Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Virðum hjónabandið sem gjöf frá Guði

Virðum hjónabandið sem gjöf frá Guði

Virðum hjónabandið sem gjöf frá Guði

„Af þessum sökum yfirgefur maður föður sinn og móður sína og býr með eiginkonu sinni, og þau verða eitt.“ — 1. MÓS. 2:24.

1. Af hverju verðskuldar Jehóva virðingu okkar?

JEHÓVA GUÐ, höfundur hjónabandsins, verðskuldar virðingu okkar. Hann er skapari okkar, Drottinn og himneskur faðir, og „sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa“ er frá honum. (Jak. 1:17; Opinb. 4:11) Þetta vitnar um djúpan kærleika hans. (1. Jóh. 4:8) Allt sem hann hefur kennt okkur, allt sem hann ætlast til af okkur og allt sem hann hefur gefið okkur er okkur til góðs og stuðlar að velferð okkar. — Jes. 48:17.

2. Hvaða leiðbeiningar gaf Jehóva fyrstu hjónunum?

2 Í Biblíunni er talað um hjónaband sem eina af þessum góðu gjöfum Guðs. (Rut. 1:9; 2:12) Þegar Jehóva gaf saman fyrstu hjónin, þau Adam og Evu, gaf hann þeim ákveðnar leiðbeiningar um farsælt hjónaband. (Lestu Matteus 19:4-6.) Ef þau hefðu fylgt leiðbeiningum Guðs hefðu þau orðið hamingjusöm til frambúðar. Þau sýndu hins vegar þá heimsku að brjóta boð Guðs og afleiðingarnar voru skelfilegar. — 1. Mós. 3:6-13, 16-19, 23.

3, 4. (a) Hvernig óvirða margir bæði hjónabandið og Jehóva Guð? (b) Hvaða dæmi lítum við á í þessari grein?

3 Nú á dögum feta margir í fótspor fyrstu hjónanna og skeyta lítið eða ekkert um leiðbeiningar Jehóva þegar þeir taka ákvarðanir varðandi hjónaband. Sumir hafna hjónabandi með öllu en aðrir reyna að endurskilgreina það eftir eigin hentisemi. (Rómv. 1:24-32; 2. Tím. 3:1-5) Þeir vilja ekki líta á hjónabandið sem gjöf frá Guði, og með því að virða þessa gjöf að vettugi vanvirða þeir gjafarann, Jehóva Guð.

4 Stundum geta jafnvel einstaka þjónar Jehóva Guðs misst sjónar á því hvernig hann lítur á hjónabandið. Fyrir kemur að kristin hjón ákveða að slíta samvistum eða skilja án þess að hafa biblíulegar ástæður til þess. Hvernig er hægt að afstýra því? Hvernig geta leiðbeiningar Guðs í 1. Mósebók 2:24 hjálpað hjónum í söfnuðinum að styrkja hjónabandið? Og hvernig geta þeir sem áforma að ganga í hjónaband búið sig undir það? Við skulum líta á þrenn hjón sem sagt er frá í Biblíunni og skoða hvernig traust hjónaband byggist á því að bera virðingu fyrir Jehóva.

Sýnum hollustu

5, 6. Hvað kann að hafa reynt á hollustu Sakaría og Elísabetar og hvernig var þeim umbunað?

5 Sakaría og Elísabet fóru rétt að í einu og öllu. Bæði völdu þau sér trúan þjón Jehóva fyrir maka. Sakaría gegndi dyggilega skyldustörfum sínum sem prestur og bæði héldu lögmál Guðs eftir bestu getu. Þau höfðu margt til að vera þakklát fyrir. En ef þú hefðir komið á heimili þeirra í Júda hefðirðu fljótlega áttað þig á því að eitt vantaði. Þau voru barnlaus. Elísabet gat ekki eignast börn og þau voru bæði komin á efri ár. — Lúk. 1:5-7.

6 Barneignir voru álitnar mikilvægar í Ísrael til forna og fjölskyldur voru oft barnmargar. (1. Sam. 1:2, 6, 10; Sálm. 128:3, 4) Ísraelskur karlmaður á þeim tíma gat átt það til að svíkja eiginkonu sína og skilja við hana ef hún ól honum ekki börn. En Sakaría sýndi þá hollustu að búa áfram með Elísabetu. Hann leitaði ekki að tylliástæðu til að losna úr hjónabandinu og hið sama er að segja um konu hans. Þótt það hryggði þau að vera barnlaus héldu þau áfram að þjóna Jehóva í sameiningu. Jehóva umbunaði þeim þegar fram liðu stundir, og fyrir kraftaverk eignuðust þau son í ellinni. — Lúk. 1:8-14.

7. Nefndu annað dæmi um hollustu Elísabetar.

7 Elísabet sýndi líka hrósverða hollustu með öðrum hætti. Þegar hún eignaðist soninn Jóhannes var Sakaría mállaus. Hann hafði ekki trúað engli Guðs og misst málið af þeim sökum. En Sakaría hlýtur að hafa komið því á framfæri með einhverjum hætti við Elísabetu að drengurinn skyldi heita Jóhannes eins og engill Jehóva hafi sagt honum. Nágrannar og ættingjar vildu nefna drenginn í höfuðið á föður sínum. En Elísabet sýndi manni sínum þá hollustu að styðja ákvörðun hans. Hún sagði: „Eigi skal hann svo heita heldur Jóhannes.“ — Lúk. 1:59-63.

8, 9. (a) Hvernig styrkir hollusta hjónabandið? (b) Nefndu dæmi um hvernig hjón geta sýnt hvort öðru hollustu.

8 Hjón verða fyrir ýmsum vonbrigðum og erfiðleikum nú á tímum líkt og þau Sakaría og Elísabet. Hjónaband verður ekki gæfuríkt ef hollustuna vantar. Daður, klám, framhjáhald og annað slíkt ógnar heilbrigðu hjónabandi og getur brotið niður traust til frambúðar. Og þegar traustið milli hjóna bilar byrjar ástin að kólna. Hollusta er að sumu leyti eins og varnargarður kringum heimilið sem ver það fyrir hættum og óæskilegum gestum og veitir visst öryggi. Þegar hjón eru hvort öðru trú geta þau verið óhult, opnað hjartað hvort fyrir öðru og látið ástina dafna. Hollustan er sannarlega mikilvæg.

9 Jehóva sagði við Adam: „Maður [yfirgefur] föður sinn og móður sína og býr með eiginkonu sinni.“ (1. Mós. 2:24) Hvað merkir það? Samskiptin við vini og ættingja þurfa að breytast að vissu marki. Hjónin þurfa nú að láta hvort annað ganga fyrir. Þau mega ekki eyða svo miklum tíma með vinum eða ættingjum að þau vanræki hvort annað. Og þau mega ekki leyfa foreldrum sínum að skipta sér af ákvörðunum varðandi fjölskylduna eða missætti sem upp kann að koma. Hjónin þurfa að standa þétt saman. Það eru fyrirmæli Guðs.

10. Hvað hjálpar hjónum að sýna hollustu?

10 Hollusta er líka til blessunar þó að hjónin séu ekki bæði í trúnni. Systir, sem býr við þær aðstæður, segir: „Ég er Jehóva innilega þakklát fyrir að kenna mér að vera undirgefin manninum mínum og bera djúpa virðingu fyrir honum. Með hollustu okkar höfum við viðhaldið gagnkvæmri ást og virðingu í 47 ár.“ (1. Kor. 7:10, 11; 1. Pét. 3:1, 2) Leggðu þig fram um að vekja öryggistilfinningu hjá maka þínum. Sýndu honum fram á, bæði í orði og verki, að hann sé mikilvægasta manneskjan í lífi þínu. Láttu ekkert koma upp á milli þín og maka þíns, að svo miklu leyti sem þú færð við ráðið. (Lestu Orðskviðina 5:15-20.) Ron og Jeannette hafa búið í hamingjuríku hjónabandi í meira en 35 ár. Þau segja: „Við búum í farsælu hjónabandi og erum hamingjusöm af því að við sýnum Guði hollustu og gerum það sem hann ætlast til af okkur.“

Samheldni styrkir hjónabandið

11, 12. Hvernig störfuðu Akvílas og Priskilla saman (a) heima, (b) við vinnu og (c) við boðun fagnaðarerindisins?

11 Akvílas og Priskilla voru nánir vinir Páls postula. Þegar Páll talar um þau nefnir hann þau aldrei hvort í sínu lagi. Þessi samhentu hjón eru prýðisdæmi um hvað Guð átti við þegar hann sagði að hjón ættu að „verða eitt“. (1. Mós. 2:24) Þau störfuðu saman öllum stundum, bæði heima, við vinnu og við boðun fagnaðarerindisins. Þegar Páll kom fyrst til Korintu buðu Akvílas og Priskilla honum að búa hjá sér, og hann virðist hafa notað heimili þeirra sem bækistöð um tíma. Síðar fluttust þau til Efesus og heimili þeirra var þá notað til að halda samkomur. Þau unnu saman að því að hjálpa nýjum, meðal annars Apollósi, að fá dýpri skilning á sannleikanum. (Post. 18:2, 18-26) Eftir það fluttust þessi kappsömu hjón til Rómar og enn á ný voru haldnar safnaðarsamkomur á heimili þeirra. Þau sneru síðan aftur til Efesus og styrktu trúsystkini sín þar. — Rómv. 16:3-5.

12 Um tíma unnu Akvílas og Priskilla einnig með Páli við tjaldgerð en það var sameiginleg iðn þeirra. Enn og aftur sjáum við þessi hjón starfa saman í friði og ró. (Post. 18:3) En auðvitað var hjónaband þeirra ekki síst sterkt vegna þess að þau vörðu miklum tíma saman í þjónustu Jehóva. Hvort sem þau voru stödd í Korintu, Efesus eða Róm voru þau þekkt sem ,samverkamenn í Kristi Jesú‘. (Rómv. 16:3) Þau unnu saman að því að boða fagnaðarerindið hvar sem þau voru.

13, 14. (a) Hvað getur unnið gegn einingu hjóna? (b) Hvað geta hjón meðal annars gert til að styrkja eininguna og verða „einn maður“?

13 Ljóst er að samvinna og sameiginleg markmið styrkja hjónabandið. (Préd. 4:9, 10) Því miður er algengt að hjón séu allt of lítið saman. Þau vinna bæði tvö langan vinnudag hvort í sínu lagi. Sumir ferðast mikið vegna vinnunnar eða flytjast einir til annarra landa til að vinna og senda peninga heim. Og jafnvel heima fyrir eru mörg hjón lítið saman vegna þess að þau eyða miklum tíma í að horfa á sjónvarp, sinna tómstundaiðju, stunda íþróttir, spila tölvuleiki eða vafra á Netinu. Er þetta þannig á þínu heimili? Ef svo er, getið þið þá hliðrað til svo að þið getið verið meira saman? Gætuð þið hjálpast að við heimilisstörfin, svo sem að elda, vaska upp eða vinna í garðinum? Getið þið hjálpast að við að sinna börnunum eða aðstoða aldraða foreldra ykkar?

14 Mikilvægast er þó að eiga reglulegar samverustundir í tengslum við tilbeiðsluna á Jehóva. Að fara yfir dagstextann og stunda sameiginlegt biblíunám eru prýðisleiðir til að stilla saman strengina og markmiðin. Og farið saman í boðunarstarfið. Reynið að starfa saman sem brautryðjendur ef mögulegt er, þó ekki sé nema einn mánuð eða eitt ár. (Lestu 1. Korintubréf 15:58.) Systir nokkur starfaði sem brautryðjandi ásamt eiginmanni sínum. Hún segir: „Boðunarstarfið gaf okkur tækifæri til að vera meira saman og tala saman. Mér fannst við vera eins og ein heild vegna þess að við höfðum bæði það markmið að hjálpa þeim sem við hittum í boðunarstarfinu. Mér fannst við nátengdari, ekki bara sem hjón heldur líka sem góðir vinir.“ Þegar þið starfið saman að göfugum markmiðum samræmið þið jafnt og þétt áhugamál ykkar, áherslur og venjur. Þá verðið þið eins og Akvílas og Priskilla. Þið lærið að hugsa og hegða ykkur eins og „einn maður“ og ykkur finnst þið líka vera það.

Hafið andlegt hugarfar

15. Hver er ein af forsendum farsæls hjónabands? Skýrðu svarið.

15 Jesús vissi hve mikilvægt það væri að láta Guð ganga fyrir í hjónabandinu. Hann sá Jehóva gefa saman fyrstu hjónin. Hann sá hve hamingjusöm Adam og Eva voru meðan þau fylgdu leiðsögn Guðs, og hann sá með eigin augum hvaða erfiðleika þau kölluðu yfir sig með því að óhlýðnast. Þegar Jesús kenndi endurómaði hann því fyrirmæli föður síns í 1. Mósebók 2:24. Síðan bætti hann við: „Það sem Guð hefur tengt saman má eigi maðurinn sundur skilja.“ (Matt. 19:6) Djúp virðing fyrir Jehóva er því enn grunnurinn að hamingjuríku og farsælu hjónabandi. Jarðneskir foreldrar Jesú, þau Jósef og María, eru prýðisdæmi um það.

16. Hvernig sýndu Jósef og María andlegt hugarfar?

16 Jósef var hlýlegur við Maríu og sýndi henni virðingu. Þegar hann komst að raun um að hún var barnshafandi vildi hann sýna henni miskunn, jafnvel áður en engill Guðs útskýrði fyrir honum hvað hefði gerst. (Matt. 1:18-20) Sem hjón hlýddu þau bæði tilskipun keisarans og fylgdu Móselögunum vandlega. (Lúk. 2:1-5, 21, 22) Og Jósef og María sóttu stóru trúarhátíðirnar á hverju ári ásamt öðrum í fjölskyldunni, þó svo að einungis væri gerð krafa um að karlmenn gerðu það. (5. Mós. 16:16; Lúk. 2:41) Þessi guðræknu hjón lögðu sig fram um að þóknast Jehóva á þessum sviðum og öðrum. Þau báru djúpa virðingu fyrir því sem andlegt er. Það kemur ekki á óvart að Jehóva skyldi velja þau til að annast son sinn meðan hann var að alast upp hér á jörð.

17, 18. (a) Hvernig geta hjón haft leiðbeiningar Guðs að leiðarljósi? (b) Hvernig er það til góðs?

17 Hafið þið líka leiðbeiningar Guðs að leiðarljósi í fjölskyldunni? Þegar þið takið mikilvægar ákvarðanir eruð þið þá vön að rannsaka hvað Biblían hefur til málanna að leggja, ræða málið við Jehóva í bæn og leita síðan ráða hjá þroskuðum trúsystkinum? Eða hættir ykkur til að láta tilfinningarnar ráða ferðinni eða skoðanir ættingja og vina? Reynið þið að fara eftir öllum góðu tillögunum sem hinn trúi þjónn gefur um hjónaband og fjölskyldulíf? Eða fylgið þið bara almennum siðvenjum eða vinsælum hugmyndum heimsins? Eruð þið vön að biðja og stunda biblíunám saman, setja ykkur andleg markmið og ræða saman um áherslur ykkar í lífinu?

18 Ray á að baki 50 ára hamingjuríkt hjónaband. Hann segir: „Við höfum alltaf getað ráðið fram úr vandamálum okkar vegna þess að Jehóva var þriðji þráðurinn í hjónabandinu.“ (Lestu Prédikarann 4:12.) Danny og Trina eru sama sinnis, en þau hafa verið gift í 34 ár. „Það hefur styrkt hjónaband okkar að þjóna Guði saman,“ segja þau. Ef þú lætur Jehóva alltaf ganga fyrir í hjónabandinu blessar hann þig ríkulega og þú verður farsæll í lífinu. — Sálm. 127:1.

Haltu áfram að virða gjöf Guðs

19. Í hvaða tilgangi gaf Guð mönnunum hjónabandið?

19 Margir hugsa bara um sína eigin hamingju. En þjónn Jehóva sér hlutina öðrum augum. Hann veit að hjónabandið er gjöf sem Guð gaf til að láta vilja sinn ná fram að ganga. (1. Mós. 1:26-28) Ef Adam og Eva hefðu virt þessa gjöf hefði öll jörðin orðið paradís og verið byggð glöðum og réttlátum þjónum Guðs.

20, 21. (a) Af hverju eigum að líta á hjónaband sem heilagt? (b) Um hvaða gjöf verður fjallað í næstu viku?

20 Síðast en ekki síst líta þjónar Guðs svo á að hjónabandið bjóði upp á tækifæri til að heiðra Jehóva. (Lestu 1. Korintubréf 10:31.) Hollusta, samheldni og andlegt hugarfar styrkja hjónabandið eins og fram hefur komið. Hvort sem við erum að búa okkur undir hjónaband, styrkja það eða reyna að bjarga því, þurfum við að sjá það í réttu ljósi: það er heilagt fyrirkomulag Guðs. Ef við höfum þá staðreynd í huga reynum við okkar besta til að byggja ákvarðanir okkar varðandi hjónabandið á orði Guðs. Þá sýnum við ekki aðeins virðingu fyrir hjónabandinu sjálfu heldur einnig fyrir Jehóva Guði sem gaf okkur það.

21 Hjónaband er auðvitað ekki eina gjöfin sem Jehóva hefur gefið okkur og það er ekki eina leiðin til að finna hamingjuna. Í næstu grein skoðum við aðra dýrmæta gjöf Guðs — það að vera einhleypur.

Hvert er svarið?

• Hvaða áhrif hefur það á kristin hjón að sýna hollustu?

• Af hverju styrkir það hjónabandið að vinna saman?

• Hvernig geta hjón haft leiðbeiningar Guðs að leiðarljósi?

• Hvernig getum við sýnt Jehóva, höfundi hjónabandsins, virðingu?

[Spurningar]

[Myndir á bls. 15]

Samvinna hjálpar hjónum að vera samheldin.