Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Taktu þjónustuna við Jehóva alvarlega

Taktu þjónustuna við Jehóva alvarlega

Taktu þjónustuna við Jehóva alvarlega

„Metið þá hluti rétt sem máli skipta.“ — FIL. 1:10.

1, 2. Hvað veldur því að margir í þessum heimi taka lífið ekki alvarlega og hvaða spurningar vekur það?

VIÐ lifum einhverja erfiðustu og dapurlegustu tíma í sögu mannkyns. Það getur verið þrautin þyngri fyrir þá sem eiga ekki náið samband við Jehóva að glíma við þessar,örðugu tíðir‘. (2. Tím. 3:1-5) Þeir bjarga sér á seiglunni einni saman — en gengur samt misjafnlega. Margir reyna að gleyma erfiðleikunum með því að eltast við alls konar skemmtiefni og dægrastyttingu sem yfirdrifið framboð er af.

2 Til að rísa undir álagi lífsins kjósa margir að setja skemmtun og afþreyingu ofar öllu öðru. Ef þjónar Guðs gæta ekki að sér gætu þeir hæglega hrifist með af þessum tíðaranda. Hvernig getum við komið í veg fyrir það? Megum við aldrei gera okkur dagamun? Hvernig er hægt að finna meðalveginn milli þess að skemmta sér og rækja skyldur sínar? Hvaða meginreglur Biblíunnar ættum við að hafa til leiðsagnar svo að við getum tekið lífið alvarlega án þess þó að vera alvörugefin úr hófi fram?

Sýnum alvöru í heimi sem er upptekinn af því að skemmta sér

3, 4. Hvernig bendir Biblían á gildi þess að taka lífið alvarlega?

3 Það segir sig sjálft að heimurinn ,elskar munaðarlífið‘ svo um munar. (2. Tím. 3:4) Þessi mikla áhersla fólks á það að skemmta sér getur stefnt sambandi okkar við Jehóva í hættu. (Orðskv. 21:17) Það var því ærin ástæða fyrir Pál postula til að nefna í bréfum sínum til Tímóteusar og Títusar að það væri nauðsynlegt að taka lífið alvarlega. Ef við nýtum okkur leiðbeiningar hans hjálpar það okkur að sporna gegn því alvöruleysi sem einkennir heiminn. — Lestu 1. Tímóteusarbréf 2:1, 2; Títusarbréfið 2:2-8.

4 Öldum áður hafði Salómon bent á gildi þess að neita sér stundum um skemmtun til að hugleiða alvöru lífsins. (Préd. 3:4; 7:2-4) Lífið er ósköp stutt þannig að við þurfum að leggja hart að okkur til að hljóta hjálpræði. (Lúk. 13:24) Til að gera það þurfum við að ,meta þá hluti rétt sem máli skipta‘. (Fil. 1:10) Það þýðir að hugsa alvarlega um allt sem er fólgið í því að vera kristinn.

5. Nefndu eitt svið þar sem er mikilvægt að taka lífið alvarlega.

5 Svo dæmi sé nefnt líkja kristnir menn eftir Jehóva og Jesú og taka alvarlega þá skyldu sína að vera iðjusamir. (Jóh. 5:17) Fyrir vikið er þeim oft hrósað fyrir að vera áreiðanlegir og duglegir starfsmenn. Þeir sem eiga fyrir fjölskyldu að sjá láta sér sérstaklega umhugað um að framfleyta heimilisfólki sínu. Að sjá ekki fjölskyldu sinni farborða er lagt að jöfnu við að ,afneita trúnni‘. — 1. Tím. 5:8.

Tilbeiðslan er alvarlegs eðlis en ánægjuleg

6. Hvernig vitum við að við eigum að taka tilbeiðsluna á Jehóva alvarlega?

6 Jehóva hefur alltaf litið svo á að fólk eigi að taka sanna tilbeiðslu alvarlega. Sem dæmi má nefna að meðan Móselögin voru í gildi hafði það alvarlegar afleiðingar fyrir Ísraelsmenn að gerast fráhverfir Jehóva. (Jós. 23:12, 13) Fylgjendur Krists á fyrstu öld þurftu að leggja sig alla fram til að sönn tilbeiðsla spilltist ekki af röngum kenningum og viðhorfum. (2. Jóh. 7-11; Opinb. 2:14-16) Sannkristnir menn nú á tímum taka tilbeiðslu sína líka alvarlega. — 1. Tím. 6:20.

7. Hvernig undirbjó Páll sig fyrir boðunarstarfið?

7 Boðunarstarfið er mjög ánægjulegt. En til að viðhalda gleðinni þurfum við að undirbúa okkur vel og hugsa alvarlega um starf okkar. Páll segir frá því hvernig hann tók mið af aðstæðum þeirra sem hann kenndi. Hann skrifaði: „Ég hef verið öllum allt til þess að ég geti að minnsta kosti frelsað nokkra. Allt geri ég vegna fagnaðarerindisins til þess að ég fái hlutdeild í blessun þess.“ (1. Kor. 9:22, 23) Páll hafði ánægju af því að hjálpa fólki að kynnast Guði og hugleiddi alvarlega hvernig hann gæti sinnt þörfum ólíkra áheyrenda. Hann var því fær um að uppörva fólk og hvetja það til að tilbiðja Jehóva.

8. (a) Hvernig ættum við að hugsa um þá sem við kennum í boðunarstarfinu? (b) Af hverju höfum við ánægju af því að halda biblíunámskeið?

8 Hve mikilvægt var boðunarstarfið í augum Páls? Hann var fús til að ,gera sig að þræli‘ Jehóva og þeirra sem hlýddu á boðskap sannleikans. (Rómv. 12:11; 1. Kor. 9:19) Skynjum við ábyrgð okkar gagnvart öðrum þegar við fræðum þá um orð Guðs, hvort heldur er á heimilum þeirra, á safnaðarsamkomu eða í biblíunámi fjölskyldunnar? Okkur finnst ef til vill að það sé einum of bindandi að annast biblíunámskeið á reglulegum grundvelli. Það útheimtir auðvitað að við tökum tíma frá öðrum hugðarefnum og notum hann til að kenna fólki. En er það ekki í samræmi við orð Jesú þess efnis að það sé,sælla að gefa en þiggja‘? (Post. 20:35) Það veitir okkur óviðjafnanlega gleði að fá að fræða aðra um veginn til hjálpræðis.

9, 10. (a) Er óviðeigandi fyrir þann sem er alvarlega þenkjandi að slappa af og eiga ánægjulegar samverustundir með fólki? Skýrðu svarið. (b) Hvað getur hjálpað öldungi að vera hvetjandi og þægilegur í viðmóti?

9 Þó að við séum alvarlega þenkjandi merkir það ekki að við megum ekki slappa af og eiga ánægjulegar samverustundir með fólki. Jesús er okkur frábær fyrirmynd með því að gefa sér ekki aðeins tíma til að kenna heldur líka til að slaka á og kynnast fólki. (Lúk. 5:27 -29; Jóh. 12:1, 2) Þó að við séum alvarlega sinnuð þýðir það ekki að við þurfum alltaf að vera alvarleg á svip. Fólk hefði örugglega ekki laðast að Jesú ef hann hefði verið mjög strangur og alvörugefinn. Börnum leið meira að segja vel í návist hans. (Mark. 10:13-16) Hvernig getum við líkt eftir Jesú að þessu leyti?

10 Bróðir nokkur segir eftirfarandi um öldung í söfnuðinum: „Hann gerir miklar kröfur til sjálfs sín en ætlast ekki til að aðrir séu fullkomnir.“ Er hægt að segja það sama um þig? Það er í góðu lagi að gera hóflegar kröfur til annarra. Börn hafa til dæmis gott af því að foreldrar setji þeim skynsamleg markmið og hjálpi þeim að ná þeim. Öldungar geta sömuleiðis hvatt aðra í söfnuðinum til að styrkja sinn andlega mann og leiðbeint þeim þar að lútandi. Og þegar öldungur sér sjálfan sig í réttu ljósi er hann hvetjandi og þægilegur í viðmóti. (Rómv. 12:3) Systir nokkur sagði: „Ég myndi ekki vilja að öldungur slægi öllu upp í grín. En ef honum stykki aldrei bros væri líka erfitt að leita til hans.“ Önnur systir sagði að sér fyndist sumir öldungar „geta verið fráhrindandi vegna þess að þeir væru ákaflega alvörugefnir“. Öldungar ættu aldrei að draga úr þeirri gleði sem tilbeiðslan ætti að veita öllum þjónum Jehóva, „hins sæla Guðs“. — 1. Tím. 1:11, Biblían 1912.

Öxlum ábyrgð í söfnuðinum

11. Hvað merkir það að ,sækjast eftir‘ verkefnum í söfnuðinum?

11 Þegar Páll hvatti karlmenn í söfnuðinum til að sækjast eftir að axla ábyrgð var hugmyndin ekki sú að menn ættu að gera það sökum metnaðargirni. Hann skrifaði: „Sækist einhver eftir biskupsstarfi [starfi umsjónarmanns] þá girnist hann göfugt hlutverk.“ (1. Tím. 3:1, 4) Þegar talað er um að ,sækjast eftir‘ er átt við sterka löngun til að þroska með sér þá eiginleika sem eru nauðsynlegir til að þjóna söfnuðinum. Hægt er að mæla með að bróðir sé útnefndur safnaðarþjónn ef hann hefur verið skírður í eitt ár eða lengur og uppfyllir að hæfilegu marki þær kröfur sem gerðar eru til safnaðarþjóna í 1. Tímóteusarbréfi 3:8-13. Við skulum taka eftir að í versi 8 segir að safnaðarþjónar skuli vera „heiðvirðir“ og er þá átt við að þeir taki hlutverk sitt alvarlega.

12, 13. Lýstu hvernig ungir bræður geta sóst eftir ábyrgðarstarfi í söfnuðinum.

12 Ertu skírður bróðir að nálgast tvítugt og tekurðu tilbeiðsluna á Jehóva alvarlega? Þú getur unnið að því á ýmsa vegu að verða hæfur til að vera safnaðarþjónn, meðal annars með því að taka meiri þátt í boðunarstarfinu. Hefurðu gaman af að boða fagnaðarerindið með trúsystkinum þínum á öllum aldri? Ertu að reyna að finna einhvern sem þú gætir aðstoðað við biblíunám? Þegar þú heldur biblíunámskeið í samræmi við þær leiðbeiningar sem gefnar eru á safnaðarsamkomum verður þú færari kennari. Og þú lærir að setja þig í spor þess sem er að kynnast Jehóva. Þegar nemandinn áttar sig á að hann þurfi að gera ýmsar breytingar lærirðu að hjálpa honum með þolinmæði og nærgætni að fara eftir meginreglum Biblíunnar.

13 Þið ungu bræðurnir getið boðið ykkur fram til að aðstoða hina eldri í söfnuðinum á alla mögulega vegu. Þið getið líka sýnt áhuga á viðhaldi ríkissalarins og tekið þátt í að halda honum hreinum og snyrtilegum. Þegar þið bjóðist til að hjálpa á hvern þann hátt sem þið getið er það merki þess að þið takið þjónustu ykkar alvarlega. Líkt og Tímóteus getið þið lært að láta ykkur einlæglega annt um þarfir safnaðarins. — Lestu Filippíbréfið 2:19-22.

14. Hvernig er hægt að láta reyna á hvort bræður séu færir um að axla ábyrgð í söfnuðinum?

14 Þið öldungar ættuð að vera vakandi fyrir því að nota starfskrafta ungra bræðra sem leitast við að flýja „æskunnar girndir“ og stunda „réttlæti, trú, kærleika og frið“ ásamt öðrum góðum eiginleikum. (2. Tím. 2:22) Með því að fela þeim ýmis verkefni í söfnuðinum er hægt að láta reyna á hvort þeir séu færir um að axla ábyrgð þannig að ,framför þeirra sé öllum augljós‘. — 1. Tím. 3:10; 4:15.

Tökum alvarlega skyldur okkar í söfnuðinum og fjölskyldunni

15. Hvernig sýnum við öðrum virðingu samkvæmt 1. Tímóteusarbréfi 5:1, 2?

15 Að taka hlutverk sitt alvarlega felur meðal annars í sér að bera virðingu fyrir bræðrum og systrum í söfnuðinum. Þegar Páll skrifaði Tímóteusi benti hann á mikilvægi þess að sýna virðingu í framkomu við fólk. (Lestu 1. Tímóteusarbréf 5:1, 2.) Það er sérstaklega mikilvægt í samskiptum við hitt kynið. Job sýndi konum, ekki síst eiginkonu sinni, tilhlýðilega virðingu og hann er okkur góð fyrirmynd. Hann gætti þess vandlega að líta ekki aðrar konur girndarauga. (Job. 31:1) Ef við berum virðingu fyrir trúsystkinum okkar kemur ekki til greina að daðra eða gera nokkuð annað sem gerði að verkum að bróður eða systur þætti návist okkar óþægileg. Það er sérstaklega mikilvægt að karl og kona sýni hvort öðru virðingu þegar þau eru að draga sig saman með hjónaband í huga. Kristinn maður á aldrei að leika sér að tilfinningum annarrar manneskju. — Orðskv. 12:22.

16. Hvernig er hlutverki eiginmanns og föður lýst í Biblíunni, ólíkt því sem algengt er í heiminum?

16 Við þurfum einnig að taka alvarlega þær skyldur sem Guð hefur falið okkur í fjölskyldunni. Í heimi Satans er gert harla lítið úr hlutverki eiginmanns og föður. Hjá skemmtanaiðnaðinum tíðkast það að hæðast að fjölskylduföðurnum og gera hann að athlægi. Samkvæmt Biblíunni er hins vegar lögð mikil ábyrgð á herðar eiginmannsins og honum falið það hlutverk að vera „höfuð konunnar“. — Ef. 5:23; 1. Kor. 11:3.

17. Hvernig getum við sýnt að við tökum skyldur okkar alvarlega varðandi sameiginlegt biblíunám fjölskyldunnar?

17 Það er ekki nóg að eiginmaðurinn vinni fyrir fjölskyldunni. Hann þarf líka að taka forystuna í tilbeiðslunni á Jehóva, og það væri ábyrgðarlaust og óskynsamlegt af honum að gera það ekki. (5. Mós. 6:6, 7) Þess vegna segir í 1. Tímóteusarbréfi 3:4 um fjölskylduföður sem sækist eftir aukinni ábyrgð í söfnuðinum: „Hann á að vera maður sem veitir góða forstöðu heimili sínu og venur börn sín á hlýðni og alla prúðmennsku.“ Spyrðu þig hvort þú takir frá ákveðinn tíma í hverri viku til að sinna sameiginlegu biblíunámi fjölskyldunnar og fullnægja andlegum þörfum hennar. Sumar eiginkonur í söfnuðinum þurfa nánast að sárbæna eiginmenn sína um að taka forystuna í tilbeiðslu fjölskyldunnar. Allir eiginmenn ættu að líta í eigin barm og skoða hvernig þeir rækja þessa skyldu sína. Kristin eiginkona á auðvitað að leggja sitt af mörkum til að styðja sameiginlegt biblíunám fjölskyldunnar og vinna að því með manni sínum.

18. Hvernig geta börn lært að taka lífið alvarlega?

18 Börn eru einnig hvött til að taka lífið alvarlega. (Préd. 12:1) Það gerir börnum ekki illt að læra að vinna, til dæmis ýmis húsverk í samræmi við aldur þeirra og getu. (Harmlj. 3:27) Davíð konungur var orðinn góður fjárhirðir á unga aldri. Hann lærði bæði að leika á hljóðfæri og semja tónlist, og það varð til þess að hann var beðinn að þjóna við hirð konungsins í Ísrael. (1. Sam. 16:11, 12, 18-21) Davíð hefur eflaust leikið sér þegar hann var barn en hann þjálfaði líka með sér hæfileika sem hann notaði síðar meir til að lofa Jehóva. Af hjarðgæslunni lærði hann þolinmæði sem reyndist honum notadrjúg þegar hann var orðinn konungur Ísraels. Hvaða hæfileika eruð þið börnin að þroska með ykkur — hæfileika sem þið getið notað í þjónustu skaparans og búa ykkur undir skyldur fullorðinsáranna?

Að finna meðalveginn

19, 20. Hvernig eigum við að líta á sjálf okkur og tilbeiðslu okkar?

19 Við ættum öll að reyna sjá sjálf okkur í réttu ljósi og taka okkur ekki allt of alvarlega. Við megum ekki vera ,um of réttlát‘. (Préd. 7:16) Hæfileg glettni getur losað um spennu, bæði heima, í vinnunni og í samskiptum við trúsystkini. Við megum ekki vera svo gagnrýnin að heimili okkar hætti að vera friðsæll griðastaður. Allir í söfnuðinum geta lært að njóta þess að vera saman og hlæja saman, og haldið samræðum jákvæðum og uppbyggilegum og kennslunni sömuleiðis. — 2. Kor. 13:10; Ef. 4:29.

20 Við búum í heimi þar sem Jehóva og lög hans eru lítils metin. Þjónum Jehóva er hins vegar mikið í mun að hlýða honum og vera honum trúir. Það er einstaklega ánægjulegt að tilheyra fjölmennu samfélagi fólks sem tilbiður Jehóva af þeirri alvöru sem vera ber. Við skulum vera ákveðin í að taka lífið og tilbeiðslu okkar alvarlega.

Hvert er svarið?

• Af hverju þurfum við að sporna gegn því alvöruleysi sem einkennir heiminn?

• Hvernig getum við haft ánægju af þjónustu okkar þótt hún sé alvarlegs eðlis?

• Hvernig lítur alvarlega þenkjandi bróðir á það að axla ábyrgð í söfnuðinum?

• Af hverju er mikilvægt að sýna trúsystkinum og ættingjum viðeigandi virðingu?

[Spurningar]

[Myndir á bls. 12]

Eiginmaður þarf að fullnægja efnislegum og andlegum þörfum fjölskyldunnar.