Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Unglingar — standið gegn hópþrýstingi

Unglingar — standið gegn hópþrýstingi

Unglingar — standið gegn hópþrýstingi

„Mál ykkar sé ætíð . . . salti kryddað til þess að þið vitið hvernig þið eigið að svara hverjum manni.“ — KÓL. 4:6.

1, 2. Hvað finnst mörgum unglingum um það að skera sig úr fjöldanum og af hverju?

EFLAUST hefurðu bæði heyrt orðið „hópþrýstingur“ og kynnst fyrirbærinu af eigin raun. Kannski hefur einhvern tíma verið reynt að fá þig til að gera eitthvað sem þú vissir að var rangt. Hvernig líður þér þegar það gerist? „Stundum vildi ég helst að jörðin gleypti mig,“ segir Christopher sem er 14 ára, „eða ég gæti bara verið eins og skólafélagarnir til að þurfa ekki að skera mig úr.“

2 Hafa jafnaldrarnir sterk áhrif á þig? Hver er ástæðan ef svo er? Getur verið að þig langi til að njóta viðurkenningar þeirra? Það er í sjálfu sér ekkert rangt við það. Fullorðnir vilja líka njóta viðurkenningar félaga sinna. Öllum finnst sárt að finna fyrir höfnun, hvort sem þeir eru ungir eða aldnir. Sannleikurinn er hins vegar sá að maður fær ekki alltaf lof annarra fyrir að standa fastur á því sem er rétt. Jesús þurfti meira að segja að þola það. Hann gerði hins vegar alltaf hið rétta. Sumir fylgdu honum og gerðust lærisveinar hans en aðrir fyrirlitu hann og ,mátu hann einskis‘. — Jes. 53:3.

Hve sterkur er þrýstingurinn að vera eins og hinir?

3. Af hverju væru það mistök að gera eins og kunningjarnir ætlast til?

3 Stundum gæti verið freistandi að gera eins og kunningjarnir ætlast til, bara til að baka sér ekki vanþóknun þeirra. Það væru mistök. Kristnir menn eiga ekki að vera „börn sem hrekjast og berast fram og aftur“. (Ef. 4:14) Börn eru oft áhrifagjörn. Sem unglingur ertu hins vegar á góðri leið með að verða fullorðinn. Ef þú trúir að reglur Jehóva séu þér til góðs kemur ekkert annað til greina en að lifa eftir sannfæringu þinni. (5. Mós. 10:12, 13) Annars værirðu að leyfa öðrum að stjórna lífi þínu. Ef þú lætur undan þrýstingi annarra ertu í rauninni lítið annan en strengjabrúða þeirra. — Lestu 2. Pétursbréf 2:19.

4, 5. (a) Hvenær lét Aron undan hópþrýstingi og hvað má læra af því? (b) Hvaða aðferðir gætu kunningjarnir notað til að þrýsta á þig?

4 Aron, bróðir Móse, lét einu sinni undan hópþrýstingi. Þegar Ísraelsmenn lögðu fast að honum að búa til guð handa þeim lét hann undan. Aron var engin skræfa. Nokkru áður hafði hann staðið með Móse og boðið faraó byrginn, voldugasta manni í Egyptalandi. Þá hafði Aron talað djarfmannlega og flutt honum boðskap Guðs. En þegar samlandar hans, Ísraelsmenn, þrýstu á hann lét hann undan. Hópþrýstingur getur verið býsna sterkur. Aron átti auðveldara með að standa á móti konungi Egyptalands en samlöndum sínum. — 2. Mós. 7:1, 2; 32:1-4.

5 Aron er glöggt dæmi um að það eru ekki bara unglingar sem þurfa að standast hópþrýsting og hann er ekki bara vandamál þeirra sem hneigjast til að gera rangt. Hópþrýstingur getur jafnvel verið prófraun fyrir þá sem þrá í einlægni að gera rétt, þig líka. Kunningjarnir reyna ef til vill að fá þig til að gera eitthvað rangt með því að mana þig, ásaka þig eða gera grín að þér. Það er erfitt að verða fyrir hópþrýstingi í hvaða mynd sem hann birtist. Það fyrsta, sem þú þarft að gera til að standast hann, er að styrkja trú þína og sannfæringu.

„Prófið ykkur sjálf“

6, 7. (a) Af hverju er mikilvægt að vera sannfærður um trúarskoðanir sínar og hvað er hægt að gera til þess? (b) Hvaða spurninga er gott að spyrja sig til að styrkja sannfæringuna?

6 Til að standast hópþrýsting þarftu í fyrsta lagi að vera sannfærður um að trúarskoðanir þínar og lífsreglur séu réttar. (Lestu 2. Korintubréf 13:5.) Sannfæringin gefur þér hugrekki jafnvel þó að þú sért feiminn að eðlisfari. (2. Tím. 1:7, 8) Sá sem er hugrakkur að eðlisfari getur hins vegar átt mjög erfitt með að standa fastur á því sem hann er ekki alveg sannfærður um. Væri þá ekki þjóðráð að sanna fyrir sjálfum þér að það sem þú hefur lært í Biblíunni sé sannleikur? Byrjaðu á grundvallaratriðunum. Þú trúir á Guð og hefur heyrt fólk lýsa hvers vegna það trúir að hann sé til. Af hverju spyrðu ekki sjálfan þig: Hvað sannfærir mig um að Guð sé til? Tilgangurinn með spurningunni er ekki sá að vekja efasemdir heldur að styrkja trúna. Spyrðu þig líka: Hvernig veit ég að Biblían er innblásin af Guði? (2. Tím. 3:16) Af hverju er ég sannfærður um að við lifum á „síðustu dögum“? (2. Tím. 3:1-5) Hvers vegna trúi ég að lífsreglur Jehóva séu mér til góðs? — Jes. 48:17, 18.

7 Þú hikar kannski við að spyrja þig svona spurninga af ótta við að þú vitir ekki svörin. En það væri svipað og að hika við að horfa á bensínmælinn í bílnum af ótta við að hann sýni að tankurinn sé tómur. Ef bensínið er búið þarftu að vita það til að geta gert eitthvað í málinu. Það er sömuleiðis best fyrir þig að vita af því ef sannfæringin er ekki upp á sitt besta og gera það sem þarf til að styrkja hana. — Post. 17:11.

8. Hvernig geturðu styrkt sannfæringu þína um að það sé viturlegt að forðast saurlifnað?

8 Lítum á dæmi. Í Biblíunni erum við hvött til að ,forðast saurlifnaðinn‘. Spyrðu þig af hverju þetta séu viturleg fyrirmæli. Veltu fyrir þér af hverju kunningjarnir lifa þannig líferni. Veltu líka fyrir þér hvers vegna það er orðað þannig að ,saurlífismaðurinn syndgi á móti eigin líkama‘. (1. Kor. 6:18) Skoðaðu nú svörin og hugleiddu hvor lífsstefnan sé betri. Er það virkilega þess virði að gera sig sekan um siðferðisbrot? Hugleiddu málið nánar og spyrðu þig: Hvernig myndi mér líða ef ég léti undan og gerði mig sekan um siðleysi? Þú yrðir kannski vinsæll hjá félögunum en hvernig heldurðu að þér liði eftir á þegar þú værir með foreldrum þínum og trúsystkinum í ríkissalnum? Hvernig ætli þér yrði innanbrjósts þegar þú reyndir að biðja til Guðs? Værirðu virkilega tilbúinn til að fórna góðu sambandi við Guð til þess eins að þóknast bekkjarfélögunum?

9, 10. Hvernig geturðu verið öruggari í fasi í návist kunningjanna ef þú hefur sterka trúarsannfæringu?

9 Á unglingsárunum tekurðu miklum framförum í að rökhugsa og álykta. (Lestu Rómverjabréfið 12:1, 2.) Notaðu þetta tímabil til að hugleiða alvarlega af hverju það sé mikilvægt fyrir þig að vera vottur Jehóva. Slíkar hugleiðingar hjálpa þér að styrkja trúarsannfæringuna. Þá geturðu svarað fljótt og af öryggi þegar þú verður fyrir hópþrýstingi. Þá verður þér innanbrjósts eins og ungri systur í söfnuðinum sem sagði: „Þegar ég stend fast á mínu er ég bara að láta aðra vita hver ég sé. Ég er ekki bara í,einhverjum söfnuði‘. Þetta er það sem hugsun mín, markmið, siðferði og tilvera snýst um.“

10 Það reynir vissulega á að vera staðfastur í því sem maður veit að er rétt. (Lúk. 13:24) Þér er ef til vill spurn hvort það sé þess virði. En hafðu hugfast að það fer ekki fram hjá öðrum ef þú virkar afsakandi eða skömmustulegur yfir afstöðu þinni, og þá auka þeir jafnvel þrýstinginn. Ef þú talar af sannfæringu er hins vegar líklegt að kunningjarnir séu fljótir að gefast upp. — Samanber Lúkas 4:12, 13.

,Íhugaðu hverju svara skuli‘

11. Af hverju er gott að búa sig undir að mæta hópþrýstingi?

11 Annað mikilvægt skref til að standast hópþrýsting er að vera undirbúinn. (Lestu Orðskviðina 15:28.) Að vera undirbúinn þýðir að hugleiða fyrir fram hvaða aðstæður séu líklegar til að koma upp. Stundum getur svolítil fyrirhyggja afstýrt heilmiklum átökum. Tökum dæmi: Þú sérð hóp skólafélaga fram undan og þeir eru að reykja. Hversu líklegt finnst þér að þeir eigi eftir að bjóða þér sígarettu? Hvað geturðu gert ef þú sérð fram á að það komi til árekstra? Í Orðskviðunum 22:3 segir: „Vitur maður sér ógæfuna og felur sig.“ Ef þú ferð aðra leið þarftu kannski alls ekki að hitta félagana. Það er ekki hugleysi heldur heilbrigð skynsemi.

12. Hvernig gæti verið gott að svara ef gengið er hart að þér?

12 Hvað er til ráða ef ekki er um annað að ræða en að takast á við félagana? Segjum að einhver spyrji þig með vantrúarsvip: „Hefurðu aldrei sofið hjá?“ Þá er um að gera að fara eftir hvatningunni í Kólossubréfinu 4:6: „Mál ykkar sé ætíð ljúflegt en salti kryddað til þess að þið vitið hvernig þið eigið að svara hverjum manni.“ Eins og sjá má af þessu versi fer það eftir aðstæðum hvernig er best að bregðast við. Þú þarft líklega ekki að halda langa biblíuræðu. Kannski nægir að gefa stutt en ákveðið svar. Til að svara spurningunni hvort þú hafir aldrei sofið hjá gætirðu einfaldlega sagt: „Nei, reyndar ekki,“ eða: „Það er mitt einkamál“.

13. Af hverju þarftu að sýna góða dómgreind þegar þú svarar háðsglósum?

13 Jesús gaf oft stutt svar þegar það hefði verið til lítils að segja meira. Þegar Heródes yfirheyrði hann svaraði hann reyndar engu. (Lúk. 23:8, 9) Þögn getur verið ágætt svar við ósvífnum spurningum. (Orðskv. 26:4; Préd. 3:1, 7) Hins vegar skynjarðu kannski vissa einlægni hjá einhverjum sem er undrandi á afstöðu þinni, til dæmis í siðferðismálum, þó að sá hinn sami hafi í fyrstu verið dónalegur við þig. (1. Pét. 4:4) Þá getur verið rétt að gefa nánari skýringu á biblíulegri afstöðu þinni. Ef svo er skaltu vera ófeiminn að tala. Vertu ,ætíð reiðubúinn að svara‘. — 1. Pét. 3:15.

14. Hvernig er stundum hægt með nærgætni að beita þrýstingi á móti?

14 Í sumum tilfellum er kannski hægt að beita þrýstingi á móti. En þú þarft að reyna að gera það á nærgætinn hátt. Segjum sem svo að skólafélagi mani þig til að þiggja sígarettu. Þá gætirðu svarað: „Nei takk,“ og síðan bætt við: „Ég hélt að þú vissir betur en að reykja.“ Sérðu hvernig þú beitir þrýstingi á móti? Í stað þess að þú þurfir að útskýra af hverju þú reykir ekki neyðirðu skólafélagann til að hugleiða af hverju hann reyki. *

15. Hvenær er viðeigandi að yfirgefa kunningjana sem þrýsta á þig og af hverju?

15 Hvað er til ráða ef þrýstingurinn heldur samt áfram? Þá er best að labba bara burt. Því lengur sem þú ert á staðnum þeim mun meiri hætta er á að þú látir undan á einhvern hátt. Þess vegna skaltu bara fara. Þú getur gert það án þess að finnast þú hafa beðið ósigur. Það varst þú sem tókst stjórnina á aðstæðunum. Þú varðst ekki strengjabrúða kunningjanna og þú gladdir hjarta Jehóva. — Orðskv. 27:11.

„Vel ráðin áform fá framgang“

16. Hvernig gæti komið þrýstingur frá unglingum sem segjast vera vottar?

16 Stundum kemur þrýstingurinn að gera eitthvað óheilnæmt frá öðrum unglingum sem segjast þjóna Jehóva. Segjum til dæmis að þú mætir í boð sem einhver slíkur hefur skipulagt og kemst þá að raun um að þar er enginn fullorðinn til að hafa umsjón. Eða segjum að unglingur, sem segist vera vottur, komi með áfengi í partí en þú og aðrir viðstaddir hafið ekki aldur til að neyta áfengis. Alls konar aðstæður geta komið upp þar sem þú þarft að láta biblíufrædda samvisku þína vísa þér veginn. Unglingsstúlka í söfnuðinum segir: „Við systir mín fórum í bíó en það var fullt af ljótu orðbragði í myndinni. Við stóðum upp og gengum út. Aðrir í hópnum ákváðu að sitja áfram. Pabbi og mamma hrósuðu okkur. Hinir í hópnum voru fúlir af því að það var eins og við hefðum gert lítið úr þeim.“

17. Hvaða ráðstafanir geturðu gert til að fylgja meginreglum Guðs þegar þú ferð í boð?

17 Eins og sjá má af þessari frásögu getur það komið manni í vandræðalega aðstöðu að fylgja biblíufræddri samvisku sinni. En farðu eftir því sem þú veist að er rétt. Vertu undirbúinn. Ef þú ferð í boð skaltu hafa opna undankomuleið ef aðstæður skyldu ekki vera eins og þú bjóst við. Sumir unglingar hafa samið við foreldra sína um að þeir geti hringt hvenær sem er og látið sækja sig. (Sálm. 26:4, 5) „Vel ráðin áform fá framgang,“ eins og segir í Orðskviðunum 20:18.

,Gleð þig í æsku þinni‘

18, 19. (a) Af hverju geturðu treyst að Jehóva vilji að þú sért hamingjusamur? (b) Hvernig lítur Guð á þá sem standast hópþrýsting?

18 Jehóva skapaði þig þannig að þú getir notið þess að vera til og hann vill að þú sért hamingjusamur. (Lestu Prédikarann 11:9.) Mundu að margir félaga þinna njóta aðeins „skammvinns unaðar af syndinni“. (Hebr. 11:25) Hinn sanni Guð vill gefa þér miklu betra hlutskipti en það. Hann vill að þú sért hamingjusamur að eilífu. Þegar reynt er að freista þín til að gera eitthvað sem þú veist að er slæmt í augum Guðs skaltu þess vegna hafa hugfast að það er þér alltaf fyrir bestu til langs tíma litið að gera eins og Guð vill.

19 Sem unglingur þarftu að muna að jafnvel þótt þú yrðir vinsæll meðal skólafélaganna væru flestir þeirra líklega búnir að gleyma hvað þú heitir eftir nokkur ár. En Jehóva tekur eftir þér þegar þú stenst hópþrýsting og hann gleymir þér aldrei né trúfesti þinni. Hann mun ,ljúka upp fyrir þér flóðgáttum himins og hella yfir þig óþrjótandi blessun‘. (Mal. 3:10) Að auki gefur hann þér ríkulega af heilögum anda til að bæta upp það sem þig vantar núna. Já, Jehóva getur hjálpað þér að standast hópþrýsting.

[Neðanmáls]

^ gr. 14 Sjá opnuna „Viðbrögð við hópþrýstingi“ í bókinni Spurningar unga fólksins — svör sem duga, 2. bindi, bls. 132 og 133.

Manstu?

• Hve sterkur getur hópþrýstingur verið?

• Af hverju er trúarsannfæring mikilvæg til að standast hópþrýsting?

• Hvernig geturðu búið þig undir að mæta hópþrýstingi?

• Hvernig veistu að Jehóva metur mikils að þú sért trúfastur?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 8]

Hvers vegna féllst Aron á að gera gullkálfinn?

[Mynd á bls. 10]

Vertu undirbúinn — hugsaðu fyrir fram hvað þú ætlar að segja.