Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Hlýðni er betri en fórn“

„Hlýðni er betri en fórn“

„Hlýðni er betri en fórn“

SÁL var fyrsti konungurinn í Forn-Ísrael. Þótt hann hafi verið útvalinn af hinum sanna Guði varð hann um síðir óhlýðinn.

Hvað gerði Sál rangt? Hefði hann getað komist hjá því? Hvaða gagn getum við haft af því að kynna okkur hvernig hann fór að ráði sínu?

Jehóva velur Sál sem konung

Spámaðurinn Samúel þjónaði sem fulltrúi Guðs í Ísrael áður en Sál varð konungur. Nú var Samúel orðinn gamall og synir hans fetuðu rangar brautir. Á sama tíma var þjóðinni ógnað af óvinum sínum. Þegar öldungar Ísraels báðu Samúel að setja sér konung sem gæti ríkt yfir þeim og leitt þá í stríði sagði Jehóva spámanninum að hann ætti að smyrja Sál til höfðingja og sagði: „Hann verður að frelsa þjóð mína úr höndum Filistea.“ — 1. Sam. 8:4-7, 20; 9:16.

Sál var „ungur að aldri og öðrum Ísraelsmönnum glæsilegri“. Útlitið var þó ekki það eina sem hann hafði til brunns að bera. Hann var einnig auðmjúkur. Svo dæmi sé tekið spurði hann Samúel: „Er ég ekki aðeins Benjamíníti, af minnsta ættbálki Ísraels? Er ætt mín ekki sú lítilmótlegasta meðal allra ættanna í Benjamín? Hvernig getur þú sagt annað eins og þetta við mig?“ Sál leit hvorki stórt á sig né fjölskyldu sína þótt Kís, faðir hans, væri „auðugur maður“. — 1. Sam. 9:1, 2, 21.

Íhugum einnig hvernig Sál brást við þegar Samúel gerði kunnugt hvern Jehóva hafði valið sem konung. Samúel smurði Sál til konungs í einrúmi og sagði honum: „[Þú skalt] gera það sem þér kemur fyrst í hug því að Guð er með þér.“ Spámaðurinn kallaði síðan saman allt fólkið til að segja frá hvern Jehóva hefði valið. Þegar staðfest hafði verið að Sál væri hinn útvaldi var hann hvergi að finna. Hann var óframfærinn og hafði falið sig. Jehóva benti á hvar hann væri og Sál var hylltur sem konungur. — 1. Sam. 10:7, 20-24.

Á vígvellinum

Sál tók fljótlega af öll tvímæli um að hann væri hæfur til forystu. Þegar Ammónítar ógnuðu ísraelskri borg „kom andi Guðs yfir hann“. Hann kallaði saman stríðsmenn þjóðarinnar, skipti liðinu í fylkingar og leiddi það til sigurs. En Sál eignaði Guði þennan sigur og sagði: „Á þessum degi hefur Drottinn bjargað Ísrael.“ — 1. Sam. 11:1-13.

Sál var góðum eiginleikum gæddur og naut blessunar Guðs. Hann viðurkenndi einnig mátt Jehóva. En velgengni Ísraelsmanna og konungsins var háð einu mikilvægu skilyrði. Samúel sagði Ísraelsmönnum: „Ef þið virðið Drottin og þjónið honum, ef þið hlýðið boðum hans og setjið ykkur ekki á móti skipunum hans og ef þið og konungurinn, sem ríkir yfir ykkur, fylgið Drottni mun ykkur vegna vel.“ Um hvað gátu Ísraelsmenn verið vissir væru þeir Guði trúfastir? Samúel sagði: „Vegna síns mikla nafns mun hann ekki hafna lýð sínum“ af því að „Drottinn hefur ákveðið að gera ykkur að lýð sínum.“ — 1. Sam. 12:14, 22.

Til að öðlast velþóknun Guðs var mikilvægast að hlýða honum og svo er enn. Þegar þjónar Jehóva hlýða boðum hans blessar hann þá. En hvað gerist ef þeir óhlýðnast Jehóva?

„Þú hefur hegðað þér heimskulega“

Næsta atlaga Sáls gegn Filisteum vakti sterk viðbrögð frá þeim. Fjölmennur her, „sem var sem sandur á sjávarströnd“, reis gegn Sál. „Þegar Ísraelsmenn sáu að þeir voru í hættu, því að þrengt var að hernum, földu þeir sig í gjótum, hellum, klettaskorum, holum og brunnum.“ (1. Sam. 13:5, 6) Hvað gerði Sál?

Samúel hafði sagt Sál að hitta sig í Gilgal þar sem spámaðurinn ætlaði að færa fórnir. Sál beið en Samúel kom ekki á tilteknum tíma og herinn var tekinn að tvístrast. Svo Sál tók það upp hjá sjálfum sér að færa fórnirnar. Um leið og hann hafði lokið við það birtist Samúel. Þegar Samúel frétti hvað Sál hafði gert sagði hann: „Þú hefur hegðað þér heimskulega. Hefðir þú fylgt þeim fyrirmælum sem Drottinn, Guð þinn, gaf þér hefði Drottinn fest konungdóm þinn yfir Ísrael í sessi svo að hann hefði staðið um aldur og ævi. En nú skal konungdómur þinn ekki standa. Drottinn hefur leitað að manni sér að skapi og ætlað honum að vera höfðingi yfir þjóð sinni því að þú hefur ekki farið eftir því sem hann hefur boðið þér.“ — 1. Sam. 10:8; 13:8, 13, 14.

Sál skorti trú þegar hann dirfðist að óhlýðnast boði Guðs um að bíða eftir að Samúel kæmi til að færa fórnina. Það er ólíku saman að jafna það sem Sál gerði og það sem Gídeon gerði en hann hafði verið hershöfðingi Ísraelshers löngu áður. Jehóva sagði Gídeon að minnka her sinn úr 32.000 mönnum niður í 300 og Gídeon hlýddi. Hvers vegna gerði hann það? Vegna þess að hann trúði á Jehóva. Með hjálp Guðs sigraði hann 135.000 manna innrásarlið. (Dóm. 7:1-7, 17-22; 8:10) Jehóva hefði einnig hjálpað Sál á sama hátt. En vegna þess að Sál óhlýðnaðist rændu Filistear Ísrael. — 1. Sam. 13:17, 18.

Hvaða ákvarðanir tökum við þegar við lendum í erfiðleikum? Frá sjónamiði þeirra sem skortir trú gæti virst rétt að sniðganga meginreglur Guðs. Þar sem Samúel var fjarstaddur hefur Sál eflaust fundist það skynsamlegt sem hann gerði. En fyrir þá sem eru ákveðnir í að vera Guði þóknanlegir er það eina rétta að fara eftir meginreglum Biblíunnar sem eiga við hverju sinni.

Jehóva hafnar Sál

Í herferð gegn Amalekítum varð Sál sekur um aðra alvarlega synd. Guð hafði fordæmt Amalekíta vegna þess að þeir höfðu ráðist að tilefnislausu á Ísraelsmenn þegar þeir voru á leiðinni frá Egyptalandi. (2. Mós. 17:8; 5. Mós. 25:17, 18) Auk þess tóku Amalekítar höndum saman við aðrar þjóðir á tímum dómaranna að ráðast aftur á útvalda þjóð Guðs. (Dóm. 3:12, 13; 6:1-3, 33) Jehóva lét Amalekíta svara til saka og skipaði Sál að fullnægja dómi yfir þeim. — 1. Sam. 15:1-3.

Í stað þess að hlýða skipun Jehóva um að gereyða þessari óvinveittu þjóð, Amalekítunum, og eyðileggja eignir þeirra tók Sál konung þeirra til fanga og hélt eftir bestu skepnunum. Hvað gerðist þegar Samúel þjarmaði að Sál? Sál reyndi að koma sökinni á aðra og sagði: „Herinn þyrmdi bestu sauðunum og nautunum til þess að færa þau Drottni, Guði þínum, að fórn.“ Sál hafði óhlýðnast hvort sem hann ætlaði í raun og veru að fórna skepnunum eða ekki. Sál ,fannst hann ekki lengur smár‘. Spámaður Guðs benti á að Sál hefði óhlýðnast Guði. Síðan sagði hann: „Hefur Drottinn þá sömu velþóknun á brennifórnum og sláturfórnum og hlýðni við boð sín? . . . Af því að þú hafnaðir orði Drottins hefur hann hafnað þér sem konungi.“ — 1. Sam. 15:15, 17, 22, 23.

Þegar Jehóva hafði tekið heilagan anda og blessun sína frá Sál fór „illur andi“ að þjaka þennan fyrsta konung Ísraels. Hann varð tortrygginn og öfundsjúkur í garð Davíðs, manns sem Jehóva átti eftir að gefa konungdóminn. Sál reyndi að drepa Davíð oftar en einu sinni. Í Biblíunni segir að þegar Sál sá að „Drottinn var með Davíð . . . gerðist [hann] fjandmaður hans ævilangt“. Hann reyndi að elta Davíð uppi og skipaði meira að segja að 85 prestar yrðu drepnir ásamt fleirum. Það er því engin furða að Jehóva skuli hafa yfirgefið Sál. — 1. Sam. 16:14; 18:11, 25, 28, 29; 19:10, 11; 20:32, 33; 22:16-19.

Þegar Filistear réðust aftur á Ísrael sneri Sál sér til særingakonu í árangurslausri leit að hjálp. Næsta dag særðist hann alvarlega í bardaga og svipti sig lífi. (1. Sam. 28:4-8; 31:3, 4) Biblían segir um fyrsta konung Ísraels: „Sál lét lífið vegna svika sinna við Drottin og vegna þess að hann hafði ekki hlýtt fyrirmælum Drottins. Hann hafði jafnvel leitað úrskurðar hjá framliðnum í stað þess að leita úrskurðar Drottins.“ — 1. Kron. 10:13, 14.

Hið slæma fordæmi Sáls sýnir greinilega að það er betra að hlýða Jehóva en færa honum fórn, sama hver fórnin er. Jóhannes postuli skrifaði: „Því að elskan til Guðs birtist í að við höldum boðorð hans. Og boðorð hans eru ekki þung.“ (1. Jóh. 5:3) Missum aldrei sjónar á þessum grundvallarsannleika: Varanleg vinátta við Guð er háð því að við hlýðum honum.

[Mynd á bls. 21]

Í upphafi var Sál auðmjúkur leiðtogi.

[Mynd á bls. 23]

Hvers vegna sagði Samúel við Sál: „Hlýðni er betri en fórn“?