Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ætlarðu að fylgja ástúðlegri leiðsögn Jehóva?

Ætlarðu að fylgja ástúðlegri leiðsögn Jehóva?

Ætlarðu að fylgja ástúðlegri leiðsögn Jehóva?

„Ég . . . hata sérhvern lygaveg.“ — SÁLM. 119:128.

1, 2. (a) Hvaða viðvaranir er gott að fá þegar maður spyr til vegar og hvers vegna? (b) Við hverju varar Jehóva þá sem þjóna honum og hvers vegna?

SEGJUM sem svo að þú ætlir að ferðast á ákveðinn stað. Þú leitar ráða hjá góðum vini sem þekkir leiðina. Hann gefur þér ítarlegar leiðbeiningar en varar jafnframt við nokkrum hættum. Meðal annars er villandi skilti á einum gatnamótum. Margir hafa fylgt því og villst. Kynnirðu að meta umhyggju hans og myndirðu hafa viðvörun hans í huga? Jehóva er að sumu leyti eins og þessi vinur. Hann gefur okkur nákvæmar leiðbeiningar til að við getum ratað rétta leið og fundið eilífa lífið en hann varar okkur líka við hættum sem gætu orðið til þess að við villtumst af réttri leið. — 5. Mós. 5:32; Jes. 30:21.

2 Í þessari grein og þeirri næstu er rætt um vissar hættur sem vinur okkar, Jehóva Guð, varar okkur við. Höfum hugfast að Jehóva gerir það vegna kærleika síns og umhyggju. Hann vill að við náum á áfangastað. Það tekur hann sárt að sjá fólk taka rangar ákvarðanir og villast af leið. (Esek. 33:11) Við lítum nú á þrjár hættur sem geta orðið á vegi okkar. Fyrsta hættan stafar af utanaðkomandi áhrifum og önnur hættan af áhrifum innra með okkur. Sú þriðja stafar af fánýtum hlutum en er engu að síður mjög varhugarverð. Við þurfum að þekkja þessar hættur og vita hvernig faðirinn á himnum hjálpar okkur að varast þær. Innblásið sálmaskáld sagði við Jehóva: „Ég . . . hata sérhvern lygaveg.“ (Sálm. 119:128) Hugsar þú þannig? Við skulum kanna hvernig við getum verið ákveðin í að forðast „sérhvern lygaveg“.

Fylgdu ekki fjöldanum

3. (a) Af hverju gæti verið hættulegt að elta aðra ferðalanga ef maður er ekki viss um hvaða leið eigi að fara? (b) Hvaða mikilvægu meginreglu er að finna í 2. Mósebók 23:2?

3 Hvað myndirðu gera ef þú værir á langferð en værir ekki viss um hvaða leið þú ættir að fara? Það gæti verið freistandi að fylgja öðrum ferðalöngum, ekki síst ef þú sæir mjög marga velja sömu leið. En það getur verið varhugarvert. Það er ekki víst að þessir ferðalangar séu að fara á sama stað og þú. Og þeir gætu líka verið rammvilltir. Í þessu samhengi er gott að líta á meginreglu sem bjó að baki lagaákvæði í Ísrael til forna. Þeim sem fóru með dómsvald eða voru vitni í dómsmáli var bent á að það gæti reynst hættulegt að „fylgja meirihlutanum“. (Lestu 2. Mósebók 23:2.) Það er ósköp auðvelt fyrir ófullkomna menn að láta undan hópþrýstingi og rangsnúa réttvísinni. En er það aðeins í dómsmálum sem það er mikilvægt að fylgja ekki meirihlutanum? Alls ekki.

4, 5. Hvernig var reynt að fá Jósúa og Kaleb til að fylgja fjöldanum en af hverju voru þeir staðfastir?

4 Sannleikurinn er sá að við getum orðið fyrir hópþrýstingi hvenær sem er og jafnvel fyrirvaralaust. Þá getur reynst ákaflega erfitt að fylgja ekki fjöldanum. Tökum sem dæmi hvernig þeir Jósúa og Kaleb urðu fyrir hópþrýstingi. Þeir voru í hópi 12 njósnara sem fóru inn í fyrirheitna landið til að kanna það. Tíu af mönnunum gáfu mjög neikvæða lýsingu þegar þeir sneru aftur og skutu Ísraelsmönnum skelk í bringu. Þeir fullyrtu jafnvel að sumir af landsmönnum væru risar komnir af uppreisnargjörnum englum og konum sem þeir tóku sér. (1. Mós. 6:4) Það var auðvitað fáránlegt að halda því fram. Þessir kynblendingar höfðu farist í flóðinu öldum áður og enginn af þeirra kyni komist lífs af. Tilhæfulausar hugmyndir geta engu að síður haft áhrif á þá sem eru veikir í trúnni. Neikvæð umsögn njósnaranna tíu olli ótta og skelfingu meðal fólksins. Áður en langt um leið voru flestir á því að það væri misráðið að fara inn í fyrirheitna landið eins og Jehóva hafði sagt þeim að gera. Hvað gerðu Jósúa og Kaleb við þessar tvísýnu aðstæður? — 4. Mós. 13:25-33.

5 Þeir fylgdu ekki fjöldanum heldur sögðu sannleikann jafnvel þótt fólkið vildi ekki heyra hann. Þeir hvikuðu ekki þó að mannfjöldinn hótaði að grýta þá til bana. Hvernig gátu þeir verið svona hugrakkir? Eflaust stafaði það að miklu leyti af trú þeirra. Þeir sem trúa sjá greinilega muninn á tilhæfulausum fullyrðingum manna og helgum loforðum Jehóva Guðs. Jósúa og Kaleb töluðu síðar meir um trú sína og lýstu því hvernig Jehóva stendur alltaf við loforð sín. (Lestu Jósúa 14:6, 8; 23:2, 14.) Tvímenningarnir elskuðu Guð og treystu honum, og þeir gátu ekki hugsað sér að særa hann með því að fylgja trúlitlum fjöldanum. Þeir voru því staðfastir og eru prýðisfordæmi fyrir okkur sem nú lifum. — 4. Mós. 14:1-10.

6. Á hvaða sviðum gæti verið freistandi að fylgja fjöldanum?

6 Finnst þér stundum freistandi að fylgja fjöldanum? Þeir eru býsna margir sem virða ekki Jehóva og gera gys að siðferðisreglum hans. Fjöldinn fer oft með tómt fleipur þegar afþreying og skemmtiefni er annars vegar. Fólk heldur því kannski fram að það sé skaðlaust að horfa á siðleysið, ofbeldið og dulspekina sem er áberandi í sjónvarpsþáttum, kvikmyndum og tölvuleikjum. (2. Tím. 3:1-5) Hvernig velurðu skemmtiefni og afþreyingu handa þér og fjölskyldunni? Læturðu skoðanir annarra hafa áhrif á ákvarðanir þínar og samvisku? Ef þú gerir það ertu í rauninni að fylgja fjöldanum.

7, 8. (a) Hvernig ögum við hugann til að greina gott frá illu og af hverju er það betra en að hafa ótal boð og bönn? (b) Af hverju er gleðilegt að sjá börn og unglinga í söfnuðinum sýna trúna í verki?

7 Jehóva hefur gefið okkur dýrmæta gjöf til að hjálpa okkur að taka ákvarðanir, þann hæfileika að geta greint gott frá illu. En til að gera það þurfum við að aga hugann jafnt og þétt. (Hebr. 5:14) Við ögum ekki hugann með því að fylgja fjöldanum og við myndum ekki heldur gera það ef okkur væru sett ótal boð og bönn á þeim sviðum þar sem samviskan ætti að ráða. Það er til dæmis ástæðan fyrir því að þjónum Jehóva er ekki gefin skrá um kvikmyndir, bækur og vefsíður sem þeir eigi að forðast. Heimurinn breytist svo ört að slík skrá yrði jafnóðum úrelt. (1. Kor. 7:31) Það sem verra er, við færum þá á mis við það mikilvæga ferli að íhuga meginreglur Biblíunnar vandlega og í bænarhug, og taka síðan ákvarðanir með hliðsjón af þessum meginreglum. — Ef. 5:10.

8 Við gætum auðvitað gert okkur óvinsæl með því að taka ákvarðanir í samræmi við Biblíuna. Kristin börn og unglingar verða oft fyrir miklum hópþrýstingi í skólanum til að gera það sem hinir gera og horfa á það sem hinir horfa á. (1. Pét. 4:4) Það er því gleðilegt að sjá þjóna Jehóva á öllum aldri líkja eftir trú þeirra Jósúa og Kalebs og neita að fylgja fjöldanum.

Fylgdu ekki hjartanu og augunum

9. (a) Af hverju getur verið hættulegt að láta skyndihvöt vísa veginn á ferðalagi? (b) Hvaða gildi hafði ákvæðið í 4. Mósebók 15:37-39 fyrir þjóð Guðs til forna?

9 Önnur hættan, sem við ætlum að ræða, kemur innan frá. Það mætti lýsa henni með þessum hætti: Ímyndaðu þér að þú sért að ferðast til ákveðins staðar og ákveðir allt í einu að henda kortinu og fylgja bara tilfinningu augnabliksins. Þú leyfir þér að fara hverja þá leið sem þér finnst bjóða upp á fallegt útsýni. Það er ólíklegt að þú komist á áfangastað ef þú lætur skyndihvöt ráða ferðinni. Í þessu sambandi er gott að líta á annað lagaákvæði sem Jehóva setti Ísraelsmönnum forðum daga. Mörgum gæti þótt erfitt að skilja af hverju þeir áttu að hafa skúfa og purpurabláan þráð á klæðafaldi sínum. (Lestu 4. Mósebók 15:37-39.) En áttarðu þig á þýðingu þess? Þetta ákvæði hjálpaði þjóð Guðs að vera ólík heiðnum grannþjóðum og vera aðgreind frá þeim. Það var nauðsynlegt til að öðlast velþóknun Jehóva og viðhalda henni. (3. Mós. 18:24, 25) En þetta ákvæði dregur einnig fram hættuleg áhrif sem koma innan frá og gætu leitt okkur út af veginum til eilífa lífsins. Hvernig þá?

10. Hvernig sýndi Jehóva að hann gerþekkir mannlegt eðli?

10 Tökum eftir hver ástæðan var fyrir þessu lagaákvæði. Jehóva sagði: „Ekki elta það sem hjarta ykkar og augu girnast og þið hórist með.“ Jehóva gerþekkir mannlegt eðli. Hann veit hve auðveldlega hjartað, það er að segja hinn innri maður, getur látið tælast af því sem augun sjá. Þess vegna segir í Biblíunni: „Svikult er hjartað framar öllu öðru og forhert. Hver skilur það?“ (Jer. 17:9) Áttarðu þig á hve rík ástæða var fyrir þessari viðvörun Jehóva? Hann vissi mætavel að Ísraelsmenn höfðu tilhneigingu til að horfa á heiðnu þjóðirnar og láta tælast af því sem þeir sáu. Þeim gat þótt freistandi að reyna að líkjast þessu fólki í útliti og fara síðan að hugsa og hegða sér eins og það. — Orðskv. 13:20.

11. Á hvaða sviði gæti okkur þótt freistandi að fylgja hjartanu og augunum?

11 Nú á tímum er enn meiri hætta á að skilningarvitin tæli hið svikula hjarta. Við búum í heimi þar sem allt gengur út á að höfða til hvata holdsins. Hvernig getum við þá farið eftir meginreglunni í 4. Mósebók 15:39? Hvaða áhrif gæti það haft á okkur ef skólafélagar, vinnufélagar eða fólk almennt verður sífellt meira ögrandi í klæðaburði? Gæti okkur þótt freistandi að elta það sem hjartað og augun girnast? Gætum við síðan freistast til að líkjast þeim meira í klæðaburði og fjarlægst kristin viðmið? — Rómv. 12:1, 2.

12, 13. (a) Hvað eigum við að gera ef augun vilja leita þangað sem þau eiga ekki að horfa? (b) Hvað getur verið okkur hvatning til að freista ekki annarra?

12 Það er brýn nauðsyn fyrir okkur að temja okkur sjálfstjórn. Ef augun hafa tilhneigingu til að leita þangað sem þau ættu ekki að horfa skulum við rifja upp fyrir okkur ákvörðun sem Job tók. Þessi trúi þjónn Guðs gerði sáttmála við augu sín um að horfa ekki girndaraugum til annarra kvenna en eiginkonu sinnar. (Job. 31:1) Davíð konungur einsetti sér að ,hafa ekki illvirki fyrir augum‘. (Sálm. 101:3) Allt sem getur komið í veg fyrir að við höfum hreina samvisku og getur spillt sambandinu við Jehóva er eins konar „illvirki“. Það nær yfir allar freistingar sem höfða til augnanna og geta vakið löngun innra með okkur til að gera eitthvað rangt.

13 Við viljum ekki heldur vinna „illvirki“ gagnvart öðrum með því að freista þeirra til að gera eitthvað rangt. Við tökum þess vegna alvarlega þá innblásnu ábendingu Biblíunnar að vera látlaus og siðsamleg í klæðaburði. (1. Tím. 2:9) Við getum ekki leyft okkur að skilgreina bara eftir eigin smekk hvað sé viðeigandi klæðaburður. Við þurfum líka að taka tillit til samvisku og tilfinninga annarra og taka velferð þeirra og hugarró fram yfir okkar eigin smekk. (Rómv. 15:1, 2) Í kristna söfnuðinum er að finna ungt fólk í þúsundatali sem er til mikillar fyrirmyndar á þessu sviði. Við erum ákaflega stolt af þessu unga fólki sem hefur ákveðið að fylgja ekki hjartanu og augunum heldur vill frekar þóknast Jehóva í einu og öllu, meira að segja í klæðaburði.

Fylgdu ekki fánýtum hlutum

14. Hvaða viðvörun fengu Ísraelsmenn við því að fylgja fánýtum hlutum?

14 Hugsaðu þér að þú farir um víðáttumikla eyðimörk á ferð þinni. Hvernig færi ef þú beygðir út af veginum til að eltast við einhverjar hillingar? Það gæti kostað þig lífið. Jehóva er fullkunnugt um þessa hættu. Lítum á dæmi. Ísraelsmenn vildu vera eins og þjóðirnar í kring sem voru undir stjórn mennskra konunga. Þessi löngun þeirra var í rauninni alvarleg synd vegna þess að hún jafngilti því að þeir höfnuðu Jehóva sem konungi sínum. Jehóva leyfði þeim að vísu að fá mennskan konung, en lét Samúel spámann vara þá við því á beinskeyttan hátt að eltast við fánýta og einskis verða hluti. — Lestu 1. Samúelsbók 12:21.

15. Hvernig eltust Ísraelsmenn við fánýta hluti?

15 Hélt þjóðin að mennskur konungur yrði einhvern veginn raunverulegri og áreiðanlegri en Jehóva? Ef fólk hugsaði þannig var það svo sannarlega að eltast við fánýta hluti. Og þá var hætta á að það færi að eltast við margar aðrar hillingar og blekkingar Satans. Mennskir konungar gátu hæglega leitt þjóðina út í skurðgoðadýrkun. Skurðgoðadýrkendur halda ranglega að áþreifanlegir hlutir — guðir út tré eða steini — séu einhvern veginn raunverulegri og áreiðanlegri en ósýnilegur skapari allra hluta, Jehóva Guð. En eins og Páll postuli benti á eru skurðgoð „ekkert“. (1. Kor. 8:4) Þau sjá ekki, heyra ekki, tala ekki og geta ekkert gert. Það er hægt að sjá þau og snerta, en ef maður tilbiður þau er maður í raun og veru að eltast við einskis nýta hluti — hreina blekkingu — og það er ávísun á ógæfu. — Sálm. 115:4-8.

16. (a) Hvernig tælir Satan marga til að eltast við fánýta hluti? (b) Af hverju getum við sagt að efnislegir hlutir séu fánýtir, einkum í samanburði við Jehóva Guð?

16 Satan kann enn listina að telja fólk á að eltast við fánýta hluti. Hann hefur til dæmis talið mörgum trú um að hægt sé að tryggja sér öryggi með efnislegum hlutum. Fólk virðist halda að peningar, eignir og hálaunuð störf leysi öll vandamál. En hvaða gagn er í efnislegum eignum þegar heilsan bilar, kreppa verður í efnahagslífinu eða náttúruhamfarir skella á? Hvers virði eru peningar þegar fólk sér engan tilgang í lífinu og vantar svör við stóru spurningunum? Að hvaða haldi koma þeir þegar dauðinn knýr dyra? Við verðum fyrir vonbrigðum ef við höldum að efnislegir hlutir fullnægi andlegum þörfum okkar. Efnislegar eignir eru haldlausar og fánýtar. Til langs tíma litið geta þær ekki tryggt öryggi okkar vegna þess að þær geta hvorki lengt mannsævina né komið í veg fyrir sjúkdóma og dauða. (Orðskv. 23:4, 5) En Jehóva Guð er raunverulegur. Sterkt samband við hann er það eina sem getur veitt okkur ósvikið öryggi. Það er ómetanleg blessun. Snúum aldrei baki við honum til að eltast við fánýta hluti.

17. Hvernig ætlarðu að nýta þér þær viðvaranir sem rætt er um í þessari grein?

17 Það er mikil blessun að eiga Jehóva sem vin og leiðsögumann á lífsleiðinni. Ef við höldum áfram að fara eftir viðvörunum hans eru margfalt meiri líkur á að við komumst á áfangastað og hljótum eilíft líf. Í þessari grein höfum við rætt um þrjár hættur sem geta orðið á vegi okkar — að fylgja fjöldanum, hjartanu og fánýtum hlutum. Í þeirri næstu lítum við á þrennt til viðbótar sem Jehóva varar við svo að við getum forðast vandlega þær villigötur sem margir leiðast út á. — Sálm. 119:128.

Hvað heldur þú?

Hvernig geturðu notfært þér meginreglunar sem koma fram í eftirfarandi ritningarstöðum?

2. Mósebók 23:2.

4. Mósebók 15:37-39.

1. Samúelsbók 12:21.

Sálmi 119:128.

[Spurningar]

[Mynd á bls. 11]

Finnst þér stundum freistandi að fylgja fjöldanum?

[Mynd á bls. 13]

Af hverju er hættulegt að láta undan skyndihvöt?

[Mynd á bls. 14]

Eltist þú við fánýta hluti?