Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hefurðu yndi af orði Guðs?

Hefurðu yndi af orði Guðs?

Hefurðu yndi af orði Guðs?

„ÞEGAR ég fór að lesa reglulega í Biblíunni gerði ég það meira af skyldurækni en ánægju,“ segir Lorraine. „Ég átti erfitt með að skilja það sem ég las svo að hugurinn fór að reika.“

Aðrir viðurkenna að þeir hafi einnig byrjað að lesa Biblíuna án þess að hafa notið þess. En þeir gáfust ekki upp af því að þeir vissu að það væri rétt að lesa orð Guðs. Marc segir: „Það er auðvelt að láta trufla sig við biblíulesturinn og sjálfsnámið. Það kostaði mig margar bænir og mikla áreynslu að venja mig á að lesa daglega í Biblíunni.“

Hvað geturðu gert til að hafa meiri mætur á orði Guðs, Biblíunni? Hvernig geturðu haft yndi af því að lesa hana? Lítum á eftirfarandi tillögur.

Markmið og aðferðir

Vertu einbeittur og í bænarhug þegar þú ætlar þér að lesa í Biblíunni. Biddu Jehóva að gefa þér sífellt meiri löngun til að meðtaka orð hans. Biddu hann í einlægni að opna hug þinn og hjarta til að skilja visku hans betur. (Sálm. 119:34) Sé slík löngun ekki til staðar gæti biblíunámið fljótlega orðið vélrænt og áhuginn dofnað. Lynn segir: „Ég les stundum svo hratt að áhugaverð atriði fara algerlega fram hjá mér. Oft skil ég ekki meginhugmyndirnar. Ég bið samt um sjálfstjórn og það hjálpar til að halda mér við efnið.“

Virtu að verðleikum það sem þú lærir. Mundu að líf þitt er undir því komið að skilja og fara eftir sannleika Biblíunnar. Því skaltu reyna markvisst að finna hagnýt atriði sem þú getur notað þér. „Ég leita að einhverju sem hjálpar mér að koma auga á rangar hugsanir og tilhneigingar í fari mínu,“ segir Chris. „Það er uppörvandi að sjá hvernig finna má í Biblíunni, og mörgum af ritum okkar, upplýsingar sem koma mér persónulega að haldi þó svo að ritararnir þekki mig ekki.“

Settu þér raunhæf markmið. Reyndu að læra eitthvað nýtt um persónurnar í Biblíunni. Þú getur fundið hrífandi staðreyndir um margar þeirra með því að fletta upp í Insight on the Scriptures, efnisskrám eða geisladisknum Watchtower Library. Þegar þú ferð að kynnast körlum og konum í Biblíunni sem raunverulegu fólki með persónuleika og tilfinningar verða þau lifandi í huga þér.

Leitaðu nýrra leiða til að rökræða með hjálp Biblíunnar. (Post. 17:2, 3) Sophia hefur það í huga við biblíunám sitt. „Mig langar til að læra og tileinka mér nýjar leiðir til að geta rökrætt við fólk með hjálp Biblíunnar, bæði í boðunarstarfinu og utan þess, svo að ég geti sagt skýrt og greinilega frá sannleika Biblíunnar. Í Varðturninum má sjá ágætis dæmi um hvernig það er gert,“ segir hún. — 2. Tím. 2:15.

Sjáðu frásagnir Biblíunnar fyrir þér. „Orð Guðs er lifandi,“ segir í Hebreabréfinu 4:12. Þegar þú lest í Biblíunni gæddu þá boðskap Guðs lífi með því að ímynda þér hvað blasti við augum biblíupersónanna. Reyndu að heyra það sem þær heyrðu og láta þér líða eins og þeim leið. Tengdu upplifanir þeirra við ákveðnar kringumstæður í lífi þínu. Lærðu af því hvernig þær réðu fram úr málunum. Þá eykst skilningur þinn og þú manst frásagnirnar betur.

Gefðu þér tíma til að skoða erfiða ritningarstaði og finna skýringar á þeim svo að þú skiljir þá rétt. Gefðu þér nægan tíma fyrir hverja námsstund. Þú gætir rekist á mjög áhugaverðar spurningar sem krefjast ítarlegri rannsóknar. Flettu upp framandi orðum, athugaðu neðanmálsgreinar og ef þú átt Biblíu með millivísunum geturðu skoðað þær. Því meira sem þú skilur og nýtir þér það sem þú lest því meira yndi hefurðu af orði Guðs. Þá geturðu sagt eins og sálmaritarinn: „Fyrirmæli þín [Jehóva] eru hlutskipti mitt um aldur því að þau gleðja hjarta mitt.“ — Sálm. 119:111.

Flýttu þér ekki um of að fara yfir efnið. Ætlaðu þér hæfilegan tíma fyrir sjálfsnámið en gefðu þér líka nægan tíma til að búa þig undir safnaðarsamkomurnar. „Mér finnst ég oft vera svo taugaspennt að ég get ekki einbeitt mér,“ segir Raquel. „Því finnst mér gott að lesa stuttan tíma í einu. Þá finnst mér ég hafa mest gagn af náminu.“ Chris segir: „Þegar ég er að flýta mér hef ég samviskubit af því að það situr svo lítið eftir. Efnið nær venjulega ekki til hjartans.“ Gefðu þér því nægan tíma.

Sæktu sífellt meira í orð Guðs. Pétur postuli sagði: „Sækist eins og nýfædd börn eftir hinni andlegu, ómenguðu mjólk til þess að þið af henni getið dafnað til hjálpræðis.“ (1. Pét. 2:2) Börn þurfa ekkert að hafa fyrir því að langa í móðurmjólkina. Löngunin er þeim eðlislæg. En í Biblíunni kemur fram að við þurfum að þroska með okkur löngun í orð Guðs. Ef maður les eina blaðsíðu daglega í Biblíunni mun ekki standa á því að sú löngun geri vart við sig. Það sem í fyrstu virtist erfitt verður brátt ánægjulegt.

Hugleiddu efni ritningarstaðanna. Það er einnig nauðsynlegt að hugleiða það sem þú lest. Þá áttu auðveldara með að tengja efnið við það sem þú hefur áður kynnt þér. Innan tíðar hefurðu safnað þér miklum sjóði dýrmætra biblíusanninda. — Sálm. 19:15; Orðskv. 3:3.

Tímanum er vel varið

Það kostar átak að halda sig við góðar námsvenjur en umbunin er ómetanleg. Skilningur þinn á Biblíunni eykst. (Hebr. 5:12-14) Dómgreindin og viskan, sem þú færð frá innblásnu orði Guðs, færir þér hamingju, ánægju og frið. Spekin, sem er að finna í Biblíunni, er „tré lífsins“ fyrir þá sem tileinka sér hana og nota. — Orðskv. 3:13-18.

Með því að kafa djúpt í orð Guðs geturðu öðlast visku. (Orðskv. 15:14) Þá áttu auðveldara með að gefa einlæg ráð sem eru byggð á traustum grundvelli Biblíunnar. Ef þú byggir ákvarðanir þínar á því sem þú lest í Biblíunni og í ritum ,hins trúa og hyggna þjóns‘ finnur þú fyrir upplífgandi og stöðugum áhrifum frá innblásnu orði Jehóva. (Matt. 24:45) Þú verður jákvæðari og bjartsýnni, og orð Jehóva hefur áhrif á þig á öllum sviðum. Allt sem tengist sambandi þínu við Guð gengur þér í haginn. — Sálm. 1:2, 3.

Einlægur kærleikur til Guðs fær þig til að segja öðrum frá trú þinni. Það getur líka haft mikla umbun í för með sér. Sophia vinnur að því að festa í minni og nota fjölbreytilega ritningarstaði til að ná athygli húsráðenda og gera boðunarstarfið árangursríkt og spennandi. „Það er upplífgandi að sjá viðbrögð fólks þegar það heyrir hvað stendur í Biblíunni,“ segir hún.

En mesti ávinningurinn af því að hafa yndi af orði Guðs er náið samband við hann. Biblíunámið gerir þér mögulegt að þekkja meginreglur hans og þú lærir að meta kærleika hans, örlæti og réttlæti. Ekkert er eins mikilvægt eða veitir meiri umbun. Sökktu þér niður í að kynna þér orð Guðs. Þeim tíma er vel varið. — Sálm. 19:8-12.

[Rammi/​myndir á bls. 5]

AÐ LESA BIBLÍUNA: MARKMIÐ OG AÐFERÐIR

▪ Vertu einbeittur og í bænarhug þegar þú ætlar þér að lesa í Biblíunni.

▪ Virtu að verðleikum það sem þú lærir.

▪ Settu þér raunhæf markmið.

▪ Leitaðu nýrra leiða til að rökræða með hjálp Biblíunnar.

▪ Sjáðu frásagnir Biblíunnar fyrir þér.

▪ Gefðu þér tíma til að skoða erfiða ritningarstaði og finna skýringar á þeim svo að þú skiljir þá rétt.

▪ Flýttu þér ekki um of að fara yfir efnið.

▪ Sæktu sífellt meira í orð Guðs.

▪ Hugleiddu efni ritningarstaðanna.

[Mynd á bls. 4]

Sjáðu sjálfan þig í sömu sporum og biblíupersónurnar sem þú ert að lesa um.