Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lofsyngjum Jehóva

Lofsyngjum Jehóva

Lofsyngjum Jehóva

„Ég vil . . . lofsyngja Guði mínum meðan ég er til.“ — SÁLM. 146:2.

1. Hvað varð til þess að Davíð samdi suma af sálmunum á unga aldri?

Á UNGLINGSÁRUNUM sat Davíð löngum yfir fé föður síns í nágrenni Betlehem. Meðan hann gætti fjárins úti í haga gat hann virt fyrir sér stórfengleg sköpunarverk Jehóva — stjörnum prýddan himininn, „dýr merkurinnar“ og „fugla himins“. Það sem fyrir augu hans bar hafði djúpstæð áhrif á hann. Það snart hann svo djúpt að hann samdi innilega lofsöngva um skapara alls þessa. Mörg af verkum Davíðs er að finna í Sálmunum í Biblíunni. * — Lestu Sálm 8:4, 5, 8-10.

2. (a) Hvaða áhrif getur tónlist haft á fólk? Lýstu með dæmi. (b) Hvers konar samband átti Davíð við Jehóva eins og sjá má af Sálmi 34:8, 9 og Sálmi 139:2-8?

2 Líklegt er að það hafi verið á þessu æviskeiði sem Davíð þroskaði tónlistargáfuna. Svo fær varð hann að honum var boðið að leika á hörpu fyrir Sál konung. (Orðskv. 22:29) Tónlist Davíðs hafði róandi áhrif á hrjáðan konunginn eins og góð tónlist hefur reyndar á fólk enn þann dag í dag. Þegar Davíð tók sér hljóðfærið í hönd „létti Sál og honum leið betur“. (1. Sam. 16:23) Ljóðin, sem þessi guðhræddi tónlistarmaður og ljóðskáld orti, hafa staðist tímans tönn. Hugsaðu þér. Rúmlega 3.000 árum eftir daga Davíðs sækja milljónir manna af öllum þjóðfélagsstigum og úr öllum heimshornum enn þá hughreystingu og von í sálma Davíðs. — 2. Kron. 7:6; lestu Sálm 34:8, 9; 139:2-8; Am. 6:5.

Tónlist gegnir göfugu hlutverki í sannri tilbeiðslu

3, 4. Hvaða ráðstafanir voru gerðar til að flytja helgitónlist á dögum Davíðs?

3 Davíð var hæfileikaríkur og hann notaði hæfileika sína eins og best var á kosið — til að vegsama Jehóva. Eftir að hann varð konungur Ísraels lét hann flytja fallega tónlist við þjónustuna í tjaldbúðinni. Um 4.000 Levítar þjónuðu í tjaldbúðinni á hverjum tíma og meira en einn af hverjum tíu hafði það verkefni að „lofa Drottin“. Þar af hafði 288 Levítum „verið kennt að syngja Drottni söngva. Allt voru þetta þjálfaðir menn.“ — 1. Kron. 23:3, 5; 25:7.

4 Davíð samdi mörg af lögunum og ljóðunum sem Levítarnir fluttu. Hver sá Ísraelsmaður, sem var viðstaddur þegar sálmar Davíðs voru sungnir, hlýtur að hafa verið djúpt snortinn af því sem hann heyrði. Síðar, þegar sáttmálsörkin var flutt til Jerúsalem, skipaði „Davíð . . . höfðingjum Levítanna að láta ættbræður þeirra, söngvarana, taka sér stöðu með hljóðfæri sín, hörpur, sítara og bjöllur, til þess að leika undir fagnaðarsöngnum“. — 1. Kron. 15:16.

5, 6. (a) Af hverju var lögð mikil áhersla á tónlist í stjórnartíð Davíðs? (b) Hvernig vitum við að tónlist var talin mikilvægur þáttur tilbeiðslunnar í Forn-Ísrael?

5 Af hverju var lögð svona mikil áhersla á tónlist á dögum Davíðs? Var það bara vegna þess að konungur var tónlistarmaður? Nei, það var önnur ástæða fyrir því og hún kom fram öldum síðar þegar hinn réttláti konungur Hiskía endurvakti þjónustuna í musterinu. Við lesum í 2. Kroníkubók 29:25: „Konungur [það er Hiskía] fylkti Levítunum í húsi Drottins með málmgjöll, hörpur og gígjur í höndum, samkvæmt fyrirmælum Davíðs, Gaðs, hins konunglega sjáanda, og Natans spámanns. Þessi fyrirmæli voru frá Drottni, flutt af spámönnum hans.“

6 Já, Jehóva sagði dýrkendum sínum fyrir munn spámanna að lofa hann í söng. Söngvarar af prestaætt voru meira að segja undanþegnir starfsskyldum sem aðrir Levítar höfðu, þannig að þeir hefðu nægan tíma til tónsmíða og eflaust einnig til æfinga. — 1. Kron. 9:33.

7, 8. Hvað er mikilvægara en hæfileikar þegar við syngjum ríkissöngvana?

7 Þér verður kannski að orði að þú hefðir nú örugglega aldrei verið talinn með hinum ,þjálfuðu‘ sem fluttu tónlist í tjaldbúðinni. En það voru ekki allir Levítarnir þjálfaðir söngvarar. Samkvæmt 1. Kroníkubók 25:8 voru líka „nemar“ í hópnum. Og það er annað sem rétt er að nefna: Það er ekki ólíklegt að meðal annarra ættkvísla Ísraels hafi verið mjög færir tónlistarmenn. Engu að síður valdi Jehóva Levíta til að flytja tónlistina. Við getum gefið okkur að allir trúir Levítar, sem fluttu tónlist, hafi gert það af lífi og sál, hvort sem þeir voru „fullnuma“ eða „nemar“.

8 Davíð hafði yndi af tónlist og var fær tónlistarmaður. En skipta hæfileikarnir mestu máli í augum Jehóva? Páll skrifaði í Kólossubréfinu 3:23: „Hvað sem þið gerið, þá gerið það af heilum huga eins og Drottinn ætti í hlut en ekki menn.“ Eins og sjá má af þessu skiptir mestu máli að við syngjum „af heilum huga“ Jehóva til lofs.

Hlutverk tónlistar eftir daga Davíðs

9. Hvað hefðirðu séð og heyrt ef þú hefðir verið viðstaddur vígslu musterisins á dögum Salómons?

9 Tónlist gegndi stóru hlutverki í sannri tilbeiðslu í stjórnartíð Salómons. Við vígslu musterisins lék fjölmenn hljómsveit. Hún var meðal annars skipuð 120 prestum sem léku á lúðra. (Lestu 2. Kroníkubók 5:12.) Í Biblíunni segir: „Lúðurþeytararnir og söngvararnir hljómuðu eins og ein rödd þegar þeir fluttu Drottni lofgjörð og þökk . . . ,Hann er góður og miskunn hans varir að eilífu.‘“ Um leið og þeir hófu þennan gleðisöng „fyllti ský húsið“ til merkis um velþóknun Jehóva. Það hlýtur að hafa verið hrífandi og tilkomumikið að heyra samhljóm allra þessara lúðra og söngvara en þeir skiptu þúsundum. — 2. Kron. 5:13.

10, 11. Af hverju má sjá að tónlist var hluti af tilbeiðslu frumkristinna manna?

10 Tónlist var einnig þáttur í tilbeiðslu frumkristinna manna. Þeir söfnuðust auðvitað ekki saman í tjaldbúðum eða musterum heldur á einkaheimilum. Vegna ofsókna og annarra aðstæðna voru skilyrðin til samkomuhalds ekki alltaf hagstæð. Engu að síður lofuðu þeir Guð í söng.

11 Páll postuli skrifaði trúsystkinum sínum í Kólossu: „Áminnið hvert annað og syngið Guði sætlega lof í hjörtum ykkar með sálmum, lofsöngvum og andlegum ljóðum.“ (Kól. 3:16) Þegar Páli og Sílasi var varpað í fangelsi „báðust þeir . . . fyrir og lofsungu Guði“ þótt þeir hefðu ekki söngbók til að styðjast við. (Post. 16:25) Hve marga af söngvunum okkar gætirðu sungið eftir minni ef þér væri varpað í fangelsi?

12. Hvernig getum við sýnt að við kunnum að meta ríkissöngvana?

12 Þar eð tónlist gegnir göfugu hlutverki í tilbeiðslu okkar ættum við að spyrja okkur hvort við kunnum að meta hana. Spyrðu þig: Reyni ég eftir bestu getu að mæta tímanlega á samkomur og mót til að syngja ásamt bræðrum og systrum í upphafi samkomunnar, og syng ég þá af hjartans lyst? Hvet ég börnin mín til að líta ekki á sönginn milli Boðunarskólans og þjónustusamkomunnar eða milli fyrirlestrarins og Varðturnsnámsins sem eins konar hlé, sem tækifæri til að yfirgefa sætið að óþörfu, kannski bara til að teygja úr sér? Söngur er hluti af tilbeiðslu okkar. Hvort sem við erum „fullnuma“ eða „nemar“ getum við öll og ættum við öll að syngja saman Jehóva til lofs. — Samanber 2. Korintubréf 8:12.

Þarfirnar breytast með tímanum

13, 14. Hvaða gildi hefur það að syngja af hjartans lyst á samkomum? Lýstu með dæmi.

13 Ein ástæðan fyrir því að söngvarnir okkar eru mikilvægir var nefnd í tímaritinu Zion’s Watch Tower fyrir meira en 100 árum. Þar stóð: „Það er gott að syngja sannleikann til að festa hann í hugum og hjörtum þeirra sem þjóna Guði.“ Margir af textunum í söngbókinni okkar eru byggðir á biblíuversum þannig að það getur verið gott að læra að minnsta kosti suma textana til að láta sannleikann festa djúpar rætur í hjörtum okkar. Það hefur oft haft sterk áhrif á fólk sem sækir samkomu hjá okkur í fyrsta sinn að heyra söfnuðinn syngja af hjartans lyst.

14 Kvöld eitt árið 1869 var C. T. Russell á heimleið úr vinnu þegar hann heyrði óm af söng frá nálægum kjallara. Um þetta leyti hafði hann örvænt um að finna nokkurn tíma sannleikann um Guð. Hann hafði því ákveðið að helga krafta sína viðskiptum. Hann hugsaði sem svo að ef hann gæti aflað sér fjár gæti hann að minnsta kosti látið eitthvað af hendi rakna til að sinna líkamlegum þörfum fólks, þótt hann gæti ekki hjálpaði því að kynnast Guði. Bróðir Russell gekk inn í óþrifalegan og grámuskulegan sal og komst að raun um að þar voru haldnar trúarsamkomur. Hann fékk sér sæti og hlustaði. Hann skrifaði síðar að það sem hann heyrði þetta kvöld hafi „nægt honum, með handleiðslu Guðs, til að endurvekja trúna á að Biblían væri innblásin“. Við tökum eftir að það var söngurinn sem laðaði bróður Russell inn í samkomusalinn.

15. Hvers vegna var ráðlegt að endurskoða söngbókina?

15 Skilningur okkar á Biblíunni verður skýrari með tímanum. Í Orðskviðunum 4:18 segir: „Gata réttlátra er eins og bjartur árdagsljómi, því bjartari sem nær líður hádegi.“ Með skærara ljósi þarf óhjákvæmilega að lagfæra það hvernig við ,syngjum sannleikann‘. Síðastliðinn aldarfjórðung hafa vottar Jehóva víða um lönd notað söngbók sem heitir Syngið Jehóva lof. * Á þeim árum, sem eru liðin síðan hún kom út, hefur ljós sannleikans orðið skærara á ýmsum sviðum. Þar af leiðandi er orðalagið í söngvunum sums staðar orðið úrelt. Ljóst er að það var orðið tímabært að laga söngbókina að núverandi skilningi okkar.

16. Hvernig getur nýja söngbókin hjálpað okkur að fara eftir leiðbeiningum Páls í Efesusbréfinu 5:19?

16 Af þessari ástæðu og ýmsum fleiri samþykkti hið stjórnandi ráð að gefin yrði út ný söngbók sem heitir Lofsyngjum Jehóva. Í nýju bókinni er söngvunum fækkað í 135. Þar sem söngvarnir eru færri ætti það að hvetja okkur til að leggja að minnsta kosti nokkra texta á minnið. Það er í samræmi við leiðbeiningar Páls í Efesusbréfinu 5:19— Lestu.

Sýndu að þú kunnir að meta söngvana

17. Af hverju ættum við ekki að láta feimni hindra okkur í að syngja á safnaðarsamkomum?

17 Ættum við að láta feimni hindra okkur í að syngja á safnaðarsamkomum? Lítum á málið frá þessari hlið: ,Hrösum við ekki öll margvíslega‘ þegar hið talaða orð á í hlut? (Jak. 3:2) Þótt við séum ekki fullkomin í tali látum við það ekki hindra okkur í að lofa Jehóva þegar við förum hús úr húsi. Af hverju ættum við þá að veigra okkur við að lofa Guð í söng þó að söngröddin sé ekki fullkomin? Jehóva, sem ,gaf manninum munn‘, hefur ánægju af að hlusta á okkur þegar við notum röddina til að syngja honum lof. — 2. Mós. 4:11.

18. Hvað hefur hjálpað mörgum í söfnuðinum að læra nýju söngvana?

18 Geisladiskar með píanóundirleik (Sing to Jehovah — Piano Accompaniment) hafa hjálpað mörgum í söfnuðinum að læra nýju söngvana. Það er sérlega ánægjulegt að hlusta á tónlistina. Ef þú hlustar oft á hana heima og fylgist með í söngbókinni lærirðu söngvana smám saman og þú getur þá sungið hiklaust í ríkissalnum. Margir af textunum eru líka þannig ortir að hver lína er eðlilegt framhald af annarri.

19. Hvaða vinna liggur á bak við hljómsveitarútsetningar á söngvunum okkar?

19 Það er hægur vandi að líta á tónlistina, sem við njótum á svæðis- og umdæmismótum, sem sjálfsagðan hlut. En það er lögð mikil vinna í tónlistina. Eftir að lögin hafa verið valin þarf að útsetja þau fyrir 64 manna hljómsveit. Tónlistarmennirnir nota síðan ómældan tíma í að setja sig inn í tónlistina, æfa hana og taka upp í hljóðveri okkar í Patterson í New York. Tíu þessara bræðra og systra búa utan Bandaríkjanna. Þau telja það öll mikinn heiður að eiga þátt í að búa til fagra tónlist fyrir mót safnaðarins. Við getum sýnt að við kunnum að meta það sem þau leggja af mörkum. Þegar dagskrárkynnirinn á mótunum tilkynnir að gengið skuli til sætis skulum við gera það þegar í stað og hlusta vel á tónlistina sem hefur verið útsett og hljóðrituð handa okkur af ást og alúð.

20. Hvað ættum við öll að gera?

20 Jehóva hlustar á lofsöng okkar. Það er honum mikils virði að heyra okkur syngja. Við getum glatt hjarta hans með því að syngja af hjartans lyst þegar við söfnumst saman til tilbeiðslu. Já, hvort sem við erum fullnuma eða nemar skulum við „ljóða um Drottin“. — Sálm. 104:33.

[Neðanmáls]

^ gr. 1 Athygli vekur að tíu öldum eftir daga Davíðs birtust hersveitir engla fjárhirðum sem gættu hjarðar sinnar úti í haga í grennd við Betlehem. Englarnir tilkynntu fjárhirðunum að Messías væri fæddur. — Lúk. 2:4, 8, 13, 14.

^ gr. 15 Söngbókin var til í heild sinni, með 225 söngvum, á rösklega 100 tungumálum.

Hvað heldurðu?

• Hvaða dæmi frá biblíutímanum sýna að tónlist gegnir mikilvægu hlutverki í tilbeiðslu okkar?

• Hvaða samhengi sérðu milli þess að fara eftir fyrirmælum Jesú í Matteusi 22:37 og að syngja söngvana okkar af hjartans lyst?

• Hvernig getum við sýnt að við kunnum að meta ríkissöngvana?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 23]

Leturðu börnin þess að yfirgefa sætið að óþörfu meðan söfnuðurinn syngur?

[Mynd á bls. 24]

Ertu að læra nýju söngtextana heima?