra einstaklinga í 236 löndum við biblíunám.
„Þótt þér elskið þá sem yður elska, hver laun eigið þér fyrir það?“ spurði Jesús. „Gera ekki tollheimtumenn hið sama? Og hvað er það þótt þér heilsið bræðrum yðar og systrum einum? Það gera jafnvel heiðnir menn.“ (Matt. 5:46, 47) Sannir fylgjendur Krists draga fólk ekki í dilka eftir menntun eða þjóðerni. Þeir sýna ekki heldur kærleika aðeins þeim sem geta endurgoldið hann. Þeir hjálpa fátækum og veikum, ungum og gömlum. Þannig geta þeir líkt eftir kærleika Jehóva og verið fullkomnir í vissum skilningi.
Getum við nokkurn tíma hlotið fullkomleikann sem Adam glataði? Já, með því að trúa á lausnarfórn Jesú getur hlýðið mannkyn náð fullkomleika í þúsundáraríki Krists þegar ,sonur Guðs brýtur niður verk djöfulsins‘. — 1. Jóh. 3:8.