,Verk hans fylgja honum‘
,Verk hans fylgja honum‘
THEODORE JARACZ, sem sat í hinu stjórnandi ráði Votta Jehóva, lauk jarðnesku lífsskeiði sínu að morgni miðvikudagsins 9. júní 2010. Hann var 84 ára. Eftirlifandi eiginkona hans er Melita en þau höfðu verið gift í 53 ár. Af öðrum eftirlifandi ættingjum má nefna eina systur og þrjú systkinabörn.
Bróðir Jaracz fæddist 28. september 1925 í Pike County í Kentucky í Bandaríkjunum. Hann skírðist 10. ágúst 1941, þá 15 ára, til tákns um að hann væri vígður Jehóva. Hann gerðist brautryðjandi tveim árum síðar, þá 17 ára gamall. Hann þjónaði Jehóva samfellt í fullu starfi í næstum 67 ár.
Bróðir Jaracz sótti Biblíuskólann Gíleað árið 1946 og var í sjöunda útskriftarhópnum. Hann var þá tvítugur. Að því loknu fékk hann það verkefni að starfa sem farandhirðir í Ohio í Bandaríkjunum, nánar tiltekið í Cleveland og nágrenni. Árið 1951 var hann sendur til Ástralíu til að hafa umsjón með deildarskrifstofunni þar. Í árbók Votta Jehóva 1983 er sagt frá því að bróðir Jaracz hafi verið „bræðrunum um allt land til mikillar hvatningar með góðri forystu sinni í boðunarstarfinu og með brennandi áhuga sínum á því að halda uppi góðu skipulagi í söfnuðinum“.
Eftir að bróðir Jaracz sneri aftur til Bandaríkjanna gekk hann að eiga Melitu Lasko. Þau giftust 10. desember 1956 og í framhaldi af því gegndu þau farandstarfi á farandsvæðum og umdæmum um stóran hluta Bandaríkjanna. Síðla árs 1974 var bróður Jaracz boðið að taka sæti í hinu stjórnandi ráði Votta Jehóva.
Bróðir Jaracz var dyggur og trúr þjónn Jehóva, og hans verður lengi minnst fyrir einbeitni sína í þjónustunni. Hann var ástríkur og umhyggjusamur eiginmaður og hann var jafnframt andlegur maður sem tók velferð annarra fram yfir sína eigin. (1. Kor. 13:4, 5) Einlægur áhugi hans á öðrum birtist í því hve annt honum var um að öllum væri sýnd sanngirni og miskunn. Óbilandi kærleikur hans og umhyggja fyrir fólki endurspeglaðist í brennandi áhuga hans á boðunarstarfinu.
Enda þótt við syrgjum þennan ástkæra og ötula bróður, sem nú er horfinn úr betelfjölskyldunni og bræðrafélaginu, er gleðilegt að horfa til dyggrar þjónustu hans við Jehóva um áratuga skeið. Við teljum víst að hann hafi ,verið trúr allt til dauða og hlotið kórónu lífsins‘. (Opinb. 2:10) Við treystum jafnframt að ,verk hans hafi fylgt honum‘. — Opinb. 14:13.