Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þeir fundu Messías

Þeir fundu Messías

Þeir fundu Messías

„Við höfum fundið Messías!“ – JÓH. 1:41.

1. Hvað varð til þess að Andrés sagði: „Við höfum fundið Messías“?

JÓHANNES SKÍRARI er með tveim af lærisveinum sínum. Hann sér Jesú koma og segir þá: „Sjá, Guðs lamb.“ Andrés og hinn lærisveinninn fara með Jesú þegar í stað og eru með honum það sem eftir er dags. Andrés finnur síðan bróður sinn, Símon Pétur, og segir honum með ákafa: „Við höfum fundið Messías!“ Hann fer síðan með hann til Jesú. – Jóh. 1:35-41.

2. Hvaða gagn höfum við af því að kynna okkur fleiri spádóma um Messías?

2 Andrés, Pétur og fleiri eiga eftir að skoða Ritninguna vandlega og geta þá sagt með bjargfastri sannfæringu að Jesús frá Nasaret sé hinn fyrirheitni Messías. Við styrkjum líka trúna á orð Guðs og andasmurðan þjón hans með því að kynna okkur fleiri spádóma um Messías.

„Konungur þinn kemur“

3. Hvaða spádómar rættust þegar Jesús kom eins og sigursæll konungur til Jerúsalem?

3Messías átti að koma eins og sigursæll konungur til Jerúsalem. Í spádómi Sakaría segir: „Fagna mjög, dóttirin Síon, lát gleðilátum, dóttirin Jerúsalem. Sjá, konungur þinn kemur til þín. Réttlátur er hann og sigursæll, lítillátur og ríður asna, ungum ösnufola.“ (Sak. 9:9) Í einum af sálmunum segir: „Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins.“ (Sálm. 118:26) Mikill mannfjöldi fagnaði Jesú þegar hann kom til borgarinnar, rétt eins og spáð hafði verið. Það var engin leið fyrir hann til að búa svo um hnútana að fólk tæki á móti honum með slíkum gleðilátum. Þegar þú lest frásöguna skaltu ímynda þér að þú sért á staðnum og heyrir gleðióp fólksins. – Lestu Matteus 21:4-9.

4. Hvernig rættist Sálmur 118:22, 23?

4Jesús er dýrmætur í augum Guðs þótt margir hafi ekki viðurkennt að hann væri Messías. Þeir sem vildu ekki trúa sönnunargögnunum ,fyrirlitu Jesú og mátu hann einskis‘ eins og spáð hafði verið. (Jes. 53:3; Mark. 9:12) Guð hafði hins vegar innblásið sálmaskáldinu að skrifa: „Steinninn, sem smiðirnir höfnuðu, er orðinn að hyrningarsteini. Að tilhlutan Drottins er þetta orðið.“ (Sálm. 118:22, 23) Jesús vakti athygli trúarlegra fjandmanna sinna á þessum ritningarstað og Pétur sagði að hann hefði ræst á Jesú. (Mark. 12:10, 11; Post. 4:8-11) Jesús varð hornsteinn kristna safnaðarins. Hann er „í augum Guðs útvalinn og dýrmætur“ þó svo að guðlausir menn hafi hafnað honum. – 1. Pét. 2:4-6.

Svikinn og yfirgefinn

5, 6. Hvernig var spáð fyrir um að Messías yrði svikinn og hvernig rættist það?

5Spáð var að ótrúr félagi Messíasar myndi svíkja hann. Davíð spáði: „Vinur minn, sem ég treysti og neytti matar við borð mitt, lyftir hæl sínum móti mér.“ (Sálm. 41:10) Það var tákn um vináttu að borða saman. (1. Mós. 31:54) Júdas Ískaríot fór því svívirðilega að ráði sínu þegar hann sveik Jesú. Jesús vakti athygli á spádómi Davíðs þegar hann minntist á svikarann og sagði við postulana: „Ég tala ekki um yður alla. Ég veit hverja ég hef útvalið. En ritningin verður að rætast: Sá sem etur brauð mitt lyftir hæli sínum móti mér.“ – Jóh. 13:18.

6Messías yrði svikinn fyrir 30 silfurpeninga en það var andvirði þræls. Matteus bendir á að spádómurinn í Sakaría 11:12, 13 hafi ræst þegar Jesús var svikinn fyrir þessa smánarlegu upphæð. En hvers vegna segir Matteus að því hafi verið spáð „fyrir munn Jeremía spámanns“? Á dögum Matteusar má vera að Jeremíabók hafi verið fremst í safni biblíubóka sem innihélt líka bók Sakaría. (Samanber Lúkas 24:44.) Júdas nýtti sér aldrei hið illa fengna fé því að hann kastaði peningunum inn í musterið og fór síðan og hengdi sig. – Matt. 26:14-16; 27:3-10.

7. Hvernig rættist Sakaría 13:7?

7Lærisveinar Messíasar myndu tvístrast. „Bana hirðinum og hjörðin mun tvístrast,“ skrifaði Sakaría. (Sak. 13:7) Jesús sagði lærisveinunum hinn 14. nísan árið 33: „Á þessari nóttu munuð þið allir hafna mér því að ritað er: Ég mun slá hirðinn og sauðir hjarðarinnar munu tvístrast.“ Og þannig fór líka. Matteus skýrir svo frá: „Þá yfirgáfu allir lærisveinarnir Jesú og flýðu.“ – Matt. 26:31, 56.

Ákærður og barinn

8. Hvernig rættist Jesaja 53:8?

8Messías yrði leiddur fyrir rétt og dæmdur til dauða. (Lestu  Jesaja 53:8.) Allt æðstaráðið kom saman í dögun hinn 14. nísan, lét binda Jesú og fara með hann til rómverska landstjórans Pontíusar Pílatusar. Hann yfirheyrði Jesú en fann enga sök hjá honum. Pílatus bauðst til að láta Jesú lausan en mannfjöldinn heimtaði að hann yrði tekinn af lífi og krafðist þess að fá glæpamanninn Barabbas lausan. Pílatus vildi þóknast fjöldanum, sleppti Barabbasi, en lét húðstrýkja Jesú og framselja hann til lífláts. – Mark. 15:1-15.

9. Hvernig uppfylltist Sálmur 35:11 á dögum Jesú?

9Ljúgvottar myndu bera vitni gegn Messíasi. „Ljúgvitni ganga fram, spyrja mig um það sem ég veit ekki,“ sagði sálmaskáldið Davíð. (Sálm. 35:11) Það fór eins og spáð var. „Æðstu prestarnir og allt ráðið leituðu ljúgvitnis gegn Jesú til að geta líflátið hann.“ (Matt. 26:59) „Margir báru . . . ljúgvitni gegn honum en framburði þeirra bar ekki saman.“ (Mark. 14:56) Óvinum Jesú stóð á sama þótt framburður vitna væri tóm lygi. Þeir vildu bara fá Jesú líflátinn.

10. Hvernig rættist Jesaja 53:7?

10Messías myndi vera hljóður frammi fyrir þeim sem ákærðu hann. Jesaja spáði: „Hann var hart leikinn og þjáður en lauk eigi upp munni sínum fremur en lamb sem leitt er til slátrunar eða sauður sem þegir fyrir þeim er rýja hann, hann lauk eigi upp munni sínum.“ (Jes. 53:7) Jesús „svaraði engu“ þegar „æðstu prestarnir og öldungarnir báru á hann sakir“. Pílatus spurði hann: „Heyrir þú ekki hve mjög þeir vitna gegn þér? En Jesús svaraði honum ekki, engu orði hans, og undraðist landshöfðinginn mjög.“ (Matt. 27:12-14) Jesús formælti ekki þeim sem ákærðu hann. – Rómv. 12:17-21; 1. Pét. 2:23.

11. Hvernig uppfylltust Jesaja 50:6 og Míka 4:14?

11Jesaja spáði að Messías yrði barinn. „Ég bauð bak mitt þeim sem börðu mig,“ skrifaði spámaðurinn, „og vanga mína þeim sem reyttu skegg mitt, huldi ekki andlit mitt fyrir háðung og hrákum.“ (Jes. 50:6) Míka spáði: „Með sprota löðrunga þeir leiðtoga Ísraels.“ (Míka 4:14) Guðspjallamaðurinn Markús staðfestir að þessir spádómar hafi ræst á Jesú og segir: „Þá tóku sumir að hrækja á hann, þeir huldu andlit hans, slógu hann með hnefunum og sögðu við hann: ,Þú ert spámaður, hver sló þig?‘“ Hermenn „slógu höfuð hans með reyrsprota og hræktu á hann, féllu á kné og hylltu hann“ í háðungarskyni. (Mark. 14:65; 15:19) En Jesús gerði auðvitað ekkert til að ýta undir þessar svívirðingar.

Trúr allt til dauða

12. Hvernig rættust Sálmur 22:17 og Jesaja 53:12 á Jesú?

12Spáð var um aftöku Messíasar. Sálmaskáldið Davíð skrifaði: „Hópur illvirkja slær hring um mig, þeir hafa gegnumstungið hendur mínar og fætur.“ (Sálm. 22:17) Þetta rættist eins og flestir vita sem þekkja til Biblíunnar. Markús skrifar: „Það var um dagmál [um níuleytið að morgni] er þeir krossfestu hann.“ (Mark. 15:25) Því hafði einnig verið spáð að Messías yrði talinn með syndurum. „Hann gaf líf sitt í dauðann og var talinn með illræðismönnum,“ skrifaði Jesaja. (Jes. 53:12) Þetta rættist þannig að „tveir ræningjar“ voru líflátnir með Jesú, „annar til hægri, hinn til vinstri“. – Matt. 27:38.

13. Hvernig uppfylltist Sálmur 22:8, 9 á Jesú?

13Davíð spáði að Messías yrði smánaður. (Lestu  Sálm 22:8, 9.) Jesús var svívirtur meðan hann kvaldist á aftökustaurnum. Matteus greinir svo frá: „Þeir sem fram hjá gengu hæddu Jesú, skóku höfuð sín og sögðu: ,Þú sem brýtur niður musterið og reisir það á þrem dögum. Bjarga nú sjálfum þér ef þú ert sonur Guðs og stíg niður af krossinum!‘ Eins gerðu æðstu prestarnir gys að honum og fræðimennirnir og öldungarnir og sögðu:,Öðrum bjargaði hann, sjálfum sér getur hann ekki bjargað. Hann er konungur Ísraels, stígi hann nú niður af krossinum, þá skulum við trúa á hann. Hann treystir Guði. Nú ætti Guð að frelsa hann ef hann hefur mætur á honum. Eða sagði hann ekki: Ég er sonur Guðs?‘“ (Matt. 27:39-43) Jesús tók öllu þessu með reisn. Hann er okkur góð fyrirmynd.

14, 15. Hverju var spáð um föt Messíasar og hvað yrði honum gefið að drekka? Hvernig rættist það?

14Varpað yrði hlutkesti um föt Messíasar. „Þeir skipta með sér klæðum mínum, kasta hlut um kyrtil minn,“ sagði sálmaskáldið. (Sálm. 22:19) Þannig fór líka því að rómversku hermennirnir „köstuðu hlutum um klæði hans og skiptu með sér“ eftir að þeir höfðu staurfest hann. – Matt. 27:35; lestu Jóhannes 19:23, 24.

15Menn myndu gefa Messíasi edik og gall. „Þeir fengu mér malurt til matar,“ sagði sálmaskáldið, „og við þorstanum gáfu þeir mér edik að drekka.“ (Sálm. 69:22) Matteus skrifar: „Gáfu þeir Jesú vín að drekka, galli blandað. Hann bragðaði það en vildi ekki drekka.“ Nokkru síðar „hljóp einn þeirra til, tók njarðarvött og fyllti ediki, stakk á reyrstaf og gaf honum að drekka.“ – Matt. 27:34, 48.

16. Hvernig rættist spádómurinn í Sálmi 22:2?

16Guð myndi yfirgefa Messías að því er best yrði séð. (Lestu  Sálm 22:2.) Þetta rættist því að „á nóni [um þrjúleytið síðdegis] kallaði Jesús hárri röddu: ,Elóí, Elóí, lama sabaktaní!‘ Það þýðir: Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“ (Mark. 15:34) Jesús hafði ekki misst trúna á himneskan föður sinn. Guð yfirgaf Jesú í þeim skilningi að hann verndaði hann ekki fyrir óvinum hans. Það var til þess að hægt væri að reyna ráðvendni hans til hins ýtrasta. Og með því að hrópa þessi orð uppfyllti Jesús Sálm 22:2.

17. Hvernig uppfylltust Sakaría 12:10 og Sálmur 34:21?

17Messías yrði stunginn en bein hans ekki brotin. Jerúsalembúar myndu horfa til „hans sem þeir lögðu í gegn“. (Sak. 12:10) Í Sálmi 34:21 segir um Guð: „Hann gætir allra beina hans, ekki eitt þeirra skal brotið.“ Jóhannes postuli staðfestir að þetta hafi ræst á Jesú og skrifar: „Einn af hermönnunum stakk spjóti sínu í síðu hans og rann jafnskjótt út blóð og vatn. Sá er séð hefur vitnar þetta svo að þið trúið líka og vitnisburður hans er sannur . . . Þetta varð til þess að ritningin rættist: ,Ekkert bein hans skal brotið.‘ Og enn segir önnur ritning: ,Þeir munu horfa til hans sem þeir lögðu í gegn.‘“ – Jóh. 19:33-37.

18. Hvernig bar það til að Jesús var grafinn meðal ríkra?

18Messías yrði grafinn meðal ríkra. (Lestu  Jesaja 53:5, 8, 9.) Síðla dags 14. nísan kom „auðugur maður frá Arímaþeu, Jósef að nafni,“ til Pílatusar og bað hann um líkama Jesú. Pílatus varð við beiðni hans og Matteus skýrir svo frá: „Jósef tók líkið, sveipaði það hreinu línklæði og lagði í nýja gröf, sem hann átti og hafði látið höggva í klett, velti síðan stórum steini fyrir grafarmunnann og fór burt.“ – Matt. 27:57-60.

Hyllum konunginn Messías

19. Hvað gerðist í samræmi við spádóminn í Sálmi 16:10?

19Messías yrði reistur upp frá dauðum. Davíð skrifaði: „Þú [Jehóva] ofurselur helju ekki líf mitt.“ (Sálm. 16:10) Hinn 16. nísan komu konur að gröfinni þar sem Jesús hafði verið lagður. Við getum rétt ímyndað okkur undrun þeirra þegar þær sjá engil sitja inni í grafarhellinum. Hann segir við þær: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjáið þarna staðinn þar sem þeir lögðu hann.“ (Mark. 16:6) Á hvítasunnu nokkru síðar ávarpaði Pétur postuli mannfjölda sem safnast hafði saman í Jerúsalem. Hann nefnir þá spádóm Davíðs í Sálmi 16 og segir: „Því var það upprisa Krists sem hann sá fyrir þegar hann sagði: Ekki varð hann eftir skilinn í helju og ekki varð líkami hans rotnun að bráð.“ (Post. 2:29-31) Guð lét ekki líkama sonar síns rotna í gröfinni. Hann vann það kraftaverk að reisa hann upp sem anda. – 1. Pét. 3:18.

20. Hvað er sagt um stjórn Messíasar í spádómum Biblíunnar?

20Guð lýsti yfir að Jesús væri sonur sinn, eins og spáð hafði verið. (Lestu  Sálm 2:7; Matteus 3:17.) Mikill mannfjöldi hyllti Jesú og væntanlegt ríki hans, og við tölum líka fagnandi um hann og stjórn hans. (Mark. 11:7-10) Kristur mun bráðlega ,sækja sigursæll fram í þágu sannleika, mildi og réttlætis‘ og útrýma óvinum sínum. (Sálm. 2:8, 9; 45:2-7) Hann kemur síðan á friði og velmegun um allan heim. (Sálm. 72:1, 3, 12, 16; Jes. 9:5, 6) Ástkær sonur Guðs ríkir nú þegar á himnum sem konungurinn Messías. Það er mikill heiður að mega vera vottar Jehóva og boða öðrum þennan sannleika.

Hvert er svarið?

• Hvernig var Jesús svikinn og yfirgefinn?

• Hverju var spáð varðandi aftöku Jesú?

• Af hverju ertu sannfærður um að Jesús sé hinn fyrirheitni Messías?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 13]

Hvaða spádómar rættust þegar Jesús kom eins og sigursæll konungur til Jerúsalem?

[Myndir á bls. 15]

Jesús dó fyrir syndir okkar en ríkir núna sem konungurinn Messías.