Ég óttaðist dauðann — nú á ég von um „líf í fyllstu gnægð“
Ég óttaðist dauðann — nú á ég von um „líf í fyllstu gnægð“
Piero Gatti segir frá
LÁGVÆRAR drunurnar urðu smám saman háværari. Sírenur vældu og minntu fólk á að leita skjóls. Augnabliki síðar heyrðist ýlfur í sprengjum og ærandi sprengjugnýr með tilheyrandi skelfingu og eyðileggingu.
Þannig var ástandið í Mílanó á Ítalíu á árunum 1943 og 1944. Ég var ungur hermaður og var mér oft skipað að safna saman líkamsleifum sem voru grafnar í loftvarnarbyrgjum eftir sprengjuárásir. Fólk hafði lent þar í sjálfheldu og líkin voru sundurtætt og óþekkjanleg. Ég horfði ekki aðeins upp á dauða annarra. Stundum slapp ég sjálfur naumlega. Á þeim stundum baðst ég fyrir og lofaði Guði að lifði ég af blóðbaðið myndi ég gera vilja hans.
Ég hætti að óttast dauðann
Ég ólst upp í þorpi um tíu kílómetra frá Como á Ítalíu, nálægt svissnesku landamærunum. Á unga aldri kynntist ég sorg og ótta við dauðann. Tvær systur mínar dóu í spánsku veikinni. Ég var aðeins sex ára þegar Luigia, móðir mín, dó árið 1930. Ég var alinn upp við reglur kaþólskrar trúar og sótti vikulega messur. En það var mörgum árum síðar, á rakarastofu en ekki í kirkju, sem ég hætti að óttast dauðann.
Árið 1944 var mannfallið í styrjöldinni orðið gríðarlegt. Ég var einn af tugum þúsunda ítalskra hermanna sem höfðu flúið átakasvæðið yfir til Sviss sem var hlutlaust land. Við komuna þangað var okkur dreift í fjölda flóttamannabúða. Ég var sendur í búðir nálægt Steinach, í norð-austanverðu landinu. Þar fengum við ákveðið frelsi. Rakarann í Steinach vantaði tímabundna hjálp á rakarastofunni. Ég bjó og vann hjá honum í aðeins einn mánuð en það var nóg til þess að ég kynntist manni sem breytti lífi mínu.
Einn af þeim sem komu á rakarastofuna var Adolfo Tellini, Ítali sem bjó í Sviss. Hann var vottur Jehóva. Ég hafði aldrei heyrt getið um þennan hóp en það var ekkert undarlegt þar sem á þessum tíma voru ekki nema 150 vottar á allri Ítalíu. Adolfo sagði mér frá dásamlegum biblíusannindum, fyrirheitum um frið og „líf í fyllstu gnægð“. (Jóh. 10:10; Opinb. 21:3, 4) Ég var gagntekinn af boðskapnum um framtíð án styrjalda og dauða. Þegar ég kom aftur í flóttamannabúðirnar sagði ég Giuseppe Tubini, öðrum ungum Ítala, frá þessari von og hann var einnig mjög hrifinn. Adolfo og aðrir vottar heimsóttu okkur af og til í búðirnar.
Adolfo fór með mig til Arbon, um tíu kílómetra frá Steinach, þar sem fámennur hópur votta hélt samkomur á ítölsku. Ég var svo hugfanginn af því sem ég heyrði að í vikunni á eftir fór ég fótgangandi þangað.
Seinna sótti ég mót Votta Jehóva í mótshöll í Zürich. Ég varð sérstaklega sleginn af að sjá myndasýningu frá útrýmingarbúðum þar sem sýndir voru haugar af líkum. Ég fékk að vita að margir þýskir vottar höfðu látið lífið fyrir trú sína. Á mótinu hitti ég Mariu Pizzato. Hún hafði verið dæmd til 11 ára fangelsisvistar af ítölsku fasistastjórninni vegna starfa sinna sem vottur.Þegar stríðinu lauk sneri ég aftur til Ítalíu og slóst í hóp litla safnaðarins í Como. Ég hafði ekki fengið formlegt biblíunám en ég hafði staðgóða undirstöðuþekkingu á sannleikanum. Maria Pizzato var einnig í þessum söfnuði. Hún ræddi við mig um nauðsyn þess að láta skírast niðurdýfingarskírn og bauð mér að heimsækja Marcello Martinelli. Hann átti heima í Castiona Andevenno í héraðinu Sondrio. Marcello var trúfastur andasmurður bróðir sem hafði verið dæmdur til 11 ára refsingar af einræðisstjórninni. Ég varð að hjóla 80 kílómetra til að heimsækja hann.
Marcello notaði Biblíuna til að útskýra kröfurnar sem gerðar voru til að geta látið skírast. Á eftir fórum við með bæn og síðan lá leið okkar til Adda-árinnar þar sem ég var skírður. Það var í september 1946. Þetta var einstakur dagur. Ég var svo ánægður með ákvörðun mína að þjóna Jehóva og hafa nú áreiðanlega framtíðarvon að ég gerði mér varla grein fyrir því um kvöldið að ég hafði hjólað 160 kílómetra þennan dag.
Fyrsta mótið á Ítalíu eftir stríð var haldið í Mílanó í maí 1947. Um 700 manns voru viðstaddir, þar á meðal margir þeirra sem höfðu lifað af ofsóknir fasista. Óvenjulegt atvik átti sér stað á þessu móti. Guiseppe Tubini, sem ég hafði vitnað fyrir í flóttamannabúðunum, hélt skírnarræðuna — og lét svo sjálfur skírast á eftir!
Á mótinu átti ég því láni að fagna að hitta bróður Nathan Knorr frá Betel í Brooklyn. Hann hvatti okkur Guiseppe til að helga okkur því að þjóna Guði. Ég ákvað að byrja að þjóna í fullu starfi innan mánaðar. Þegar ég kom heim sagði ég fjölskyldunni frá ákvörðun minni en þau reyndu öll að telja mér hughvarf. En ég var ákveðinn. Eftir mánuð byrjaði ég að starfa á Betel í Mílanó. Fjórir trúboðar þjónuðu þar: Hjónin Giuseppe og Angelina Romano, og hjónin Carlo og Costanza Benanti. Sá fimmti í Betelfjölskyldunni var Giuseppe Tubini sem var nýkominn þangað, og ég var sá sjötti.
Þegar ég hafði verið mánuð á Betel var mér falið að verða farandhirðir — sá fyrsti á landinu sem var fæddur á Ítalíu. Bróðir George Fredianelli var þá þegar starfandi farandhirðir en hann var fyrsti trúboðinn sem kom til Ítalíu frá Bandaríkjunum árið 1946. Hann þjálfaði mig í nokkrar vikur og síðan lagði ég út í þetta ævintýri einn á báti. Ég man sérstaklega eftir söfnuðinum í Faenza en hann var sá fyrsti sem ég heimsótti. Að hugsa sér! Fram að því hafði ég ekki einu sinni haldið ræðu í söfnuði. Samt hvatti ég viðstadda, þar á meðal mörg ungmenni, til að stefna að því að verða boðberar í fullu starfi. Seinna var sumu af þessu unga fólki falið að sinna miklum ábyrgðarstörfum í söfnuðinum á Ítalíu.
Það var spennandi starf að vera farandumsjónarmaður. Margt kom mér á óvart, ég þurfti að aðlagast ólíkum aðstæðum og takast á við ýmsa erfiðleika. En starfið var ánægjulegt og bræður og systur sýndu mér mikla ástúð.
Hinn trúarlegi vettvangur á Ítalíu eftir stríðið
Ég ætla að segja ykkur svolítð frá trúarlega ástandinu á Ítalíu á þessum tíma. Kaþólska kirkjan réð lögum og lofum. Þótt ný stjórnarskrá hefði tekið gildi árið 1948 var það ekki fyrr en 1956 að fasistalögin, sem heftu frelsi vottanna til að boða fagnaðarerindið, voru
felld úr gildi. Vegna þrýstings frá prestastéttinni urðu svæðismót oft fyrir truflunum. En stundum mistókust tilraunir prestanna hrapallega. Það gerðist til dæmis 1948 í Sulmona, litlum bæ á Mið-Ítalíu.Mótið var haldið í leikhúsi. Fyrir hádegi á sunnudegi var ég fundarstjóri og Giuseppe Romano hélt opinberu ræðuna. Áheyrendur voru geysimargir miðað við þá tíma. Þá voru innan við 500 boðberar í öllu landinu en samt troðfylltu 2.000 manns leikhúsið. Í lok fyrirlestrarins hljóp ungur maður upp á svið að undirlagi tveggja presta í áheyrendahópnum. Hann var ákveðinn í að valda usla og fór að æpa eins hátt og hann gat. Ég sagði honum að ef hann hefði eitthvað að segja skyldi hann taka sal á leigu og þar gæti hann sagt það sem hann vildi. Áheyrendur voru ekki hrifnir af uppátæki unga mannsins og létu í ljós vanþóknun sína með því að kæfa óp hans. Ungi maðurinn hljóp þá niður af sviðinu og hvarf.
Á þessum tíma voru ferðalög ævintýri líkust. Ég fór stundum fótgangandi frá einum söfnuði til annars, hjólaði, ferðaðist með úr sér gengnum, yfirfullum áætlunarbílum eða tók lest. Það kom fyrir að ég hefðist við í hesthúsi eða verkfæraskúr. Stríðinu var nýlokið og flestir Ítalir voru fátækir. Vottarnir voru ekki margir og þeir voru efnalitlir. Lífið í þjónustu Jehóva var yndislegt engu að síður.
Nám í Gíleaðskólanum
Árið 1950 var okkur Giuseppe Tubini boðið að vera í 16. nemendahópi Gíleaðskólans. Allt frá byrjun gerði ég mér grein fyrir því að það yrði erfitt fyrir mig að læra ensku. Ég reyndi mitt besta en það var virkilega erfitt. Við áttum að lesa alla Biblíuna á ensku. Til að ljúka því verki sleppti ég stundum hádegisverðinum til að æfa mig í upplestri. Að lokum kom röðin að mér til að halda ræðu. Ég man eftir athugasemdum leiðbeinandans eins og það hafi gerst í gær: „Eldmóðurinn og handatilburðirnir eru frábærir en enskan þín er algerlega óskiljanleg.“ Þrátt fyrir þetta tókst mér að ljúka námskeiðinu með góðum árangri. Síðan var okkur Giuseppe falið að starfa aftur á Ítalíu. Eftir námið í Gíleaðskólanum vorum við báðir betur undirbúnir til að þjóna bræðrunum.
Árið 1955 giftist ég Lidiu en ég hafði haldið skírnarræðuna þegar hún lét skírast sjö árum áður. Domenico, faðir hennar, var elskulegur bróðir. Honum hafði tekist að
hjálpa öllum börnunum sínum sjö til að taka við sannleikanum þótt hann hafi verið ofsóttur af fasistastjórninni og verið dæmdur í þriggja ára útlegð. Lidia barðist einnig af kappi fyrir sannleikanum. Hún var þrisvar sinnum kölluð fyrir dóm áður en réttur okkar til að boða fagnaðarerindið hús úr húsi var viðurkenndur. Þegar við höfðum verið gift í sex ár fæddist Beniamino, fyrri sonur okkar. Árið 1972 eignuðumst við annan son, Marco. Það gleður mig að báðir synirnir og fjölskyldur þeirra þjóna Jehóva af kappi.Virkur í þjónustu Jehóva
Ég hef lifað ánægjulegu lífi með því að þjóna öðrum og hef því margs að minnast. Til dæmis skrifaði tengdafaðir minn Sandro Pertini, þáverandi forseta Ítalíu, snemma á níunda áratugnum. Meðan fasistar voru við völd voru þeir báðir sendir í útlegð til Ventotene-eyjar þar sem meintir óvinir stjórnarinnar voru hafðir í haldi. Tengdafaðir minn bað um viðtal með það í huga að vitna fyrir forsetanum. Beiðninni var tekið vel og ég fór með honum. Við fengum hjartanlegar móttökur en því áttum við yfirleitt ekki að venjast. Forsetinn tók tengdaföður mínum fagnandi og þeir féllust í faðma. Síðan töluðum við um trú okkar og gáfum honum nokkur rit.
Ég lét af störfum sem farandhirðir árið 1991 og var þá búinn að heimsækja söfnuði út um alla Ítalíu í 44 ár. Næstu fjögur árin þjónaði ég sem umsjónarmaður mótshallar þangað til ég varð að draga úr störfum vegna alvarlegra veikinda. Ég er Jehóva þakklátur fyrir að geta þó enn verið í fullu starfi. Ég reyni að gera mitt besta til þess að boða og fræða aðra um fagnaðarerindið, og núna aðstoða ég nokkra við að afla sér þekkingar á Biblíunni. Bræðurnir segja að ég hafi enn „eldlegan“ ákafa þegar ég flyt ræður. Ég þakka Jehóva fyrir að andlegur þróttur minn hefur ekki minnkað með árunum.
Þegar ég var unglingur var ég heltekinn ótta við dauðann en með því að fá nákvæma þekkingu á Biblíunni hef ég öðlast örugga von um eilíft líf — „líf í fyllstu gnægð“ eins og Jesús komst að orði. (Jóh. 10:10) Ég hlakka til að njóta lífsins í friði, öryggi og hamingju, ásamt ríkulegri blessun frá Jehóva. Lof sé kærleiksríkum skapara okkar fyrir þann heiður að fá að bera nafn hans. — Sálm. 83:19.
[Kort á bls. 22, 23]
SVISS
BERN
Zürich
Arbon
Steinach
ÍTALÍA
RÓM
Como
Mílanó
Adda-áin
Castione Andevenno
Faenza
Sulmona
Ventotene
[Mynd á bls. 22]
Á leið í Gíleaðskólann.
[Mynd á bls. 22]
Með Guiseppe í Gíleaðskólanum.
[Mynd á bls. 23]
Á brúðkaupsdegi okkar.
[Mynd á bls. 23]
Elskuleg eiginkona mín hefur staðið mér við hlið í meira en 55 ár.