Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Frábær umsjónarmaður og kær vinur“

„Frábær umsjónarmaður og kær vinur“

„Frábær umsjónarmaður og kær vinur“

JOHN BARR, sem sat í hinu stjórnandi ráði Votta Jehóva, lést að morgni laugardags 4. desember 2010, 97 ára að aldri. Honum hefur verið lýst sem ,frábærum umsjónarmanni og kærum vini‘.

Bróðir John Barr fæddist í Aberdeen í Skotlandi, yngstur þriggja systkina. Báðir foreldrar hans voru andasmurðir. Bróðir Barr talaði oft hlýlega um æsku sína og var þakklátur fyrir það framúrskarandi fordæmi sem foreldrar hans settu honum.

Þegar John komst á unglingsárin átti hann ákaflega erfitt með að tala við ókunnuga. En hann lagði mikið á sig til að vinna bug á því. Og sunnudag einn árið 1927, þegar hann var 14 ára, tilkynnti hann föður sínum að nú væri hann tilbúinn að fara með honum út í boðunarstarfið hús úr húsi. Það var upphafið að ævilangri þjónustu hans við Jehóva. Bróðir Barr var kappsamur boðberi fagnaðarerindisins allt til dauðadags.

Hörmulegt slys, sem kostaði móður hans næstum lífið, varð til þess að John fór að hugsa alvarlega um tilgang lífsins ungur að árum. Árið 1929 vígðist hann Jehóva og til tákns um það lét hann skírast niðurdýfingarskírn um leið og tækifæri gafst. Það var árið 1934. Árið 1939 byrjaði hann að starfa á Betel í London. Þar með hóf hann þjónustu í fullu starfi sem stóð samfellt í 71 ár.

Í október árið 1960 tók bróðir Barr upp „sérstaklega dýrmætt samband“, eins og hann komst að orði, þegar hann gekk að eiga Mildred Willett. Hún hafði um langt árabil verið brautryðjandi og trúboði. Barr-hjónin voru þekkt fyrir trúfesti sína og voru öðrum góð fyrirmynd. Þau lásu daglega saman í Biblíunni alla sína hjónabandstíð. Mildred lauk jarðnesku lífsskeiði sínu í október 2004.

Þeir sem þekktu John Barr minnast manns sem gaf íhugul ráð — alltaf yfirveguð, alltaf vingjarnleg og byggð á Biblíunni. Hann var vinnusamur, nærgætinn og ástúðlegur umsjónarmaður og dyggur vinur að auki. Svör hans á samkomum, ræður hans og bænir leiddu í ljós hve sannleikurinn snerti hann djúpt og hve náið samband hans var við Jehóva.

Við söknum bróður Barrs en samgleðjumst honum að hafa fengið ódauðleikann að gjöf, blessun sem hann hlakkaði til að öðlast og talaði svo oft um. Það var allt sem hann þráði. — 1. Kor. 15:53, 54. *

[Neðanmáls]

^ gr. 8 Ævisaga Johns E. Barrs birtist í Varðturninum (enskri útgáfu) 1. júlí 1987, bls. 26 til 31.