Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Í 1. Mósebók 6:3 stendur: „Andi minn skal ekki búa í manninum að eilífu því að hann er dauðlegur. Ævidagar hans skulu vera hundrað og tuttugu ár.“ Var Jehóva að takmarka æviskeið manna við 120 ár? Boðaði Nói flóðið í 120 ár?

Svarið við báðum spurningunum er nei.

Fyrir flóðið lifði fjöldi fólks í margar aldir. Nói var 600 ára þegar flóðið kom og hann varð 950 ára gamall. (1. Mós. 7:6; 9:29) Sumir þeirra sem fæddust eftir flóðið lifðu líka mun lengur en í 120 ár. Arpaksad lést 438 ára og Sela 433 ára. (1. Mós. 11:10-15) En á dögum Móse var æviskeið manna almennt ekki nema 70 til 80 ár. (Sálm. 90:10) Því var hvorki verið að binda hámarksaldur fólks né almennar lífslíkur við 120 ár með orðunum í 1. Mósebók 6:3.

Merkir þetta vers þá að Guð hafi sagt Nóa að vara við eyðingu sem myndi eiga sér stað 120 árum síðar? Nei, Guð talaði við Nóa við mörg tækifæri. Tíu versum síðar í frásögunni stendur eftirfarandi: „Guð sagði við Nóa:,Ég hef ákveðið endalok allra manna á jörðinni því að jörðin er full orðin af ranglæti þeirra vegna.‘“ Næstu árin lauk Nói við hið gríðarmikla verkefni sem smíði arkarinnar var. „Guð sagði við Nóa: ,Gakktu inn í örkina og allt þitt fólk.‘“ (1. Mós. 6:13; 7:1) Fleiri dæmi eru um að Jehóva hafi veitt Nóa ákveðnar upplýsingar. — 1. Mós. 8:15; 9:1, 8, 17.

En orðin í 1. Mósebók 6:3 eru öðruvísi. Þar er hvorki minnst á Nóa né sagt að Guð sé að ávarpa hann. Það má líta svo á að þetta sé einfaldlega yfirlýsing um fyrirætlun Guðs eða áform. (Samanber 1. Mósebók 8:21.) Það er athyglisvert að orðalag eins og: „Þá sagði Guð,“ má finna í frásögunni af því sem átti sér stað löngu fyrir daga Adams. (1. Mós. 1:6, 9, 14, 20, 24) Jehóva var greinilega ekki að tala við neinn á jörðinni því þetta var fyrir sköpun mannsins.

Það er því rökrétt að álykta sem svo að orðin í 1. Mósebók 6:3 láti í ljós ásetning Guðs um að binda enda á hinn spillta heim. Jehóva úrskurðaði að það yrði gert 120 árum síðar, enda þótt Nói hefði ekki enn haft vitneskju um það. Hvers vegna setti Jehóva tímamörk? Hvers vegna beið hann?

Pétur postuli bendir á nokkrar ástæður: „Guð sýndi biðlund og beið meðan örkin var í smíðum. Í henni frelsuðust fáeinar — það er átta — sálir í vatni.“ (1. Pét. 3:20) Þegar Guð fastréð þessi 120 ár var ýmislegt ógert. Um 20 árum seinna fæddist fyrsti sonur Nóa og eiginkonu hans. (1. Mós. 5:32; 7:6) Synir þeirra þrír uxu síðan úr grasi og kvæntust, þannig að fjölskyldan varð „átta sálir“. Því næst þurfti að smíða örkina sem var ekkert áhlaupaverk í ljósi þess hve stór hún var og hve fámenn fjölskylda Nóa var. Já, þolinmæði Guðs í 120 ár varð til þess að verkinu lauk og hægt var að bjarga mannslífum. Þar með „frelsuðust“ átta trúfastar manneskjur „í vatni“.

Það kemur ekki fram í Biblíunni að Jehóva hafi sagt Nóa hvaða ár flóðið kæmi. En þar sem hann eignaðist syni sem uxu úr grasi og kvæntust hafa líklega liðið 40 til 50 ár fram að flóðinu. Þá sagði Jehóva við Nóa: „Ég hef ákveðið endalok allra manna á jörðinni.“ Hann bætti við að Nói ætti að smíða gríðarmikla örk og fara inn í hana ásamt fjölskyldu sinni. (1. Mós. 6:13-18) Þá áratugi, sem eftir voru, sýndi Nói að hann var ráðvandur og til fyrirmyndar í alla staði. Auk þess þjónaði hann sem ,boðberi réttlætisins‘ og boðaði mjög beinskeytta viðvörun — að Guð hefði ákveðið að eyða öllum óguðlegum mönnum sem þá voru uppi. Nói vissi ekki löngu fyrir fram hvaða ár það myndi eiga sér stað en hann vissi að það myndi tvímælalaust gerast. Og þú veist að það rættist. — 2. Pét. 2:5.