Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hatarðu hið illa?

Hatarðu hið illa?

Hatarðu hið illa?

„Þú [Jesús] hefur . . . hatað ranglæti.“ — HEBR. 1:9.

1. Hvað kenndi Jesús varðandi kærleikann?

JESÚS KRISTUR lagði áherslu á hve mikilvægt það væri að lærisveinar hans elskuðu hver annan. Hann sagði: „Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hvert annað. Eins og ég hef elskað yður skuluð þér einnig elska hvert annað. Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóh. 13:34, 35) Fylgjendur Jesú áttu að sýna hver öðrum fórnfúsan kærleika. Þeir myndu þekkjast á því. Jesús hvatti þá einnig til að elska óvini sína og biðja fyrir þeim sem ofsæktu þá. — Matt. 5:44.

2. Hvað ættu fylgjendur Krists að læra að hata?

2 En Jesús kenndi fylgjendum sínum ekki aðeins hvað þeir ættu að elska heldur líka hvað þeir ættu að hata. Sagt var um Jesú: „Þú hefur elskað réttlæti og hatað ranglæti [hið illa].“ (Hebr. 1:9; Sálm. 45:8) Af þessu má sjá að það er ekki nóg að læra að elska réttlætið heldur þurfum við einnig að læra að hata hið illa, það er segja syndina. Jóhannes postuli tengir syndina við það að gera illt og segir: „Hver sem drýgir synd fremur lögmálsbrot. Syndin er lögmálsbrot.“ — 1. Jóh. 3:4.

3. Hvaða fjögur svið eru skoðuð í þessari grein sem snúa að því að hata hið illa?

3 Við sem erum kristin ættum því að spyrja okkur hvort við hötum hið illa. Könnum hvernig við getum sýnt það á fjórum sviðum í lífinu. Litið verður á (1) afstöðu okkar til þess að misnota áfengi, (2) hvernig við hugsum um dulræn fyrirbæri, (3) viðbrögð okkar við siðleysi og (4) afstöðu okkar til þeirra sem elska hið illa.

Gætum hófs í meðferð áfengis

4. Af hverju gat Jesús talað með djörfung þegar hann varaði við ofneyslu áfengis?

4 Jesús drakk vín af og til enda leit hann á það sem gjöf frá Guði. (Sálm. 104:14, 15) Hann misnotaði þó aldrei þessa gjöf með því að drekka í óhófi. (Orðskv. 23:29-33) Hann gat því talað með djörfung þegar hann varaði við ofneyslu áfengis. (Lestu Lúkas 21:34.) Ofnotkun áfengis getur leitt fólk út í aðrar alvarlegar syndir. Þess vegna skrifaði Páll postuli: „Drekkið ykkur ekki drukkin af víni, það leiðir aðeins til spillingar. Fyllist heldur andanum.“ (Ef. 5:18) Sömuleiðis hvatti hann aldraðar konur í söfnuðinum til að vera ekki „í ánauð ofdrykkjunnar“. — Tít. 2:3.

5. Hvaða spurninga ættu þeir að spyrja sig sem kjósa að neyta áfengis?

5 Ef þú velur að neyta áfengis ættirðu að spyrja þig hvort þú hafir sömu afstöðu og Jesús til ofneyslu áfengis. Spyrðu þig: Get ég talað með djörfung ef ég þarf að leiðbeina öðrum á þessu sviði? Drekk ég til að flýja undan áhyggjum eða draga úr streitu? Hve mikið drekk ég í hverri viku? Hvernig bregst ég við ef einhver gefur í skyn að ég drekki kannski of mikið? Fer ég í vörn eða móðgast jafnvel? Ef við leyfum okkur að drekka úr hófi fram er ekki víst að við séum fær um að hugsa rökrétt og taka skynsamlegar ákvarðanir. Fylgjendur Krists leitast við að hugsa skýrt og varðveita visku og gætni. — Orðskv. 3:21, 22.

Komdu ekki nálægt dulrænum fyrirbærum

6, 7. (a) Hvernig stóð Jesús gegn Satan og illu öndunum? (b) Af hverju er vaxandi áhugi á dulrænum fyrirbærum í heiminum?

6 Jesús stóð fastur fyrir gegn Satan og illu öndunum meðan hann var á jörð. Þegar Satan reyndi umbúðalaust að fá hann til að brjóta lög Guðs vísaði hann honum á bug. (Lúk. 4:1-13) Þegar reynt var með lúmskum hætti að hafa áhrif á hugsunarhátt Jesú og lífsstefnu sá hann í gegnum það og var óhagganlegur. (Matt. 16:21-23) Hann hjálpaði fólki að losna undan grimmilegri áþján illra anda. — Mark. 5:2, 8, 12-15; 9:20, 25-27.

7 Eftir að Jesús tók við konungdómi árið 1914 hreinsaði hann til á himnum og úthýsti Satan og illu öndunum ásamt spillandi áhrifum þeirra. Satan er þar af leiðandi ákveðnari en nokkru sinni fyrr í að ,afvegaleiða alla heimsbyggðina‘. (Opinb. 12:9, 10) Það ætti því ekki að koma okkur á óvart að margir skuli hrífast af dulrænum fyrirbærum og að áhuginn á þeim fari vaxandi. Hvað getum við gert til að verja okkur?

8. Hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur í sambandi við val á afþreyingu?

8 Í Biblíunni er varað sterklega við hættunum sem fylgja dulspeki. (Lestu 5. Mósebók 18:10-12.) Satan og illir andar nota kvikmyndir, bækur og tölvuleiki með dulrænu ívafi til að hafa áhrif á fólk. Þegar við veljum okkur afþreyingarefni ættum við því að spyrja okkur: Hef ég á síðustu mánuðum valið mér til afþreyingar kvikmyndir, sjónvarpsþætti, tölvuleiki, bækur eða teiknimyndablöð með dulrænu ívafi? Geri ég mér grein fyrir hve mikilvægt er að forðast dulræn áhrif eða geri ég lítið úr hættunni sem stafar af þeim? Hef ég yfirleitt velt fyrir mér hvað Jehóva finnst um afþreyingarefnið sem ég vel mér? Ef ég hef hleypt þessum áhrifum Satans að mér þykir mér þá nógu vænt um Jehóva og réttlátar meginreglur hans til að taka einarða afstöðu gegn áhrifum Satans? — Post. 19:19, 20.

Tökum mark á viðvörunum Jesú við siðleysi

9. Hvernig gætum við kynt undir löngun í hið illa?

9 Jesús studdi eindregið siðferðisreglur Jehóva. Hann sagði: „Hafið þið eigi lesið að skaparinn gerði þau frá upphafi karl og konu og sagði: Fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og búa með konu sinni og þau tvö skulu verða einn maður. Þannig eru þau ekki framar tvö heldur einn maður. Það sem Guð hefur tengt saman má eigi maðurinn sundur skilja.“ (Matt. 19:4-6) Jesús vissi að það sem við horfum á getur haft áhrif á hjartað. Þess vegna sagði hann í fjallræðunni: „Þér hafið heyrt að sagt var: Þú skalt ekki drýgja hór. En ég segi yður: Hver sem horfir á konu í girndarhug hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu.“ (Matt. 5:27, 28) Þeir sem loka augunum fyrir varnaðarorðum Jesú eru í rauninni að kynda undir löngun í hið illa.

10. Endursegðu frásögu sem sýnir að það er hægt að losna úr fjötrum klámfíknar.

10 Satan notar klám til að ýta undir lausung í kynferðismálum. Heimurinn er að drukkna í klámi. Þeir sem horfa á klám eiga erfitt með að þurrka hinar siðlausu myndir úr huga sér. Menn geta jafnvel orðið klámfíklar. Tökum sem dæmi hvað gerðist hjá bróður nokkrum. Hann segir svo frá: „Ég laumaðist til að horfa á klám. Ég bjó mér til eins konar draumaheim og ímyndaði mér að hann hefði engin tengsl við raunveruleikann þar sem ég þjónaði Jehóva. Ég vissi að þetta væri rangt en taldi mér trú um að Jehóva hefði samt velþóknun á þjónustu minni.“ Hvað fékk þennan bróður til að breyta hugsunarhætti sínum? Hann segir: „Ég ákvað að segja öldungunum frá vandamálinu þó að það væri það erfiðasta sem ég hef gert á ævinni.“ Bróðirinn lét að lokum af spillandi hátterni sínu. „Eftir að ég hætti þessu synduga líferni fannst mér ég loksins hafa hreina samvisku,“ segir hann. Þeir sem hata illskuna verða að læra að hata klám.

11, 12. Hvernig getum við sýnt með vali okkar á tónlist að við hötum hið illa?

11 Lög og lagatextar geta haft sterk áhrif á tilfinningar okkar og þar með á hið táknræna hjarta. Tónlistin sem slík er ein af gjöfum Guðs og hefur lengi verið þáttur í sannri tilbeiðslu. (2. Mós. 15:20, 21; Ef. 5:19) Í heimi Satans er hins vegar hampað tónlist sem lofsyngur siðleysi. (1. Jóh. 5:19) Hvernig geturðu gengið úr skugga um að tónlistin, sem þú hlustar á, sé ekki spillandi?

12 Þú gætir byrjað á því að spyrja þig: Hlusta ég á tónlist sem lofsyngur morð, framhjáhald, saurlifnað og guðlast? Segjum að ég myndi lesa textana við einhver af lögunum upphátt. Myndi áheyrandinn fá þá mynd af mér að ég hataði hið illa eða myndu textarnir gefa til kynna að hjarta mitt væri orðið spillt? Við getum ekki sagt að við hötum hið illa ef við hlustum á tónlist sem lofsyngur það. „Það sem út fer af munni kemur frá hjartanu. Og slíkt saurgar manninn,“ sagði Jesús. „Því að frá hjartanu koma illar hugsanir, manndráp, hórdómur, saurlifnaður, þjófnaður, ljúgvitni, lastmælgi.“ — Matt. 15:18, 19; samanber Jakobsbréfið 3:10, 11.

Tökum sömu afstöðu og Jesús til þeirra sem elska hið illa

13. Hvernig leit Jesús á þá sem forhertust í syndinni?

13 Jesús sagðist vera kominn til að kalla syndara til iðrunar. (Lúk. 5:30-32) En hvernig leit hann á þá sem forhertust í syndinni? Hann varaði fylgjendur sína sterklega við því að verða fyrir áhrifum af slíku fólki. (Matt. 23:15, 23-26) Hann sagði líka berum orðum: „Ekki mun hver sá sem segir við mig: Drottinn, Drottinn, ganga inn í himnaríki heldur sá einn er gerir vilja föður míns sem er á himnum. Margir munu segja við mig á þeim degi [þegar Guð fullnægir dómi]: Drottinn, Drottinn, höfum vér ekki í þínu nafni flutt orð Guðs, rekið út illa anda og gert mörg kraftaverk?“ Hann mun hins vegar hafna þeim sem stunda hið illa og iðrast einskis. „Farið frá mér,“ segir hann við þá. (Matt. 7:21-23) Af hverju fá þeir þennan dóm? Af því að þeir smána Guð og vinna öðrum mein með illskuverkum sínum.

14. Af hverju er syndurum, sem iðrast ekki, vikið úr söfnuðinum?

14 Í orði Guðs eru gefin þau fyrirmæli að syndurum, sem iðrast ekki, skuli vikið úr söfnuðinum. (Lestu 1. Korintubréf 5:9-13.) Það eru að minnsta kosti þrjár ástæður fyrir því að þetta er nauðsynlegt: (1) til að nafn Jehóva verði ekki fyrir lasti, (2) til að vernda söfnuðinn og koma í veg fyrir að hann spillist og (3) til að stuðla að því að syndarinn iðrist ef kostur er.

15. Hvaða áleitnu spurningum þurfum við að svara ef við viljum vera Jehóva trú?

15 Höfum við sömu afstöðu og Jesús til þeirra sem hafa tekið þá stefnu að stunda hið illa? Við þurfum að íhuga eftirfarandi: Myndi ég vilja umgangast að staðaldri manneskju sem hefur verið vikið úr kristna söfnuðinum eða hefur aðgreint sig frá honum? Myndi ég gera það ef um væri að ræða náinn ættingja sem byggi ekki lengur undir sama þaki og ég? Þessi staða getur reynt mjög á það hvort við elskum réttlætið og erum Guði trú. *

16, 17. Í hvaða erfiðleikum lenti kristin móðir og hvað hjálpaði henni að styðja fyrirkomulag Jehóva varðandi þá sem syndga en iðrast ekki?

16 Systir nokkur átti uppkominn son sem elskaði Jehóva á sínum tíma en fór síðar út á ranga braut. Þar sem hann iðraðist ekki var honum vikið úr söfnuðinum. Systirin elskaði Jehóva en hún elskaði líka son sinn og fannst ákaflega erfitt að fylgja þeim fyrirmælum Biblíunnar að umgangast hann ekki.

17 Hvað hefðir þú ráðlagt þessari systur? Öldungur leiddi henni fyrir sjónir að Jehóva skildi sársauka hennar vel. Hann hvatti hana til að íhuga hve sárt það hljóti að hafa verið fyrir Jehóva að horfa upp á suma af andasonum sínum gera uppreisn. Hann benti henni á að Jehóva geri þá kröfu að syndurum, sem iðrast ekki, sé vikið úr söfnuðinum, þó svo að hann viti hve sársaukafullt það getur verið. Hún hugleiddi ábendingar hans varðandi þá sem vikið er úr söfnuðinum og einsetti sér að styðja fyrirkomulag Jehóva. * Við gleðjum hjarta Jehóva með því að sýna honum slíka hollustu. — Orðskv. 27:11.

18, 19. (a) Hvað sýnum við með því að eiga ekki samskipti við þá sem ástunda illt? (b) Hvaða áhrif getur það haft ef við sýnum Guði hollustu og styðjum fyrirkomulag hans?

18 Ef þú ert í svipaðri aðstöðu og hér er lýst skaltu minna þig á að Jehóva finnur til með þér. Með því að slíta tengslin við þann sem vikið er úr söfnuðinum eða aðgreinir sig sýnirðu að þú hatar viðhorfin og verkin sem leiddu til þess að þannig fór. En þú sýnir líka að þér þykir nógu vænt um syndarann til að gera það sem er honum fyrir bestu. Hugsanlegt er að hollusta þín við Jehóva auki líkurnar á því að ögunin fái syndarann til að iðrast og snúa aftur til Jehóva.

19 Konu einni var vikið úr söfnuðinum en síðar var hún tekin inn á ný. Hún skrifaði: „Það gleður mig að Jehóva skuli þykja svo vænt um þjóna sína að hann lætur halda söfnuðinum hreinum. Þó að fólki fyrir utan finnist þetta harðneskjulegt er það bæði nauðsynlegt og kærleiksríkt.“ Heldurðu að systirin hefði komist að þessari niðurstöðu ef safnaðarmenn, þar á meðal fjölskylda hennar, hefðu haldið áfram að umgangast hana eftir að henni var vikið úr söfnuðinum? Með því að styðja lög Guðs varðandi þá sem vikið er úr söfnuðinum sýnum við að við elskum réttlætið og viðurkennum rétt Guðs til að setja okkur hegðunarreglur.

„Hatið illt“

20, 21. Hvers vegna er mikilvægt að læra að hata hið illa?

20 „Verið algáð, vakið,“ segir Pétur postuli í viðvörunartón. Af hverju? Af því að „óvinur ykkar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim sem hann getur tortímt.“ (1. Pét. 5:8) Ert þú í hættu? Það ræðst að miklu leyti af því hve vel þú lærir að hata hið illa.

21 Það er engan veginn auðvelt að læra að hata hið illa því að við erum fædd syndug og búum í heimi sem höfðar til langana holdsins. (1. Jóh. 2:15-17) Ef við líkjum eftir Jesú Kristi og elskum Jehóva Guð af öllu hjarta getum við hins vegar lært að hata hið illa. Við skulum vera staðráðin í að ,hata illt‘ í fullu trausti þess að Jehóva ,verndi dýrkendur sína og frelsi þá úr hendi óguðlegra‘. — Sálm. 97:10.

[Neðanmáls]

^ gr. 15 Ýtarlega umræðu um þetta mál er að finna í Varðturninum, 1. janúar 1982, bls. 26-31.

^ gr. 17 Sjá Varðturninn (enska útgáfu), 15. janúar 2007, bls. 17-20.

Hvert er svarið?

• Hvernig getum við rannsakað viðhorf okkar til áfengis?

• Hvað getum við gert til að verja okkur fyrir dulrænum áhrifum?

• Af hverju er klám hættulegt?

• Hvernig getum við sýnt að við hötum hið illa ef ástvini er vikið úr söfnuðinum?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 29]

Hvað ættirðu að íhuga ef þú velur að neyta áfengis?

[Mynd á bls. 30]

Gættu þín á afþreyingarefni sem ber merki um áhrif Satans.

[Mynd á bls. 31]

Hvaða löngun myndum við kynda undir með því að horfa á klám?