Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kraftur til að standast allar prófraunir

Kraftur til að standast allar prófraunir

Kraftur til að standast allar prófraunir

„Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir.“ — FIL. 4:13.

1. Hvers vegna verða þjónar Jehóva fyrir margs konar mótlæti?

ÞJÓNAR Jehóva hafa kynnst mótlæti af ýmsu tagi. Sumar prófraunirnar stafa af ófullkomleika sjálfra okkar eða þær má rekja til heimsins sem við búum í. Aðrar stafa af þeim fjandskap sem ríkir milli þeirra sem þjóna Guði og hinna sem þjóna honum ekki. (1. Mós. 3:15) Allt frá því að sögur hófust hefur Guð hjálpað trúum þjónum sínum að standast trúarofsóknir, skaðlegan hópþrýsting og annað mótlæti. Heilagur andi hans getur einnig gefið okkur kraft til þess.

Hjálp til að standast trúarofsóknir

2. Hvert er markmiðið með trúarofsóknum og í hvaða myndum geta þær birst?

2 Með trúarofsóknum er átt við áreitni eða líkamsmeiðingar sem fólk er beitt vegna trúar sinnar. Markmiðið með þeim er að útrýma ákveðnum trúarskoðunum, koma í veg fyrir að þær breiðist út eða gera fólk afhuga trúnni. Ofsóknir geta birst í ýmsum myndum, bæði beinum árásum og lævísum brögðum. Í Biblíunni er árásum Satans bæði líkt við aðferðir ljóns og nöðru. — Lestu Sálm 91:13.

3. Hvernig líkjast árásir Satans aðferðum ljónsins og nöðrunnar?

3 Satan hegðar sér oft eins og grimmt ljón og gerir beinar árásir með ofbeldi, fangelsun eða bönnum. (Sálm. 94:20) Í árbókunum þar sem segir frá starfsemi Votta Jehóva nú á dögum má finna fjölmargar frásagnir af slíkum árásum. Löglaus múgur, stundum undir forystu presta eða pólitískra öfgamanna, hefur oft á tíðum misþyrmt þjónum Guðs. Fáeinir hafa guggnað og hætt að þjóna Jehóva þegar þeir hafa orðið fyrir beinum árásum. Satan gerir einnig árásir úr launsátri, rétt eins og lævís naðra. Þá er markmiðið að eitra hugi fólks og blekkja það svo að það fari að vilja hans. Árásum af þessu tagi er ætlað að veikja okkur í trúnni svo að við látum undan. En með hjálp heilags anda Guðs getum við staðist, hvorri aðferðinni sem Satan beitir.

4, 5. Hvernig er best að búa sig undir ofsóknir og af hverju? Lýstu með dæmi.

4 Ef við viljum búa okkur undir ofsóknir gerum við það ekki með því að reyna að ímynda okkur alls konar aðstæður sem við gætum hugsanlega lent í. Það er hreinlega ómögulegt fyrir okkur að vita hvað framtíðin ber í skauti sínu þannig að við græðum lítið á því að gera okkur áhyggjur af því sem gerist kannski aldrei. En eitt getum við gert. Flestir sem hafa staðist ofsóknir hafa gert það með því að hugleiða breytni ráðvandra þjóna Guðs sem sagt er frá í Biblíunni, og með því að íhuga kenningar Jesú og fordæmi hans. Þannig hefur kærleikur þeirra til Jehóva orðið sterkari. Og kærleikurinn hjálpaði þeim síðan að standast allar prófraunir sem urðu á vegi þeirra.

5 Tökum sem dæmi tvær trúsystur okkar í Malaví. Æstur múgur reyndi að þvinga þær til að kaupa flokksskírteini í stjórnmálaflokki. Þeim var misþyrmt, þær voru flettar klæðum og þeim hótað nauðgun. Múgurinn laug því til að allir í Betelfjölskyldunni hefðu meira að segja keypt skírteini. Systurnar svöruðu þá: „Við þjónum engum nema Jehóva Guði. Það breytir engu fyrir okkur þótt bræðurnir á deildarskrifstofunni hafi keypt skírteini. Við látum ekki undan, jafnvel þótt þið drepið okkur.“ Þegar systurnar tóku þessa einörðu afstöðu var þeim sleppt.

6, 7. Hvernig gefur Jehóva þjónum sínum kraft til að standast ofsóknir?

6 Páll postuli nefnir að „þrátt fyrir mikla þrengingu“ hafi kristnir menn í Þessaloníku tekið við sannleikanum „með fögnuði sem heilagur andi gefur“. (1. Þess. 1:7) Margir kristnir menn, sem hafa staðist ofsóknir bæði fyrr og nú, segja frá því að þeir hafi upplifað innri frið þegar ofsóknirnar stóðu sem hæst. Þessi friður er einn af ávöxtum heilags anda Guðs og stuðlar að því að varðveita hjörtu þeirra og hugsanir. (Gal. 5:22) Jehóva beitir sem sagt starfskrafti sínum til að gefa þjónum sínum kraft til að standast prófraunir og til að breyta viturlega í mótlæti. *

7 Fólk hefur oft undrast hve einbeittir þjónar Guðs eru að hlýða honum, jafnvel í grimmilegum ofsóknum. Það er engu líkara en vottarnir hafi ofurmannlegan kraft, og sú er reyndar raunin. Pétur postuli segir: „Sæl eruð þið þegar menn smána ykkur vegna nafns Krists. Andi dýrðarinnar, andi Guðs, hvílir þá yfir ykkur.“ (1. Pét. 4:14) Að við skulum vera ofsótt fyrir að fylgja réttlátum reglum Guðs er merki um að við höfum velþóknun hans. (Matt. 5:10-12; Jóh. 15:20) Það er ákaflega gleðilegt að fá slíka sönnun fyrir því að við höfum blessun Jehóva.

Hjálp til að standast hópþrýsting

8. (a) Hvað gerði Jósúa og Kaleb kleift að standast hópþrýsting? (b) Hvaða lærdóm má draga af breytni Jósúa og Kalebs?

8 Skaðlegur hópþrýstingur er dæmi um lúmska mótstöðu sem við þurfum að standast. En þar sem andi Jehóva er miklu sterkari en andi heimsins getum við staðið gegn þeim sem hæðast að okkur og þeim sem útbreiða ósannindi um okkur eða reyna að þvinga okkur til að fylgja sínum viðmiðum. Hvað gerði þeim Jósúa og Kaleb kleift að vera ósammála hinum njósnurunum tíu sem sendir voru inn í Kanaansland? Það var heilagur andi sem vakti með þeim annan „anda“ eða hugarfar. — Lestu 4. Mósebók 13:30; 14:6-10, 24.

9. Af hverju þurfa kristnir menn að vera reiðubúnir til að skera sig úr fjöldanum?

9 Heilagur andi gerði líka postulum Jesú kleift að hlýða Guði frekar en þeim sem margir virtu og litu á sem kennara sannrar trúar. (Post. 4:21, 31; 5:29, 32) Flestir kjósa að fylgja fjöldanum til að forðast ágreining eða árekstra. Sannkristnir menn þurfa hins vegar oft að taka afstöðu með því sem þeir vita að er rétt. En þeir eru óhræddir við að skera sig úr fjöldanum, þökk sé þeim krafti sem andi Guðs veitir þeim. (2. Tím. 1:7) Skoðum eitt svið þar sem við megum ekki láta undan hópþrýstingi.

10. Í hvaða klípu geta sumir í söfnuðinum lent?

10 Unglingar geta lent í klípu ef þeir uppgötva að vinur þeirra hefur gert eitthvað sem stangast á við Biblíuna. Þeim finnst kannski að þeir brjóti einhver óskrifuð lög um þagnarskyldu ef þeir biðja öldungana að hjálpa vininum. Þeir halda ef til vill að þeir sýni hollustu með því að segja ekki frá. Hinn brotlegi þrýstir kannski líka á vin sinn um að leyna syndinni. Þessi vandi er auðvitað ekki bundinn við unga fólkið. Fullorðnir eiga stundum erfitt með að segja öldungunum frá ef vinur eða ættingi gerir eitthvað rangt. En hvernig ættu sannkristnir menn að bregðast við slíkum þrýstingi?

11, 12. Hvað er best að gera ef einhver í söfnuðinum hvetur þig til að þegja yfir rangri breytni sinni og hvers vegna?

11 Hugsum okkur tvo unga bræður í söfnuðinum, þá Axel og Stefán, vin hans. Setjum sem svo að Axel komist að raun um að Stefán leggi í vana sinn að horfa á klám. Axel segir Stefáni að hann hafi miklar áhyggjur af þessu. En Stefán lætur sem ekkert sé. Þegar Axel hvetur vin sinn til að ræða málið við öldungana svarar Stefán því til að ef þeir séu vinir í alvöru kjafti hann ekki frá. Ætti Axel að óttast að eyðileggja vináttuna? Hann veltir kannski fyrir sér hvorum þeirra öldungarnir muni trúa ef Stefán neitar öllu. En það er engum til góðs að Axel þegi um málið. Það gæti orðið til þess að Stefán glataði sambandinu við Jehóva. Axel ætti að hafa hugfast að „ótti við menn leiðir í snöru en þeim er borgið sem treystir Drottni“. (Orðskv. 29:25) Hvað annað gæti Axel að gert? Hann gæti talað við Stefán á nýjan leik og reynt að tala um fyrir honum. Það þarf hugrekki til. En það getur vel farið svo að nú sé Stefán þakklátur fyrir að fá tækifæri til að ræða um vandamál sitt. Axel ætti að hvetja Stefán aftur til að tala við öldungana og segja honum að ef hann sé ekki búinn að því innan skynsamlegra tímamarka geri hann það sjálfur. — 3. Mós. 5:1.

12 Ef þú þarft einhvern tíma að takast á við svona mál er óvíst að vinur þinn kunni að meta hjálp þína í fyrstu. En með tímanum áttar hann sig kannski á að þú berð hag hans fyrir brjósti. Ef hinn brotlegi fær hjálp og þiggur hana má vel vera að hann verði þér ævinlega þakklátur fyrir hugrekkið og hollustuna. Ef hann er hins vegar forhertur er ástæða til að spyrja hvort þú viljir eiga svona vini. Það er alltaf rétt að þóknast mesta vini sínum, Jehóva. Þeir sem elska hann virða okkur þá fyrir hollustuna og verða sannir vinir okkar. Við skulum aldrei gefa Satan nokkurt færi í söfnuðinum. Ef við gerðum það myndum við hryggja heilagan anda Jehóva. Við vinnum hins vegar með anda Guðs ef við leggjum okkar af mörkum til að halda söfnuðinum hreinum. — Ef. 4:27, 30.

Kraftur til að þola alls konar mótlæti

13. Fyrir hvers konar mótlæti verða þjónar Jehóva og hvers vegna er það svona algengt?

13 Mótlæti getur verið margs konar — fjárhagserfiðleikar, atvinnuleysi, náttúruhamfarir, ástvinamissir, veikindi og svo mætti lengi telja. Við lifum „örðugar tíðir“ þannig að allir mega búast við einhvers konar prófraunum fyrr eða síðar. (2. Tím. 3:1) Þegar það gerist er mikilvægt að halda ró sinni. Heilagur andi getur gert okkur kleift að standast hvaða mótlæti sem er.

14. Hvernig fékk Job kraft til að þola mótlætið sem hann varð fyrir?

14 Job varð fyrir hverju áfallinu á fætur öðru. Hann missti lífsviðurværið, börnin, vinina og heilsuna, og síðan hætti konan hans að treysta Jehóva. (Job. 1:13-19; 2:7-9) En Elíhú reyndist vinur í raun. Boðskapur hans og kjarninn í boðum Jehóva til Jobs var þessi: „Stattu nú kyrr og gefðu gaum að máttarverkum Guðs.“ (Job. 37:14) Hvað auðveldaði Job að standast prófraunirnar? Hvað getur hjálpað okkur þegar við verðum fyrir mótlæti? Það að muna eftir og íhuga á hve ótal vegu andi Jehóva og máttur birtist. (Job. 38:1-41; 42:1, 2) Kannski rifjast upp fyrir okkur atvik þar sem við fundum greinilega fyrir umhyggju Jehóva. Honum er enn annt um okkur.

15. Hvað styrkti Pál postula í prófraunum?

15 Páll postuli varð fyrir margs konar mótlæti vegna trúar sinnar og var oft í lífshættu. (2. Kor. 11:23-28) Hvernig tókst honum að halda jafnværi og hugarró í erfiðleikum sínum? Hann bað til Jehóva og reiddi sig á hann. Þegar Páll varð fyrir prófraun sem mun hafa endað með píslarvættisdauða skrifaði hann: „Drottinn stóð með mér og veitti mér kraft til þess að ég yrði til að fullna prédikunina og allar þjóðir fengju að heyra. Og ég varð frelsaður úr gini ljónsins.“ (2. Tím. 4:17) Páll gat því byggt á eigin reynslu þegar hann fullvissaði trúsystkini sín um að þau þyrftu ekki að vera „hugsjúk um neitt“. — Lestu Filippíbréfið 4:6, 7, 13.

16, 17. Segðu frá dæmi sem sýnir að Jehóva gefur þjónum sínum kraft til að standast mótlæti.

16 Roxana er brautryðjandi. Hún hefur kynnst því af eigin raun hvernig Jehóva sér fyrir þjónum sínum. Þegar hún bað vinnuveitandann um nokkurra daga frí til að sækja mót svaraði hann reiðilega að hann myndi reka hana ef hún færi. Roxana lét slag standa, sótti mótið og bað þess innilega í bæn að hún héldi vinnunni. Eftir það var henni rórra. Þegar hún mætti til vinnu á mánudegi eftir mótið var hún rekin eins og hótað hafði verið. Roxana var áhyggjufull. Þótt ekki væru launin há þurfti hún á vinnunni að halda til að fjölskyldan hefði í sig og á. Enn á ný leitaði hún til Jehóva í bæn og hugsaði með sér að Guð hefði séð henni fyrir andlegri fæðu á mótinu og gæti því örugglega séð henni fyrir líkamlegum nauðsynjum. Á heimleiðinni kom Roxana auga á spjald þar sem auglýst var eftir vönu starfsfólki til að vinna við iðnaðarsaumavélar. Hún sótti um og var boðin vinna þó að hún hefði enga starfsreynslu á þessu sviði. Og launin voru næstum tvöfalt hærri en hún hafði haft. Roxönu fannst hún hafa verið bænheyrð. Mesta blessunin var þó sú að hún fékk tækifæri til að segja nokkrum vinnufélögum frá fagnaðarerindinu. Fimm þeirra tóku við sannleikanum og létu skírast, þar á meðal vinnuveitandinn.

17 Stundum getur litið svo út sem við séum ekki bænheyrð, að minnsta kosti ekki strax eða með þeim hætti sem við gerðum ráð fyrir. Ef svo er hefur Jehóva vafalaust góða og gilda ástæðu fyrir því. Hann veit hver ástæðan er en við áttum okkur kannski ekki á því fyrr en síðar. Einu getum við þó treyst — Jehóva yfirgefur ekki trúa þjóna sína. — Hebr. 6:10.

Hjálp til að standast prófraunir og freistingar

18, 19. (a) Af hverju megum við búast við prófraunum og freistingum? (b) Hvernig getur þú staðist prófraunir?

18 Það kemur þjónum Jehóva ekki á óvart að þeir skuli verða fyrir freistingum, ofsóknum og hópþrýstingi, og að depurð sæki stundum á þá. Í meginatriðum er heimurinn okkur fjandsamlegur. (Jóh. 15:17-19) En heilagur andi getur hjálpað okkur að standast hvaða erfiðleika sem kunna að verða á vegi okkar í þjónustu Guðs. Jehóva lætur ekki reyna okkur umfram það sem við þolum. (1. Kor. 10:13) Hann sleppir ekki af okkur hendinni né yfirgefur okkur. (Hebr. 13:5) Það verndar okkur og styrkir að hlýða innblásnu orði hans. Og andi Guðs getur hvatt trúsystkini okkar til að styðja okkur þegar við þurfum mest á því að halda.

19 Höldum öll áfram að sækjast eftir heilögum anda með bænum og biblíunámi. Treystum að Jehóva ,styrki okkur á allar lundir með dýrðarmætti sínum svo að við fyllumst þolgæði í hvívetna og umburðarlyndi og gleði‘. — Kól. 1:11.

[Neðanmáls]

Hvert er svarið?

• Hvernig getum við búið okkur undir ofsóknir?

• Hvað ættirðu að gera ef einhver hvetur þig til að þegja yfir rangri breytni sinni?

• Hverju geturðu treyst í öllu mótlæti?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 28]

Hvað má læra af Jósúa og Kaleb?

[Mynd á bls. 29]

Hvernig geturðu hjálpað vini sem gerir eitthvað rangt?