Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hugleiddu það sem Jehóva hefur gert fyrir þig

Hugleiddu það sem Jehóva hefur gert fyrir þig

Hugleiddu það sem Jehóva hefur gert fyrir þig

STUTTU eftir að Jesús var reistur upp frá dauðum voru tveir af lærisveinum hans á ferð frá Jerúsalem til Emmaus. Í Lúkasarguðspjalli segir: „Þá bar svo við, er þeir voru að tala saman og ræða þetta, að Jesús sjálfur nálgaðist þá og slóst í för með þeim. Augu þeirra voru svo blinduð að þeir þekktu hann ekki.“ Þá sagði Jesús við þá: „,Hvað er það sem þið ræðið svo mjög á göngu ykkar?‘ Þeir námu staðar, daprir í bragði.“ Hvers vegna voru þeir daprir? Lærisveinarnir höfðu ímyndað sér að Jesús myndi þá og þegar leysa Ísraelsþjóðina undan yfirráðum heiðingja en það hafði ekki gerst. Þess í stað hafði Jesús verið líflátinn. Þess vegna voru þeir daprir. — Lúk. 24:15-21; Post. 1:6.

Jesús fór að tala um fyrir lærisveinunum. „Hann byrjaði á Móse og öllum spámönnunum og útlagði fyrir þeim það sem um hann er ritað í öllum ritningunum.“ Vissulega hafði margt mikilvægt og trústyrkjandi átt sér stað í boðunarstarfi Jesú. Með því að hlusta á útskýringar hans breyttist depurð lærisveinanna í gleði. Síðar um kvöldið sögðu þeir: „Brann ekki hjartað í okkur meðan hann talaði við okkur á veginum og lauk upp fyrir okkur ritningunum?“ (Lúk. 24:27, 32) Hvaða lærdóm getum við dregið af viðbrögðum lærisveinanna?

Hvaða áhrif hafa óuppfylltar væntingar?

Lærisveinarnir tveir á veginum til Emmaus voru daprir af því að atburðir, sem þeir væntu, höfðu ekki átt sér stað. Þeir upplifðu það sem segir í Orðskviðunum 13:12: „Löng eftirvænting gerir hjartað sjúkt.“ Sum okkar, sem hafa þjónað Jehóva dyggilega í áratugi, héldu að ,þrengingin mikla‘ yrði um garð gengin núna. (Matt. 24:21; Opinb. 7:14) Það er skiljanlegt að í bili hafi það valdið þeim depurð að væntingar þeirra skyldu bregðast.

En höfum í huga að þessir tveir lærisveinar tóku aftur gleði sína þegar Jesús hafði hjálpað þeim að hugsa um spádóma sem höfðu ræst, meira að segja á þeirra æviskeiði. Við getum haldið gleði okkar og tekist á við vonbrigði á svipaðan hátt. Michael, reyndur öldungur í söfnuðinum, komst svo að orði: „Einblínið ekki á það sem Jehóva hefur enn ekki framkvæmt. Látið heldur hugann dvelja við það sem hann hefur þegar gert.“ Þetta eru góð ráð.

Það sem Jehóva hefur gert

Við skulum líta á nokkur framúrskarandi verk sem Jehóva hefur þegar leitt til lykta. Jesús sagði: „Sá sem trúir á mig mun einnig gera þau verk sem ég geri. Og hann mun gera meiri verk en þau.“ (Jóh. 14:12) Þjónar Guðs afkasta nú meira en sannkristnir menn hafa nokkurn tíma áður gert. Meira en sjö milljónir einstaklinga hlakka til að lifa af þrenginguna miklu. Hugsaðu þér! Aldrei fyrr hafa jafn margir trúfastir þjónar Jehóva starfað í jafn mörgum löndum um heim allan. Jehóva hefur látið rætast spádómsorð Jesú um að „gera meiri verk“ en hann.

Hvað annað hefur Jehóva gert fyrir okkur? Í táknrænum skilningi hefur hann gert hjartahreinu fólki kleift að flytja út úr þessum illa heimi inn í andlegu paradísina sem hann hefur skapað (2. Kor. 12:1-4) Veltu fyrir þér sumu af því sem er innan seilingar í þeirri paradís. Skoðaðu til dæmis bókahillurnar heima hjá þér eða í ríkissalnum. Flettu í gegnum efnisskrá Varðturnsfélagsins eða skimaðu Watchtower Library á geisladiski. Hlustaðu á upptöku af biblíuleikriti. Upplifðu aftur í huganum það sem bar fyrir augu og eyru á nýliðnu móti. Hugsaðu auk þess um uppbyggilega félagsskapinn við trúsystkini okkar. Jehóva hefur sannarlega verið örlátur og séð okkur fyrir gnægð andlegrar fæðu og kærleiksríku bræðrafélagi. Hann hefur gefið okkur sanna andlega paradís.

Sálmaritarinn Davíð sagði: „Drottinn, Guð minn, mörg eru máttarverk þín og áform þín oss til handa.“ (Sálm. 40:6) Með því að hugleiða þá dásamlegu hluti sem Jehóva hefur þegar gert fyrir okkur og hugsa um hve annt honum er um okkur fáum við nýjan kraft til að standa trúföst allt til enda í einlægri þjónustu við himneskan föður okkar, Jehóva. — Matt. 24:13.

[Mynd á bls. 31]

Jesús hjálpaði lærisveinunum að láta hugann dvelja við það sem Jehóva hafði þegar gert fyrir þá.

[Myndir á bls. 32]

Upplifðu aftur í huganum það sem bar fyrir augu og eyru á nýliðnu móti.