Nafnið í dalnum
Nafnið í dalnum
HLJÓMAR nafnið St. Moritz kunnuglega? Það má vel vera því að þetta er heiti á frægum orlofsstað í Engadine-dalnum í suðausturhluta Sviss, skammt frá ítölsku landamærunum. En St. Moritz er aðeins einn staður af mörgum sem hefur löngum laðað fólk til að heimsækja þennan fagra dal. Þar er einnig þjóðgarður. Náttúran er einstaklega fögur með snæviþöktum fjallatindum og fjölbreyttum gróðri og dýralífi. Allt er þetta skaparanum Jehóva til lofs. (Sálm. 148:7-10) Hið sama má segja um menjar gamallar hefðar sem rekja má aftur til miðrar 17. aldar.
Þeir sem ferðast um dalinn reka gjarnan augun í óvenjulegar áletranir á húsum. Víða er nafn Guðs að finna í áletrun á framhlið húsa, til dæmis yfir útidyrunum. Á liðnum öldum var venja að skreyta framhlið húsa með
áletrunum sem voru annaðhvort málaðar á vegginn, skornar í múrhúðina eða höggnar í stein. Á stærri myndinni hér að neðan sést hús í þorpinu Bever. Áletrunin hljóðar svo: „Á árinu 1715. Jehóva er upphafið og Jehóva er endirinn. Allt er gerlegt með Guði og ekkert án hans.“ Nafn Guðs kemur tvisvar fyrir í þessari gömlu áletrun.Enn eldri áletrun er að finna í þorpinu Madulain. Þar stendur: „Sálmur 127. Ef Jehóva byggir ekki húsið erfiða smiðirnir til ónýtis. Lucius Rumedius. Á árinu 1654.“
Af hverju skyldi nafn Guðs vera að finna í áletrunum á húsum í þessum dal? Á tímum siðaskiptanna var Biblían gefin út á rumanch, rómönsku máli sem talað er í Engadine-dalnum. Biblían er reyndar fyrsta bókin sem þýdd var á þetta mál. Heimamenn voru margir hverjir snortnir af því sem þeir lásu í Biblíunni og skráðu ekki aðeins nöfn sjálfra sín á húsin heldur einnig biblíutilvitnanir þar sem nafn Guðs var að finna.
Enn þann dag í dag kunngera þessar áletranir nafn Guðs og lofa hann, öldum eftir að þær voru letraðar á húsin. Bæði gestum og heimamönnum í dalnum stendur til boða að fræðast meira um hinn mikla Guð sem ber nafnið Jehóva. Það geta þeir gert með því að sækja heim annað hús sem nafnið er letrað á, það er að segja ríkissal Votta Jehóva í þorpinu Bever.
[Rétthafi myndar á bls. 7]
© Stähli Rolf A/age fotostock