Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Læturðu anda Guðs leiða þig?

Læturðu anda Guðs leiða þig?

Læturðu anda Guðs leiða þig?

„Þinn góði andi leiði mig um slétta braut.“ — SÁLM. 143:10.

1, 2. (a) Nefndu dæmi þar sem Jehóva beitti heilögum anda í þágu þjóna sinna. (b) Starfar heilagur andi aðeins við sérstök tækifæri? Skýrðu svarið.

HVAÐ dettur þér í hug þegar þú heyrir talað um starfsemi heilags anda? Sérðu fyrir þér máttarverk Gídeons og Samsonar? (Dóm. 6:33, 34; 15:14, 15) Hugsarðu kannski um djörfung frumkristinna manna eða hugarró Stefáns þar sem hann stóð frammi fyrir æðstaráðinu? (Post. 4:31; 6:15) Hvað um gleðina sem einkennir alþjóðamótin, ráðvendni bræðra og systra sem eru hneppt í fangelsi vegna hlutleysis síns og ótrúlegan vöxt boðunarstarfsins? Allt eru þetta merki um starfsemi heilags anda.

2 Starfar heilagur andi aðeins við sérstök tækifæri eða óvenjulegar aðstæður? Nei, í orði Guðs er talað um að kristnir menn ,lifi í andanum‘ og láti ,leiðast af andanum‘. (Gal. 5:16, 18, 25) Þessi orð gefa til að kynna að heilagur andi geti haft stöðug áhrif á líf okkar. Við ættum daglega að biðja Jehóva um að leiðbeina okkur með anda sínum í því sem við hugsum, tölum og gerum. (Lestu Sálm 143:10.) Þegar við leyfum heilögum anda að starfa óhindrað í lífi okkar gefur hann af sér ávöxt sem er endurnærandi fyrir aðra og Guði til vegsemdar.

3. (a) Af hverju þurfum við að láta heilagan anda leiða okkur? (b) Um hvað er fjallað í þessari grein?

3 Hvers vegna er mikilvægt að láta heilagan anda leiða sig? Vegna þess að til er annað afl sem reynir að stjórna okkur og þetta afl vinnur gegn heilögum anda. Í Biblíunni er það kallað „holdið“ en þar er vísað til syndugra tilhneiginga hins fallna holds, til ófullkomleikans sem við höfum fengið í arf frá Adam. (Lestu Galatabréfið 5:17.) Hvað þýðir það að láta anda Guðs leiða sig? Getum við gert eitthvað ákveðið til að vinna á móti áhrifum hins synduga holds? Við skulum hafa þessar spurningar í huga þegar við ræðum þá sex ávexti andans sem ekki var fjallað um í greininni á undan, það er að segja ,langlyndi, gæsku, góðvild, trúmennsku, hógværð og sjálfsaga‘. — Gal. 5:22, 23.

Hógværð og langlyndi stuðla að friði í söfnuðinum

4. Hvernig stuðla hógværð og langlyndi að friði í söfnuðinum?

4Lestu Kólossubréfið 3:12, 13. Hógværð og langlyndi stuðla sameiginlega að friði í söfnuðinum. Báðir þessir eiginleikar hjálpa okkur að koma vel fram við aðra, halda ró okkar þegar okkur er skapraunað og gjalda ekki í sömu mynt þegar aðrir eru óvingjarnlegir í orðum eða verkum. Ef við erum langlynd og þolinmóð gefumst við ekki upp á trúsystkinum okkar þó að okkur greini á við þau heldur gerum það sem við getum til að viðhalda friði. Er virkilega þörf á hógværð og langlyndi í söfnuðinum? Já, vegna þess að við erum öll ófullkomin.

5. Hvað gerðist hjá Páli og Barnabasi og hvaða lærdóm má draga af því?

5 Lítum á atvik í lífi Páls og Barnabasar. Þeir höfðu unnið saman um árabil að því að útbreiða fagnaðarerindið. Báðir voru þeir góðir þjónar Guðs. Einu sinni varð þeim þó „mjög sundurorða og skildi þar með þeim“. (Post. 15:36-39) Af þessu dæmi má sjá að dyggir þjónar Guðs geta stundum orðið ósáttir. Hvernig er hægt að koma í veg fyrir að það sjóði upp úr ef trúsystkini greinir á, og missættið verði langvarandi?

6, 7. (a) Hvaða ráðum Biblíunnar ættum við að fylgja þegar við erum að ræða við trúsystkini og finnum að okkur er að hitna í hamsi? (b) Af hverju er gott að vera „fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði“?

6 Þegar sagt er að Páli og Barnabasi hafi orðið „mjög sundurorða“ má ætla að það hafi gerst snögglega og þeir hafi verið hvassir í orðum. Ef kristinn maður er að ræða við trúsystkini og finnur að honum er að renna í skap er skynsamlegt af honum að gera eins og hvatt er til í Jakobsbréfinu 1:19, 20: „Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði. Því að reiði manns ávinnur ekki það sem rétt er í augum Guðs.“ Hann gæti, allt eftir aðstæðum, reynt að skipta um umræðuefni, fresta umræðunum eða draga sig í hlé áður en hitnar í kolunum. — Orðskv. 12:16; 17:14; 29:11.

7 Af hverju er gott að fylgja þessum ráðum? Kristinn maður lætur anda Guðs leiða sig þegar hann gefur sér tíma til að róa sig niður, biðja og íhuga hvernig best sé að svara. (Orðskv. 15:1, 28) Undir áhrifum heilags anda getur hann verið hógvær og langlyndur. Þá er hann fær um að gera eins og hvatt er til í Efesusbréfinu 4:26, 29: „Ef þið reiðist þá syndgið ekki . . . Látið ekkert fúkyrði líða ykkur af munni heldur það eitt sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gerist, til þess að það verði til góðs þeim sem heyra.“ Þegar við íklæðumst hógværð og langlyndi stuðlum við að friði og einingu í söfnuðinum.

Gæska og góðvild eru styrkjandi fyrir fjölskylduna

8, 9. Hvað eru gæska og góðvild og hvaða áhrif hafa þessir eiginleikar innan veggja heimilisins?

8Lestu Efesusbréfið 4:31, 32; 5:8, 9. Gæska og góðvild eru hressandi eins og mildur andvari eða svalandi drykkur þegar heitt er í veðri. Í fjölskyldunni stuðla þessir eiginleikar að þægilegu andrúmslofti. Gæska er aðlaðandi og er sprottin af einlægum áhuga á öðrum, og þessi áhugi sýnir sig í hjálpsemi og nærgætni. Góðvild birtist sömuleiðis í góðum verkum í þágu annarra. Hún er örlát. (Post. 9:36, 39; 16:14, 15) En góðvild er meira en það.

9 Góðvild lýsir siðferðilegu ágæti. Hún er ekki bara það sem við gerum heldur fremur það sem við erum. Hún er eins og ávöxtur sem er sætur og þroskaður í gegn og óskemmdur með öllu. Góðvildin, sem er ávöxtur heilags anda, einkennir sömuleiðis líf kristins manns og allt sem hann gerir.

10. Hvað er hægt að gera til að hjálpa fjölskyldunni að þroska með sér ávöxt andans?

10 Hvað getur hvatt fólk á kristnu heimili til að sýna hvert öðru gæsku og góðvild? Nákvæm þekking á orði Guðs hefur mikið að segja. (Kól. 3:9, 10) Sumir fjölskyldufeður nota hluta af vikulegu námskvöldi fjölskyldunnar til að fjalla um ávöxt andans. Það er ekki erfitt að koma því við. Þú getur notað þau hjálpargögn sem eru til á heimamáli þínu til að finna efni þar sem rætt er um hvern eiginleika fyrir sig. Það mætti fara yfir fáeinar efnisgreinar í hverri viku og nota nokkrar vikur til að fjalla um hvern eiginleika. Þegar þið farið yfir efnið ættuð þið að lesa og ræða um ritningarstaðina sem vísað er til. Skoðið hvernig þið getið farið eftir því sem þið lærið og biðjið Jehóva að blessa viðleitni ykkar. (1. Tím. 4:15; 1. Jóh. 5:14, 15) Getur rannsókn af þessu tagi haft marktæk áhrif á framkomu fólks innan fjölskyldunnar?

11, 12. Hvernig var það tvennum hjónum til góðs að lesa sér til um ávöxt andans?

11 Ung hjón ákváðu að skoða ávöxt andans rækilega í því skyni að styrkja hjónabandið. Hvernig var það þeim til farsældar? Eiginkonan segir: „Við komumst að raun um að gæska birtist bæði í tryggð og hollustu. Það hefur haft mikil áhrif á framkomu okkar hvort við annað. Við höfum lært að gefa eftir og fyrirgefa. Og við höfum lært að þakka fyrir okkur og biðjast afsökunar þegar við á.“

12 Önnur kristin hjón, sem áttu í erfiðleikum, komust að raun um að þau þyrftu að vera gæskuríkari. Þau ákváðu að skoða þennan eiginleika í sameiningu. Hverju skilaði það? Eiginmaðurinn segir: „Þegar við lásum okkur til um gæskuna rann upp fyrir okkur að við þyrftum að láta hvort annað njóta vafans í stað þess að ætla hvort öðru rangar hvatir. Við þurftum að sjá hið góða í fari hvort annars. Við fórum að sýna meiri áhuga á þörfum hins. Ég þurfti að gefa konunni minni færi á að segja hug sinn óhikað án þess að móðgast við orð hennar. Það þýddi að ég þurfti að kyngja stoltinu. Þegar við fórum að sýna hvort öðru meiri gæsku hættum við smám saman að vera í vörn. Það var mikill léttir.“ Gæti fjölskylda þín haft gott af því að lesa sér til um ávöxt andans?

Sýndu trúmennsku þegar þú ert einn

13. Hvað getur stefnt sambandi okkar við Jehóva í hættu?

13 Kristnir menn þurfa að láta anda Guðs leiða sig bæði í fjölmenni og í einrúmi. Klúrar myndir og siðspillandi skemmtiefni er út um allt í heimi Satans. Það getur stefnt sambandi okkar við Jehóva í hættu. Hvað er til ráða? Í orði Guðs segir: „Leggið . . . af hvers konar saurugleik og alla vonsku og takið með hógværð á móti hinu gróðursetta orði er frelsað getur sálir ykkar.“ (Jak. 1:21) Við skulum nú kanna hvernig trúmennska eða trú, sem er einn ávöxtur andans, getur hjálpað okkur að vera hrein frammi fyrir Jehóva.

14. Hvernig getur veik trú verið undanfari rangrar breytni?

14 Að trúa merkir í meginatriðum að Jehóva Guð sé okkur raunverulegur. Ef Jehóva er okkur ekki raunverulegur er mikil hætta á að við gerum eitthvað rangt. Það gerðist hjá þjóð Guðs endur fyrir löngu. Jehóva opinberaði Esekíel spámanni að menn hefðu í frammi alls konar svívirðingar í einrúmi. Hann sagði: „Sérðu, mannssonur, hvað öldungar Ísraels hafast að í myrkrinu, hver í sinni myndastúku? Því að þeir hugsa: Drottinn sér okkur ekki, Drottinn hefur yfirgefið landið.“ (Esek. 8:12) Tókstu eftir hvað stuðlaði að þessari breytni? Menn trúðu ekki að Jehóva tæki eftir hvað þeir voru að gera. Jehóva var þeim ekki raunverulegur.

15. Hvernig er sterk trú á Jehóva okkur til verndar?

15 Hjá Jósef var allt annað uppi á teningnum. Þótt hann væri fjarri fólki sínu og fjölskyldu neitaði hann að drýgja hór með eiginkonu Pótífars. Af hvaða ástæðu? „Hvers vegna skyldi ég þá aðhafast svo illt og syndga á móti Guði?“ sagði hann. (1. Mós. 39:7-9) Jehóva var honum raunverulegur. Ef Jehóva er okkur raunverulegur horfum við ekki á spillandi skemmtiefni eða gerum nokkuð annað í einrúmi sem við vitum að hann hefur vanþóknun á. Við ættum að vera sama sinnis og sálmaskáldið sem söng: „Í grandvarleik hjartans vil ég ganga um í húsi mínu. Ég vil ekki hafa illvirki fyrir augum.“ — Sálm. 101:2, 3.

Varðveittu hjartað með því að sýna sjálfsaga

16, 17. (a) Hvernig verður ,ungur og vitstola maður‘ syndinni að bráð samkvæmt lýsingunni í Orðskviðunum? (b) Hvernig gæti eitthvað svipað gerst á okkar tímum hjá fólki á öllum aldri, samanber myndina á bls. 26?

16 Sjálfsagi er síðastur í röðinni af ávexti andans. Hann gerir okkur kleift að forðast það sem Guð fordæmir. Hann getur hjálpað okkur að varðveita hjartað. (Orðskv. 4:23) Í Orðskviðunum 7:6-23 er talað um „ungan og vitstola mann“ sem lætur vændiskonu tæla sig eftir að hann ,kemur að götuhorni‘ í grennd við heimili hennar. Ef til vill var það forvitni sem dró hann þangað í fyrstu. En áður en hann veit af er hann kominn út á hættulega braut og „líf hans er í veði“.

17 Hvernig hefði ungi maðurinn getað forðast þessi hrikalegu mistök? Með því að fylgja viðvöruninni að ,villast ekki inn á götur hennar‘. (Orðskv. 7:25) Við getum dregið ákveðinn lærdóm af þessu: Ef við viljum að andi Guðs leiði okkur þurfum við að forðast aðstæður þar sem við gætum orðið fyrir freistingu. Hvernig gætum við gert sömu heimskulegu mistökin og ,ungi vitstola maðurinn‘? Til dæmis með því að fletta stefnulaust milli sjónvarpsrása eða vafra á Netinu. Hvort sem við ætlum okkur það eða ekki gætum við rekist á kynæsandi myndir eða myndskeið. Við gætum smám saman vanið okkur á að horfa á klám sem er stórskaðlegt fyrir samviskuna og sambandið við Jehóva. Lífið gæti verið í húfi. — Lestu Rómverjabréfið 8:5-8.

18. Hvað gæti kristinn maður gert til að varðveita hjartað og hvers vegna kostar það sjálfsaga?

18 Við getum auðvitað og ættum að sýna sjálfsaga með því að bregðast skjótt við ef kynæsandi mynd verður á vegi okkar. En það væri miklu betra að forðast með öllu að lenda í slíkum aðstæðum. (Orðskv. 22:3) Það kostar ákveðinn sjálfsaga að gera nauðsynlegar varúðarráðstafanir og fylgja þeim. Það getur til dæmis verið til verndar að vera með tölvuna þar sem aðrir sjá til. Sumum finnst best að nota ekki tölvuna né horfa á sjónvarpið nema aðrir séu viðstaddir. Og sumir hafa ákveðið að vera ekki einu sinni með netaðgang. (Lestu Matteus 5:27-30.) Við skulum gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að vernda sjálf okkur og fjölskylduna þannig að við getum tilbeðið Jehóva „af hreinu hjarta, góðri samvisku og hræsnislausri trú“. — 1. Tím. 1:5.

19. Hvernig er það til góðs að láta heilagan anda Guðs leiða sig?

19 Ávöxturinn af starfsemi heilags anda er okkur til góðs á marga vegu. Hógværð og langlyndi efla friðinn í söfnuðinum. Gæska og góðvild stuðla að hamingjuríku fjölskyldulífi. Trúmennska og sjálfsagi hjálpa okkur að varðveita náið samband við Jehóva og vera hrein í augum hans. Í Galatabréfinu 6:8 er að finna eftirfarandi loforð: „Sá sem sáir í andann mun af andanum uppskera eilíft líf.“ Vegna lausnarfórnar Krists mun Jehóva beita heilögum anda sínum til að veita þeim eilíft líf sem láta andann leiða sig.

Hvert er svarið?

• Hvernig stuðla hógværð og langlyndi að friði í söfnuðinum?

• Hvað getur hjálpað okkur að sýna gæsku og góðvild á heimilinu?

• Hvernig eru trúmennska og sjálfsagi hjálp til að varðveita hjartað?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 24]

Hvernig geturðu komið í veg fyrir að það sjóði upp úr þegar þig greinir á við trúsystkini?

[Mynd á bls. 25]

Fjölskyldan getur notið góðs af því að lesa sér til um ávöxt andans.

[Mynd á bls. 26]

Hvaða hættur forðumst við með því að sýna trúmennsku og sjálfsaga?