Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva er „Guð friðarins“

Jehóva er „Guð friðarins“

Jehóva er „Guð friðarins“

„Guð friðarins sé með yður öllum.“ – RÓMV. 15:33.

1, 2. Hvaða atburðarás er lýst í 1. Mósebók kafla 32 og 33 og hvernig fór?

VIÐ erum stödd skammt frá Penúel nálægt Jabboká austan við ána Jórdan. Esaú hefur frétt að Jakob, tvíburabróðir hans, sé á heimleið. Það eru liðin 20 ár síðan Esaú seldi Jakobi frumburðarréttinn. Jakob óttast engu að síður að bróðir hans leggi hatur á hann og vilji hann feigan. Esaú heldur með 400 manna lið á fund bróður síns. Jakob býst við hinu versta og sendir Esaú hjörð eftir hjörð af búpeningi, alls rúmlega 550 skepnur. Með hverri hjörð, sem þjónar Jakobs færa Esaú, fylgja þau boð að þetta sé gjöf frá bróður hans.

2 Loks rennur stundin upp að bræðurnir hittast. Jakob gengur hugrakkur til móts við bróður sinn og beygir sig til jarðar, ekki bara einu sinni heldur sjö sinnum. Hann hefur gert það sem mestu máli skiptir til að mýkja hjarta bróður síns. Hann hefur beðið Jehóva að frelsa sig af hendi Esaús. Var hann bænheyrður? Já, „Esaú hljóp á móti honum og faðmaði hann, lagði hendur um háls honum og kyssti hann,“ eins og segir í Biblíunni. – 1. Mós. 32:11-20; 33:1-4.

3. Hvað má læra af frásögunni af Jakobi og Esaú?

3 Eins og frásagan af Jakobi og Esaú ber með sér ættum við að gera allt sem við getum til að varðveita friðinn í söfnuðinum og setja niður ágreining sem kann að koma upp. Jakob gerði sitt til að friðmælast við Esaú, en það var ekki af því að Jakob hefði gert eitthvað á hlut hans og skuldaði honum afsökunarbeiðni. Esaú hafði lítilsvirt frumburðarréttinn og selt Jakobi hann fyrir skál af baunakássu. (1. Mós. 25:31-34; Hebr. 12:16) Jakob er hins vegar gott dæmi um hve mikið við ættum að leggja á okkur til að eiga frið við trúsystkini okkar. Frásagan ber einnig með sér að Guð blessar og heyrir bænir þeirra sem vilja halda friðinn. Finna má mörg fleiri dæmi í Biblíunni sem sýna hvernig við getum stuðlað að friði. Við skulum líta á nokkur þeirra.

Besta fyrirmyndin

4. Hvað gerði Guð til að bjarga mannkyni úr klóm syndar og dauða?

4 Enginn hefur gert meira en Jehóva Guð til að vinna að friði, enda er hann kallaður „Guð friðarins“. (Rómv. 15:33) Hugsaðu þér hvað hann hefur lagt á sig til að gera okkur kleift að eiga friðsamlegt samband við sig. Við eigum ekkert annað skilið en „laun syndarinnar“ því að við erum syndugir afkomendur Adams og Evu. (Rómv. 6:23) Í kærleika sínum gerði Jehóva hins vegar ráðstafanir til þess að bjarga okkur úr klóm syndar og dauða. Hann sendi ástkæran son sinn frá himnum til að hann gæti fæðst fullkominn og dáið fyrir syndir okkar. Sonurinn gerði þetta fúslega og fórnaði lífi sínu fyrir okkur. (Jóh. 10:17, 18) Jehóva reisti síðan Jesú upp frá dauðum og í framhaldi af því afhenti Jesús honum andvirði blóðsins sem hann úthellti. Þetta lausnargjald bjargar frá eilífum dauða öllum sem iðrast synda sinna. – Lestu Hebreabréfið 9:14, 24.

5, 6. Hvaða áhrif hefur úthellt blóð Jesú á samskipti syndugra manna við Guð?

5 Syndin spillti sambandi mannanna við Guð. Hvernig getur lausnarfórnin, sem sonur Guðs færði, bætt úr því? „Hann var særður vegna vorra synda,“ segir í Jesaja 53:5. „Fyrir benjar hans urðum vér heilbrigðir.“ Lausnarfórnin gerir þeim sem hlýða Guði kleift að vera vinir hans en ekki óvinir. „Fyrir hans [Jesú] blóð, eigum vér endurlausnina og fyrirgefningu afbrota vorra.“ – Ef. 1:7.

6 Í Biblíunni segir um Jesú Krist: „Í honum þóknaðist Guði að láta alla fyllingu sína búa.“ Þetta merkir að það er fyrir atbeina Jesú að Jehóva lætur vilja sinn ná fram að ganga. Og hver er vilji Jehóva? Hann er sá að „láta [Jesú] koma öllu í sátt við sig, öllu bæði á jörðu og himnum, með því að semja frið með blóði sínu“. Hvað er átt við þegar talað er um að Guð komi á friði við allt „bæði á jörðu og himnum“? – Lestu Kólossubréfið 1:19, 20.

7. Hvað táknar ,allt á himnum‘ og ,allt á jörðu‘?

7 Vegna lausnargjaldsins er hægt að lýsa hina andasmurðu réttláta þannig að þeir eigi „frið við Guð“ og séu synir hans. (Lestu Rómverjabréfið 5:1.) Þeir eru kallaðir ,allt á himnum‘ vegna þess að þeir eiga að fara til himna til að ríkja yfir jörðinni og þjóna sem prestar Guðs. (Opinb. 5:10) Þegar talað er um ,allt á jörðu‘ er átt við iðrandi menn sem eiga eftir að hljóta eilíft líf á jörð. – Sálm. 37:29.

8. Hvað áhrif ætti fordæmi Jehóva að hafa á okkur ef friður og eining safnaðarins er í hættu?

8 Páll lýsir innilegu þakklæti sínu fyrir lausnargjaldið í bréfi til andasmurðra kristinna manna í Efesus. Hann segir: „Guð er auðugur að miskunn“ og bætir við: „Þótt við værum dauð vegna misgjörða okkar endurlífgaði hann okkur með Kristi – af náð eruð þið hólpin orðin.“ (Ef. 2:4, 5) Hvort sem við eigum von um líf á himni eða jörð stöndum við í mikilli þakkarskuld við Jehóva fyrir óverðskuldaða góðvild hans og miskunn. Við erum innilega þakklát þegar við íhugum allt sem hann hefur gert til að gefa mönnunum tækifæri til að eiga frið við sig. Ættum við ekki að hafa fordæmi Guðs í huga þegar friður og eining safnaðarins er í hættu, og gera allt sem við getum til að stuðla að friði?

Lærum af Abraham og Ísak

9, 10. Hvernig sýndi Abraham að hann vildi halda friðinn við Lot?

9 Í Biblíunni segir um ættföðurinn Abraham: „,Abraham trúði Guði og það var honum til réttlætis reiknað,‘ og hann var kallaður vinur Guðs.“ (Jak. 2:23) Trú Abrahams birtist meðal annars í því að hann var friðsamur. Lítum á dæmi: Þegar búpeningi Abrahams fjölgaði kom til deilna milli hjarðmanna hans og hjarðmanna Lots, bróðursonar hans. (1. Mós. 12:5; 13:7) Lausnin var auðvitað sú að hvor færi sína leið. Tökum eftir hvernig Abraham tók á þessu viðkvæma máli. Í stað þess að skipa frænda sínum fyrir, í krafti aldurs og stöðu sinnar gagnvart Guði, gerði hann allt hvað hann gat til að stuðla að friði.

10 Abraham sagði við Lot: „Engin misklíð skal vera milli mín og þín og milli minna hjarðmanna og þinna því að við erum frændur.“ Hann hélt áfram: „Liggur ekki allt landið opið fyrir þér? Skildu heldur við mig. Farir þú til vinstri fer ég til hægri og ef þú ferð til hægri fer ég til vinstri.“ Lot valdi frjósamasta hluta landsins og Abraham sætti sig við það. (1. Mós. 13:8-11) Seinna, þegar innrásarlið tók Lot til fanga, hikaði Abraham ekki við að bjarga frænda sínum. – 1. Mós. 14:14-16.

11. Hvernig hélt Abraham frið við Filisteana sem bjuggu í námunda við hann?

11 Veltum einnig fyrir okkur hvernig Abraham lagði sig fram um að halda friðinn við Filisteana sem bjuggu í námunda við hann í Kanaanlandi. Þeir höfðu „tekið með ofríki“ brunn sem þjónar Abrahams höfðu grafið í Beerseba. Hvernig skyldi hann hafa brugðist við því, maðurinn sem hafði sigrað fjóra konunga í bardaga og bjargað bróðursyni sínum úr greipum þeirra? Hann lét það kyrrt liggja í stað þess að ná brunninum aftur með valdi. Síðar kom konungur Filistea til Abrahams til að gera friðarsáttmála við hann. Konungur bað hann að sverja þess eið að sýna afkomendum hans góðvild. Abraham minntist ekki einu orði á brunninn fyrr en því var lokið. Konungi var mjög brugðið að heyra hvað gerst hafði og skilaði Abraham brunninum. Og Abraham bjó áfram með friði sem útlendingur í landinu. – 1. Mós. 21:22-31, 34.

12, 13. (a) Á hvaða hátt fetaði Ísak í fótspor föður síns? (b) Hvernig blessaði Jehóva Ísak fyrir að halda friðinn?

12 Ísak, sonur Abrahams, var friðsamur líkt og faðir hans. Það má sjá af því hvernig hann kom fram við Filistea. Þegar hungur varð í landinu fluttist Ísak ásamt heimilisfólki sínu í norður frá þurrkasvæðinu Lahajroí í Negeb. Hann settist að á frjósamara svæði í Gerar en þar bjuggu Filistear. Jehóva blessaði Ísak, veitti honum mikla uppskeru og fjölgaði búpeningi hans. Filistear urðu öfundsjúkir. Þeir vildu ekki að honum vegnaði jafn vel og föður hans svo að þeir byrgðu brunnana sem vinnumenn Abrahams höfðu grafið þar á svæðinu. Að síðustu sagði konungur Filistea Ísak að hafa sig á brott. Og Ísak gerði eins og konungur vildi til að halda friðinn. – 1. Mós. 24:62; 26:1, 12-17.

13 Eftir að Ísak hafði flutt búðir sínar grófu fjárhirðar hans nýjan brunn. Fjárhirðar Filistea héldu því fram að þeir ættu vatnið. Ísak deildi ekki um brunna frekar en faðir hans hafði gert heldur lét menn sína grafa nýjan brunn. Filistear töldu sig einnig eiga hann. Enn á ný flutti Ísak fjölmennar búðir sínar til að halda friðinn. Þjónar hans grófu enn einn brunninn sem hann kallaði Rehóbót. Síðar flutti Ísak sig um set á frjósamara svæði við Beerseba. Jehóva blessaði hann og sagði við hann: „Óttast þú ekki því að ég er með þér. Ég mun blessa þig og gera niðja þína fjölmenna vegna Abrahams, þjóns míns.“ – 1. Mós. 26:17-25.

14. Hvernig sýndi Ísak að hann var friðsamur maður þegar konungur Filistea óskaði eftir að gera friðarsáttmála við hann?

14 Ísak hafði fulla burði til að berjast fyrir rétti sínum til að nota alla þá brunna sem vinnumenn hann höfðu grafið. Konungur Filistea vissi það mætavel. Hann kom til Ísaks til Beerseba ásamt fylgdarmönnum og óskaði eftir að gera friðarsáttmála við hann. Hann sagði: „Við höfum séð þess ótvíræð merki að Drottinn er með þér.“ Til að halda friðinn hafði Ísak þó oftar en einu sinni flutt sig um set frekar en að berjast. Hann sýndi enn á ný að hann vildi halda friðinn. Frásagan segir: „Ísak hélt [gestunum] veislu og þeir átu og drukku. Árla morguninn eftir sóru þeir hver öðrum eiða. Ísak leyfði þeim að fara og héldu þeir heim í friði.“ – 1. Mós. 26:26-31.

Lærum af syninum sem Jakob elskaði mest

15. Af hverju gátu bræður Jósefs ekki talað vinsamlega við hann?

15 Jakob, sonur Ísaks, var „gæflyndur“ maður. (1. Mós. 25:27) Eins og fram kom í upphafi greinarinnar lagði hann sig fram um að halda frið við Esaú, bróður sinn. Vafalaust hefur hann tekið Ísak, föður sinn, til fyrirmyndar. Fylgdu synir Jakobs fordæmi föður síns? Af öllum sonunum 12 þótti Jakobi vænst um Jósef. Jósef var hlýðinn sonur, virti föður sinn og bar hag hans fyrir brjósti. (1. Mós. 37:2, 14) Eldri bræður Jósefs voru svo öfundsjúkir út í hann að þeir gátu ekki talað vinsamlega við hann. Svo illa var þeim við hann að þeir seldu hann í þrælkun og töldu svo föður sínum trú um að villidýr hefði drepið hann. – 1. Mós. 37:4, 28, 31-33.

16, 17. Hvernig lét Jósef í ljós að hann vildi eiga frið við bræður sína?

16 Jehóva var með Jósef. Síðar varð Jósef forsætisráðherra Egyptalands, næstur faraó að völdum. Þegar hungursneyð varð í Kanaan leituðu bræður Jósefs til Egyptalands til matarkaupa. Þeir gengu fyrir Jósef en þekktu hann ekki í egypsku embættisklæðunum. (1. Mós. 42:5-7) Jósef hefði verið í lófa lagið að ná sér niðri á þeim fyrir grimmdina sem þeir höfðu sýnt honum og föður þeirra. En Jósef reyndi ekki að hefna sín heldur leitaði sátta. Þegar ljóst var að bræður hans iðruðust sagði hann þeim deili á sér og bætti svo við: „Verið ekki daprir og ásakið ykkur ekki fyrir að hafa selt mig hingað. Það var Guð sem sendi mig hingað á undan ykkur til að bjarga lífi. Hann kyssti alla bræður sína, faðmaði þá og grét.“ – 1. Mós. 45:1, 5, 15.

17 Eftir að Jakob, faðir þeirra, dó óttuðust bræður Jósefs að hann myndi hefna sín á þeim. Þeir sögðu honum hvernig þeim var innanbrjósts en hann brast í grát og svaraði: „Verið . . . óhræddir, ég skal annast ykkur og börn ykkar.“ Enn á ný sýndi Jósef að honum var annt um að varðveita friðinn. Hann „hughreysti . . . þá og talaði vingjarnlega til þeirra“. – 1. Mós. 50:15-21.

„Ritað okkur til fræðslu“

18, 19. (a) Hvað hefurðu lært af þeim dæmum sem rætt er um í þessari grein? (b) Um hvað er fjallað í næstu grein?

18 Páll postuli skrifaði: „Allt það sem áður er ritað er ritað okkur til fræðslu til þess að við héldum von okkar vegna þess þolgæðis og uppörvunar sem ritningarnar gefa.“ (Rómv. 15:4) Hvað höfum við lært af bestu fyrirmynd okkar, Jehóva, og af frásögum Biblíunnar af Abraham, Ísak, Jakobi og Jósef?

19 Við skulum hafa hugfast allt sem Jehóva hefur gert til að við syndugir mennirnir getum endurheimt sambandið við hann. Það er okkur hvatning til að gera allt sem við getum til að eiga frið hvert við annað. Abraham, Ísak, Jakob og Jósef eru til vitnis um að foreldrar geta haft góð áhrif á börn sín. Frásögurnar af þeim minna einnig á að Jehóva blessar þá sem leggja sig fram um að viðhalda friði. Við skiljum mætavel að Páll skuli kalla Jehóva „Guð friðarins“. (Lestu Rómverjabréfið 15:33; 16:20.) Hvers vegna lagði Páll mikla áherslu á að við þurfum að vinna að og viðhalda friði? Hvernig getum við gert það? Um það er fjallað í næstu grein.

Hvað hefurðu lært?

• Hvað gerði Jakob til að ná sáttum við Esaú rétt áður en þeir hittust?

• Jehóva lagði mikið á sig til að gera mönnunum kleift að eiga gott samband við sig. Hvaða áhrif hefur það haft á þig?

• Hvað hefurðu lært af friðsemd Abrahams, Ísaks, Jakobs og Jósefs?

[Spurningar]

[Myndir á bls. 23]

Hvað var það mikilvægasta sem Jakob gerði til að ná sáttum við Esaú?