Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Það er aldrei of seint að byrja að þjóna Guði

Það er aldrei of seint að byrja að þjóna Guði

Það er aldrei of seint að byrja að þjóna Guði

Mæðgur, sem báðar heita Ana, létu skírast 19. desember 2009 í Málaga á Suður-Spáni. Þær voru meðal þeirra 2.352 sem stigu þetta skref á Spáni árið 2009. En eitt var einstakt við þessar mæðgur, aldur þeirra. Þær voru 107 og 83 ára að aldri.

Hvað varð til þess að þær vígðu Jehóva líf sitt og létu skírast til tákns um það? Snemma á áttunda áratugnum bauð nágranni Önu, þeirri yngri, henni að mæta í safnaðarbóknám sem var haldið á heimili hans. Ana mætti af og til en vinnan kom í veg fyrir að hún tæki frekari framförum.

Um það bil áratugi síðar byrjuðu nokkur af börnum Önu að kynna sér Biblíuna og með tímanum fóru þau að þjóna Jehóva. Eitt þeirra, Mari Carmen, tókst að lokum að endurvekja áhuga móður sinnar á sannleika Biblíunnar en það varð til þess að hún þáði biblíunámskeið. Amma Mariar Carmenar, Ana hin eldri, fór þá líka að sýna áhuga á Biblíunni. Að lokum létu tíu úr þessari fjölskyldu skírast.

Mæðgurnar, þær Ana eldi og Ana yngri, geisluðu af gleði á skírnardeginum. „Jehóva hefur verið svo góður við mig, að leyfa mér að kynnast sér,“ segir Ana sem er 107 ára. Ana yngri bætir við: „Mig langar til að þjóna Jehóva, gera vilja hans og boða fagnaðarerindið eins mikið og ég get þangað til paradís kemur.“

Þessar tvær ekkjur hafa mikla ánægju af því að sækja samkomur. „Þær missa ekki af einni einustu samkomu,“ segir öldungur í söfnuðinum þeirra. „Þær eru alltaf tilbúnar til að svara í Varðturnsnáminu.“

Gott fordæmi þeirra minnir okkur á ekkju að nafni Anna sem „vék eigi úr helgidóminum en þjónaði Guði nótt og dag með föstum og bænahaldi“. Henni hlotnaðist því sá heiður að sjá ungbarnið Jesú með eigin augum. (Lúk. 2:36-38) Þótt Anna hafi verið 84 ára að aldri var hún ekki of gömul til að þjóna Jehóva og það eru nöfnur hennar á Spáni ekki heldur.

Eru einhverjir ættingja þinna fúsir til að hlusta á boðskap Biblíunnar? Eða hefurðu hitt roskinn einstakling í boðunarstarfinu sem sýnir áhuga og hlustar á þig þegar þú kemur? Það getur verið að þessir einstaklingar muni fylgja fordæmi kvennanna tveggja sem hér er sagt frá, því að það er aldrei of seint að byrja að þjóna hinum sanna Guði, Jehóva.

[Innskot á bls. 25]

„Jehóva hefur verið svo góður við mig.“

[Innskot á bls. 25]

„Mig langar til að þjóna Jehóva . . . þangað til paradís kemur.“