Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fólk vænti Messíasar

Fólk vænti Messíasar

Fólk vænti Messíasar

„Allir voru nú fullir eftirvæntingar og hugsuðu með sjálfum sér hvort Jóhannes kynni að vera Kristur.“ – LÚK. 3:15.

1. Hvaða stórmerku tíðindi flytur engill fjárhirðum úti í haga?

ÞAÐ er nótt. Fjárhirðar eru úti í haga og gæta þar hjarðar sinnar. Allt í einu stendur hjá þeim engill og dýrð Jehóva ljómar kringum þá. Þeim bregður ekki lítið. Engillinn flytur þeim stórmerkileg tíðindi og segir: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn.“ Barnið, sem um ræðir, er hinn tilvonandi Messías. Fjárhirðarnir geta fundið þetta barn liggjandi í jötu í bæ þar í grenndinni. Skyndilega birtist „fjöldi himneskra hersveita“ sem lofa Jehóva og segja: „Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.“ – Lúk. 2:8-14.

2. Hvað merkir Messías og hvernig er hægt að bera kennsl á hann?

2 Fjárhirðarnir vita auðvitað að Messías (eða Kristur) merkir „hinn smurði“. (2. Mós. 29:5-7) En hvernig geta þeir aflað sér nánari upplýsinga og sannfært aðra um að Jehóva hafi útvalið barnið, sem engillinn nefndi, til að vera Messías? Þeir geta gert það með því að rannsaka spádóma Hebresku ritninganna um Messías og kanna hvort þeir rætast á þessu barni.

Hvers vegna var fólk eftirvæntingarfullt?

3, 4. Hvernig skiljum við Daníelsbók 9:24, 25?

3 Þegar Jóhannes skírari kom fram á sjónarsviðið mörgum árum síðar veltu sumir fyrir sér, miðað við orð hans og verk, hvort hann væri Messías. (Lestu Lúkas 3:15.) Vera má að sumir hafi skilið réttilega spádóm um Messías þar sem talað er um „sjötíu vikur“. Ef svo er gátu þeir reiknað út hvenær Messías átti að koma fram. Í spádóminum segir: „Frá því að orð barst um endurreisn og endurbyggingu Jerúsalem, allt til komu hins smurða, líða sjö vikur og á sextíu og tveim vikum verður hún endurreist.“ (Dan. 9:24, 25) Margir fræðimenn eru þeirrar skoðunar að átt sé við vikur ára. Til dæmis er talað um „sjötygi sjöundir (ára)“ í íslensku biblíunni frá 1859.

4 Þjónar Jehóva nú á tímum vita að vikurnar 69 í Daníelsbók 9:25 samsvara 483 árum og þær hófust árið 455 f.Kr. Það var þá sem Artaxerxes veitti Nehemía umboð til að endurreisa og endurbyggja Jerúsalem. (Nehem. 2:1-8) Þessu tímabili lauk 483 árum síðar, árið 29 e.Kr., þegar Jesús frá Nasaret var skírður og smurður heilögum anda. Þar með varð hann Messías. – Matt. 3:13-17. *

5. Hvaða spádóma ætlum við að skoða?

5 Í Biblíunni eru margir spádómar til viðbótar um Messías. Við skulum nú líta á nokkra þeirra og sjá hvernig þeir rættust við fæðingu Jesú, á bernskuárum hans og í starfi hans. Það mun án efa styrkja trú okkar á spádóma Biblíunnar og gefa okkur óyggjandi sannanir fyrir því að Jesús hafi verið hinn langþráði Messías.

Spádómar um fæðingu hans og bernsku

6. Hvernig rættist spádómurinn í 1. Mósebók 49:10?

6Messías átti að fæðast í Júdaættkvísl í Ísrael. Þegar ættfaðirinn Jakob blessaði syni sína á dánarbeðinu sagði hann: „Ekki mun veldissprotinn víkja frá Júda, né ríkisvöndurinn frá fótum hans, uns sá kemur, er valdið hefur, og þjóðirnar ganga honum á hönd.“ (1. Mós. 49:10, Biblían 1981) Margir fræðimenn Gyðinga til forna settu þennan spádóm í samband við Messías. Veldissprotinn (konungsvaldið) og ríkisvöndurinn (stjórnvaldið) var í höndum Júdaættkvíslar frá því að Davíð konungur komst til valda. Hann var fyrsti konungurinn af ættkvísl Júda. Sedekía var sá síðasti hér á jörð og eftir hann myndi koma varanlegur erfingi að ríkinu. Hann er nefndur í spádómi í Esekíel 21:31, 32 þar sem Guð segir Sedekía að stjórnvaldið yrði gefið þeim sem hefði réttinn. Jesús var eini afkomandi Davíðs sem var lofað konungdómi eftir Sedekía. Gabríel engill sagði Maríu áður en Jesús fæddist: „Drottinn Guð mun gefa honum hásæti Davíðs föður hans og hann mun ríkja yfir ætt Jakobs að eilífu og á ríki hans mun enginn endir verða.“ (Lúk. 1:32, 33) Jesús Kristur var afkomandi Júda og Davíðs og hlýtur því að vera konungurinn. – Matt. 1:1-3, 6; Lúk. 3:23, 31-34.

7. Hvar fæddist Messías og af hverju er það merkilegt?

7Messías átti að fæðast í Betlehem. Míka spámaður skrifaði: „Þú, Betlehem í Efrata, ein minnsta ættborgin í Júda, frá þér læt ég þann koma er drottna skal í Ísrael. Ævafornt er ætterni hans, frá ómunatíð.“ (Míka 5:1) Messías átti sem sagt að fæðast í bænum Betlehem í Júda en hann hét áður Efrata. María, móðir Jesú, og Jósef, fósturfaðir hans, bjuggu í Nasaret en þurftu að fara til Betlehem til að skrásetja sig að kröfu Rómverja. Jesús fæddist því þar árið 2 f.Kr. (Matt. 2:1, 5, 6) Spádómurinn rættist nákvæmlega.

8, 9. Hverju var spáð varðandi fæðingu Messíasar og um atburði sem áttu sér stað í kjölfarið?

8Messías átti að fæðast af mey. (Lestu  Jesaja 7:14.) Hebreska orðið beþúlaʹ merkir „mey“ en í Jesaja 7:14 er notað orðið almaʹ. Þar er því spáð að „yngismær“ (ha‛almaʹ) muni ala son. Orðið almaʹ er notað um Rebekku áður en hún giftist. (1. Mós. 24:16, 43) Heilagur andi innblés Matteusi að nota gríska orðið parþeʹnos („mey“) þegar hann bendir á hvernig Jesaja 7:14 rættist með fæðingu Jesú. Guðspjallamennirnir Matteus og Lúkas segja að María hafi verið mey og orðið þunguð af völdum anda Guðs. – Matt. 1:18-25; Lúk. 1:26-35.

9Börn yrðu myrt eftir að Messías fæddist. Áþekkur atburður átti sér stað öldum áður þegar faraó Egyptalands fyrirskipaði að nýfæddum hebreskum drengjum skyldi kastað í Níl. (2. Mós. 1:22) Í Jeremía 31:15, 16 er hins vegar athyglisverður spádómur en þar er talað um að Rakel gráti syni sína sem fluttir hafi verið í,land fjandmannanna‘. Grátur hennar heyrðist allt til Rama sem var á svæði Benjamíns norður af Jerúsalem. Matteus bendir á að orð Jeremía hafi ræst þegar Heródes konungur fyrirskipaði að ungir drengir í Betlehem og nágrenni skyldu drepnir. (Lestu Matteus 2:16-18.) Þú getur rétt ímyndað þér sorgina sem ríkti þar.

10. Hvernig rættist Hósea 11:1 á Jesú?

10Messías yrði kallaður frá Egyptalandi, líkt og Ísraelsmenn. (Hós. 11:1) Áður en Heródes fyrirskipaði barnsmorðin fékk Jósef bendingu frá engli um að fara með Maríu og Jesú til Egyptalands. Þar bjuggu þau „þangað til Heródes var allur. Það átti að rætast sem Drottinn lét spámanninn [Hósea] segja: ,Frá Egyptalandi kallaði ég son minn.‘“ (Matt. 2:13-15) Jesús gat auðvitað ekki hagað málum þannig að spádómar tengdir fæðingu hans og bernsku rættust.

Messías hefst handa

11. Hvernig var koma Messíasar undirbúin?

11Sendiboði átti að undirbúa komu Messíasar. Malakí spáði að ,Elía spámaður‘ myndi vinna þetta verk og búa hjörtu fólks undir að Messías kæmi. (Lestu Malakí 3:23, 24.) Jesús sagði að þessi „Elía“ væri Jóhannes skírari. (Matt. 11:12-14) Og Markús bendir á að Jóhannes hafi uppfyllt spádómleg orð Jesaja með starfi sínu. (Jes. 40:3; Mark. 1:1-4) Það var ekki Jesús sem sá til þess að Jóhannes byggi fólk undir komu hans. Það var Jehóva sem bjó svo um hnútana að Jóhannes kæmi til að undirbúa komu Messíasar og auðvelda fólki að bera kennsl á hann.

12. Hvað auðveldar okkur að bera kennsl á Messías?

12Jehóva fól Messíasi ákveðið verk að vinna sem auðveldar okkur að bera kennsl á hann. Jesús var staddur í samkunduhúsinu í heimabæ sínum, Nasaret, þegar hann las upp úr Jesajabók og heimfæði á sjálfan sig: „Andi Drottins er yfir mér af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins.“ Þar sem Jesús var hinn sanni Messías gat hann með réttu sagt: „Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar.“ – Lúk. 4:16-21.

13. Hverju var spáð um þjónustu Jesú í Galíleu?

13Spáð var um þjónustu Messíasar í Galíleu. Jesaja skrifaði um „Sebúlonsland og Naftalíland . . . Galíleu heiðingjanna“: „Sú þjóð, sem í myrkri gengur, sér mikið ljós. Yfir þá sem búa í landi náttmyrkranna skín ljós.“ (Jes. 8:23–9:1) Jesús hóf þjónustu sína í Galíleu. Hann settist að í Kapernaúm og margir íbúar Sebúlons- og Naftalílands sáu „mikið ljós“ þegar hann kenndi þar. (Matt. 4:12-16) Það var í Galíleu sem Jesús flutti fjallræðuna, valdi postulana og vann fyrsta kraftaverkið. Og það var líklega þar sem hann birtist um 500 lærisveinum eftir upprisu sína. (Matt. 5:1–7:27; 28:16-20; Mark. 3:13, 14; Jóh. 2:8-11; 1. Kor. 15:6) Hann uppfyllti spádóm Jesaja um „Sebúlonsland og Naftalíland“ með því að prédika þar. En að sjálfsögðu boðaði hann líka fagnaðarerindið um ríkið annars staðar í Ísrael.

Spáð um önnur verk Messíasar

14. Hvernig uppfyllti Jesús Sálm 78:2?

14Messías átti að kenna í líkingum og dæmisögum. „Ég vil opna munn minn með líkingu,“ söng Asaf í einum af sálmunum. (Sálm. 78:2) Matteus tekur fram að þetta sé spádómur um Jesú. Eftir að hafa sagt frá dæmisögum þar sem Jesús líkir ríki Guðs við mustarðskorn og súrdeig segir hann: „Þetta allt talaði Jesús í dæmisögum til fólksins og án dæmisagna talaði hann ekki til þess. Það átti að rætast sem Guð lét spámanninn segja: Ég mun tala í dæmisögum og boða það sem hulið var frá sköpun heims.“ (Matt. 13:31-35) Dæmisögur voru áhrifarík kennsluaðferð sem Jesús beitti.

15. Hvernig rættist Jesaja 53:4?

15Messías átti að taka á sig mein og sjúkdóma annarra. Jesaja spáði: „Vorar þjáningar voru það sem hann bar og vor harmkvæli er hann á sig lagði.“ (Jes. 53:4) Matteus segir frá því að Jesús hafi læknað tengdamóður Péturs og síðan hafi hann læknað aðra því að „orð Jesaja spámanns áttu að rætast: ,Hann tók á sig mein vor og bar sjúkdóma vora.‘“ (Matt. 8:14-17) Og þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum þar sem sagt er frá því að Jesús hafi læknað sjúka.

16. Hvernig benti Jóhannes postuli á að Jesaja 53:1 hafi ræst á Jesú?

16Margir myndu ekki trúa á Messías þrátt fyrir öll góðverk hans. (Lestu  Jesaja 53:1.) Jóhannes bendir á að þessi spádómur hafi ræst og segir: „Þótt [Jesús] hefði gert svo mörg tákn í allra augsýn trúðu menn ekki á hann svo að rættist orð Jesaja spámanns er hann mælti: Drottinn, hver trúði boðun vorri og hverjum varð armur Drottins opinber?“ (Jóh. 12:37, 38) Hið sama var uppi á teningnum þegar Páll postuli boðaði fagnaðarerindið um Jesú. Margir á þeim tíma trúðu ekki heldur að hann væri Messías. – Rómv. 10:16, 17.

17. Hvernig heimfærði Jóhannes Sálm 69:5?

17Messías yrði hataður að ástæðulausu. (Sálm. 69:5) Jóhannes postuli hefur eftir Jesú: „Hefði ég ekki unnið meðal þeirra þau verk sem enginn annar hefur gert væru þeir ekki sekir um synd. En nú hafa þeir séð þau og hata þó bæði mig og föður minn. Svo hlaut að rætast orðið sem ritað er í lögmáli þeirra: Þeir hötuðu mig án saka.“ (Jóh. 15:24, 25) Þegar talað er um lögmálið er oft átt við Ritninguna í heild. (Jóh. 10:34; 12:34) Í guðspjöllunum kemur fram að margir hafi hatað Jesú, ekki síst trúarleiðtogar Gyðinga. Hann sagði enn fremur: „Heimurinn getur ekki hatað ykkur. Mig hatar hann af því ég vitna um að verk hans séu vond.“ – Jóh. 7:7.

18. Á hvað lítum við í næstu grein?

18 Fylgjendur Jesú á fyrstu öld voru sannfærðir um að hann væri Messías vegna þess að messíasarspádómarnir í Hebresku ritningunum rættust allir á honum. (Matt. 16:16) Eins og fram hefur komið rættust sumir þeirra með fæðingu Jesú og bernsku og með þjónustu hans. Við lítum á fleiri spádóma um Messías í næstu grein. Það á eftir að styrkja þá sannfæringu okkar að Jesús Kristur sé sannarlega Messías, útvalinn af Jehóva, föðurnum á himnum.

[Neðanmáls]

^ gr. 4 Ítarlega umfjöllun um vikurnar sjötíu er að finna í 11. kafla bókarinnar Gefðu gaum að spádómi Daníelsbókar.

Hvert er svarið?

• Hvaða spádómar rættust með fæðingu Jesú?

• Hver undirbjó komu Messíasar og hvernig?

• Hvernig rættist spádómurinn í 53. kafla Jesaja á Jesú?

[Spurningar]