Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kristnar fjölskyldur — haldið vöku ykkar

Kristnar fjölskyldur — haldið vöku ykkar

Kristnar fjölskyldur — haldið vöku ykkar

„Vökum og verum allsgáð.“ — 1. ÞESS. 5:6.

1, 2. Hvað þarf kristin fjölskylda að gera til að halda vöku sinni?

PÁLL postuli var með ,dag Drottins hinn mikla og ógurlega‘ í huga þegar hann skrifaði trúsystkinum sínum í Þessaloníku: „Þið, systkin, eruð ekki í myrkri svo að dagurinn geti komið yfir ykkur sem þjófur. Þið eruð öll börn ljóssins og börn dagsins. Við heyrum ekki nóttunni til eða myrkrinu.“ Síðan bætti hann við: „Sofum því ekki eins og aðrir heldur vökum og verum allsgáð.“ — Jóel 3:4; 1. Þess. 5:4-6.

2 Leiðbeiningar Páls til Þessaloníkumanna eiga fullt erindi til kristinna manna núna þegar „dregur að endalokum“. (Dan. 12:4) Endir þessa illa heims er nærri og Satan er ákveðinn í að snúa eins mörgum frá Jehóva og hann getur. Það er því viturlegt af okkur að halda vöku okkar í þjónustunni við Guð eins og Páll hvetur til. Til að kristinni fjölskyldu takist að halda vöku sinn þarf hver og einn að axla þá ábyrgð sem Biblían leggur honum á herðar. Hvernig geta eiginmaður, eiginkona, börn og unglingar lagt sitt af mörkum til að hjálpa fjölskyldunni að halda vöku sinni?

Eiginmenn — líkið eftir ,góða hirðinum‘

3. Hvað er meðal annars fólgið í því að vera höfuð fjölskyldunnar, samkvæmt 1. Tímóteusarbréfi 5:8?

3 „Karlmaðurinn er höfuð konunnar,“ segir í Biblíunni. (1. Kor. 11:3) Hvað er fólgið í því að vera höfuð fjölskyldunnar? Meðal annars það sem segir í 1. Tímóteusarbréfi 5:8: „Ef einhver sér eigi fyrir sínum, sérstaklega heimilismönnum, þá hefur hann afneitað trúnni og er verri en vantrúaður.“ (Biblían 1981) Fjölskyldufaðir á að sjá fjölskyldunni fyrir efnislegum nauðsynjum. Ef hann ætlar sér að hjálpa fjölskyldunni að halda andlegri vöku sinni er hins vegar ekki nóg að hann sé bara fyrirvinna. Hann þarf að hjálpa öllum í fjölskyldunni að styrkja sambandið við Guð. (Orðskv. 24:3, 4) Hvernig fer hann að því?

4. Hvað þarf fjölskyldufaðir að gera til að styrkja samband fjölskyldunnar við Jehóva?

4 Þar eð „maðurinn er höfuð konunnar eins og Kristur er höfuð [safnaðarins]“ ætti giftur maður að kynna sér vel hvernig Jesús fer með þetta hlutverk sitt og líkja eftir honum. (Ef. 5:23) Tökum eftir hvernig Jesús lýsir sambandi sínu við fylgjendur sína. (Lestu Jóhannes 10:14, 15.) Hvað þarf eiginmaður að gera til að honum takist að styrkja samband fjölskyldunnar við Jehóva? Hann þarf að kynna sér vel og vandlega hvað Jesús sagði og gerði sem „góði hirðirinn“ og „feta í fótspor hans“. — 1. Pét. 2:21.

5. Hve vel þekkir góði hirðirinn söfnuðinn?

5 Samband fjárhirðis og sauða byggist á þekkingu og trausti. Hirðirinn gerþekkir sauðina og sauðirnir þekkja hann og treysta honum. Þeir þekkja rödd hans og hlýða honum. „[Ég] þekki mína og mínir þekkja mig,“ sagði Jesús. Hann þekkir ekki söfnuðinn bara lauslega. Gríska orðið, sem er þýtt „þekkja“, lýsir því að „þekkja náið og persónulega“. Góði hirðirinn þekkir sauðina alla með tölu. Hann þekkir þarfir hvers og eins, veikleika þeirra og styrkleika. Ekkert fer fram hjá honum. Og sauðirnir þekkja hirðinn og treysta forystu hans.

6. Hvernig geta eiginmenn líkt eftir góða hirðinum?

6 Til að líkja eftir forystu Krists þarf eiginmaður að læra að líta á sig sem hirði og hina í fjölskyldunni sem sauði. Hann ætti að leitast við að þekkja vel alla í fjölskyldunni. Hvernig fer hann að því? Með því að eiga góð tjáskipti við alla í fjölskyldunni, hlusta á það sem þeim liggur á hjarta, taka forystuna í því sem fjölskyldan gerir saman og láta sér annt um að taka sem bestar ákvarðanir varðandi námskvöld fjölskyldunnar, samkomur, boðunarstarf, afþreyingu og skemmtiefni. Kristinn eiginmaður getur veitt góða forystu ef hann leggur sig fram um að vera vel heima í Biblíunni og þekkja alla í fjölskyldunni náið. Þá eru góðar líkur á að hinir treysti forystu hans og hann verði þeirrar ánægju aðnjótandi að sjá fjölskylduna sameinaða í sannri tilbeiðslu.

7, 8. Hvernig getur eiginmaður sýnt ást og umhyggju líkt og góði hirðirinn?

7 Góðum hirði þykir sömuleiðis vænt um sauðina. Þegar við lesum um ævi og þjónustu Jesú í guðspjöllunum getum við ekki annað en orðið snortin af ástúð hans og umhyggju. Hann lagði meira að segja lífið í sölurnar fyrir sauðina. Eiginmaður ætti að líkja eftir Jesú og sýna ást og umhyggju fjölskyldunni sem honum er falið að hafa umsjón með. Eiginmaður, sem vill njóta velþóknunar Guðs, drottnar ekki með harðneskju yfir konunni sinni heldur elskar hana „eins og Kristur elskaði kirkjuna“, það er að segja söfnuðinn. (Ef. 5:25) Hann ætti að vera vingjarnlegur og tillitssamur í orðum því að konan hans á virðingu skilda. — 1. Pét. 3:7.

8 Fjölskyldufaðirinn ætti að fylgja meginreglum Guðs í hvívetna við uppeldi barnanna. En hann verður alltaf að sýna þeim ást og umhyggju. Þegar hann þarf að aga þau á hann að gera það á kærleiksríkan hátt. Börn eru misfljót að skilja hvers er vænst af þeim. Faðirinn þarf að sýna þeim meiri þolinmæði sem eru lengur að átta sig. Þegar fjölskyldufaðir fylgir fordæmi Jesú í einu og öllu skapar hann traust og öruggt umhverfi fyrir börnin. Fjölskyldan býr þá við hið andlega öryggi sem sálmaskáldið söng um. — Lestu Sálm 23:1-6.

9. Hvaða ábyrgð hvílir á kristnum eiginmönnum og hvað hjálpar þeim að rísa undir henni?

9 Ættfaðirinn Nói var uppi á síðustu dögum þess heims sem þá var. En Jehóva varðveitti hann „við áttunda mann er hann lét vatnsflóð koma yfir heim hinna óguðlegu“. (2. Pét. 2:5) Nóa var lögð sú skylda á herðar að hjálpa fjölskyldu sinni að komast lifandi úr flóðinu. Kristnir fjölskyldufeður eru í svipuðum sporum núna á síðustu dögum. (Matt. 24:37) Það er ákaflega mikilvægt að þeir kynni sér vel fordæmi ,góða hirðisins‘ og líki eftir honum eftir bestu getu.

Eiginkonur — byggið upp fjölskyldur ykkar

10. Hvað merkir það að kona sé eiginmanni sínum undirgefin?

10 Páll postuli skrifaði að konur ættu að vera eiginmönnum sínum undirgefnar „eins og Drottni“. (Ef. 5:22) Með þessum orðum er alls ekki gert lítið úr hlutverki konunnar. Áður en hinn sanni Guð skapaði Evu, fyrstu konuna, sagði hann: „Eigi er það gott að maðurinn sé einn. Ég vil gera honum meðhjálp við hans hæfi.“ (1. Mós. 2:18) Það er heiðvirt og göfugt hlutverk að vera „meðhjálp“ mannsins og vera honum stoð og stytta við að rækja skyldur sínar innan fjölskyldunnar.

11. Hvernig byggir góð eiginkona upp fjölskyldu sína?

11 Góð eiginkona ber hag fjölskyldunnar fyrir brjósti. (Lestu Orðskviðina 14:1.) Óskynsöm kona virðir ekki forystuhlutverk eiginmannsins en vitur kona ber mikla virðingu fyrir því. Hún er ekki mótþróafull eins og algengt er í heiminum og reynir ekki að vera óháð eiginmanni sínum heldur er hún undirgefin. (Ef. 2:2) Óskynsöm kona hikar ekki við að tala illa um manninn sinn en vitur kona stuðlar að því að börnin og aðrir beri virðingu fyrir honum. Hún gætir þess að grafa ekki undan forystuhlutverki eiginmanns síns með því að jagast í honum eða rífast við hann. Það er líka mikils virði að hún sé hagsýn. Óskynsöm kona getur átt það til að sóa peningum sem fjölskyldan hefur aflað hörðum höndum. Góð eiginkona gerir það ekki. Hún er samtaka eiginmanninum í fjármálum. Hátterni hennar einkennist af hagsýni og fyrirhyggju. Hún beitir ekki þrýstingi til að fá manninn sinn til að vinna yfirvinnu.

12. Hvernig getur eiginkona hjálpað fjölskyldunni að halda vöku sinni?

12 Góð eiginkona hjálpar fjölskyldunni að halda vöku sinni með því að vinna með manni sínum að trúaruppeldi barnanna. (Orðskv. 1:8) Hún styður heilshugar sameiginlegt biblíunám fjölskyldunnar. Og hún stendur með manni sínum þegar hann leiðbeinir börnunum og agar þau. Hún er harla ólík ósamvinnuþýðri eiginkonu en hátterni hennar kemur niður á börnunum bæði andlega og líkamlega.

13. Af hverju er mikilvægt að eiginkona styðji mann sinn þegar hann starfar í þágu safnaðarins?

13 Hvað finnst góðri eiginkonu um það að eiginmaðurinn taki virkan þátt í safnaðarstarfinu? Hún fagnar því. Hún er ánægð með að hann skuli starfa í þágu safnaðarins, hvort sem hann er safnaðarþjónn, öldungur eða situr í spítalasamskiptanefnd eða svæðisbyggingarnefnd. Hún styður manninn sinn í orði og verki þó að hún þurfi að færa einhverjar fórnir. En hún veit að eiginmaðurinn hjálpar allri fjölskyldunni að halda vöku sinni með því að vera önnum kafinn í þágu safnaðarins.

14. (a) Hvað getur verið áskorun fyrir eiginkonu og hvernig getur hún stutt mann sinn? (b) Hvernig stuðlar eiginkona að velferð allrar fjölskyldunnar?

14 Það getur verið áskorun fyrir eiginkonu að styðja eiginmanninn ef hún er ekki sammála ákvörðunum hans. Engu að síður sýnir hún ,hógværan og hljóðlátan anda‘ og leggur sitt af mörkum til að ákvörðun hans nái fram að ganga. (1. Pét. 3:4) Góð eiginkona reynir að líkja eftir guðhræddum konum fortíðar, svo sem Söru, Rut, Abígail og Maríu, móður Jesú. (1. Pét. 3:5, 6) Hún tekur sér einnig til fyrirmyndar aldraðar konur á okkar tímum sem eru „í háttum sínum eins og heilögum sæmir“. (Tít. 2:3, 4) Góð eiginkona stuðlar að farsælu hjónabandi og velferð allrar fjölskyldunnar með því að elska og virða eiginmann sinn. Heimili hennar er öruggt skjól þar sem öllum líður vel. Það er ómetanlegt fyrir eiginmann, sem elskar Jehóva og leggur sig fram í þjónustu hans, að eiga konu sem styður hann dyggilega. — Orðskv. 18:22.

Börn og unglingar — ,horfið á hið ósýnilega‘

15. Hvernig geta börn og unglingar unnið að því ásamt foreldrum sínum að fjölskyldan haldi vöku sinni?

15 Hvernig getið þið, börn og unglingar, unnið að því ásamt foreldrum ykkar að öll fjölskyldan haldi andlegri vöku sinni? Hugsið um launin sem Jehóva býður ykkur. Foreldrar ykkar sýndu ykkur eflaust paradísarmyndir þegar þið voruð lítil. Þegar þið stækkuðuð notuðu þau trúlega Biblíuna og biblíutengd rit til að hjálpa ykkur að sjá fyrir ykkur hvernig það verði að lifa að eilífu í nýja heiminum. Þið eigið auðveldara með að halda vöku ykkar ef þið einbeitið ykkur að því að þjóna Jehóva og hagið lífi ykkar í samræmi við það.

16, 17. Hvernig geta börn og unglingar náð í mark í hlaupinu um lífið?

16 Hugsaðu um það sem Páll postuli sagði í 1. Korintubréfi 9:24(Lestu.) Taktu þátt í hlaupinu um lífið með það að markmiði að sigra. Veldu þér þannig lífsstefnu að þú hljótir sigurlaunin sem eru eilíft líf. Margir hafa farið að eltast við efnislega hluti og það hefur dregið athygli þeirra frá sigurlaununum. Það er ákaflega heimskulegt. Maður höndlar ekki hamingjuna með því að láta lífið snúast um veraldlegan auð. Peningar og efnisleg gæði eru bara stundleg. Þið skuluð hins vegar horfa á „hið ósýnilega“. Af hverju? Af því að „hið ósýnilega [er] eilíft“. — 2. Kor. 4:18.

17 „Hið ósýnilega“ er meðal annars sú blessun sem Guðsríki hefur í för með sér. Vertu ákveðinn í að lifa lífinu þannig að þú hljótir þessa blessun. Maður öðlast sanna hamingju með því að nota krafta sína í þjónustu Jehóva. Þú hefur tækifæri til að setja þér bæði skammtímamarkmið og langtímamarkmið í þjónustu hins sanna Guðs. * Raunhæf markmið í þjónustu Jehóva eru góð hjálp til að einbeita sér að því að þjóna honum með það að markmiði að hljóta sigurlaunin, eilífa lífið. — 1. Jóh. 2:17.

18, 19. Hvernig getur unglingur gengið úr skugga um að hann hafi tileinkað sér sannleikann?

18 Þið börn og unglingar, hafið í huga að fyrsta skrefið á veginum til lífsins er að tileinka sér sannleikann. Hefurðu stigið þetta skref? Spyrðu þig: Er ég andleg manneskja eða læt ég foreldrana sjá um að ég þjóni Guði? Þroska ég með mér eiginleika sem eru Guði að skapi? Legg ég mig fram um að gera þetta að staðaldri? Hef ég það fyrir venju að biðja, nema, sækja samkomur og fara í starfið? Nálægi ég mig Guði með því að styrkja sambandið við hann? — Jak. 4:8.

19 Hugleiddu hvað Móse gerði. Þó að hann hefði alist upp við framandi menningaráhrif tileinkaði hann sér sannleikann og vildi frekar vera þekktur sem tilbiðjandi Jehóva en dóttursonur faraós. (Lestu Hebreabréfið 11:24-27.) Þið kristin börn og unglingar þurfið líka að vera ákveðin í að þjóna Jehóva í trúfesti. Þá verðið þið hamingjusöm, búið við bestu lífsgæði sem völ er á núna og eigið þá von að ,höndla hið sanna líf‘. — 1. Tím. 6:19.

20. Hverjir hljóta sigurlaunin í hlaupinu um lífið?

20 Í kappleikjum til forna var aðeins einn sigurvegari. Þannig er það ekki þegar við keppum að eilífa lífinu því að Guð vill að „allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum“. (1. Tím. 2:3, 4) Margir hafa hlaupið á undan þér og komist í mark og margir hlaupa með þér núna. (Hebr. 12:1, 2) Allir sem halda áfram og gefast ekki upp hljóta sigurlaunin. Vertu staðráðinn í að sigra.

21. Um hvað er fjallað í næstu grein?

21 „Hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins“ er óumflýjanlegur. (Mal. 4:5) Hann ætti ekki að koma kristnum fjölskyldum að óvörum. Það er áríðandi að allir í fjölskyldunni axli biblíulega ábyrgð sína. Hvað annað er hægt að gera til að halda vöku sinni og styrkja sambandið við Guð? Í greininni á eftir er fjallað um þrennt sem hefur áhrif á andlega velferð allrar fjölskyldunnar.

[Neðanmáls]

^ gr. 17 Sjá Varðturninn, 15. nóvember 2010, bls. 12-16 og enska útgáfu blaðsins 15. júlí 2004, bls. 21-23.

Hvað lærðir þú?

• Af hverju þurfa kristnar fjölskyldur að halda vöku sinni?

• Hvernig getur eiginmaður líkt eftir góða hirðinum?

• Hvernig getur eiginkona verið manni sínum stoð og stytta?

• Hvernig geta börn og unglingar stuðlað að því að fjölskyldan haldi andlegri vöku sinni?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 9]

Það er ómetanlegt fyrir mann, sem gegnir ábyrgðarstarfi í söfnuðinum, að eiga stuðning konu sinnar.