Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

,Fær þú mér bækurnar, einkanlega skinnbækurnar‘

,Fær þú mér bækurnar, einkanlega skinnbækurnar‘

,Fær þú mér bækurnar, einkanlega skinnbækurnar‘

MEÐ orðunum hér að ofan hvetur Páll postuli Tímóteus, trúboðsfélaga sinn, til að færa sér ákveðnar bækur. Hvers konar bækur átti Páll við? Hvað kom til að hann bað um þær? Og hvað er hægt að ráða af þessari beiðni?

Þegar Páll skrifaði þetta, um miðbik fyrstu aldar, hafði hinum 39 bókum Hebresku ritninganna verið skipað niður í 22 eða 24 bækur, sem flestar hafa að líkindum verið aðskildar bókrollur. Þótt þessar bækur hafi verið dýrar bendir Alan Millard prófessor á að það „hafi . . . verið á færi vel efnaðs manns eignast þær“. Sumir höfðu að minnsta kosti aðgang að einni. Maður frá Eþíópíu hafði til dæmis bókrollu í vagni sínum og „las Jesaja spámann“. Hann var „háttsettur hirðmaður hjá drottningu Eþíópa, sem kallast Kandake, og settur yfir alla fjárhirslu hennar“. Hann hlýtur að hafa verið nógu efnaður til að eiga hluta Ritningarinnar. — Post. 8:27, 28.

Í bréfinu til Tímóteusar skrifaði Páll: „Fær þú mér, þegar þú kemur, möttulinn, sem ég skildi eftir í Tróas hjá Karpusi, og bækurnar, einkanlega skinnbækurnar.“ (2. Tím. 4:13) Þetta gefur til kynna að Páll hafi átt fjölda bóka. Hvað getur hafa skipað hærri sess í bókasafni hans en orð Guðs? Biblíufræðingurinn A. T. Robertson sagði um „skinnbækurnar“ í þessu versi: „Þessar bækur voru líklega afrit af bókum Gamla testamentisins en skinnhandrit voru dýrari en papírushandrit.“ Frá unga aldri ,hlaut Páll fyllstu uppfræðslu við fætur Gamalíels‘ en hann kenndi Móselögmálið og var virtur af öllum. Það er því skiljanlegt að Páll hafi sjálfur átt eintök af bókrollunum sem höfðu að geyma orð Guðs. — Post. 5:34; 22:3.

Notkun bóka meðal kristinna manna

Það voru samt forréttindi að eiga bókrollur Heilagrar ritningar. Hvernig fengu þá sannkristnir menn á þeim tíma aðgang að orði Guðs? Fyrra bréf Páls til Tímóteusar gefur okkur vísbendingu. Hann skrifaði: „Ver kostgæfinn við að lesa upp úr Ritningunni . . . þangað til ég kem.“ (1. Tím. 4:13) Upplestur úr Ritningunni var hluti af samkomudagskrá kristnu safnaðanna, aldagömul venja meðal Gyðinga allt frá tímum Móse. — Post. 13:15; 15:21; 2. Kor. 3:15.

Sem safnaðaröldungur átti Tímóteus að ,vera kostgæfinn‘ við að lesa upp úr Ritningunni en það kom þeim til góða sem áttu ekki eintök af henni sjálfir. Allir hafa vafalaust hlustað með athygli meðan orð Guðs var lesið upp til að missa ekki af einu orði, og foreldrar og börn hafa áreiðanlega rætt heima um það sem var lesið upp á samkomunum.

Hið vel þekkta Dauðahafshandrit Jesajabókar er næstum 7,3 metrar að lengd. Bókrolla gat því orðið nokkuð þung því að hún var með kefli sitt til hvorrar handar og oft vafin hlífðarkápu. Fæstir gátu sennilega haft margar bókrollur með sér í boðunarstarfinu. Þótt Páll hafi átt nokkrar bækur Ritningarinnar til eigin nota gat hann líklega ekki tekið þær allar með sér á ferðum sínum. Hann skildi því nokkrar eftir hjá Karpusi, vini sínum í Tróas.

Hvað getum við lært af Páli?

Páll sat nú í annað sinn í fangelsi í Róm og rétt áður en hann bar fram bón sína hafði hann skrifað: „Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið . . . Og nú er mér geymdur sveigur réttlætisins.“ (2. Tím. 4:7, 8) Sennilega skrifaði hann þetta um árið 65 meðan ofsóknir Nerós stóðu yfir. Að þessu sinni var fangelsisvistin honum mjög erfið. Hann fann á sér að aftaka vofði yfir. (2. Tím. 1:16; 4:6) Skiljanlegt er að Páll léti í ljós einlæga ósk um að fá bækurnar í hendur. Hann þráði að halda áfram að styrkja sig með því að lesa og hugleiða orð Guðs þó að hann væri sannfærður um að hann hefði barist góðu baráttunni til enda.

Tímóteus var sennilega enn þá í Efesus þegar honum barst bréfið frá Páli. (1. Tím. 1:3) Leiðin frá Efesus til Rómar um Tróas er á að giska 1.600 kílómetrar. Í sama bréfi hvatti Páll Tímóteus: „Flýt þér að koma fyrir vetur.“ (2. Tím. 4:21) Í Biblíunni er þess ekki getið hvort Tímóteus hafi fengið skipsfar til Rómar innan þess tíma sem Páll óskaði.

Hvað gefur bón Páls um „bækurnar, einkanlega skinnbækurnar,“ okkur til kynna? Hann hungraði eftir orði Guðs á þessu erfiða tímabili ævinnar. Segir þetta okkur ekki hvers vegna hann var ávallt lifandi í trúnni og kappsfullur og öðrum til hvatningar?

Mikið eigum við gott ef við eigum sjálf eintak af allri Biblíunni. Sum okkar eiga jafnvel nokkur eintök og nokkrar útgáfur. Við þurfum, eins og Páll, að rækta með okkur sterka löngun til að öðlast dýpri skilning á Biblíunni. Síðara bréf Páls til Tímóteusar var það síðasta af alls 14 bréfum sem honum var innblásið að skrifa. Hin einlæga bæn Páls til Tímóteusar ,að færa sér bækurnar, einkanlega skinnbækurnar,‘ var síðasta ósk hans sem skráð er.

Átt þú þér þá heitustu ósk að berjast hinni góðu baráttu trúarinnar allt til enda eins og Páll gerði? Langar þig til að vera sívirkur í trúnni og reiðubúinn að boða fagnaðarerindið eins lengi og Guð vill að við höldum því áfram? ,Hafðu þá gát á sjálfum þér og fræðslunni‘ líkt og Páll hvatti kristna menn til að gera. Vertu áfjáður og stöðugur í að lesa og hugleiða Biblíuna en nú hafa fleiri aðgang að henni en nokkurn tíma áður og í handhægara formi en bókrollurnar. — 1. Tím. 4:16.

[Kort/myndir á bls. 18, 19]

(Sjá uppsettan texta í ritinu)

Efesus

Tróas

Róm