Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Það er erfiðisins virði

Það er erfiðisins virði

Það er erfiðisins virði

BIBLÍUNÁMSKVÖLD fjölskyldunnar er nauðsynlegt til að börnin alist upp við „aga og fræðslu um Drottin“. (Ef. 6:4) Foreldrar vita samt að börn eru fljót að þreytast. Hvað geturðu gert til að þau haldi einbeitingunni? Skoðum hvað nokkrir foreldrar hafa gert.

„Þegar börnin voru yngri,“ segir George sem er frá Kaliforníu, „reyndum við hjónin að gera biblíunám fjölskyldunnar skemmtilegt. Stundum fórum við í búninga og gerðum leikrit úr sögunum sem við lásum í Biblíusögubókinni minni. Við bjuggum líka til hluti eins og sverð, veldissprota, körfur og margt fleira. Við fórum í leiki eins og ,gettu hver ég er‘ með biblíupersónur og bjuggum til spil með miserfiðum biblíuspurningum. Við fundum líka upp á ýmsum verkefnum. Meðal annars smíðuðum við líkan af örkinni hans Nóa og gerðum tímalínu yfir atburði í Biblíunni. Stundum vorum við með teiknistundir og teiknuðum myndir af biblíupersónum og frásögum. Núna ætlum við að fara að teikna andlegu herklæðin sem lýst er í Efesusbréfinu 6:11-17 og svo fær hver og einn að segja frá sínum hluta herklæðanna og útskýra hvað hann merkir. Þessar aðferðir hafa hjálpað okkur að hafa ánægju af biblíunáminu.“

Debi býr í Michigan í Bandaríkjunum. Hún segir: „Við hjónin áttum í erfiðleikum með að halda athygli dóttur okkar þegar hún var þriggja ára. En eitt sinn þegar ég var að lesa fyrir hana söguna um Ísak og Rebekku í Biblíusögubókinni greip ég tvær dúkkur og lét þær tala við hvora aðra og leika söguna. Þannig tók dóttir okkar eftir hverju einasta orði. Á næstu mánuðum fengu dúkkurnar tvær hlutverk margra mismunandi biblíupersóna. Eftir að hafa lesið biblíusögu úr bókinni fór dóttir okkar að leita að dóti sem við gætum notað til að leika söguna. Fyrir hana var þetta algjör fjársjóðsleit. Skókassi með rauðu bandi varð húsið hennar Rahab með rauða reipinu. Við áttum tuskudýr, eins og hálfs metra langan snák, og vöfðum honum utan um kústskaft. Hann dugaði vel í hlutverk eirormsins sem lýst er í 4. Mósebók 21:4-9. Við geymdum dótið sem við notuðum í stórum strigapoka. Dóttir okkar litla sat oft í stofunni og gramsaði í,biblíusögupokanum‘ sínum. Það var okkur mikil ánægja að sjá hana leika biblíusögurnar með sínum hætti.“

Það er ekki auðvelt að ala upp börn og ef við viljum glæða með þeim löngun til að þjóna Jehóva þarf meira til en eina námsstund á viku. Biblíunámskvöld fjölskyldunnar getur hins vegar verið góður grunnur að andlegri fræðslu. Það er enginn vafi að það er erfiðisins virði.