Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kraftur til að berjast gegn freistingum og depurð

Kraftur til að berjast gegn freistingum og depurð

Kraftur til að berjast gegn freistingum og depurð

„Þér munuð öðlast kraft er heilagur andi kemur yfir yður.“ — POST. 1:8.

1, 2. Hvaða hjálp lofaði Jesús að veita lærisveinunum og af hverju var hennar þörf?

JESÚS vissi að lærisveinar hans gætu ekki í eigin krafti haldið allt sem hann hafði boðið þeim að gera. Sökum þess hve boðunarstarfið yrði umfangsmikið, andstæðingarnir öflugir og holdið veikt var deginum ljósara að þeir þurftu að fá ofurmannlegan kraft. Þess vegna lofaði Jesús lærisveinunum rétt áður en hann steig upp til himna: „Þér munuð öðlast kraft er heilagur andi kemur yfir yður og þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar.“ — Post. 1:8.

2 Þetta fyrirheit byrjaði að rætast á hvítasunnu árið 33 þegar fylgjendur Jesú Krists fengu kraft heilags anda til að fylla Jerúsalem með boðskap sínum. Andstæðingar gátu ekki stöðvað boðunina. (Post. 4:20) Allir trúir fylgjendur Jesú, við líka, myndu þurfa að fá þennan sama kraft frá Guði „alla daga allt til enda veraldar“. — Matt. 28:20.

3. (a) Lýstu muninum á heilögum anda og krafti. (b) Hvað getum við gert vegna þess að Jehóva veitir okkur kraft?

3 Jesús lofaði lærisveinunum að ,þeir myndu öðlast kraft þegar heilagur andi kæmi yfir þá‘. Orðin „kraftur“ og „andi“ hafa hvort sína merkingu. Andi Guðs, starfskraftur hans, er sú orka sem hann beitir og notar til að hafa áhrif á fólk eða hluti og hrinda vilja sínum í framkvæmd. Kraftur er aftur á móti afl sem getur valdið breytingu eða haft áhrif. Hann getur legið í dvala í fólki eða hlutum uns hans er þörf til að ná fram ákveðinni niðurstöðu. Það má líkja heilögum anda við rafstraum sem hleður hleðslurafhlöðu og krafti við orkuna sem er geymd í rafhlöðunni. Krafturinn, sem Jehóva veitir þjónum sínum fyrir atbeina heilags anda, gerir að verkum að við erum öll fær um að halda vígsluheit okkar og standast skaðleg áhrif þegar þess gerist þörf. — Lestu Míka 3:8; Kólossubréfið 1:29.

4. Um hvað er fjallað í þessari námsgrein og af hverju?

4 Hvernig birtist krafturinn sem heilagur andi gefur okkur? Hvers konar verk eða viðbrögð getur heilagur andi kallað fram? Þegar við reynum að þjóna Jehóva í trúfesti verða margar hindranir á vegi okkar, annaðhvort af völdum Satans, heimsins sem hann stjórnar eða ófullkomleikans sem býr í okkur. Það er mikilvægt að yfirstíga þessar hindranir til að halda ótrauð áfram að lifa sem kristnir menn, taka reglulega þátt í boðunarstarfinu og viðhalda góðu sambandi við Jehóva. Við skulum nú kanna hvernig heilagur andi hjálpar okkur að standast freistingar og takast á við þreytu og depurð.

Kraftur til að berjast gegn freistingum

5. Hvernig getur bænin veitt okkur kraft?

5 Jesús kenndi fylgjendum sínum að biðja: „Eigi leið þú oss í freistni heldur frelsa oss frá hinum vonda.“ (Matt. 6:13, neðanmáls) Jehóva snýr ekki baki við trúum þjónum sínum sem biðja hann um þetta. Við annað tækifæri sagði Jesús að faðirinn himneski myndi „gefa þeim heilagan anda sem biðja hann“. (Lúk. 11:13) Það er hughreystandi að Jehóva skuli lofa að styrkja okkur með þessum hætti til að gera rétt. Þetta þýðir auðvitað ekki að Jehóva komi í veg fyrir að freistingar verði á vegi okkar. (1. Kor. 10:13) Þegar við verðum fyrir freistingum er hins vegar ástæða til að biðja sem heitast. — Matt. 26:42.

6. Á hverju byggði Jesús svör sín þegar Satan freistaði hans?

6 Jesús vitnaði í Ritninguna þegar Satan freistaði hans. Augljóst er að orð Guðs var honum efst í huga þegar hann svaraði: „Ritað er . . . Aftur er ritað . . . Vík brott, Satan! Ritað er: Drottin, Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.“ Jesús elskaði Jehóva og orð hans, og hafnaði þar af leiðandi freistingum Satans. (Matt. 4:1-10) Satan fór burt eftir að Jesús hafði staðist freistingar hans aftur og aftur.

7. Hvernig hjálpar Biblían okkur að standast freistingar?

7 Jesús reiddi sig á Ritninguna til að geta staðist freistingar Satans. Við þurfum ekki síður að gera það. Til að geta staðið gegn Satan og útsendurum hans þurfum við að vera ákveðin í að þekkja meginreglur Guðs og fylgja þeim í einu og öllu. Margir hafa fundið hjá sér hvöt til að lifa eftir meginreglum Guðs þegar þeir kynntu sér Biblíuna og lærðu að meta visku og réttlæti Guðs. „Orð Guðs“ er kröftugt og getur dregið fram „hugsanir og hugrenningar hjartans“. (Hebr. 4:12) Því meir sem við lesum og íhugum Biblíuna því meir getum við ,öðlast visku af sannleika Jehóva‘. (Dan. 9:13) Þar af leiðandi ættum við að hugleiða ritningarstaði sem fjalla um okkar eigin veikleika.

8. Hvað getum við gert til að fá heilagan anda?

8 Jesús stóðst ekki aðeins freistingar vegna þess að hann þekkti Ritninguna heldur líka vegna þess að hann var „fullur af heilögum anda“. (Lúk. 4:1) Til að fá sams konar styrk og hann þurfum við að eiga náið samband við Jehóva og notfæra okkur til hins ýtrasta allar leiðir sem hann notar til að fylla okkur anda sínum. (Jak. 4:7, 8) Þetta eru meðal annars biblíunám, bænir og samvistir við trúsystkini. Margir gera sér einnig grein fyrir gildi þess að vera önnum kafnir í þjónustu Guðs. Það hjálpar þeim að hafa hugann við það sem er andlegt og uppbyggilegt.

9, 10. (a) Nefndu dæmi um algengar freistingar sem kristnir menn verða fyrir. (b) Hvernig getur bæn og hugleiðing gefið okkur kraft til að standast freistingar, einnig þegar við erum þreytt?

9 Hvaða freistingar þarft þú að standast? Hefur þér einhvern tíma þótt freistandi að daðra við einhvern annan en maka þinn? Ef þú ert ekki í hjónabandi hefur þig þá einhvern tíma langað til að þiggja boð um stefnumót við manneskju sem er ekki vottur? Þegar kristinn maður horfir á sjónvarp eða vafrar um Netið getur snögglega komið upp freisting til að horfa á siðspillandi efni. Hefurðu lent í því? Hvernig brástu þá við? Það er skynsamlegt að ígrunda hvernig eitt víxlspor getur leitt af sér annað og að lokum leitt mann út í alvarlega synd. (Jak. 1:14, 15) Hugleiddu hvernig þú myndir særa Jehóva, söfnuðinn og fjölskyldu þína ef þú syndgaðir alvarlega. Það veitir manni hins vegar hreina samvisku að vera trúr meginreglum Guðs. (Lestu Sálm 119:37; Orðskviðina 22:3.) Þegar slíkar freistingar verða á vegi þínum skaltu alltaf vera ákveðinn í að biðja um styrk til að standast þær.

10 Við þurfum að hafa annað í huga varðandi freistingarnar sem Satan lagði fyrir Jesú. Satan kom til hans þegar hann var búinn að fasta í 40 daga í eyðimörkinni. Satan hugsaði eflaust sem svo að nú væri kjörið tækifæri til að láta reyna á ráðvendni Jesú. Satan leitar líka að hentugu tækifæri til að reyna ráðvendni okkar. Það er því mikilvægt að halda okkur andlega sterkum. Satan gerir oft árás þegar hann veit að varnir okkar eru veikar. Þegar við erum þreytt eða döpur er þeim mun meiri ástæða til að vera ákveðin í að biðja Jehóva innilega að hjálpa okkur og vernda með heilögum anda sínum. — 2. Kor. 12:8-10.

Kraftur til að berjast gegn þreytu og depurð

11, 12. (a) Af hverju eru margir niðurdregnir? (b) Hvernig getum við fengið kraft til að berjast gegn depurð?

11 Við erum ófullkomin og verðum stundum niðurdregin. Það er sennilega algengara en áður vegna alls álagsins sem fylgir lífinu núna. Við lifum líklega erfiðustu tíma sem mannkynið í heild hefur nokkru sinni upplifað. (2. Tím. 3:1-5) Fjárhagsvandræði, tilfinningalegt álag og aðrir erfiðleikar færast í aukana eftir því sem dregur nær Harmagedón. Það ætti því ekki að koma neinum á óvart að sumum skuli finnast æ erfiðara að annast fjölskyldur sínar og sjá þeim farborða. Þeir eru lúnir, uppgefnir, útkeyrðir og jafnvel örmagna. Hvernig geturðu tekist á við álagið ef þér líður þannig?

12 Mundu að Jesús fullvissaði lærisveinana um að hann myndi senda þeim hjálpara, það er að segja heilagan anda Guðs. (Lestu Jóhannes 14:16, 17.) Andi Guðs er sterkasta afl í alheiminum. Með honum getur Jehóva veitt okkur styrk „langt fram yfir allt það sem vér biðjum eða skynjum“, svo að við getum staðist hvaða prófraun sem er. (Ef. 3:20) Ef við reiðum okkur á hann fáum við ,kraftinn mikla‘, sagði Páll postuli, jafnvel þó að við séum ,aðþrengd á alla vegu‘. (2. Kor. 4:7, 8) Jehóva lofar ekki að létta af okkur álaginu heldur fullvissar okkur um að hann gefi okkur styrk fyrir atbeina anda síns til að standast það. — Fil. 4:13.

13. (a) Segðu frá ungri konu sem hefur fengið kraft til að takast á við erfiðar aðstæður. (b) Veistu af öðrum sambærilegum dæmum?

13 Stephanie er 19 ára brautryðjandi. Tólf ára fékk hún heilablæðingu og greindist þá með heilaæxli. Síðan hefur hún gengist undir tvær skurðaðgerðir, farið í geislameðferð og tvívegis fengið heilablæðingu. Hún hefur þar af leiðandi takmarkaða hreyfigetu vinstra megin og er sjónskert. Stephanie þarf að spara kraftana til að sinna því sem henni finnst mikilvægast, svo sem að sækja samkomur og boða fagnaðarerindið. En hún finnur fyrir styrk frá Jehóva sem hjálpar henni á ýmsa vegu. Biblíutengd rit með frásögum af öðrum vottum hafa uppörvað hana þegar hún hefur verið niðurdregin. Bræður og systur hafa stutt hana með því að skrifa henni og með því að rabba við hana og hvetja hana fyrir og eftir samkomur. Áhugasamir hafa einnig sýnt að þeir kunni að meta það sem hún kennir þeim með því að koma heim til hennar til að fá biblíufræðslu. Stephanie er Jehóva innilega þakklát fyrir allt þetta. Uppáhaldsritningarstaðurinn hennar er Sálmur 41:4 og henni finnst hann hafa ræst á sér.

14. Hvað þurfum við að forðast þegar við erum niðurdregin og hvers vegna?

14 Þegar við erum þreytt eða undir álagi megum við aldrei hugsa sem svo að leiðin til að draga úr álaginu sé að láta andlegu málin mæta afgangi. Það er það versta sem við getum gert. Hvers vegna? Vegna þess að þegar við stundum sjálfsnám og fjölskyldunám, og þegar við förum í boðunarstarfið og sækjum samkomur fáum við endurnærandi anda Guðs. Það er alltaf hressandi að stunda trúna. (Lestu Matteus 11:28, 29.) Oft koma bræður og systur þreytt og uppgefin á samkomur en eru mun hressari þegar þau snúa heim. Það er eins og þau hafi fengið nýjan kraft. Þau hafa „hlaðið batteríin“.

15. (a) Lofar Jehóva að það sé fyrirhafnarlaust að vera kristinn? Skýrðu svarið með vísun í Biblíuna. (b) Hverju lofar Guð og hvaða spurningu vekur það?

15 Það er auðvitað ekki þar með sagt að það kosti enga áreynslu að vera lærisveinn Krists. Við þurfum að leggja eitthvað á okkur til að vera trúföst. (Matt. 16:24-26; Lúk. 13:24) Jehóva getur hins vegar gefið þreyttum kraft með heilögum anda sínum. „Þeir sem vona á Drottin fá nýjan kraft,“ skrifaði Jesaja spámaður. „Þeir fljúga upp á vængjum sem ernir, þeir hlaupa og lýjast ekki, þeir ganga og þreytast ekki.“ (Jes. 40:29-31) Fyrst svo er ættum við að spyrja okkur hvað valdi því í raun og veru að okkur finnst þjónustan við Guð íþyngjandi.

16. Hvað getum við gert til að losa okkur við það sem þreytir okkur eða dregur niður?

16 Í orði Jehóva erum við hvött til að ,meta þá hluti rétt sem máli skipta‘. (Fil. 1:10) Páll postuli líkir lífsskeiði kristins manns við langhlaup og leggur síðan til að við „léttum . . . af okkur allri byrði . . . og þreytum þolgóð það skeið sem við eigum fram undan“. (Hebr. 12:1) Kjarni málsins er sá að við þurfum að forðast óþarfar byrðar, það er að segja allt sem gæti íþyngt okkur í öllu annríkinu. Vera má að sum okkar ætli sér hreinlega of mikið. Ef þú ert oft þreyttur og þér finnst álagið mikið gæti verið gott fyrir þig að skoða hve erfið vinnan er, hve oft þú ferðast þér til skemmtunar og hve ákaft þú stundar íþróttir og aðra afþreyingu. Ef við erum skynsöm og hógvær viðurkennum við takmörk okkar og gætum þess að bæta ekki á okkur óþarfa byrðum.

17. Af hverju gætu sumir verið niðurdregnir en hverju lofar Jehóva í því sambandi?

17 Vera má að sumir á meðal okkar séu líka örlítið niðurdregnir út af því að þessi illi heimur hefur staðið lengur en þeir bjuggust við. (Orðskv. 13:12) Fyrir þá sem er þannig innanbrjósts getur verið uppörvandi að lesa Habakkuk 2:3. Þar segir: „Spáð er fyrir um ákveðinn tíma, traustur vitnisburður gefinn um ókomna tíð. Þótt töf verði á skaltu bíða engu að síður því að þetta rætist vissulega og án tafar.“ Við höfum loforð Jehóva fyrir því að þetta heimskerfi líði undir lok nákvæmlega á tilsettum tíma.

18. (a) Hvaða fyrirheit styrkja þig? (b) Um hvað er fjallað í næstu grein?

18 Allir trúir þjónar Jehóva þrá þann dag þegar þreyta og depurð verða liðin tíð og allir fyllast „æskuþrótti“. (Job. 33:25) Og við getum nú þegar fyllst krafti innra með okkur fyrir atbeina heilags anda með því að stunda trúna. Það er bæði hressandi og endurnærandi. (2. Kor. 4:16; Ef. 3:16) Láttu ekki þreytu verða til þess að þú missir af eilífri blessun Jehóva. Allar prófraunir, hvort sem þær stafa af freistingum, þreytu eða depurð, taka enda, ef ekki þegar í stað þá í nýjum heimi Guðs. Í námsgreininni á eftir könnum við hvernig heilagur andi gefur kristnum mönnum kraft til að standast bæði ofsóknir, skaðlegan hópþrýsting og ýmiss konar annað mótlæti.

Hvert er svarið?

• Hvernig veitir það okkur kraft að lesa í Biblíunni?

• Hvernig geta bænir og hugleiðing veitt okkur kraft?

• Hvernig geturðu losað þig við byrðar sem gætu gert þig niðurdreginn?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 24]

Samkomurnar geta veitt okkur nýjan kraft.