Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fylgjum fullkomnum leiðtoga okkar, Kristi

Fylgjum fullkomnum leiðtoga okkar, Kristi

Fylgjum fullkomnum leiðtoga okkar, Kristi

ÞEIR sem fylgja mennskum stjórnendum verða oft fyrir vonbrigðum. En þeir sem fylgja forystu Krists og lúta honum verða fyrir gerólíkum áhrifum. Jesús sagði: „Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.“ (Matt. 11:28, 29) Það er því ánægjulegt og endurnærandi að hafa Jesú sem leiðtoga. Hann sýnir lítillátum og undirokuðum mikinn áhuga með því að bjóða þeim að ganga undir ok sitt. En hvað felur það í sér að fylgja forystu Jesú?

Pétur postuli skrifaði: „Kristur leið einnig fyrir ykkur og lét ykkur eftir fyrirmynd til þess að þið skylduð feta í fótspor hans.“ (1. Pét. 2:21) Hve mikilvægt er fyrir okkur að feta í fótspor Jesú? Ímyndaðu þér að þú sért í hópi fólks sem þarf að fara yfir jarðsprengjusvæði og aðeins einn í hópnum vissi hvernig hægt væri að komast heilu og höldnu yfir það. Myndirðu ekki fylgja honum fast eftir, jafnvel feta í fótspor hans? Framtíðaröryggi okkar er á svipaðan hátt háð því að við lifum lífinu eins vel og við getum eftir fyrirmynd Jesú. Við gerum það með því að hlusta á hann, hlýða honum og vinna með þeim sem eru fulltrúar hans.

Að heyra orð Krists og hlýða

Undir lok fjallræðunnar sagði Jesús: „Hver sem heyrir þessi orð mín og breytir eftir þeim, sá er líkur hyggnum manni er byggði hús sitt á bjargi. Nú skall á steypiregn, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi en það féll eigi því það var grundvallað á bjargi.“ — Matt. 7:24, 25.

Jesús átti við að sá maður sem hlustar og hlýðir orðum hans væri „hygginn“. Sýnum við með einlægri hlýðni okkar að við virðum og metum Jesú sem fyrirmynd eða hættir okkur til að velja úr þau fyrirmæli sem okkur finnst auðvelt eða hentugt að hlýða? Jesús sagði: „Ég geri ætíð það sem [Guði] þóknast.“ (Jóh. 8:29) Kappkostum að líkja eftir þessu fordæmi.

Postularnir á fyrstu öld settu gott fordæmi með því að líta á Krist sem leiðtoga sinn. Við eitt tækifæri sagði Pétur við Jesú: „Við yfirgáfum allt og fylgdum þér.“ (Mark. 10:28) Postularnir álitu Jesú vera svo einstakan leiðtoga að þeir voru fúsir til að yfirgefa allt og fylgja honum. — Matt. 4:18-22.

Vinnum með fulltrúum Krists

Stuttu fyrir dauða sinn minntist Jesús á að við gætum fylgt forystu hans á annan hátt. Hann sagði: „Sá sem tekur við þeim sem ég sendi, hann tekur við mér.“ (Jóh. 13:20) Jesús sagði að andasmurðir fulltrúar hans væru ,bræður‘ hans. (Matt. 25:40) Eftir að hann hafði verið reistur upp til himna var ,bræðrum‘ hans falið að þjóna sem erindrekar hans og bjóða öðrum að sættast við Jehóva Guð. (2. Kor. 5:18-20). Að viðurkenna Krist sem leiðtoga felur í sér að vera undirgefinn ,bræðrum‘ hans.

Það er gott fyrir okkur að íhuga hvernig við bregðumst við þeim tímabæru ráðleggingum frá Biblíunni sem koma fram í ritum okkar. Við erum minnt á orð Krists þegar við rannsökum Biblíuna og sækjum safnaðarsamkomur. (2. Pét. 3:1, 2) Við sýnum að við metum af heilum hug andlegu fæðuna sem okkur er séð fyrir með því að neyta hennar reglulega. En hvernig ættum við að bregðast við þegar einhver ákveðin ráðlegging er endurtekin endrum og eins? Til dæmis er kristnu fólki ráðlagt í orði Guðs að giftast ekki nema þeim sem er í trúnni. (1. Kor. 7:39) Um þetta efni hefur öðru hverju verið fjallað í Varðturninum í meira en eina öld. ,Bræður‘ Krists hafa vissulega látið sér annt um samband okkar við Jehóva með því að birta greinar með ráðleggingum um þetta efni og annað sem fjallað er um í Biblíunni. Við getum meðal annars sýnt að við fylgjum Jesú Kristi, fullkomnum leiðtoga okkar, með því að veita þessum áminningum athygli.

Í Orðskviðunum 4:18 stendur: „Gata réttlátra er eins og bjartur árdagsljómi, því bjartari sem nær líður hádegi.“ Forysta Jesú er sannarlega framsækin, ekki kyrrstæð. Önnur leið til að vinna með ,bræðrum‘ Krists er að vera jákvæð gagnvart sérhverjum umbótum sem hinn „trúi og hyggni þjónn“ birtir til að biblíuskilningur okkar verði skýrari. — Matt. 24:45.

Við sýnum einnig ,bræðrum‘ Krists undirgefni með því að vinna með útnefndum umsjónarmönnum í kristna söfnuðinum. Páll postuli sagði: „Hlýðið leiðtogum ykkar og verið þeim eftirlát. Þeir vaka yfir sálum ykkar.“ (Hebr. 13:17) Til dæmis gæti öldungur hvatt okkur með því að benda á hve mikilvægt sé að fjölskyldan hafi biblíunámskvöld í hverri viku eða komið með tillögur í sambandi við einhvern þátt boðunarstarfsins. Farandhirðir gæti gefið okkur biblíulegar ráðleggingar varðandi kristið líferni. Þegar við þiggjum fúslega slík ráð sýnir það að við fylgjum Jesú sem leiðtoga.

Því miður skortir góða forystu í heiminum. En það er sérlega endurnærandi að fylgja kærleiksríkri forystu Krists. Hlýðum því leiðtoga okkar fyrir alla muni og vinnum með þeim sem hann notar nú á tímum.

[Myndir á bls. 27]

Tekurðu þeim ráðum Biblíunnar að bindast ekki vantrúuðum?