Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig er hægt að nýta sér einhleypi sem best?

Hvernig er hægt að nýta sér einhleypi sem best?

Hvernig er hægt að nýta sér einhleypi sem best?

„Sá höndli sem höndlað fær.“ — MATT. 19:12.

1, 2. (a) Hvernig litu Jesús, Páll og fleiri á einhleypi? (b) Hvers vegna gæti sumum fundist erfitt að líta á það sem gjöf að vera einhleypir?

HJÓNABAND er tvímælalaust ein af dýrmætustu gjöfum Guðs til mannanna. (Orðskv. 19:14) En margir einhleypir kristnir menn eru líka hamingjusamir og ánægðir. Harold er 95 ára og hefur verið ógiftur alla ævi. Hann segir: „Ég hef gaman af því að vera með fólki og að bjóða öðrum heim. En ég er aldrei einmana þegar ég er einn. Ætli megi ekki segja með sanni að ég hafi fengið þá gjöf að geta verið einhleypur.“

2 Bæði Jesús Kristur og Páll postuli tala um að einhleypi sé gjöf frá Guði, ekki síður en hjónaband. (Lestu Matteus 19:11, 12; 1. Korintubréf 7:7.) En vissulega hafa ekki allir sem eru einhleypir valið það hlutskipti. Stundum eru aðstæður þannig að það er erfitt að finna sér maka við hæfi. Og sumir lenda óvænt í þeirri stöðu að vera einir eftir margra ára hjónaband, ýmist vegna skilnaðar eða vegna þess að þeir missa maka sinn. Í hvaða skilningi má þá líta á það sem gjöf að vera einhleypur? Og hvernig geta einhleypir vottar notað aðstæður sínar sem best?

Einstök gjöf

3. Hvaða kostir geta fylgt því að vera einhleypur?

3 Sá sem er einhleypur hefur oft meiri tíma og frjálsræði en gift manneskja. (1. Kor. 7:32-35) Hann getur hugsanlega nýtt sér þessar góðu aðstæður til að starfa meira í þjónustu Jehóva, sýna fleirum ást og umhyggju og styrkja tengslin við Jehóva. Margir í söfnuðinum hafa þar af leiðandi gert sér grein fyrir kostum þess að vera einhleypir og hafa ákveðið að ,höndla‘ það, að minnsta kosti um tíma. Aðrir höfðu ekki áformað að vera einhleypir en þegar aðstæður þeirra breyttust hugleiddu þeir stöðuna, ræddu hana við Jehóva í bæn og áttuðu sig á að með hjálp hans gætu þeir líka verið staðfastir í hjarta sínu. Þeir sættu sig því við breyttar aðstæður og ákváðu að nýta sér það að vera einir. — 1. Kor. 7:37, 38.

4. Hvernig vita einhleypir vottar að þeir eru verðmætur hluti af söfnuði Jehóva?

4 Einhleypir vottar vita að þeir þurfa ekki að gifta sig til að Jehóva og söfnuður hans kunni að meta þá. Kærleikur Guðs nær til okkar allra sem einstaklinga. (Matt. 10:29-31) Ekkert getur gert okkur viðskila við kærleika Guðs. (Rómv. 8:38, 39) Hvort sem við erum gift eða einhleyp ættum við að finna að við erum verðmætur hluti af söfnuði Jehóva.

5. Hvað þarf að gera til að nýta sér einhleypi sem best?

5 Einhleypi er að því leyti sambærilegt við tónlistargáfu og íþróttahæfileika að það þarf að vinna vel úr því til að nota það sem best. Hvernig geta einhleypir vottar gert það, hvort heldur um er að ræða bræður eða systur, unga eða aldna og hvort sem maður hefur sjálfur valið að vera einhleypur eða er það aðstæðna vegna? Lítum á nokkur dæmi úr kristna söfnuðinum á fyrstu öld og sjáum hvaða lærdóm má draga af þeim.

Einhleypi á yngri árum

6, 7. (a) Hvaða verkefni fengu ógiftar dætur Filippusar í þjónustu Guðs? (b) Hvernig nýtti Tímóteus sér einhleypið og hvaða blessun hlaut hann fyrir vikið?

6 Filippus trúboði átti fjórar ógiftar dætur og þær boðuðu trúna af kappi líkt og hann. (Post. 21:8, 9) Spádómsgáfa var ein af náðargáfum heilags anda og ungu konurnar notuðu þessa náðargáfu í samræmi við Jóel 3:1, 2.

7 Tímóteus var einhleypur ungur maður sem nýtti sér aðstæður sínar vel. Evnike, móðir hans, og Lóis, amma hans, kenndu honum „heilagar ritningar“ frá blautu barnsbeini. (2. Tím. 1:5; 3:14, 15) En líklega tóku þau ekki kristna trú fyrr en árið 47 eða þar um bil þegar Páll kom í fyrsta sinn til Lýstru þar sem þau bjuggu. Þegar Páll kom þangað í annað sinn tveim árum síðar var Tímóteus ef til vill kringum tvítugt. Þótt hann væri tiltölulega ungur og fremur nýr í trúnni báru safnaðaröldungarnir í Lýstru og grannborginni Íkóníum honum gott orð. (Post. 16:1, 2) Páll bauð honum því að ferðast með sér. (1. Tím. 1:18; 4:14) Ekki er vitað hvort Tímóteus var ógiftur alla ævi. Hitt vitum við að sem ungur maður tók hann boði Páls fagnandi og starfaði árum saman sem einhleypur trúboði og umsjónarmaður. — Fil. 2:20-22.

8. Hvað gerði Jóhannesi Markúsi kleift að keppa að góðum markmiðum í þjónustu Guðs og hvaða blessun hlaut hann?

8 Jóhannes Markús notaði líka tímann vel meðan hann var ungur og einhleypur. Hann tilheyrði söfnuðinum í Jerúsalem ásamt Maríu, móður sinni, og Barnabasi frænda sínum. Fjölskylda hans var líklega í góðum efnum því að þau áttu hús í borginni og voru með þjónustustúlku. (Post. 12:12, 13) En þrátt fyrir það var Markús hvorki ofdekraður né eigingjarn, ekki einu sinni sem ungmenni. Og hann stefndi ekki að því að festa ráð sitt og lifa þægilegu lífi. Líklegt er að umgengni við postulana á unga aldri hafi vakið með honum löngun til að gerast trúboði. Hann fór því fúslega með Páli og Barnabasi í fyrstu trúboðsferð þeirra og var þeim til aðstoðar. (Post. 13:5) Síðar ferðaðist hann með Barnabasi og eftir það starfaði hann með Pétri í Babýlon. (Post. 15:39; 1. Pét. 5:13) Við vitum ekki hve lengi Markús var einhleypur. Hann gat sér hins vegar gott orð fyrir að vera tilbúinn til að þjóna öðrum og gera meira í þjónustu Guðs.

9, 10. Hvaða tækifæri hefur ungt einhleypt fólk í söfnuðinum til að færa út kvíarnar í þjónustu Guðs? Nefndu dæmi.

9 Margir í söfnuðinum nú á dögum nota líka fúslega tímann meðan þeir eru ungir og einhleypir til að færa út kvíarnar í þjónustu Guðs. Þeir vita að meðan þeir eru einhleypir geta þeir „þjónað Drottni af alúð og einlægni“, rétt eins og Markús og Tímóteus. (1. Kor. 7:35) Það hefur ýmsa kosti að gera það og tækifærin eru margs konar. Hægt er að starfa sem brautryðjandi, þjóna þar sem vantar fleiri boðbera, læra annað tungumál, aðstoða við að byggja ríkissali eða deildarskrifstofur, sækja Þjónustuþjálfunarskólann og starfa á Betel. Notarðu tækifærin sem best þú getur meðan þú ert ungur og ógiftur?

10 Mark gerðist brautryðjandi fyrir tvítugt, sótti Þjónustuþjálfunarskólann og hefur starfað að ýmsum verkefnum víða um heim. Eftir að hafa þjónað í fullu starfi í aldarfjórðung segir hann: „Ég hef reynt að sinna öllum í söfnuðinum, farið með þeim í boðunarstarfið, farið í hirðisheimsóknir til þeirra, boðið þeim heim í mat og kallað fólk saman til að eiga andlega uppbyggilegar samverustundir. Ég hef haft mikla ánægju af öllu þessu.“ Eins og orð Marks bera með sér er fátt ánægjulegra en að gefa af sjálfum sér, og þegar við leggjum okkur öll fram í heilagri þjónustu bjóðast ótal tækifæri til þess. (Post. 20:35) Það er alltaf nóg fyrir ungt fólk að gera í verki Drottins, óháð áhugamálum, kunnáttu og lífsreynslu. — 1. Kor. 15:58.

11. Hvaða kostir fylgja því að flýta sér ekki um of að ganga í hjónaband?

11 Flest ungt fólk langar til að ganga í hjónaband þegar fram líða stundir, en það er full ástæða til að flýta sér ekki um of. Páll hvetur ungt fólk til að bíða að minnsta kosti þangað til „æskublóminn“ er liðinn hjá, sá tími þegar kynhvötin er sem sterkust. (1. Kor. 7:36, NW) Það tekur sinn tíma að kynnast sjálfum sér og öðlast þá lífsreynslu sem þarf til að velja sér maka við hæfi. Það er alvarleg ákvörðun að gefa hjúskaparheit enda er það ævilöng skuldbinding. — Préd. 5:2-5.

Einhleypi síðar á ævinni

12. (a) Hvernig tókst Anna á við breyttar aðstæður þegar hún varð ekkja? (b) Hvaða blessun hlaut hún?

12 Í Lúkasarguðspjalli er sagt frá Önnu sem missti manninn eftir aðeins sjö ára hjónaband. Það hefur eflaust hryggt hana mjög. Við vitum ekki hvort þau áttu einhver börn eða hvort hún íhugaði einhvern tíma að giftast aftur. Í Biblíunni kemur fram að hún hafi enn verið ekkja þegar hún var 84 ára. Af orðum Biblíunnar má ráða að Anna hafi notað breyttar aðstæður sínar til að styrkja sambandið við Jehóva. „Hún vék eigi úr helgidóminum en þjónaði Guði nótt og dag með föstum og bænahaldi.“ (Lúk. 2:36, 37) Tilbeiðslan á Jehóva var greinilega í fyrirrúmi hjá henni. Hún þjónaði honum staðfastlega og hlaut ríkulega umbun erfiðis síns. Hún fékk að sjá Jesú sem ungbarn og segja öðrum frá frelsuninni sem Messías myndi koma til leiðar. — Lúk. 2:38.

13. (a) Hvað bendir til þess að Dorkas hafi tekið fullan þátt í safnaðarstarfinu? (b) Hvernig var Dorkasi umbunað fyrir góðverk sín?

13 Dorkas, öðru nafni Tabíþa, bjó í Joppe sem var forn hafnarborg norðvestur af Jerúsalem. Ekki er minnst á eiginmann hennar í Biblíunni þannig að hún var líklega einhleyp á þeim tíma. Dorkas var „mjög góðgerðasöm og örlát við snauða“. Hún bjó til föt handa þurfandi ekkjum og fleirum og var þeim þess vegna mjög kær. Þegar hún veiktist skyndilega og dó sendi allur söfnuðurinn eftir Pétri og sárbændi hann um að reisa þessa ástfólgnu systur upp frá dauðum. Margir tóku trú þegar fréttist af upprisu hennar í Joppe. (Post. 9:36-42) Vera má að sumir þeirra hafi notið góðs af einstakri góðvild Dorkasar.

14. Hvað er einhleypum þjónum Guðs hvatning til að nálægja sig honum?

14 Margir í söfnuðinum nú á dögum eru einhleypir þegar á líður, líkt og þær Anna og Dorkas. Sumir hafa kannski ekki fundið maka sér við hæfi en aðrir eru fráskildir eða hafa misst maka sinn. Þar sem þeir eiga ekki maka til að halla sér að læra þeir að reiða sig enn meira á Jehóva. (Orðskv. 16:3) Silvia hefur þjónað á Betel í meira en 38 ár. Hún lítur á það sem blessun að vera einhleyp. „Stundum leiðist mér að þurfa að vera sterki aðilinn,“ segir hún. „Ég spyr mig hver eigi að uppörva mig.“ En síðan bætir hún við: „Ég treysti að Jehóva viti betur en ég hvers ég þarfnast, og það styrkir tengsl mín við hann. Og alltaf fæ ég uppörvun, stundum úr óvæntri átt.“ Jehóva er alltaf hlýr og hughreystandi þegar við nálægjum okkur honum.

15. Hvernig geta ógiftir vottar ,látið verða rúmgott hjá sér‘?

15 Þeir sem eru einhleypir eru í góðri aðstöðu til að ,láta verða rúmgott hjá sér‘ hvað varðar kærleikann. (Lestu 2. Korintubréf 6:11-13.) Jolene er einhleyp og á að baki 34 ára þjónustu í fullu starfi. Hún segir: „Ég hef lagt mig fram um að tengjast öðrum sterkum vináttuböndum, ekki aðeins fólki á mínum aldri heldur alls konar fólki. Einhleypi býður upp á mikla möguleika til að þjóna Jehóva og sinna ættingjum sínum, trúsystkinum og náunganum. Því eldri sem ég verð því ánægðari verð ég með það að vera einhleyp.“ Aldraðir, sjúkir, unglingar, einstæðir foreldrar og aðrir í söfnuðinum kunna vel að meta óeigingjarnan stuðning hinna einhleypu. Þegar við sýnum öðrum kærleika líður okkur alltaf betur. Getur þú líka ,látið verða rúmgott hjá þér‘ með því að sýna fleirum ást og umhyggju?

Ævilangt einhleypi

16. (a) Af hverju var Jesús ógiftur til æviloka? (b) Hvernig notfærði Páll sér það vel að vera einhleypur?

16 Jesús kvæntist aldrei. Hann þurfti að búa sig undir og inna af hendi þá þjónustu sem honum var falin. Hann ferðaðist mikið og var að myrkranna á milli. Að lokum færði hann líf sitt að fórn. Einhleypið auðveldaði honum að gera hlutverki sínu skil. Páll postuli ferðaðist þúsundir kílómetra og mátti þola margs konar þrengingar í starfi sínu. (2. Kor. 11:23-27) Vera má að hann hafi verið kvæntur fyrr á ævinni en eftir að hann fékk það verkefni að vera postuli kaus hann að vera einhleypur. (1. Kor. 7:7; 9:5) Bæði Jesús og Páll hvöttu aðra til að líkja eftir sér í þágu boðunarstarfsins eftir því sem þeir hefðu tök á. En hvorugur þeirra setti það skilyrði að þjónar Guðs væru ógiftir. — 1. Tím. 4:1-3.

17. Hvernig hafa sumir fetað í fótspor Jesú og Páls, og af hverju getum við treyst að Jehóva kunni vel að meta þá sem færa slíkar fórnir?

17 Á okkar dögum hafa margir líka ákveðið að vera einhleypir til að geta sinnt þjónustunni betur. Harold, sem áður er getið, hefur verið á Betel í meira en 56 ár. „Eftir tíu ár á Betel,“ segir hann, „hafði ég séð mörg hjón hætta þar vegna veikinda eða til að annast aldrað foreldri. Ég var búinn að missa báða foreldra mína. En ég naut þess svo að starfa á Betel að ég vildi ekki stofna því í hættu með því að gifta mig.“ Margaret var búin að vera brautryðjandi árum saman þegar hún sagði: „Ég fékk svo sem tækifæri til að giftast en ég lét aldrei verða af því. Ég notfærði mér frjálsræðið sem fylgdi því að vera ógift til að vera önnum kafin í boðunarstarfinu, og ég hef haft ómælda ánægju af því.“ Jehóva gleymir engum sem færir óeigingjarnar fórnir sem þessar í þágu sannrar tilbeiðslu. — Lestu Jesaja 56:4, 5.

Nýttu þér aðstæður þínar sem best

18. Hvernig getum við stutt og hvatt einhleyp trúsystkini okkar?

18 Allir ógiftir vottar, sem gera sitt besta í þjónustu Jehóva, eiga skilið einlægt hrós okkar og hvatningu. Okkur þykir innilega vænt um þá og kunnum sannarlega að meta allt sem þeir gera í þágu safnaðarins. Þeir þurfa aldrei að vera einmana ef við reynumst þeim „bræður og systur, mæður [og] börn“ í trúnni. — Lestu Markús 10:28-30.

19. Hvað geturðu gert til að nýta þér einhleypið sem best?

19 Hvort sem þú ert einhleypur að eigin vali eða bara aðstæðna vegna vonum við að þessar frásögur Biblíunnar og dæmi úr nútímanum fullvissi þig um að þú getir verið hamingjusamur og lifað innihaldsríku lífi. Sumar gjafir eru þess eðlis að við bíðum spennt eftir þeim en aðrar koma algerlega á óvart. Sumar kunnum við að meta þegar í stað en aðrar lærum við að meta með tímanum. Það ræðst að miklu leyti af hugarfari okkar. Hvað geturðu gert til að nýta þér einhleypið sem best? Styrktu tengslin við Jehóva, vertu önnum kafinn í þjónustu hans og ,láttu verða rúmgott hjá þér‘ með því að sýna fleirum ást og umhyggju. Einhleypi getur verið gefandi ekki síður en hjónaband ef við horfum á það frá sjónarhóli Guðs og notum það skynsamlega.

Manstu?

• Að hvaða leyti getur það verið góð gjöf að vera einhleypur?

• Hvernig getur það verið blessun að vera einhleypur á yngri árum?

• Hvað geta einhleypir vottar gert til að styrkja tengslin við Jehóva og sýna fleirum ást og umhyggju?

[Spurningar]

[Myndir á bls. 18]

Nýtirðu þér sem best þau tækifæri sem þú hefur í þjónustu Guðs?