Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hver hefur forgang í lífi þínu?

Hver hefur forgang í lífi þínu?

Hver hefur forgang í lífi þínu?

„Þú einn ert Hinn hæsti yfir allri jörðinni.“ — SÁLM. 83:19.

1, 2. Af hverju er ekki nóg að þekkja Jehóva með nafni til að hljóta hjálpræði?

HVENÆR sástu nafn Guðs í fyrsta sinn? Var það kannski þegar einhver sýndi þér 2. Mósebók 6:3 (neðanmáls)? Þar segir: „Ég birtist Abraham, Ísak og Jakobi sem almáttugur Guð en undir nafninu Jahve [eða Jehóva] opinberaði ég mig ekki.“ Það kom þér kannski á óvart að Guð hafi nafn. Eflaust hefurðu upp frá því sýnt öðrum þetta vers svo að þeir kynnist Jehóva, hinum kærleiksríka Guði. — Rómv. 10:12, 13.

2 Það er mikilvægt að fólk þekki Jehóva Guð með nafni en sú vitneskja nægir ekki ein og sér. Tökum eftir hvernig sálmaritarinn leggur áherslu á ákveðin sannindi sem skipta sköpum til að hljóta hjálpræði. Hann segir: „Þú einn ert Hinn hæsti yfir allri jörðinni.“ Já, Jehóva er mikilvægastur allra í alheiminum. Hann hefur skapað alla hluti og getur því réttilega farið fram á að allar sköpunarverur hans sýni honum algera undirgefni. (Opinb. 4:11) Við höfum því ærna ástæðu til að spyrja okkur: „Hver hefur forgang í lífi mínu?“ Það er brýnt að við skoðum hug okkar vandlega til þessa máls.

Málið sem kom upp í Eden

3, 4. Hvernig fór Satan að því að blekkja Evu og hvernig brást hún við?

3 Þetta er mjög mikilvægt mál eins og sjá má af atburðarásinni í Edengarðinum. Uppreisnargjarn engill, sem síðar var kallaður Satan djöfullinn, tældi Evu til að láta eigin langanir ganga fyrir skýru boði Jehóva um að borða ekki ávöxt af ákveðnu tré. (1. Mós. 2:17; 2. Kor. 11:3) Hún lét tælast og lítilsvirti þar með drottinvald Jehóva. Það er augljóst að Jehóva hafði ekki forgang í lífi hennar. En hvernig fór Satan að því að blekkja Evu?

4 Satan beitti lævísum aðferðum þegar hann ræddi við Evu. (Lestu 1. Mósebók 3:1-5.) Fyrst má nefna að hann nefndi Jehóva ekki á nafn heldur talaði aðeins um „Guð“. Ritari 1. Mósebókar notaði hins vegar nafn Guðs í fyrsta versi þriðja kaflans. Í öðru lagi talaði Satan ekki um ,boð‘, það er að segja fyrirmæli Guðs, heldur spurði einfaldlega hvað Guð hafði „sagt“. (1. Mós. 2:16) Vel má vera að Satan hafi ætlað sér með slægð að gera lítið úr fyrirmælum Guðs. Í þriðja lagi notaði Satan fleirtölufornafnið „þið“ þótt hann væri að tala við Evu eina. Með því ætlaði hann kannski að ýta undir stærilæti og reyna að láta hana finnast hún vera merkileg — rétt eins og hún væri talsmaður þeirra hjóna. Hvernig brást Eva við? Hún tók það upp á sitt einsdæmi að tala fyrir hönd þeirra beggja þegar hún sagði við höggorminn: „Við megum eta af ávöxtum trjánna í aldingarðinum.“

5. (a) Um hvað fékk Satan Evu til að hugsa? (b) Hvað sýndi Eva með því að borða af forboðna ávextinum?

5 Satan fór líka rangt með staðreyndir. Hann gaf í skyn að það væri ósanngjarnt af Guði að fara fram á að Adam og Eva borðuðu ekki „af neinu tré í aldingarðinum“. Því næst fékk hann Evu til að hugsa um sjálfa sig og hvernig hún gæti, að hans sögn, bætt hlutskipti sitt í lífinu og orðið „eins og Guð“. Að lokum fékk hann hana til að einblína frekar á tréð og ávöxtinn en á sambandið við Jehóva sem hafði gefið henni allt. (Lestu 1. Mósebók 3:6.) Því miður borðaði Eva af ávextinum og sýndi þar með að Jehóva skipaði ekki fyrsta sætið hjá henni.

Málið sem kom upp á dögum Jobs

6. Hvernig véfengdi Satan ráðvendni Jobs og hvað fékk Job þar með tækifæri til að gera?

6 Öldum síðar fékk hinn guðhræddi Job tækifæri til að sýna hvern hann léti ganga fyrir í lífinu. Þegar Jehóva benti Satan á hve ráðvandur Job hefði reynst svaraði Satan um hæl: „Er Job guðhræddur að ástæðulausu?“ (Lestu Jobsbók 1:7-10.) Satan dró ekki í efa að Job hlýddi Guði heldur gaf í skyn að hann gerði það af röngu tilefni. Hann sakaði Job lymskulega um að þjóna Jehóva af eigingjörnum hvötum en ekki af kærleika. Job einn gat afsannað þessar ásakanir og honum var gefið tækifæri til þess.

7, 8. Við hvaða erfiðleika þurfti Job að glíma og hvað sannaði hann með þolgæði sínu?

7 Jehóva leyfði Satan að leiða yfir Job hverja ógæfuna á fætur annarri. (Job. 1:12-19) Hvaða viðbrögð vakti það hjá Job að líf hans umturnaðist? Frásagan segir að hann „syndgaði . . . ekki og álasaði Guði ekki“. (Job. 1:22) En Satan var ekki af baki dottinn. Hann hélt áfram: „Nær er skinnið en skyrtan. Menn láta allt sem þeir eiga fyrir líf sitt.“ (Job. 2:4) Satan gaf í skyn að ef Job þyrfti sjálfur að þjást myndi hann hætta að hafa Jehóva í fyrsta sæti.

8 Job afmyndaðist af hræðilegum sjúkdómi og konan hans sagði honum að formæla Guði og deyja. Þrír falsvinir sökuðu hann síðan um ranga breytni. (Job. 2:11-13; 8:2-6; 22:2, 3) Þrátt fyrir þjáningar sínar lét Job ekki af ráðvendninni. (Lestu Jobsbók 2:9, 10.) Með því að vera þolgóður sannaði hann að hann hefði Jehóva í fyrsta sæti. Job sýndi einnig fram á að ófullkomnir menn geti gert sitt besta til að svara röngum ásökunum Satans. — Samanber Orðskviðina 27:11.

Fullkomið svar Jesú

9. (a) Hvernig reyndi Satan að notfæra sér langanir Jesú til að freista hans? (b) Hvað gerði Jesús þegar hans var freistað?

9 Stuttu eftir skírn Jesú reyndi Satan að fá hann til að hugsa um eigingjarnar langanir í staðinn fyrir að hafa Jehóva efst í huga. Satan freistaði Jesú með þrennum hætti. Fyrst reyndi hann að höfða til eðlilegra langana hans í mat og hvatti hann til að breyta steinum í brauð. (Matt. 4:2, 3) Jesús hafði nýlokið 40 daga föstu og var sársvangur. Satan hvatti hann því til að misbeita kraftaverkamætti sínum í þeim tilgangi að seðja hungrið. Hvað gerði Jesús? Ólíkt Evu hafði hann orð Jehóva skýrt í huga og ýtti hugmyndinni strax frá sér. — Lestu Matteus 4:4.

10. Af hverju manaði Satan Jesú til að kasta sér fram af musterinu?

10 Satan reyndi líka að fá Jesú til að vera eigingjarn. Hann manaði Jesú til að kasta sér fram af musterinu. (Matt. 4:5, 6) Hverju vonaðist Satan til að áorka með því? Hann fullyrti að ef fallið skaðaði ekki Jesú myndi það sanna fyrir öllum að hann væri „sonur Guðs“. Satan vildi augljóslega að Jesú væri svo umhugað um eigið mannorð að hann reyndi að ganga í augun á öðrum. Satan vissi að sumir tækju hættulegri áskorun út af stolti, til að halda andlitinu. Hann rangtúlkaði vers úr Ritningunni en Jesús bjó yfir nákvæmum skilningi á orði Jehóva. (Lestu Matteus 4:7.) Með því að láta Satan ekki mana sig sannaði Jesús að Jehóva skipaði fyrsta sætið í lífi hans.

11. Af hverju hafnaði Jesús boði Satans um að eignast öll ríki heims?

11 Satan greip að lokum til þess örþrifaráðs að bjóða Jesú öll ríki heims. (Matt. 4:8, 9) Jesús hafnaði boðinu tafarlaust. Hann gerði sér ljóst að með því að þiggja boðið væri hann að hunsa drottinvald Jehóva, það er að segja rétt hans til að fara með æðstu yfirráð. (Lestu Matteus 4:10.) Jesús svaraði hverri og einni freistingu Satans með því að vitna í ritningarstað þar sem nafn Guðs kemur fyrir.

12. Hvað olli Jesú miklu hugarangri rétt áður en hann lauk lífi sínu hér á jörð og hvað lærum við af því hvernig hann tók á málinu?

12 Rétt áður en Jesús lauk lífi sínu hér á jörð þurfti hann að taka erfiða ákvörðun. Meðan á þjónustu hans stóð hafði hann sýnt og sannað að hann væri fús til að fórna lífi sínu. (Matt. 20:17-19, 28; Lúk. 12:50; Jóh. 16:28) En hann gerði sér ljóst að hann yrði líka ranglega ákærður og dæmdur samkvæmt lögum Gyðinga og síðan tekinn af lífi fyrir guðlast. Þetta olli honum miklu hugarangri. Hann bað: „Faðir minn, ef verða má þá fari þessi kaleikur fram hjá mér.“ En hann bætti við: „Þó ekki sem ég vil heldur sem þú vilt.“ (Matt. 26:39) Með því að vera trúfastur allt til enda sýndi Jesús skýrt hver hefði forgang í lífi hans.

Svar okkar

13. Hvað lærum við af Evu, Job og Jesú Kristi?

13 Hvað höfum við lært af þessari umfjöllun? Af Evu lærum við að þeir sem vilja upphefja sjálfa sig eða láta undan eigingjörnum löngunum sýna þar með að Jehóva hefur ekki forgang í lífi þeirra. Hins vegar lærum við af ráðvendni Jobs að með þolgæði geta ófullkomnir menn sýnt að þeir hafi Jehóva í fyrsta sæti — jafnvel þegar þeir skilja ekki til fulls af hverju mótlætið stafar. (Jak. 5:11) Af fordæmi Jesú lærum við svo að vera fús til að þola smán og leggja ekki of mikla áherslu á eigið orðspor. (Hebr. 12:2) En hvernig getum við nýtt okkur þetta?

14, 15. Hvernig brást Jesús við freistingum, ólíkt Evu, og hvernig getum við líkt eftir honum? (Hvað sýnir myndin á bls. 18?)

14Gleymdu aldrei Jehóva þegar þú verður fyrir freistingu. Eva leyfði freistingunni, sem blasti við henni, að taka alla athygli sína. Hún sá að „tréð var gott af að eta, fagurt á að líta og girnilegt til fróðleiks“. (1. Mós. 3:6) Þetta var gerólíkt viðbrögðum Jesú við freistingunum sem hann varð fyrir. Hann lét ekki blindast af þeim heldur hugsaði um afleiðingar gerða sinna. Hann reiddi sig á orð Jehóva og notaði nafn hans.

15 Að hverju beinum við athyglinni þegar okkar er freistað til að gera það sem er illt í augum Jehóva? Því meir sem við hugsum um freistinguna þeim mun sterkari verður löngunin til að gera það sem er rangt. (Jak. 1:14, 15) Við verðum að uppræta löngunina tafarlaust þótt það gæti virst jafn róttækt og að fjarlæga líkamshluta. (Matt. 5:29, 30) Líkt og Jesús verðum við að hugsa um afleiðingar gerða okkar, hvaða áhrif þær koma til með að hafa á samband okkar við Jehóva. Við þurfum að vera minnug þess sem stendur í orði hans, Biblíunni. Þannig getum við sýnt og sannað að enginn sé okkur jafn kær og Jehóva.

16-18. (a) Hvað getur gert okkur niðurdregin? (b) Hvað getur hjálpað okkur að þola íþyngjandi aðstæður?

16Vertu aldrei bitur út í Jehóva vegna áfalla sem þú verður fyrir. (Orðskv. 19:3) Æ fleiri þjónar Jehóva verða fyrir áföllum og hamförum er nær dregur endalokum þessa illa heims. Við búumst ekki við því að vera bjargað fyrir kraftaverk núna. Líkt og Job gætum við þó orðið döpur og niðurdregin þegar við missum ástvin eða verðum fyrir öðrum skakkaföllum.

17 Job skildi ekki af hverju Jehóva leyfði að vissir atburðir gerðust og stundum skiljum við kannski ekki hvers vegna eitthvað slæmt kemur fyrir. Ef til vill höfum við frétt af trúsystkinum sem fórust í jarðskjálfta, eins og á Haítí, eða í öðrum hamförum. Við vitum kannski af ráðvöndu trúsystkini sem varð fórnarlamb ofbeldis eða fórst í hræðilegu slysi. Þá má líka vera að við sjálf búum við íþyngjandi aðstæður eða séum beitt ranglæti. Við fyllumst kannski angist og hugsum með okkur: „Jehóva, af hverju kemur þetta fyrir mig? Hvað hef ég gert rangt?“ (Hab. 1:2, 3) Hvað getur þá hjálpað okkur að þrauka?

18 Við þurfum að gæta okkar að hugsa ekki sem svo að atburðir sem þessir séu merki um vanþóknun Jehóva. Jesús lagði áherslu á það þegar hann talaði um tvo harmleiki sem áttu sér stað þegar hann var hér á jörð. (Lestu Lúkas 13:1-5.) Margar hörmungar eiga sér stað vegna ,tíma og tilviljunar‘. (Préd. 9:11) Við getum þraukað ef við höfum „Guð allrar huggunar“ efst í huga óháð því hvað veldur okkur þjáningum. Hann gefur okkur þann styrk sem við þurfum til að halda áfram að vera þolgóð. — 2. Kor. 1:3-6.

19, 20. Hvað hjálpaði Jesú að þola niðurlægingu og hvernig getum við gert slíkt hið sama?

19Láttu aldrei stolt eða ótta við niðurlægingu gleypa athygli þína. Jesús gat ,svipt sig öllu og tekið á sig þjóns mynd‘ af því að hann var auðmjúkur. (Fil. 2:5-8) Hann gat þolað alls konar niðurlægingu vegna þess að hann reiddi sig á Jehóva. (1. Pét. 2:23, 24) Þannig lét Jesús vilja Jehóva ganga fyrir öllu öðru og var síðan sjálfur hátt upp hafinn. (Fil. 2:9) Jesús bauð lærisveinum sínum að fylgja sömu lífsstefnu. — Matt. 23:11, 12; Lúk. 9:26.

20 Stundum geta trúarprófraunir verið niðurlægjandi.Við ættum samt að vera jafn örugg og Páll postuli en hann sagði: „Fyrir þá sök líð ég og þetta. En ég fyrirverð mig eigi því að ég veit á hvern ég trúi. Og ég er sannfærður um að hann er þess megnugur að varðveita það sem mér er trúað fyrir þar til dagurinn kemur.“ — 2. Tím. 1:12.

21. Hvað ertu staðráðinn í að gera þótt flestir hugsi fyrst og fremst um sjálfa sig?

21 Í Biblíunni var því spáð að á okkar tímum yrðu mennirnir „sérgóðir“. (2. Tím. 3:2) Það kemur því ekki á óvart að langflestir hugsi fyrst og fremst um sjálfa sig. Látum slíka sjálfselsku aldrei smita okkur. Hvort sem við því verðum fyrir freistingum eða áföllum eða óvinir reyna að niðurlægja okkur skulum við vera staðráðin í að sanna að Jehóva hafi algeran forgang í lífi okkar.

Hvað lærum við af því . . .

• hvernig Satan blekkti Evu?

• hvernig Job brást við skakkaföllum?

• hvað skipti Jesú mestu máli?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 17]

Eva beindi ekki athyglinni að sambandi sínu við Jehóva.

[Mynd á bls. 18]

Jesús stóðst freistingar Satans og einbeitti sér að því að gera vilja Jehóva.

[Myndir á bls. 20]

Fagnaðarerindið boðað tjald úr tjaldi eftir jarðskjálftann á Haítí.

Þegar ógæfa dynur yfir skulum við hafa „Guð allrar huggunar“ efst í huga.