Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kristnar fjölskyldur — verið viðbúnar

Kristnar fjölskyldur — verið viðbúnar

Kristnar fjölskyldur — verið viðbúnar

„Verið þér og viðbúnir því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu sem þér ætlið eigi.“ — LÚK. 12:40.

1, 2. Af hverju ættum við að fara eftir hvatningu Jesú um að ,vera viðbúin‘?

HVERNIG ætli þér og fjölskyldu þinni reiði af „þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni“ og aðgreinir fólk í tvo hópa? (Matt. 25:31, 32) Þar sem við vitum ekki hvenær þetta verður er ákaflega mikilvægt að vera viðbúin eins og Jesús hvatti til. — Lúk. 12:40.

2 Í greininni á undan kom fram hvernig allir í fjölskyldunni geta hjálpast að við að halda vöku sinni með því að taka skyldur sínar alvarlega. Við skulum nú kanna hvernig við getum stuðlað að andlegri velferð fjölskyldunnar með öðrum hætti.

Haltu auga þínu ,heilu‘

3, 4. (a) Gegn hverju þurfa kristnar fjölskyldur að vera á verði? (b) Hvað merkir það að halda auga sínu heilu?

3 Til að vera viðbúin komu Krists þurfa kristnar fjölskyldur að gæta þess að láta ekkert draga athygli sína frá sannri tilbeiðslu. Þær þurfa að vera vel á verði til að villast ekki af réttri leið. Þar sem ófáar fjölskyldur hafa fallið í þá gildru að láta efnishyggju ná tökum á sér skulum við íhuga hvatningu Jesú þess efnis að halda auga sínu ,heilu‘. (Lestu Matteus 6:22, 23.) Við getum notað lampa til að lýsa okkur leið á göngu. Að sama skapi getur það sem við horfum á með ,sjón hjartans‘ upplýst okkur svo að við hegðum okkur rétt og hrösum hvorki né föllum. — Ef. 1:18.

4 Til að bókstaflegt auga sjái vel þarf það að vera heilbrigt og sjónin að vera skýr. Hið sama er að segja um sjón hjartans. Ef við höfum heilt auga í andlegri merkingu einbeitum við okkur að ákveðnu markmiði. Við erum þá ekki upptekin af efnislegum hlutum og höfum ekki sífelldar áhyggjur af því hvernig við getum séð fjölskyldunni farborða. Við horfum öllu heldur á andlegu málin og einbeitum okkur að þeim. (Matt. 6:33) Þetta merkir að við gerum okkur ánægð með þær efnislegu nauðsynjar sem Guð lætur okkur í té og einbeitum okkur að því að þjóna honum sem best. — Hebr. 13:5.

5. Hvernig sýndi unglingsstúlka að hún var staðráðin í að þjóna Guði?

5 Það getur haft afar góð áhrif að kenna börnunum að halda auga sínu heilu. Tökum sem dæmi unglingsstúlku í Eþíópíu. Hún stóð sig svo vel í skóla að þegar hún lauk grunnnámi var henni boðinn styrkur til áframhaldandi náms. En þar sem hún var staðráðin í að þjóna Jehóva afþakkaði hún námsstyrkinn. Skömmu síðar var henni boðin vinna. Mánaðarlaunin samsvöruðu hátt í hálfri milljón króna sem var há upphæð samanborið við meðallaun í landinu. Stúlkan hafði hins vegar einsett sér að gerast brautryðjandi. Hún þurfti ekki að ráðfæra sig við foreldra sína áður en hún hafnaði tilboðinu. Hvað fannst foreldrunum um ákvörðun stúlkunnar? Þau samglöddust henni og sögðust vera afar stolt af henni.

6, 7. Á hvaða hættu þurfum við að gæta okkar?

6 Það liggur í orðanna hljóðan í Matteusi 6:22, 23 að Jesús sé að vara við ágirnd. Hann talar um að auga geti ýmist verið „heilt“ eða „spillt“. Gríska orðið, sem er þýtt „spillt“, getur einnig merkt ágjarn eða gráðugur. Hvernig lítur Jehóva á ágirnd og græðgi? „Frillulífi og óhreinleiki yfirleitt eða ágirnd á ekki einu sinni að nefnast á nafn meðal ykkar,“ segir í Biblíunni. — Ef. 5:3.

7 Við eigum oft auðvelt með að koma auga á ágirnd í fari annarra en eigum erfiðara með að sjá hana í eigin fari. Það er því viturlegt að gera eins og Jesús ráðlagði: „Gætið ykkar og varist alla ágirnd.“ (Lúk. 12:15) Til að gera það þurfum við að líta í eigin barm og skoða hvað hjarta okkar girnist. Kristnar fjölskyldur ættu að velta alvarlega fyrir sér hve miklum tíma og fjármunum þær eyða í að skemmta sér, stunda afþreyingu og afla sér efnislegra hluta.

8. Hvernig getum við gætt okkar þegar við festum kaup á einhverju?

8 Að festa kaup á einhverju er annað og meira en að ákveða hvort við höfum efni á því. Við ættum að hugleiða hvort við höfum tíma til að nota hlutinn að staðaldri og halda honum við. Hve langan tíma skyldi það taka að læra almennilega á hann? Þið börn og unglingar ættuð ekki að taka mark á öllum auglýsingunum og gera ósanngjarnar kröfur um að eignast dýra merkjavöru, hvort sem um er að ræða föt eða eitthvað annað. Verið ekki of kröfuhörð. Þið ættuð einnig að íhuga hvort það að eignast þetta eða hitt hjálpi fjölskyldunni að vera viðbúin komu Mannssonarins. Treystið loforði Jehóva: „Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.“ — Hebr. 13:5.

Setjið ykkur markmið í þjónustu Guðs

9. Af hverju er það til góðs fyrir fjölskyldur að setja sér markmið í þjónustu Guðs?

9 Önnur góð leið til að styrkja trúna og stuðla að andlegri heill allrar fjölskyldunnar er að setja sér markmið í þjónustu Guðs og vinna að því að ná þeim. Þetta getur hjálpað fjölskyldum að kanna hve vel þeim gengur í þjónustu Jehóva og ákveða hvernig þær eigi að forgangsraða. — Lestu Filippíbréfið 1:10.

10, 11. Hvaða markmið hafið þið fjölskyldan í þjónustu Guðs og hvaða önnur markmið viljið þið setja ykkur?

10 Það getur verið mjög gagnlegt að hafa raunhæf markmið sem allir í fjölskyldunni ættu að geta náð. Lítum til dæmis á það markmið að ræða um dagstextann á hverjum degi. Umræðurnar geta gefið fjölskylduföður eða einstæðu foreldri vísbendingu um hvernig hinir hugsa um sannleikann og um samband sitt við Jehóva. Það markmið að fjölskyldan lesi reglulega saman í Biblíunni æfir börnin í lestri og eykur skilning þeirra á boðskap hennar. (Sálm. 1:1, 2) Og það hlýtur að vera gott markmið að gera bænir sínar einlægari og innihaldsríkari. Það er líka prýðilegt markmið að þroska betur með sér einhverja af þeim eiginleikum sem mynda ávöxt andans. (Gal. 5:22, 23) Eða gætum við lagt okkur fram um að sýna þeim sem við hittum í boðunarstarfinu meiri samkennd? Ef fjölskyldan gerir sér far um þetta læra börnin að vera umhyggjusöm og það verður kannski til þess að þau langi til að vera brautryðjendur eða trúboðar.

11 Hvernig væri að íhuga nokkur markmið sem þú og fjölskyldan gætuð sett ykkur? Getið þið stefnt að því að nota meiri tíma til að boða fagnaðarerindið? Veigrið þið ykkur við að boða trúna í síma, á götum úti eða í fyrirtækjum? Getið þið reynt að ná tökum á því? Hvernig væri að starfa þar sem vantar fleiri boðbera? Gæti einhver í fjölskyldunni lært nýtt tungumál til að boða fagnaðarerindið meðal fólks af öðru þjóðerni?

12. Hvernig geta þeir sem veita fjölskyldu forstöðu hjálpað fjölskyldunni að gera enn betur?

12 Þeir sem veita fjölskyldu forstöðu ættu að kanna á hvaða sviðum fjölskyldan geti gert enn betur. Síðan er gott að setja fjölskyldunni ákveðin markmið í samræmi við það. Markmiðin ættu að vera raunhæf og miðast við aðstæður ykkar og getu. (Orðskv. 13:12) Það tekur auðvitað sinn tíma að ná góðum markmiðum. Gætuð þið setið minna við sjónvarpið og notið tímann til að sinna andlegu málunum? (Ef. 5:15, 16) Leggið ykkur fram um að ná þeim markmiðum sem þið setjið fjölskyldunni. (Gal. 6:9) Þegar fjölskylda setur sér góð markmið í þjónustu Guðs verður „framför [hennar] öllum augljós“. — 1. Tím. 4:15.

Vikulegt biblíunámskvöld fjölskyldunnar

13. Hvaða breyting var gerð á vikulegum samkomum safnaðarins og hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur?

13 Hinn 1. janúar 2009 var gerð veigamikil breyting á vikulegum samkomum safnaðarins. Þessi nýbreytni auðveldar fjölskyldum til muna að ,vera viðbúnar‘ komu Mannssonarins. Safnaðarbóknámið, sem svo var kallað, var þá sameinað Boðunarskólanum og þjónustusamkomunni og við það fækkaði samkomudögum safnaðarins úr þrem í tvo. Þessi breyting var gerð til að auðvelda kristnum fjölskyldum að taka frá ákveðið kvöld í viku til sameiginleg náms í þeim tilgangi að styrkja sambandið við Guð. Nú er nokkur tími liðinn síðan þessi breyting var gerð og við gætum spurt okkur hvernig okkur gangi að nota tímann, sem skapaðist með þessu, til fjölskyldunáms eða sjálfsnáms. Hefur þér tekist að ná þeim markmiðum sem sett voru með þessari breytingu?

14. (a) Hvert er aðalmarkmiðið með því að fjölskyldur eða einstaklingar taki frá kvöld til biblíunáms? (b) Af hverju er nauðsynlegt að taka frá eitt kvöld í viku til biblíunáms?

14 Aðalmarkmiðið með því að fjölskyldur eða einstaklingar taki frá kvöld til biblíunáms er að nálægja sig Guði. (Jak. 4:8) Þegar við tökum okkur tíma á reglulegum grundvelli til biblíunáms og fáum meiri þekkingu á skaparanum styrkjum við sambandið við hann. Ef við eigum náið samband við Jehóva elskum við hann ,af öllu hjarta, allri sálu, öllum huga og öllum mætti‘. (Mark. 12:30) Okkur langar vissulega til að hlýða Guði og líkja eftir honum. (Ef. 5:1) Reglulegt biblíunámskvöld er því mikilvægt til að hjálpa öllum í fjölskyldunni að vera viðbúnir að ,þrengingin mikla‘ bresti á. (Matt. 24:21) Það er nauðsynlegt til að bjargast.

15. Hvaða áhrif getur biblíunámskvöldið haft á fjölskylduna?

15 Biblíunámskvöldið þjónar líka öðru markmiði. Það hjálpar öllum í fjölskyldunni að styrkja tengslin sín í milli. Að gefa sér tíma í hverri viku til að vera saman og ræða andleg mál hefur greinileg áhrif á alla í fjölskyldunni. Hjón tengjast nánari böndum þegar þau heyra hvort annað tala glaðlega um andlega gullmola sem þau finna í sameiningu. (Lestu Prédikarann 4:12.) Þegar foreldrar og börn tilbiðja Guð saman eru góðar líkur á að það styrki til muna kærleikann sem „bindur allt saman og fullkomnar allt“. — Kól. 3:14.

16. Hvernig hafa þrjár trúsystur notið góðs af því að taka sér tíma til biblíunáms?

16 Þrjár rosknar ekkjur í söfnuðinum hafa notið góðs af því að taka sér eitt kvöld í viku til biblíunáms. Þær búa í sama bæjarfélagi og hafa verið góðar vinkonur árum saman en eru ekki skyldar. Þær langaði til að hittast oftar og vildu jafnframt gera samverustundirnar andlega uppbyggilegar. Þær ákváðu því að hittast eitt kvöld í viku til biblíunáms. Þær byrjuðu á því að fara yfir bókina“Bearing Thorough Witness” About God’s Kingdom. „Við höfum svo gaman af samverunni að við notum venjulega meira en klukkutíma til námsins,“ segir ein þeirra. „Við reynum að sjá fyrir okkur aðstæður bræðra og systra á fyrstu öld og ræðum hvað við myndum gera við svipaðar aðstæður. Síðan reynum við að nota í boðunarstarfinu það sem við lærum af umræðunum. Þetta hefur haft þau áhrif að við höfum meiri ánægju af því að boða fagnaðarerindið og kenna fólki, og höfum náð betri árangri en nokkru sinni fyrr.“ Auk þess að vera andlega uppbyggilegar hafa samverustundirnar tengt þessar þrjár góðu vinkonur enn nánari böndum. „Okkur finnst þetta dýrmætar stundir,“ segja þær.

17. Hvernig er hægt að stuðla að því að námskvöld fjölskyldunnar skili tilætluðum árangri?

17 Hvað um þig? Hvernig hefur þú notið góðs af því að taka frá eitt kvöld í viku til fjölskyldunáms eða sjálfsnáms? Ef það er tilviljun háð hvort námið fer fram eru litlar líkur á að það nái markmiði sínu. Allir ættu að vera tilbúnir á tilsettum tíma. Við ættum ekki að láta eitthvað ómerkilegt rekast á við námsstund fjölskyldunnar. Og velja ætti námsefni sem er gagnlegt fyrir alla í fjölskyldunni. Hvernig er hægt að gera námsstundirnar ánægjulegar? Með því að beita góðum kennsluaðferðum og viðhalda hæfilegri ró og virðingu. — Jak. 3:18. *

Vökum og verum viðbúin

18, 19. Hvaða áhrif ætti sú vitneskja að hafa á þig og fjölskyldu þína að koma Mannsonarins er nærri?

18 Það leikur enginn vafi á að síðustu dagar hófust árið 1914 því að ástandið í heiminum versnar jafnt og þétt. Illur heimur Satans á skammt eftir. Harmagedónstríðið getur ekki verið langt undan. Þess er skammt að bíða að Mannssonurinn komi til að fullnægja dómi Jehóva yfir óguðlegum. (Sálm. 37:10; Orðskv. 2:21, 22) Ætti þessi vitneskja ekki að hafa áhrif á þig og fjölskyldu þína?

19 Gætirðu þess að halda auga þínu ,heilu‘ eins og Jesús ráðlagði? Margir í þessum heimi sækjast eftir peningum, völdum eða frægð og frama. En keppið þið fjölskyldan að markmiðum í þjónustu Jehóva? Gengur ykkur vel með fjölskyldunámið eða sjálfsnámið? Náið þið þeim markmiðum sem þið hafið sett ykkur? Tekst ykkur öllum, eiginmanni, eiginkonu og börnum, að axla biblíulega ábyrgð ykkar eins og rætt var í greininni á undan, og vinnið þið saman að því að öll fjölskyldan haldi vöku sinni? (1. Þess. 5:6) Ef svo er verðið þið viðbúin komu Mannssonarins.

[Neðanmáls]

^ gr. 17 Í Varðturninum 15. október 2009, bls. 29-31, er að finna hugmyndir að námsefni og ábendingar um hvernig hægt sé að gera námskvöld fjölskyldunnar gagnleg og ánægjuleg.

Hvað lærðir þú?

• Hvernig geta kristnar fjölskyldur verið viðbúnar með því að . . .

halda auga sínu ,heilu‘?

setja sér markmið í þjónustu Jehóva?

hafa reglu á sameiginlegu biblíunámi fjölskyldunnar?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 13]

„Heilt“ auga hjálpar okkur að forðast freistingar heimsins.