Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Leitaðu hælis í nafni Jehóva

Leitaðu hælis í nafni Jehóva

Leitaðu hælis í nafni Jehóva

„Ég [mun] skilja eftir fátæka og hógværa þjóð og hún mun leita hælis í nafni Drottins.“ — SEF. 3:12.

1, 2. Hvaða táknræna óveður skellur brátt á mannkyni?

HEFURÐU einhvern tíma lent í því að þurfa að hlaupa í skjól undir skyggni eða brú þegar úrhellisrigning eða haglél brast á? Ef ofsaveður eða fárviðri er í aðsigi þarftu þó líklega að leita þér öruggari verndar og koma þér í skjól innandyra.

2 Þó er atburður í aðsigi sem er miklu válegri en verstu illviðri og hann stofnar öllum mönnum í lífshættu. Þetta er „hinn mikli dagur Drottins . . . dagur eyðingar“ sem hefur áhrif á allt mannkyn. En við getum komist í öruggt skjól. (Lestu Sefanía 1:14-18.) Hvernig förum við að því á þessum „reiðidegi Drottins“ sem rennur bráðlega upp?

Óveðursdagar á biblíutímanum

3. Hvaða „mannskaðaveður“ varð í tíuættkvíslaríkinu Ísrael?

3 Dagur Jehóva hefst á því að öllum falstrúarbrögðum verður eytt. Við getum kannað hvar hægt sé að leita skjóls með því að skoða sögu þjóðar Guðs til forna. Jesaja spámaður var uppi á áttundu öld f.Kr. Hann líkti dómi Jehóva yfir fráhverfu tíuættkvíslaríkinu Ísrael við „mannskaðaveður“ sem fólk gæti ekki umflúið. (Lestu Jesaja 28:1, 2.) Þessi spádómur rættist árið 740 f.Kr. þegar Assýringar gerðu innrás í tíuættkvíslaríkið en Efraím var helsta ættkvíslin.

4. Hvernig rann „hinn mikli dagur Drottins“ upp í Jerúsalem árið 607 f.Kr.?

4 Eftir að dóminum yfir hinum ótrúa Ísrael hafði verið fullnægt rann „hinn mikli dagur Drottins“ upp að nýju árið 607 f.Kr. og beindist þá dómurinn gegn Jerúsalem og Júdaríkinu. Það var vegna þess að íbúar Júda höfðu einnig fallið frá sannri trú. Undir forystu Nebúkadnesars ógnuðu Babýloníumenn Júda og höfuðborginni Jerúsalem. Júdamenn höfðu leitað sér hjálpar í „hæli lyginnar“ með því að gera stjórnmálabandalag við Egypta. En Babýloníumenn komu eins og haglhríð og sópuðu burt þessu „hæli“. — Jes. 28:14, 17.

5. Hvað verður um fólk Guðs sem heild þegar falstrúarbrögðunum verður eytt?

5 Hinn mikli dagur Jehóva, sem kom yfir Jerúsalem, var vísbending um þann dóm sem fullnægt verður yfir hinum fráhverfa kristna heimi í náinni framtíð. Öðrum deildum innan ,Babýlonar hinnar miklu‘, heimsveldis falstrúarbragða, verður líka eytt. Í kjölfarið verður því sem eftir er af illu heimskerfi Satans tortímt. En sem heild mun fólk Jehóva Guðs bjargast því að það leitar skjóls hjá honum. — Opinb. 7:14; 18:2, 8; 19:19-21.

Andlegt skjól og bókstaflegt

6. Með hvaða hætti getur fólk Jehóva leitað skjóls?

6 Með hvaða hætti getur fólk Guðs leitað skjóls núna, áður en endirinn kemur? Við komumst í andlegt skjól með því að „virða nafn [Guðs]“ og þjóna honum dyggilega. (Lestu Malakí 3:16-18.) Við gerum okkur þó ljóst að meira þarf til en að bera bara virðingu fyrir nafninu. Við lesum: „Hver sem ákallar nafn Drottins verður hólpinn.“ (Rómv. 10:13) Það eru tengsl milli þess að ákalla nafn Jehóva og hljóta hjálpræði fyrir atbeina hans. Margt hjartahreint fólk sér muninn á sannkristnum mönnum, sem „virða nafn [Guðs]“ og eru vottar hans, og hinum sem þjóna honum ekki.

7, 8. Hvernig björguðust frumkristnir menn og hvaða hliðstæðu má sjá á okkar dögum?

7 En hjálpræðið, sem stendur okkur til boða, einskorðast ekki við andlega skjólið. Guð heitir þjónum sínum líka bókstaflegu skjóli. Vísbendingar um það er að finna í atburðum sem áttu sér stað árið 66, eftir að rómverskur her undir forystu Cestíusar Gallusar settist um Jerúsalem. Jesús hafði spáð því að þrengingardagar þess tíma yrðu „styttir“. (Matt. 24:15, 16, 21, 22) Það rættist þegar rómverski herinn aflétti umsátrinu um borgina og það varð til þess að kristnir menn komust undan. Þeir gátu forðað sér frá borginni og svæðinu í kring. Sumir fóru austur yfir Jórdan og leituðu skjóls í fjallahéruðunum þar.

8 Við sjáum margt hliðstætt með frumkristnum mönnum og þjónum Guðs nú á dögum. Hinir frumkristnu leituðu skjóls og þjónar Guðs á okkar dögum munu einnig gera það. Núna verður þó ekki um að ræða flótta frá einum stað til annars því að sannkristnir menn eru dreifðir um allan heim. En þjónar Guðs sem heild, bæði ,hinir útvöldu‘ og dyggir félagar þeirra, komast lífs af þegar hinn fráhverfi kristni heimur líður undir lok. Þeir leita skjóls hjá Jehóva og söfnuði hans sem líkja má við fjöllin forðum daga.

9. Hverjir hafa reynt að láta nafn Guðs falla í gleymsku? Lýstu með dæmi.

9 Á hinn bóginn verðskuldar kristni heimurinn komandi eyðingu því að hann hefur ýtt undir trúarlega vanþekkingu meðal sóknarbarna sinna og hefur augljósa óbeit á nafni Guðs. Á miðöldum var nafn Guðs vel þekkt í Evrópu, ritað með fjórum hebreskum bókstöfum og oftast umritað JHVH. Nafnið stóð á peningum, húsveggjum, í mörgum bókum og biblíum og meira að segja í sumum kirkjum kaþólskra og mótmælenda. En á síðari tímum hefur tilhneigingin verið sú að fjarlægja nafn Guðs úr biblíuþýðingum og draga úr notkun þess. Það má meðal annars sjá af bréfi, dagsettu 29. júní 2008, frá einni af deildum páfaráðs rómversk-kaþólsku kirkjunnar til biskupaþinga. Í bréfinu gaf rómversk-kaþólska kirkjan þau fyrirmæli að orðið „Drottinn“ skyldi notað í stað fjórstafanafnsins. Páfagarður tilkynnti að ekki ætti að nota nafn Guðs í sálmum og bænum við kaþólskar messur. Leiðtogar annarra trúarhópa, innan sem utan kristna heimsins, hafa einnig falið fyrir milljónum trúaðra hver sé hinn sanni Guð.

Þeir sem helga nafn Guðs hljóta vernd

10. Hvernig er nafn Guðs heiðrað nú á tímum?

10 Vottar Jehóva stinga í stúf við önnur trúfélög því að þeir heiðra og upphefja nafn Guðs. Þeir helga það með því að umgangast það af virðingu. Jehóva hefur dálæti á þeim sem treysta á hann og hann getur orðið hvaðeina sem þarf til að blessa og vernda fólk sitt. „Hann annast þá sem leita hælis hjá honum.“ — Nah. 1:7; Post. 15:14.

11, 12. Hverjir héldu nafni Guðs á lofti í Júda til forna og hverjir hafa gert það á okkar tímum?

11 Enda þótt meiri hluti íbúa Júdaríkisins hafi fallið frá sannri tilbeiðslu leituðu sumir samt „hælis í nafni Drottins“. (Lestu Sefanía 3:12, 13.) Þegar Guð refsaði Júdamönnum með því að leyfa Babýloníumönnum að hertaka landið og herleiða íbúana var sumum þyrmt eins og Jeremía, Barúk og Ebed Melek. Þeir höfðu búið meðal þjóðar sem var fráhverf Guði. Aðrir voru trúfastir í útlegðinni. Árið 539 f.Kr. féll Babýlon í hendur Meda og Persa undir forystu Kýrusar. Hann gaf skömmu síðar út tilskipun þess efnis að Gyðingar mættu snúa heim.

12 Sefanía spáði að Jehóva myndi frelsa þá sem fengju að endurreisa sanna tilbeiðslu og hann myndi gleðjast yfir þeim. (Lestu Sefanía 3:14-17.) Sú hefur einnig orðið raunin á okkar tímum. Þegar Jehóva hafði stofnsett ríki sitt á himni frelsaði hann trúfasta andasmurða menn, sem eftir voru á jörðinni, úr andlegri ánauð Babýlonar hinnar miklu. Og hann gleðst yfir þeim fram á þennan dag.

13. Hvers konar frelsun fær fólk af öllum þjóðum?

13 Þeir sem eiga von um að lifa að eilífu á jörðinni hafa einnig yfirgefið Babýlon hina miklu og eru frjálsir undan röngum trúarkenningum. (Opinb. 18:4) Sefanía 2:3 rætist því í enn stærri mæli nú á tímum. Þar segir: „Leitið Drottins, allir hógværir í landinu.“ Hógvært fólk af öllum þjóðum, hvort sem það hefur von um líf á himni eða jörð, leitar nú skjóls í nafni Jehóva.

Nafn Guðs er ekki eins og verndargripur

14, 15. (a) Hvað hafa sumir talið vera verndargripi? (b) Hvað ætti ekki að nota sem verndargrip?

14 Sumir Ísraelsmenn álitu musterið vera nokkurs konar verndarstað og töldu sig þess vegna óhulta fyrir óvinum sínum. (Jer. 7:1-4) Öldum áður töldu þeir sáttmálsörkina vera verndargrip sem myndi verja þá í bardaga. (1. Sam. 4:3, 10, 11) Konstantínus mikli lét setja á skildi hermanna sinna grísku stafina khí og hró en það voru fyrstu tveir stafirnir í orðinu „Kristur“ á grísku. Hann vonaðist til að það verndaði þá í bardaga. Og Gústaf 2. Adólf Svíakonungur, sem barðist í þrjátíuárastríðinu, er talinn hafa borið herklæðið sem sýnt er á myndinni á bls. 7. Nafnið „Iehova“ er letrað með áberandi hætti á kragann.

15 Sumir þjónar Guðs, sem hafa orðið fyrir árásum illra anda, hafa leitað skjóls hjá Jehóva með því að kalla upp nafn hans. Þó ætti ekki að líta svo á að hlutur með nafni Guðs sé eins og verndargripur sem hægt er að grípa til í dagsins önn, rétt eins og hann búi yfir einhverjum yfirnáttúrlegum verndarmætti. Það er ekki þannig sem við leitum skjóls í nafni Jehóva.

Hvernig leitum við skjóls núna?

16. Hvernig getum við hlotið andlega vernd?

16 Við leitum skjóls með því að þiggja andlegu verndina sem Jehóva veitir þjónum sínum í heild. (Sálm. 91:1) Hinn „trúi og hyggni þjónn“ og öldungarnir í söfnuðinum vara okkur við stefnum og straumum í heiminum sem gætu ógnað öryggi okkar. (Matt. 24:45-47; Jes. 32:1, 2) Hugleiddu hve oft við höfum verið vöruð við efnishyggju og veltu fyrir þér hvernig það hefur forðað okkur frá andlegu skipbroti. Höfum við ekki líka verið vöruð við því að verða kærulaus því að það gæti leitt til þess að við yrðum óvirk í þjónustu Jehóva? Í Biblíunni segir: „Uggleysi heimskingjanna tortímir þeim. En sá sem hlýðir á mig mun búa óhultur og öruggur og engri ógæfu kvíða.“ (Orðskv. 1:32, 33) Við fáum að njóta andlegrar verndar ef við gerum okkar ýtrasta til að vera siðferðilega hrein.

17, 18. Hvað fær milljónir manna til að leita skjóls í nafni Jehóva?

17 Leiddu einnig hugann að þeirri hvatningu trúa þjónsins að fara eftir fyrirmælum Jesú og boða fagnaðarerindið um ríkið um alla heimsbyggðina. (Matt. 24:14; 28:19, 20) Sefanía minntist á ákveðna breytingu sem myndi hjálpa fólki að leita hælis í nafni Guðs. Við lesum: „Þá mun ég gefa þjóðunum nýjar varir og hreinar [„nýtt, hreint tungumál“, NW] svo að þær geti ákallað nafn Drottins og þjónað honum einhuga.“ — Sef. 3:9.

18 Hvað er átt við þegar talað er um hreint tungumál? Það táknar sannleikann um Jehóva Guð og fyrirætlanir hans eins og þeim er lýst í innblásnu orði hans. Í vissum skilningi talarðu þetta tungumál þegar þú kemur réttum skilningi um Guðsríki á framfæri við fólk, þegar þú lýsir hvernig þetta ríki helgar nafn hans, þegar þú leggur áherslu á að drottinvald Guðs verði réttlætt og þegar þú segir glaður í bragði frá þeirri eilífu blessun sem bíður trúfastra manna. Svo margir tala þetta táknræna tungumál núna að æ fleiri ,ákalla nafn Drottins‘ og ,þjóna honum einhuga‘. Milljónir manna um heim allan leita nú skjóls í nafni Jehóva. — Sálm. 1:1, 3.

19, 20. Hvernig reyndist „hæli lyginnar“ gagnslaust forðum daga?

19 Margir í heiminum glíma við erfiðleika sem virðast óyfirstíganlegir. Í örvæntingu sinni leita margir þeirra á náðir ófullkominna manna. Sumir vonast til að pólitískar stofnanir taki á vanda þeirra, líkt og Ísraelsmenn leituðu stundum stuðnings hjá nágrannaþjóðunum og gerðu við þær bandalag. En þú veist að það kom þeim að litlu gagni. Og ekkert ríki heims, né Sameinuðu þjóðirnar, getur leyst vandamál mannkyns að fullu. Það er því til einskis að halda að pólitískar stofnanir og bandalög geti verið hæli og skjól. Í Biblíunni eru þau kölluð „hæli lyginnar“. Það eru orð að sönnu því að allir sem treysta á þau verða fyrir sárum vonbrigðum. — Lestu Jesaja 28:15, 17.

20 Innan skamms skellur á mannskaðaveður í táknrænum skilningi þegar dagur Jehóva rennur upp. Mannleg úrræði duga þá skammt og hvorki kjarnorkubyrgi né auður koma að nokkru gagni. Í Jesaja 28:17 segir: „Þá mun hagl sópa burt hæli lyginnar og vatnsflóð skola burt skjólinu.“

21. Hvernig er það okkur til góðs að fara eftir ráðinu í árstextanum 2011?

21 Þjónar Jehóva verða í öruggu skjóli hjá honum þegar þetta gerist líkt og þeir eru núna. Nafnið Sefanía merkir „Jehóva hefur falið“ og beinir athyglinni að þeim eina sem getur falið þjóna sína í öruggu skjóli. Það á því vel við að árstextinn árið 2011 sé byggður á viturlegum ráðum Sefanía 3:12. Hann hljóðar svona: „Leitaðu hælis í nafni Jehóva.“ Við getum og ættum nú þegar að leita hælis í nafni Jehóva og treysta honum skilyrðislaust. (Sálm. 9:11) Höfum dag hvern í huga þetta innblásna loforð: „Nafn Drottins er sterkur turn, þangað hleypur hinn réttláti og er óhultur.“ — Orðskv. 18:10.

Manstu?

• Hvernig getum við leitað skjóls í nafni Jehóva núna?

• Af hverju ættum við ekki að treysta á „hæli lyginnar“?

• Hvaða skjóli er okkur lofað í framtíðinni?

[Spurningar]

[Innskot á bls. 6]

Árstextinn árið 2011 er: Leitaðu hælis í nafni Jehóva. — Sefanía 3:12.

[Rétthafi myndar á bls. 7]

Thüringer Landesmuseum Heidecksburg Rudolstadt, Waffensammlung „Schwarzburger Zeughaus“.