Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað þarftu að gera til að þér farnist vel?

Hvað þarftu að gera til að þér farnist vel?

Hvað þarftu að gera til að þér farnist vel?

SUMIR hafa klifið metorðastigann og náð langt, orðið ríkir og aflað sér frægðar og frama. Aðrir hafa látið sig dreyma um velgengni en hefur mistekist að ná settu marki.

Velgengni ræðst að miklu leyti af því sem maður gerir að þungamiðju lífsins. Tvennt annað hefur líka mikið að segja en það er hvernig maður notar tíma sinn og krafta og hvort maður er framtakssamur.

Margir þjónar Guðs hafa fundið að virk þátttaka í boðunarstarfinu veitir þeim mikla ánægju. Ungum jafnt sem öldnum, sem þjóna Guði í fullu starfi, hefur farnast vel í lífinu. En sumum finnst þjónustan kannski ekkert sérstaklega spennandi, ýta henni til hliðar og keppa að öðrum markmiðum í lífinu. Hvers vegna ætli það gerist? Hvað geturðu gert til að missa ekki sjónar á því sem er í raun og veru dýrmætt? Og hvað geturðu gert til að „ná settu marki“ þannig að „þér farnist vel“? — Jós. 1:8.

Íþróttir og önnur áhugamál

Ungt fólk í söfnuðinum þarf að gæta jafnvægis á milli þess að þjóna hinum eina sanna Guði og að stunda íþróttir og önnur áhugamál. Þeim sem gera það mun farnast vel í lífinu og þeir eiga mikið hrós skilið.

Sumt ungt fólk í söfnuðinum er þó á kafi í íþróttum eða öðrum áhugamálum. Það þarf ekki að vera neitt athugavert við íþróttirnar og áhugamálin í sjálfu sér. En unga fólkið okkar ætti að spyrja sig að eftirfarandi: Hversu tímafrekt gæti þetta orðið og hvernig er félagsskapurinn? Hvers konar viðhorfum gæti ég smitast af ef ég færi að stunda þetta að einhverju marki og hvað gæti þá orðið þungamiðjan í lífi mínu? Þú áttar þig sennilega á því að þú gætir orðið svo gagntekinn af íþróttum og áhugamálum að þú hefðir hvorki tíma né krafta til að sinna sambandi þínu við Guð. Þú sérð því hve nauðsynlegt er að forgangsraða í lífinu. — Ef. 5:15-17.

Tökum Viktor sem dæmi. * Hann segir: „Ég var 12 ára þegar ég fór að æfa blak með íþróttafélagi. Ég keppti í mörg ár og vann til fjölmargra verðlauna. Ég hefði getað orðið frægur íþróttamaður.“ En Viktor fór að hafa áhyggjur af áhrifunum sem íþróttaiðkunin hafði á samband hans við Guð. Einn daginn sofnaði hann þegar hann var að reyna að lesa í Biblíunni. Hann gerði sér auk þess grein fyrir því að hann hafði litla ánægju af boðunarstarfinu. „Öll orkan fór í íþróttirnar og ég áttaði mig fljótlega á því að það kom niður á þjónustu minni við Guð. Ég vissi að ég gerði ekki eins mikið og ég gat.“

Æðri menntun?

Það er biblíuleg skylda þjóna Guðs að annast fjölskyldu sína og það felur meðal annars í sér að sjá henni farborða. (1. Tím. 5:8) En er nauðsynlegt að hafa háskólagráðu til þess?

Það væri skynsamlegt að hugleiða áhrifin sem það gæti haft á sambandið við Jehóva að sækjast eftir æðri menntun. Lítum á dæmi úr Biblíunni til frekari skýringar.

Barúk var ritari Jeremía spámanns. Barúk varð framagjarn um tíma í stað þess að einbeita sér að þjónustunni við Jehóva. Jehóva tók eftir því og varaði hann við fyrir milligöngu Jeremía: „Ætlarðu þér mikinn hlut? Láttu af því.“ — Jer. 45:5.

Hver var þessi ,mikli hlutur‘ sem Barúk sóttist eftir? Hugsanlega hefur hann haft löngun til þess að skapa sér nafn innan þjóðskipulags Gyðinga. Þessi ,mikli hlutur‘ gæti líka hafa verið fjárhagsleg velgengni. Hvað sem því líður hafði hann misst sjónar af því sem máli skipti, sambandi sínu við Guð. (Fil. 1:10) En það er greinilegt að Barúk hlustaði á viðvörunarorð Jehóva sem Jeremía flutti honum og lifði því af eyðingu Jerúsalem. — Jer. 43:6.

Hvað lærum við af þessari frásögu? Ráðleggingarnar, sem Barúk fékk, gefa í skyn að eitthvað hafi verið að. Hann ætlaði sjálfum sér mikinn hlut. Ef þú getur séð þér farborða, þarftu þá endilega að verja tíma, peningum og kröftum í að afla þér meiri menntunar, til þess eins að svala metnaði þínum, foreldra þinna eða annarra ættingja?

Gregor er tölvuforritari. Samstarfsmenn hans hvöttu hann til að sækja mjög krefjandi námskeið til að sérhæfa sig á ákveðnu sviði. Ekki leið á löngu þar til hann hafði engan tíma til að sinna sambandi sínu við Guð. Hann segir: „Ég var alltaf haldinn streitu. Samviskan nagaði mig því að ég gat ekki náð markmiðunum sem ég hafði sett mér í þjónustunni við Guð.“

Á kafi í vinnu

Í orði Guðs eru sannkristnir menn hvattir til að vinna hörðum höndum og vera ábyrgir starfsmenn og vinnuveitendur. Páll postuli skrifaði: „Hvað sem þið gerið, þá gerið það af heilum huga eins og Drottinn ætti í hlut en ekki menn.“ (Kól. 3:22, 23) Þótt vinnusemi sé hrósverð dugir hún ekki ein og sér — við þurfum líka að eiga gott samband við skaparann. (Préd. 12:13) Ef þjónn Guðs er allt of upptekinn af atvinnu sinni getur þjónustan við Guð auðveldlega orðið út undan.

Þjónn Guðs, sem er á kafi í vinnu, hefur ef til vill ekkert þrek eftir til að sinna sambandi sínu við Jehóva og til að aðstoða fjölskylduna. Salómon konungur sá að „báðar hendur fullar af striti“ eru oft ekki annað en „eftirsókn eftir vindi“. Ef þjónn Guðs er allt of upptekinn af vinnunni gæti það leitt til þess að starfsframinn færi að stjórna lífi hans. Slíkt veldur oft langvarandi streitu sem getur leitt til kulnunar í starfi. Gæti þjónn Guðs sem þannig væri ástatt fyrir ,notið lífsins og glaðst af öllu erfiði sínu‘? (Préd. 3:12, 13; 4:6) Og það sem meira er um vert, myndi hann þá hafa næga líkamlega og andlega orku til að sinna skyldum sínum gagnvart fjölskyldunni og þjónustunni við Guð?

Janus, sem býr í Austur-Evrópu, lét garðyrkjufyrirtæki sitt eiga hug sinn allan. Hann segir: „Fólk dáðist að mér fyrir mikla framtakssemi og fyrir að klára öll verkefni sem ég tók að mér. En það bitnaði á sambandi mínu við Guð og ég hætti að taka þátt í boðunarstarfinu. Ekki leið á löngu þar til ég hætti að sækja samkomur. Ég varð svo sjálfsánægður að ég tók ekki til mín ráðleggingar öldunganna og fjarlægðist söfnuðinn.“

Þér getur farnast vel í lífinu

Við höfum nú fjallað um þrennt sem þjónn Guðs gæti orðið svo upptekinn af að það kæmi niður á sambandi hans við Jehóva. Væri hægt að segja það um þig? Ef svo er geta eftirfarandi spurningar, ritningargreinar og athugasemdir hjálpað þér að sjá hvort þú sért á réttri leið í lífinu.

Íþróttir og önnur áhugamál: Hversu upptekinn ert þú af íþróttum og öðrum áhugamálum? Gleypir þetta tíma sem þú notaðir áður til að sinna þjónustunni við Guð? Hefurðu minni áhuga á að vera með trúsystkinum þínum en áður? Ef svo er hvernig væri þá að biðja til Jehóva eins og Davíð konungur gerði: „Vísa mér veginn sem ég skal halda.“ — Sálm. 143:8.

Farandumsjónarmaður aðstoðaði Viktor, sem minnst var á hér að framan, og sagði við hann: „Þú talar um blakferil þinn af mikilli ástríðu.“ „Mér brá við þessi orð,“ sagði Viktor. „Ég sá að þetta var komið út í öfgar hjá mér. Ég hætti stuttu seinna að hafa félagsskap við vinina í íþróttafélaginu og eignaðist vini í söfnuðinum.“ Viktor þjónar nú Jehóva af dugnaði í heimasöfnuði sínum. Hann ráðleggur: „Spyrjið vini ykkar, foreldra eða öldunga safnaðarins hvort þeim finnist að íþróttirnar eða áhugamálin, sem þið stundið, hafi fært ykkur nær Jehóva eða fjær honum.“

Hvernig væri að nefna við öldungana í heimasöfnuði þínum að þig langi til að taka að þér fleiri þjónustuverkefni? Gætir þú hjálpað öldruðum sem hafa þörf fyrir félagsskap eða aðstoð, til dæmis við innkaup eða einhver störf á heimilinu? Hvort sem þú ert ungur eða gamall er hugsanlegt að þú getir þjónað Guði í fullu starfi og hjálpað öðrum að hafa sama tilefni og þú til að gleðjast.

Æðri menntun: Jesús varaði við því að ,leita eigin heiðurs‘. (Jóh. 7:18) Vertu viss um að þú,metir þá hluti rétt sem máli skipta‘ áður en þú ákveður hve mikillar menntunar þú ætlar að afla þér. — Fil. 1:9, 10.

Tölvuforritarinn Gregor gerði breytingar á lífi sínu. Hann sagði: „Ég tók ráðleggingar öldunganna alvarlega og ákvað að einfalda líf mitt. Ég sá að ég þurfti ekki að afla mér frekari menntunar. Það hefði krafist alltof mikils tíma og fyrirhafnar.“ Gregor fór að taka meiri þátt í safnaðarstarfinu. Seinna útskrifaðist hann úr Þjónustuþjálfunarskólanum sem nú kallast Biblíuskóli fyrir ógifta bræður. Já, hann ,notaði hverja stund‘ til að afla sér meiri þekkingar um Guð. — Ef. 5:16.

Atvinna: Ertu svo upptekinn af vinnunni að þjónustan við Guð sitji á hakanum? Tekurðu þér nægan tíma til að ræða við fjölskyldu þína? Tekurðu framförum í að undirbúa og flytja ræður á samkomum? Og hvernig gengur þér að eiga uppbyggilegar samræður við aðra? „Óttastu Guð og haltu boðorð hans,“ þá mun Jehóva blessa þig og þú munt ,njóta fagnaðar af striti þínu‘. — Préd. 2:24; 12:13.

Garðyrkjufyrirtæki Janusar, sem áður var minnst á, gekk ekki mjög vel og hann varð að hætta rekstri þess. Tekjulaus og skuldum vafinn sneri hann sér til Jehóva. En Janus kom málum sínum í lag og starfar nú sem brautryðjandi og safnaðaröldungur. Hann segir: „Þegar ég læt mér nægja það nauðsynlegasta og nota jafnframt krafta mína í þjónustunni við Guð hef ég innri ró og frið í hjarta.“ — Fil. 4:6, 7.

Gerðu heiðarlega sjálfsrannsókn og kannaðu hvað stjórni ákvörðunum þínum og hvað hafi forgang í lífi þínu. Að þjóna Jehóva er lífsvegur sem leiðir til ævilangrar velgengni. Gerðu það að þungamiðju lífsins.

Þú gætir þurft að gera einhverjar breytingar og jafnvel sleppa því sem er ekki nauðsynlegt til að fullvissa þig um „hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna“. (Rómv. 12:2) En þér mun farnast vel ef þú þjónar Jehóva af heilum huga.

[Neðanmáls]

^ gr. 8 Sumum nöfnum hefur verið breytt.

[Rammi/mynd á bls. 31]

Hvað þarftu að gera til að þér farnist vel í lífinu?

Hvernig er hægt að einbeita sér að því sem máli skiptir þegar það er svo margt sem glepur? Taktu þér tíma til að gera heiðarlega sjálfsrannsókn. Veltu eftirfarandi spurningum fyrir þér og kannaðu hvað stjórni ákvörðunum þínum og hvað hafi forgang í lífi þínu:

ÍÞRÓTTIR OG ÖNNUR ÁHUGAMÁL

▪ Hvers konar viðhorfum gætir þú smitast af?

▪ Hversu tímafrekt yrði þetta?

▪ Gæti þetta orðið þungamiðjan í lífi þínu?

▪ Gleypir þetta tíma sem þú notaðir áður til að þjóna Guði?

▪ Hvernig er félagsskapurinn?

▪ Finnst þér þessir félagar skemmtilegri en trúsystkini þín?

ÆÐRI MENNTUN

▪ Þarftu að verja tíma, peningum og kröftum í að afla þér meiri menntunar ef þú getur séð þér farborða?

▪ Þarftu nauðsynlega að hafa háskólagráðu til að sjá fyrir þér?

▪ Hvaða áhrif myndi frekara nám hafa á samkomusókn þína?

▪ Hefur þú „metið þá hluti rétt sem máli skipta“?

▪ Þarftu að styrkja þá trú að Jehóva geti séð fyrir þér?

ATVINNA

▪ Velurðu þér þannig vinnu að þú getir ,glaðst af öllu erfiði þínu‘?

▪ Hefur þú næga líkamlega og andlega orku til að sinna skyldum þínum gagnvart fjölskyldunni og þjónustunni við Guð?

▪ Tekurðu þér nægan tíma til að ræða við fjölskyldu þína?

▪ Ertu svo upptekinn af vinnunni að þjónustan við Guð sitji á hakanum?

▪ Hefur vinnan haft neikvæð áhrif á ræður þínar og verkefni á samkomum?

[Mynd á bls. 30]

Jehóva varaði Barúk við framagirni.