Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hefurðu gengið inn til hvíldar Guðs?

Hefurðu gengið inn til hvíldar Guðs?

Hefurðu gengið inn til hvíldar Guðs?

„Orð Guðs er lifandi og kröftugt.“ — HEBR. 4:12.

1. Hvernig getum við gengið inn til hvíldar Guðs en af hverju getur það reynt á?

Í GREININNI á undan kom fram að við getum gengið inn til hvíldar Guðs með því að hlýða honum og starfa í samræmi við fyrirætlun hans. En það getur verið þrautin þyngri. Þegar við uppgötvum til dæmis að Jehóva hefur vanþóknun á einhverju sem við höfum gaman af gætu fyrstu viðbrögð okkar verið að fyllast mótþróa. Ef það gerist bendir það til þess að við þurfum að temja okkur betur að vera „af hjarta hlýðin“. (Rómv. 6:17) Í þessari grein lítum við á nokkur svið þar sem reynt getur á vilja okkar til að lifa í samræmi við fyrirætlun Guðs og hlýða honum af öllu hjarta.

2, 3. Hvað þurfum við að gera til að teljast gersemar í augum Jehóva?

2 Hvernig gengur þér að fylgja biblíulegum leiðbeiningum sem þú færð? Í Biblíunni segir að Guð vilji safna til sín ,gersemum allra þjóða‘. (Hagg. 2:7, Biblían 1981) Fæst vorum við svo sem einhverjar gersemar þegar við kynntumst sannleikanum. En af því að við elskuðum Guð og son hans langaði okkur til að breyta viðhorfum okkar og hátterni til að þóknast Guði. Eftir margar bænir og mikla vinnu rann loks upp sá stóri dagur að við gátum látið skírast sem kristnir menn. — Lestu Kólossubréfið 1:9, 10.

3 Baráttunni við ófullkomleikann lauk hins vegar ekki með skírninni. Hún hélt áfram og mun halda áfram eins lengi og við erum ófullkomin. En Jehóva lofar að blessa okkur ef við höldum áfram að berjast og erum ákveðin í að verða enn dýrmætari í augum hans.

Þegar við þurfum að leiðrétta okkur

4. Hvaða þrjár leiðir getur Jehóva notað til að gefa okkur biblíuleg ráð?

4 Áður en við getum leiðrétt eitthvað óæskilegt í fari okkar þurfum við auðvitað að vita hvað er að hjá okkur. Við hlustum kannski á ræðu í ríkissalnum eða lesum grein í Varðturninum eða Vaknið! sem vekur okkur til vitundar um alvarlegan brest í fari okkar. En ef við áttum okkur ekki á að við þurfum að bæta okkur eftir að hafa hlustað á ræðu eða lesið grein má vera að Jehóva noti bróður eða systur í söfnuðinum til að vekja athygli okkar á því. — Lestu Galatabréfið 6:1.

5. Hvernig gætum við brugðist við þegar við fáum leiðbeiningar en hvers vegna verða öldungarnir að halda áfram að reyna að hjálpa okkur?

5 Það er ekki beinlínis auðvelt að þiggja ráð frá ófullkominni manneskju og gildir þá einu hve mildilega ráðin eru gefin. Í Galatabréfinu 6:1 gefur Jehóva öldungum engu að síður bein fyrirmæli um að reyna að leiðrétta okkur og gera það „með hógværð“. Ef viðbrögð okkar eru jákvæð verðum við enn dýrmætari gersemar í augum Jehóva. Þótt undarlegt megi virðast eigum við ekki í neinum vandræðum með að viðurkenna í bæn til Guðs að við séum ófullkomin. Ef trúsystkini bendir hins vegar á einhvern brest í fari okkar höfum við tilhneigingu til að réttlæta okkur, gera lítið úr vandanum, láta sem ráðgjafanum sé í nöp við okkur eða finna að því hvernig hann kom leiðbeiningunum á framfæri. (2. Kon. 5:11) Ráðgjafinn bendir okkur kannski á að einhver í fjölskyldunni hafi gert eitthvað af sér, klæðnaði okkar eða hreinlæti sé ábótavant eða að Jehóva hafi andstyggð á afþreyingarefni sem við höfum gaman af. Ef hann snertir sérlega auman blett gætu viðbrögð okkar orðið frekar harkaleg, sjálfum okkur til undrunar og ráðgjafanum til mæðu. En þegar okkur er runnin reiðin viðurkennum við yfirleitt að leiðbeingarnar hafi átt rétt á sér.

6. Hvernig dregur orð Guðs fram „hugsanir og hugrenningar hjartans“?

6 Biblíuversið, sem fylgir fyrirsögn greinarinnar, bendir á að orð Guðs sé „kröftugt“. Það býr yfir krafti til að breyta fólki. Orð Guðs hjálpar okkur ekki síður að gera breytingar eftir að við skírumst en áður. Páll segir einnig í Hebreabréfinu: „Orð Guðs . . . smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar, það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans.“ (Hebr. 4:12) Með ,sál‘ er átt við það hvernig við erum út á við og með ,anda‘ er átt við okkar innri mann. Orð Páls merkja að þegar við skiljum til hvers Guð ætlast af okkur leiða viðbrögð okkar í ljós hvernig við erum innst inni. Er stundum munur á því sem við sýnum út á við og því sem erum innst inni? (Lestu Matteus 23:27, 28.) Hvernig heldurðu að þú myndir bregðast við undir þeim kringumstæðum sem lýst er í framhaldinu?

Verum í takt við söfnuð Jehóva

7, 8. (a) Af hverju ætli sumir kristnir Gyðingar hafi haldið í ákveðna þætti Móselaganna? (b) Af hverju samræmdist það ekki fyrirætlun Jehóva?

7 Mörg okkar geta farið með Orðskviðina 4:18 utan að. Þar stendur: „Gata réttlátra er eins og bjartur árdagsljómi, því bjartari sem nær líður hádegi.“ Þessi orð merkja að við skiljum betur með tímanum til hvers Jehóva ætlast af okkur og gengur jafnframt betur að fylgja leiðbeiningum hans.

8 Eins og rætt var um í greininni á undan áttu margir kristnir Gyðingar erfitt með að slíta sig frá Móselögunum eftir dauða Jesú. (Post. 21:20) Jafnvel þótt Páll færði skýr rök fyrir því að kristnir menn væru ekki lengur undir lögmálinu vildu ekki allir taka innblásnum rökum hans. (Kól. 2:13-15) Þeir héldu kannski að þeir gætu komist hjá ofsóknum ef þeir héldu áfram að fylgja lögmálinu, að minnsta kosti að hluta til. Hvað sem því líður skrifaði Páll kristnum Hebreum og sagði þeim berum orðum að þeir gætu ekki gengið inn til hvíldar Guðs meðan þeir vildu ekki laga sig að fyrirætlun hans. * (Hebr. 4:1, 2, 6; lestu Hebreabréfið 4:11.) Til að hljóta velþóknun Jehóva urðu þeir að horfast í augu við þá staðreynd að Jehóva vildi að þjónar hans tilbæðu hann með öðrum hætti en áður.

9. Hvernig ættum við að hugsa þegar ný skýring er gefin á ákveðnu biblíulegu atriði?

9 Skilningur okkar á sumum kenningum Biblíunnar hefur skýrst með tímanum. Við ættum að taka því fagnandi og það ætti að vekja hjá okkur enn meira traust til trúa og hyggna þjónsins. Fulltrúar hans hika ekki við að koma fram með breyttar eða betri skýringar þegar þeir gera sér grein fyrir að við þurfum að sjá ákveðin trúaratriði í nýju ljósi. Þjóninum er meira í mun að starfa í samræmi við fyrirætlun Jehóva en að forðast gagnrýni fyrir að leiðrétta skýringar sínar. Hvernig bregst þú við þegar ný skýring er gefin á ákveðnu biblíulegu atriði? — Lestu Lúkas 5:39.

10, 11. Hvaða lærdóm má draga af viðbrögðum sumra þegar nýjar boðunaraðferðir voru kynntar til sögunnar?

10 Við skulum líta á annað dæmi. Í lok nítjándu aldar og byrjun þeirrar tuttugustu álitu sumir biblíunemendur að þeir boðuðu fagnaðarerindið best með því að flytja vel undirbúnar ræður. Þeir voru góðir ræðumenn og sumir þeirra nutu þess út í ystu æsar að fá hrós þakklátra áheyrenda. Með tímanum kom hins vegar í ljós að Jehóva vildi að þjónar sínir boðuðu fagnaðarerindið með ýmsum hætti, meðal annars hús úr húsi. Sumir þessara ágætu ræðumanna þverneituðu að tileinka sér þessar nýju aðferðir. Út á við var að sjá sem þeir væru andlegir menn og þjónuðu Jehóva af lífi og sál. En þegar vilji Jehóva varðandi boðunarstarfið lá ljós fyrir sýndi það sig hvernig þeir hugsuðu og hvaða hvatir bjuggu innra með þeim. Jehóva var ekki sáttur við afstöðu þeirra og þeir yfirgáfu söfnuðinn. — Matt. 10:1-6; Post. 5:42; 20:20.

11 Það er ekki þar með sagt að það hafi verið auðvelt fyrir alla sem héldu áfram að starfa með söfnuðinum að boða fagnaðarerindið meðal almennings. Fyrir marga var það mikil áskorun, einkum í byrjun. En þeir voru hlýðnir. Þeir unnu smám saman bug á kvíðanum og Jehóva blessaði þá ríkulega fyrir. Hvernig bregst þú við þegar hvatt er til þess að reyna nýja aðferð í boðunarstarfinu sem þú hefur aldrei prófað áður? Ertu fús til að tileinka þér nýjar aðferðir?

Þegar ástvinur snýr baki við Jehóva

12, 13. (a) Af hverju lætur Jehóva víkja úr söfnuðinum þeim sem syndga en iðrast ekki? (b) Hvaða prófraun geta kristnir foreldrar orðið fyrir og af hverju er hún ákaflega erfið?

12 Við styðjum eflaust öll þá meginreglu að það sé nauðsynlegt að vera líkamlega, siðferðilega og andlega hreinn til að þóknast Guði. (Lestu Títusarbréfið 2:14.) Stöku sinnum geta þó komið upp aðstæður sem reyna til hins ýtrasta á hollustu okkar við boð Jehóva. Segjum til dæmis sem svo að einkasonur trúfastra hjóna í söfnuðinum ákveði að snúa baki við sannleikanum. Hann kýs frekar að „njóta skammvinns unaðar af syndinni“ en eiga náið samband við Jehóva og guðrækna foreldra sína. Honum er vikið úr söfnuðinum. — Hebr. 11:25.

13 Foreldrarnir eru miður sín. Þeir vita auðvitað að í Biblíunni segir að ekki eigi að „umgangast nokkurn þann er nefnir sig bróður en er saurlífismaður eða ásælinn, skurðgoðadýrkandi eða lastmáll, ofdrykkjumaður eða ræningi . . . jafnvel ekki sitja að borði með slíkum manni“. (1. Kor. 5:11, 13) Þau gera sér líka grein fyrir því að orðið ,nokkur‘ í þessu versi nær yfir ættingja sem hefur verið vikið úr söfnuðinum og búa ekki á heimili þeirra. En þeim þykir svo vænt um drenginn að þau hugsa kannski með sér að varla geti þau hjálpað honum að snúa aftur til Jehóva ef þau takmarki eins og hægt er sambandið við hann. Væri ekki vænlegra til árangurs fyrir þau að eiga regluleg samskipti við hann? *

14, 15. Hvaða ákvörðun þurfa foreldrar barns, sem er vikið úr söfnuðinum, að taka?

14 Við finnum sárlega til með foreldrunum. Sonurinn gat valið að breyta um stefnu en hann kaus að halda áfram á rangri braut í stað þess að varðveita náið samband við foreldra sína og trúsystkini. Foreldrarnir vilja gjarnan hjálpa syninum en ráða engu um hvað hann gerir. Það er ekki nema von að þau séu ráðalaus.

15 En hvað gera foreldrarnir í þessari erfiðu stöðu? Ætla þau að hlýða skýrum fyrirmælum Jehóva? Eða ætla þau að eiga regluleg samskipti við soninn og afsaka sig með því að það séu „nauðsynleg fjölskyldumál“? Þegar þau taka ákvörðun verða þau að hafa hugfast hvað Jehóva vill að þau geri. Hann vill halda söfnuðinum hreinum og reyna, ef þess er nokkur kostur, að fá þá sem fara út á ranga braut til að snúa aftur til safnaðarins. Hvernig geta kristnir foreldrar stutt þessa ráðstöfun Guðs?

16, 17. Hvaða lærdóm má draga af atburðum sem Aron upplifði?

16 Aron, bróðir Móse, var í erfiðri stöðu vegna tveggja sona sinna. Hugsaðu þér hvernig honum hefur verið innanbrjósts þegar synirnir Nadab og Abíhú báru óhreinan eld fram fyrir Jehóva og hann tók þá af lífi. Það batt auðvitað enda á öll samskipti þeirra við foreldrana. En það var annað sem reyndi á fjölskylduna því að Jehóva sagði við Aron og trúa syni hans: „Látið höfuðhár ykkar ekki hanga laust og þið skuluð ekki rífa klæði ykkar [vegna sorgar] því að þá deyið þið og Drottinn mun reiðast öllum söfnuðinum.“ (3. Mós. 10:1-6) Lærdómurinn er augljós. Við verðum að elska Jehóva heitar en ættingja sem eru honum ótrúir.

17 Nú á tímum líflætur Jehóva ekki þegar í stað þá sem brjóta lög hans. Í kærleika sínum gefur hann þeim tækifæri til að iðrast og hætta röngum verkum sínum. En hvað ætli Jehóva fyndist um það ef foreldrar óhlýðnuðust boðum hans og hefðu óþörf samskipti við son eða dóttur sem hefði verið vikið úr söfnuðinum?

18, 19. Hvaða blessun getur það haft í för með sér að virða fyrirmæli Jehóva um samskipti við þá sem er vikið úr söfnuðinum?

18 Margir sem hafa snúið aftur til safnaðarins segja að eindregin afstaða vina og ættingja hafi átt sinn þátt í því að þeir gerðu það. Ung kona, sem óskaði eftir að fá inngöngu í söfnuðinn að nýju, sagði öldungunum að bróðir hennar hefði verið henni hvatning til að bæta ráð sitt. Hann hafði virt fyrirmæli Jehóva um þá sem er vikið úr söfnuðinum, og það stuðlaði að því að hana langaði til að snúa aftur.

19 Hvaða ályktun getum við dregið af þessu? Þar sem við erum ófullkomin höfum við tilhneigingu til að fyllast mótþróa og ganga í berhögg við leiðbeiningar Biblíunnar. Við verðum að berjast gegn þessari tilhneigingu. Við þurfum að vera sannfærð um að það sé okkur alltaf fyrir bestu að beita aðferðum Jehóva þegar við eigum í erfiðleikum.

„Orð Guðs er lifandi“

20. Á hvaða tvo vegu má skilja Hebreabréfið 4:12? (Sjá neðanmálsgrein.)

20 Þegar Páll skrifaði að ,orð Guðs væri lifandi‘ átti hann ekki við Biblíuna sem slíka. * Af samhenginu má sjá að hann átti við loforð Guðs. Hann var að benda á að Guð gleymi ekki loforðum sínum. Jehóva staðfestir það fyrir munn Jesaja spámanns og segir: „Orð mitt . . . hverfur ekki aftur til mín við svo búið heldur . . . framkvæmir það sem ég fel því.“ (Jes. 55:11) Það er því ástæðulaust fyrir okkur að verða óþolinmóð þó að Jehóva uppfylli ekki loforð sín eins fljótt og við viljum. Hann starfar jafnt og þétt að því að láta fyrirætlun sína ná fram að ganga í einu og öllu. — Jóh. 5:17.

21. Hvernig getur Hebreabréfið 4:12 verið hvetjandi fyrir aldraða þjóna Jehóva af ,múginum mikla‘?

21 Þeir sem tilheyra ,múginum mikla‘ hafa margir hverjir þjónað Jehóva dyggilega áratugum saman. (Opinb. 7:9) Margir þeirra bjuggust ekki við að verða aldraðir í þessu heimskerfi. Þeir hafa samt ekki misst móðinn. (Sálm. 92:15) Þeir vita að loforð Guðs eru lifandi og að hann vinnur að því að uppfylla þau. Það er honum mikilvægt að láta fyrirætlun sína ná fram að ganga þannig að við gleðjum hann þegar við höfum hana efst í huga. Jehóva hefur hvílst sjöunda daginn í þeirri vissu að fyrirætlun hans nái fram að ganga og að þjónar hans í heild styðji hana. Hvað um þig? Hefur þú gengið inn til hvíldar Guðs?

[Neðanmáls]

^ gr. 8 Margir sem fóru með forystu í trúmálum meðal Gyðinga héldu Móselögin samviskusamlega en vildu ekki viðurkenna Messías þegar hann kom. Þeir voru ekki í takt við vilja Jehóva.

^ gr. 20 Nú á tímum talar Jehóva til okkar í orði sínu, Biblíunni, og hún býr yfir krafti til að breyta okkur. Orð Páls í Hebreabréfinu 4:12 geta því líka átt við Biblíuna.

Til upprifjunar

• Hvað þurfum við að gera til að ganga inn til hvíldar Guðs?

• Hvernig sýnum við að við viljum þóknast Guði þegar við fáum biblíulegar leiðbeiningar og skiljum til hvers hann ætlast af okkur?

• Við hvaða aðstæður gæti okkur þótt erfitt að fara eftir fyrirmælum Biblíunnar en af hverju er mikilvægt að hlýða þeim?

• Á hvaða tvo vegu má skilja Hebreabréfið 4:12?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 31]

Foreldrarnir eru miður sín.