Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Verum heiðarleg í óheiðarlegum heimi

Verum heiðarleg í óheiðarlegum heimi

Verum heiðarleg í óheiðarlegum heimi

ÓHEIÐARLEIKI er alls staðar rétt eins og loftið sem við öndum að okkur. Menn segja ósatt, setja upp of hátt verð, stela, greiða ekki skuldir sínar og stæra sig af því að vera kænir í viðskiptum. Í slíku umhverfi lendum við oft í aðstæðum sem reyna á heiðarleika okkar. Hvernig er þá hægt að standast freistinguna að vera óheiðarlegur? Lítum nánar á þrjú atriði sem geta orðið okkur til hjálpar í þeim efnum. Þau eru guðsótti, góð samviska og nægjusemi.

Heilbrigður guðsótti

Jesaja spámaður skrifaði: „Drottinn er dómari vor, Drottinn er löggjafi vor, Drottinn er konungur vor.“ (Jes. 33:22) Við viðurkennum valdastöðu Jehóva og berum óttablandna virðingu fyrir honum en það er drifkrafturinn að baki þeirri ákvörðun að vera ekki óheiðarleg. Í Orðskviðunum 16:6 segir: „Að óttast Drottin forðar frá illu.“ Slíkur ótti er ekki sjúkleg hræðsla við hefnigjarnan Guð heldur heilbrigður ótti við að misbjóða himneskum föður sem er mjög umhugað um velferð okkar. — 1. Pét. 3:12.

Eftirfarandi frásaga sýnir hvað það er jákvætt að hafa þennan heilbrigða ótta. Ricardo og Fernanda, eiginkona hans, tóku sem svarar 80.000 krónum út af bankareikningi sínum. * Fernanda stakk seðlabunkanum í veskið án þess að telja upphæðina. Þau borguðu nokkra reikninga og þegar heim var komið urðu þau undrandi að sjá næstum sömu upphæðina í veski hennar og þau höfðu tekið út. Þau komust að þeirri niðurstöðu að gjaldkerinn í bankanum hlyti að hafa látið þau fá of mikið. Í fyrstu var freistandi að halda peningunum þar sem þau áttu eftir að borga marga aðra reikninga. Ricardo segir: „Við báðum Jehóva að gefa okkur styrk til að skila peningunum. Okkur langaði til að gleðja hann í samræmi við hvatninguna í Orðskviðunum 27:11 og þess vegna vildum við skila þeim.“

Biblíufrædd samviska

Við getum þjálfað samviskuna með því að afla okkur biblíuþekkingar og keppa að því að fara eftir því sem við lærum. Þar sem „orð Guðs er lifandi og kröftugt“ snertir það bæði huga okkar og hjarta. Það hvetur okkur til að ,breyta vel í öllum greinum‘. — Hebr. 4:12; 13:18.

Tökum João sem dæmi. Hann hlóð upp töluverðum skuldum, jafngildi 570.000 króna. Hann fluttist þá til annarrar borgar án þess að greiða skuldir sínar. Átta árum síðar kynntist João sannleikanum og biblíufrædd samviska hans varð til þess að hann hafði samband við lánardrottin sinn til að gera upp skuldina. Þar sem João var tekjulágur og þurfti að sjá fyrir eiginkonu og fjórum börnum var fallist á að hann greiddi skuldina með mánaðarlegum afborgunum.

Nægjusemi

Páll postuli skrifaði: „Trúin samfara nægjusemi er mikill gróðavegur . . . Ef við höfum fæði og klæði þá látum oss það nægja.“ (1. Tím. 6:6-8) Þegar við förum eftir þessu viturlega ráði eigum við auðveldara með að forðast fégræðgi, vafasama viðskiptahætti eða óraunhæf loforð um skjótfenginn gróða. (Orðskv. 28:20) Við eigum einnig auðveldara með að láta Guðsríki hafa forgang þegar við förum eftir ráði Páls, fullviss um að okkur verði séð fyrir daglegum nauðsynjum. — Matt. 6:25-34.

Vegna þess hve „tál auðæfanna“ er varasamt ættum við aldrei að vanmeta þá hættu að græðgi og ágirnd nái tökum á okkur. (Matt. 13:22) Munum eftir hvernig fór fyrir Akan. Hann hafði orðið vitni að kraftaverkinu sem gerðist þegar Ísraelsmenn fóru yfir Jórdan. Gagntekinn græðgi gat hann samt ekki staðist þá löngun að stela silfri og gulli og dýrindisskikkju úr ránsfengnum frá Jeríkó. Það kostaði hann lífið. (Jós. 7:1, 20-26) Það er ekkert undarlegt að Jesús skuli hafa sagt öldum síðar: „Gætið ykkar og varist alla ágirnd.“ — Lúk. 12:15.

Heiðarleiki á vinnustað

Lítum nú á nokkrar aðstæður þar sem getur reynt á heiðarleika okkar. Þeir sem eru heiðarlegir á vinnustað eru „ekki hnuplsamir“ þó að þar sé það viðtekin venja. (Tít. 2:9, 10) Jurandir vinnur hjá opinberri stofnun og skýrði heiðarlega frá ferðakostnaði sínum. En samstarfsmenn hans fóru fram á hærri endurgreiðslu en nam raunverulegum ferðakostnaði. Þeir gátu gert það af því að yfirmaður deildarinnar hylmdi yfir með þeim. Yfirmaðurinn ávítaði reyndar Jurandir fyrir að vera heiðarlegur og hætti að senda hann í viðskiptaferðir. En þegar frá leið var rekstur stofnunarinnar endurskoðaður og Jurandir var hrósað fyrir heiðarleika. Hann fékk einnig stöðuhækkun.

André var sölumaður og vinnuveitandinn sagði honum að skrifa tvisvar sama þjónustugjaldið á reikning viðskiptavinanna. Trúbróðir okkar bað Jehóva um kjark til að halda fast við meginreglur Biblíunnar. (Sálm. 145:18-20) Hann reyndi einnig að útskýra fyrir vinnuveitandanum hvers vegna hann gæti ekki hlýtt fyrirmælunum en allt kom fyrir ekki. André ákvað því að segja upp þessu vel launaða starfi. En um það bil ári síðar kallaði fyrrverandi vinnuveitandi hann aftur til starfa og fullvissaði hann um að viðskiptavinirnir væru ekki lengur krafðir um of há þjónustugjöld. André var gerður að deildarstjóra.

Greiðum skuldir okkar

Páll postuli ráðlagði kristnum mönnum: „Skuldið ekki neinum neitt.“ (Rómv. 13:8) Okkur finnst ef til vill réttlætanlegt að endurgreiða ekki skuldir og hugsum sem svo að viðkomandi lánardrottinn eigi hvort eð er nóg af peningum. Í Biblíunni segir: „Guðlaus maður tekur lán og borgar ekki.“ — Sálm. 37:21.

Hvað er til ráða ef „tími og tilviljun“ kemur í veg fyrir að við getum borgað það sem við skuldum? (Préd. 9:11) Francisco fékk lánað hjá Alfredo sem svarar 800.000 krónum til að borga upp veðlán. En afturkippur í viðskiptum varð til þess að Francisco gat ekki borgað skuldina á tilsettum tíma. Hann leitaði til Alfredos til að ræða málin og þeir sömdu um að skuldin yrði greidd með afborgunum.

Gefum ekki villandi mynd af sjálfum okkur

Munum hvernig Ananías og Saffíra fóru að ráði sínu en þau voru hjón í kristna söfnuðinum á fyrstu öld. Þau höfðu selt land en komu aðeins með nokkuð af andvirðinu til postulanna og staðhæfðu að það væri allt söluverðið. Þau vildu vekja aðdáun annarra með því að þykjast vera einstaklega örlát. En Pétur postuli fletti ofan af svikunum með hjálp heilags anda og fyrir tilstilli Jehóva gáfu þau upp öndina á staðnum. — Post. 5:1-11.

Ólíkt Ananíasi og Saffíru voru biblíuritararnir opinskáir og heiðarlegir. Móse sagði hreinskilnislega frá því að hann hafi misst stjórn á skapi sínu en það kom í veg fyrir að hann kæmist inn í fyrirheitna landið. (4. Mós. 20:7-13) Jónas breiddi ekki heldur yfir veikleikana sem hann sýndi bæði fyrir og eftir að hann prédikaði í Níníve. Þvert á móti lét hann þeirra getið í riti sínu. — Jónas 1:1-3; 4:1-3.

Það þarf vissulega kjark til að segja sannleikann því að það getur stundum haft óþægilegar afleiðingar. Natalía er 14 ára skólastúlka. Hún fór yfir skriflegt próf sem hún hafði tekið og tók eftir því að eitt af svörunum, sem kennarinn hafði merkt við sem rétt, var raunar rangt. Natalía hikaði ekki við að segja kennaranum frá því þó að hún vissi að það kæmi niður á einkunninni. „Foreldrar mínir hafa alltaf kennt mér að til þess að gleðja Jehóva yrði ég að vera heiðarleg. Það hefði truflað samvisku mína ef ég hefði ekki sagt kennaranum frá þessu,“ sagði hún. Kennarinn kunni vel að meta heiðarleika Natalíu.

Heiðarleiki er Jehóva til lofs

Gísela, 17 ára stúlka, fann seðlaveski með skilríkjum og jafngildi 4.000 króna. Hún gerði ráðstafanir til að skila veskinu til eigandans með aðstoð skólastjórnenda. Mánuði síðar las aðstoðarskólastjórinn upp bréf fyrir allan bekkinn þar sem Gíselu var hælt fyrir heiðarleika og foreldrum hennar hrósað fyrir góða fræðslu og trúarlegt uppeldi. „Góð verk“ hennar voru Jehóva til lofs. — Matt. 5:14-16.

Það er ekki auðvelt að vera heiðarlegur innan um þá sem eru ,sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir og guðlausir‘. (2. Tím. 3:2) Guðsótti, biblíufrædd samviska og nægjusemi hjálpa okkur engu að síður að vera heiðarleg í óheiðarlegum heimi. Við byggjum einnig upp nánara samband við Jehóva sem er ,réttlátur og elskar rétta breytni‘. — Sálm. 11:7.

[Neðanmáls]

^ gr. 5 Sumum nöfnum hefur verið breytt.

[Myndir á bls. 7]

Heilbrigður ótti við Jehóva styrkir ásetning okkar að vera heiðarleg.

[Mynd á bls. 8]

Við erum Jehóva til lofs með því að vera heiðarleg.