Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Nú er hagkvæm tíð“

„Nú er hagkvæm tíð“

„Nú er hagkvæm tíð“

„Nú er hagkvæm tíð, nú er hjálpræðisdagur.“ — 2. KOR. 6:2.

1. Af hverju þurfum við að bera skyn á hvað skipti mestu máli á hverjum tíma?

„ÖLLU er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma.“ (Préd. 3:1) Salómon ræðir hér um að það sé mikilvægt að bera skyn á hvenær sé rétti tíminn til að gera það sem gera þarf, hvort heldur að yrkja jörðina, ferðast, eiga viðskipti eða eiga samskipti við aðra. Við þurfum líka að bera skyn á hvað skipti mestu máli á hverjum tíma. Með öðrum orðum þurfum við að forgangsraða rétt .

2. Hvernig sjáum við að Jesús vissi mætavel á hve mikilvægum tímum hann lifði?

2 Meðan Jesús var á jörð vissi hann mætavel á hve mikilvægum tímum hann lifði og hvað hann þurfti að gera. Hann hafði skýrt í huga hvað skipti mestu máli og vissi að nú var runninn upp sá langþráði tími að margir spádómar um Messías myndu rætast. (1. Pét. 1:11; Opinb. 19:10) Hann hafði verk að vinna til að sýna fram á að hann væri hinn fyrirheitni Messías. Hann þurfti að flytja fólki sannleikann um ríki Guðs og safna saman þeim sem ættu eftir að erfa ríkið með honum. Og hann þurfti að leggja grunninn að kristna söfnuðinum sem myndi boða fagnaðarerindið til endimarka jarðar og gera fólk að lærisveinum. — Mark. 1:15.

3. Hvaða áhrif hafði vitund Jesú um tímann á það sem hann gerði?

3 Vitundin um allt þetta var jákvætt afl í lífi Jesú og vakti með honum brennandi áhuga á að gera vilja föður síns. Hann sagði við lærisveinana: „Uppskeran er mikil en verkamenn fáir. Biðjið því Drottin uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“ (Lúk. 10:2; Mal. 4:5, 6) Jesús valdi fyrst 12 og síðan 70 af lærisveinunum, gaf þeim skýrar leiðbeiningar og sendi þá út til að boða hrífandi boðskap: „Himnaríki er í nánd.“ Um hann sjálfan er sagt: „Þá er Jesús hafði mælt svo fyrir við lærisveina sína tólf hélt hann þaðan að kenna og prédika í borgum þeirra.“ — Matt. 10:5-7; 11:1; Lúk. 10:1.

4. Hvernig breytti Páll eftir Jesú Kristi?

4 Jesús var öllum fylgjendum sínum fullkomin fyrirmynd um brennandi áhuga og einbeitni. Það var það sem Páll postuli hafði í huga þegar hann sagði við trúsystkini sín: „Breytið eftir mér eins og ég breyti eftir Kristi.“ (1. Kor. 11:1) Hvernig breytti Páll eftir Kristi? Fyrst og fremst með því að gera sitt ýtrasta til að boða fagnaðarerindið. Í bréfum Páls til safnaðanna finnum við hvatningarorð eins og: „Verið ekki hálfvolg í áhuganum“, „þjónið Drottni“, „verið . . . síauðug í verki Drottins“ og „hvað sem þið gerið, þá gerið það af heilum huga eins og Drottinn ætti í hlut“. (Rómv. 12:11; 1. Kor. 15:58; Kól. 3:23) Páll gleymdi því aldrei hvernig Drottinn Jesús Kristur birtist honum á veginum til Damaskus né gleymdi hann orðum Jesú sem lærisveinninn Ananías hlýtur að hafa flutt honum: „Þennan mann hef ég valið mér að verkfæri til þess að bera nafn mitt fram fyrir heiðingja, konunga og börn Ísraels.“ — Post. 9:15; Rómv. 1:1, 5; Gal. 1:16.

„Hagkvæm tíð“

5. Af hverju hafði Páll brennandi áhuga á þjónustu sinni?

5 Þegar við lesum Postulasöguna er augljóst hve hugrakkur Páll var og hve brennandi áhuga hann hafði á þjónustu sinni. (Post. 13:9, 10; 17:16, 17; 18:5) Páll gerði sér ljóst á hve mikilvægum tímum hann lifði. Hann sagði: „Nú er hagkvæm tíð, nú er hjálpræðisdagur.“ (2. Kor. 6:2) Árið 537 f.Kr. var hagkvæm tíð fyrir hina útlægu Gyðinga í Babýlon til að snúa heim. (Jes. 49:8, 9) En hvað hafði Páll í huga þegar hann skrifaði orðin hér að ofan? Við sjáum það af samhenginu.

6, 7. Hvaða heiður hefur hinum andasmurðu verið sýndur nú á dögum og hverjir starfa með þeim?

6 Fyrr í bréfi sínu talaði Páll um mikinn heiður sem honum og öðrum andasmurðum kristnum mönnum hafði verið sýndur. (Lestu 2. Korintubréf 5:18-20.) Hann benti á að Guð hefði kallað þá í þeim ákveðna tilgangi að sinna „þjónustu sáttargerðarinnar“, að biðja fólk um að „sættast við Guð“. Það þýddi að fólk endurheimti vináttu Guðs og átti frið við hann.

7 Allt frá uppreisninni í Eden hefur mannkynið verið fráhverft og fjarlægt Jehóva. (Rómv. 3:10, 23) Þessi aðskilnaður hefur haft í för með sér andlegt myrkur fyrir mannkynið í heild með tilheyrandi þjáningum og dauða. „Við vitum að öll sköpunin stynur líka og hefur fæðingarhríðir allt til þessa,“ skrifaði Páll. (Rómv. 8:22) En Guð hefur hvatt og jafnvel ,beðið‘ fólk að snúa við og sættast við sig. Það var sú þjónusta sem Páli og öðrum andasmurðum kristnum mönnum var falin á þeim tíma. Þessi ,hagkvæma tíð‘ gat verið „hjálpræðisdagur“ fyrir þá sem trúðu á Jesú. Allir andasmurðir kristnir menn og ,aðrir sauðir‘, sem starfa með þeim, hvetja fólk til að notfæra sér þessa ,hagkvæmu tíð‘. — Jóh. 10:16.

8. Af hverju er hvatningin til að sættast við Guð einstök?

8 Hvatningin til að sættast við Guð er þeim mun merkilegri sökum þess að það var Guð sem tók frumkvæðið að því að brúa bilið þótt mennirnir einir hafi valdið aðskilnaðinum með uppreisn sinni í Eden. (1. Jóh. 4:10, 19) Hvað gerði hann? „Það var Guð sem í Kristi sætti heiminn við sig er hann tilreiknaði mönnum ekki afbrot þeirra og fól mér að boða orð sáttargjörðarinnar,“ sagði Páll. — 2. Kor. 5:19; Jes. 55:6.

9. Hvernig sýndi Páll að hann kunni að meta miskunn Guðs?

9 Með því að láta lausnarfórnina í té gerði Jehóva þeim sem trúðu kleift að fá syndir sínar fyrirgefnar. Þeir gátu endurheimt vináttu hans og átt frið við hann. Enn fremur gerði hann út sendiboða sína til að hvetja fólk alls staðar til að sættast við sig meðan tími væri til. (Lestu 1. Tímóteusarbréf 2:3-6.) Páll skildi hver vilji Guðs var og vissi á hvaða tímum hann lifði. Hann lagði sig því allan fram við „þjónustu sáttargerðarinnar“. Vilji Jehóva er óbreyttur. Boðið stendur enn. Orð Páls eru enn í fullu gildi þegar hann sagði: „Nú er hagkvæm tíð, nú er hjálpræðisdagur.“ Jehóva er sannarlega miskunnsamur og góður Guð. — 2. Mós. 34:6, 7.

Láttu ekki náð Guðs „verða til einskis“

10. Hvaða þýðingu hefur ,hjálpræðisdagurinn‘ haft fyrir andasmurða kristna menn fyrr og nú?

10 Þeir sem voru „í Kristi“ urðu fyrstir til að njóta góðs af óverðskuldaðri gæsku Guðs. (2. Kor. 5:17, 18) Hjá þeim hófst ,hjálpræðisdagurinn‘ á hvítasunnu árið 33. Þaðan í frá hafa þeir haft það verkefni með höndum að boða „orð sáttargjörðarinnar“. Þeir sem eru eftir af hinum andasmurðu halda áfram að inna af hendi „þjónustu sáttargerðarinnar“. Þeir gera sér ljóst að englarnir fjórir, sem Jóhannes postuli sá í spádómlegri sýn, ,halda fjórum vindum jarðarinnar svo að vindur nái ekki að blása yfir jörðina‘. Þess vegna stendur ,hjálpræðisdagurinn‘ enn og það er enn þá „hagkvæm tíð“. (Opinb. 7:1-3) Þeir sem eru eftir af hinum andasmurðu hafa þar af leiðandi lagt sig kappsamlega fram við „þjónustu sáttargerðarinnar“ til ystu endimarka jarðar frá því snemma á 20. öld.

11, 12. Hvernig sýndu hinir andasmurðu snemma á 20. öld að þeir vissu hvað tímanum leið? (Sjá mynd á bls. 15.)

11 Lítum á dæmi. Í bókinni Jehovah’s Witnesses — Proclaimers of God’s Kingdom kemur fram að við upphaf 20. aldar hafi „C. T. Russell og félagar hans verið sannfærðir um að uppskerutíminn stæði yfir og fólk þyrfti að heyra boðskap frelsisins“. Hvað gerðu þeir í málinu? Þar sem þeim var ljóst að nú væri uppskerutími og „hagkvæm tíð“ létu þeir ekki nægja að bjóða fólki að sækja trúarsamkomur. Prestar kristna heimsins höfðu gert það lengi. Þessir andasmurðu kristnu menn fóru að leita annarra raunhæfra leiða til að útbreiða fagnaðarerindið. Meðal annars notuðu þeir nýjustu tækni á skynsamlegan hátt til að vinna verkið.

12 Þessi fámenni en atorkusami hópur boðbera tók að nota smárit, bæklinga, tímarit og bækur til að útbreiða fagnaðarerindið um ríkið. Þeir sömdu líka prédikanir og greinar sem þeir fengu birtar í þúsundum dagblaða. Þeir sendu út biblíufræðslu í útvarpi, bæði í Bandaríkjunum og öðrum löndum. Þeir gerðu kvikmyndir með samstilltum hljóðupptökum og sýndu víða, jafnvel áður en kvikmyndaiðnaðurinn tók að framleiða hljóðsettar myndir handa almenningi. Hvaða árangri skilaði þessi óbilandi áhugi þeirra? Um sjö milljónir manna, sem hafa tekið við boðskapnum, taka nú undir með þeim og flytja boðin: „Látið sættast við Guð.“ Hópurinn, sem þjónaði Jehóva snemma á síðustu öld, er okkur góð fyrirmynd með því að sýna brennandi áhuga þrátt fyrir takmarkaða reynslu.

13. Hvert er markmiðið með náð Guðs?

13 Orð Páls: „Nú er hagkvæm tíð“, eru enn í fullu gildi. Við sem höfum notið óverðskuldaðrar gæsku Jehóva erum þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að heyra sáttarboðskapinn og taka við honum. Við erum ekki sinnulaus gagnvart því sem við höfum heyrt heldur tökum alvarlega það sem Páll sagði í framhaldinu: „Sem samverkamaður Krists hvet ég ykkur einnig að þið látið ekki náð Guðs, sem þið hafið þegið, verða til einskis.“ (2. Kor. 6:1) Markmiðið með náð Guðs er að ,sætta heiminn við sig‘ fyrir atbeina Krists. — 2. Kor. 5:19.

14. Hvaða tækifæri er að skapast víða um lönd?

14 Satan hefur blindað meirihluta mannkyns svo að fólk er enn fjarlægt Guði og þekkir ekki markmiðið með náð hans. (2. Kor. 4:3, 4; 1. Jóh. 5:19) Versnandi ástand í heiminum hefur þó verið mörgum hvatning til að taka við boðskapnum þegar þeim hefur verið sýnt fram á að illskan og þjáningarnar meðal manna stafi af því að þeir eru fjarlægir Guði. Margir taka nú við fagnaðarerindinu og gera ráðstafanir til að sættast við Guð, jafnvel í löndum þar sem flestir hafa lengi vel verið áhugalausir um boðun okkar. Gerum við okkur þá grein fyrir að nú sé tímabært að leggja okkur enn meira fram við að hvetja fólk til að „sættast við Guð“?

15. Hvaða boðskap viljum við færa fólki í stað þess að segja bara það sem það vill heyra?

15 Verkefni okkar er ekki að segja öðrum að þeir þurfi bara að snúa sér til Guðs, þá hjálpi hann þeim að leysa öll sín vandamál og þeim líði betur. Margir eru að leita eftir slíku þegar þeir fara í kirkju og kirkjan er meira en fús til að fullnægja þessari þörf. (2. Tím. 4:3, 4) En það er ekki markmiðið með boðunarstarfi okkar. Fagnaðarerindið, sem við boðum, er það að Jehóva sé í kærleika sínum fús til að fyrirgefa syndir fyrir atbeina Krists. Þannig getur fólk losnað úr þeim fjötrum sem halda því frá Guði og sæst við hann. (Rómv. 5:10; 8:32) En ,hagkvæma tíðin‘ er brátt á enda.

„Verið brennandi í andanum“

16. Hvað átti drjúgan þátt í hugrekki og eldmóði Páls?

16 Hvernig getum við þá þroskað með okkur brennandi áhuga á sannri tilbeiðslu og viðhaldið honum? Sumir eru kannski feimnir og fámálir að eðlisfari. Þeim finnst erfitt að vera opinskáir og mannblendnir. Það er hins vegar gott að hafa hugfast að eldmóður birtist ekki aðeins í því að sýna tilfinningar eða hrifningu, og hann ræðst ekki heldur af persónuleika fólks. Páll benti á hvernig við getum þroskað með okkur brennandi áhuga og viðhaldið honum þegar hann skrifaði trúsystkinum sínum: „Verið brennandi í andanum.“ (Rómv. 12:11) Andi Jehóva átti drjúgan þátt í hugrekki og seiglu postulans í boðunarstarfinu. Páll hélt ótrauður áfram frá því að Jesús kallaði hann til starfa uns hann var hnepptur í fangelsi og dó píslarvættisdauða í Róm. Þetta voru meira en 30 ár. Hann treysti alltaf á Guð sem styrkti hann með anda sínum. „Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir,“ sagði hann. (Fil. 4:13) Það er okkur til góðs að líkja eftir honum.

17. Hvernig getum við verið „brennandi í andanum“?

17 Orðið, sem er þýtt „brennandi“, merkir bókstaflega „sjóðandi“. (Kingdom Interlinear) Til að halda uppi suðu í katli þarf að kynda stöðugt undir honum. Til að vera „brennandi í andanum“ þurfum við sömuleiðis að fá stöðugan straum af anda Guðs. Til að gera það þurfum við að notfæra okkur allt sem Jehóva gerir til að styrkja okkar andlega mann. Við þurfum að hafa góða reglu á biblíunámi fjölskyldunnar, sækja safnaðarsamkomur og vera bænrækin. Það hjálpar okkur að hafa „eldinn“ sem er nauðsynlegur til að vera „brennandi í andanum“. — Lestu Postulasöguna 4:20; 18:25.

18. Að hverju ættum við sem erum vígð og skírð að einbeita okkur?

18 Sá sem helgar sig ákveðnu málefni einbeitir sér að því. Það er fátt sem getur beint athygli hans frá markmiði sínu eða dregið úr honum kjarkinn. Við sem erum vígð og skírð erum helguð því að gera allt sem Jehóva vill að við gerum, rétt eins og Jesús. (Hebr. 10:7) Það er vilji Jehóva nú á tímum að sem flestir sættist við hann. Við skulum því leggja okkur fram af brennandi áhuga, líkt og Jesús og Páll, við að gera þessu mikilvæga og áríðandi verkefni skil.

Manstu?

• Hver var ,þjónusta sáttargerðarinnar‘ sem Páli og öðrum andasmurðum kristnum mönnum var falin?

• Hvernig hafa þeir sem eru eftir af hinum andasmurðu notað vel hina ,hagkvæmu tíð‘?

• Hvernig geta kristnir boðberar verið „brennandi í andanum“?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 12]

Páll gleymdi því aldrei að Drottinn Jesús Kristur opinberaðist honum.