Netið — alþjóðlegt hjálpargagn sem nota þarf með skynsemi
Netið — alþjóðlegt hjálpargagn sem nota þarf með skynsemi
ÞEGAR prentlistin kom til skjalanna fyrir mörgum öldum breyttust samskiptaleiðir fólks. Sumir hafa líkt tilkomu Netsins nú á dögum við þessa breytingu. Netið er hjálpargagn sem gerir fólki kleift að hafa samskipti á alþjóðlegum vettvangi. Þegar þú ferðast um þessa „upplýsingahraðbraut“ geturðu fundið fróðleik, tölfræðilegar upplýsingar og skoðanir á hinum ýmsu málum.
Sá hæfileiki að geta átt samskipti við aðra er sannarlega dásamleg gjöf frá skaparanum. Hann gerir okkur kleift að skiptast á hugmyndum. Jehóva var fyrstur til að eiga samskipti við mennina og gaf þá skýrar leiðbeiningar um hvernig hægt væri að lifa innihaldsríku lífi. (1. Mós. 1:28-30) Hins vegar er augljóst af atburðum snemma í sögu mannkyns að einnig er hægt að misnota þessa gjöf. Satan gaf Evu alrangar upplýsingar en hún hlustaði og kom þeim svo á framfæri við Adam. Það leiddi miklar hörmungar yfir allt mannkynið. – 1. Mós. 3:1-6; Rómv. 5:12.
Hvað þurfum við að hafa í huga þegar við notum Netið? Það getur vissulega komið okkur að gagni, veitt hagnýtar upplýsingar og sparað okkur tíma. En við getum líka fengið villandi upplýsingar, orðið fyrir siðspillandi áhrifum eða eytt allt of miklum tíma í það. Skoðum hvernig við getum notað þetta alþjóðlega hjálpargagn okkur til góðs.
Eru upplýsingarnar áreiðanlegar?
Ekki gera ráð fyrir að allar upplýsingar á Netinu séu góðar og gildar. Það mætti líkja leitarvélum á Netinu við fjölda fólks sem tínir sveppi en tekur samviskusamlega alla sveppi sem það sér, æta jafnt sem óæta, og safnar þeim öllum í stórt ílát og skammtar þeim þaðan á diska svo að allir geti fengið sér. Myndirðu borða þá án þess að skoða hvern svepp vandlega? Auðvitað ekki. Leitarvélar nota ógrynni af tölvum til að sækja upplýsingar frá milljörðum vefsíðna þar sem finna má allt frá því besta til hins versta. Við þurfum góða dómgreind til að skilja hismið frá hveitinu svo að við látum ekkert spilla huganum.
Þekkt tímarit birti árið 1993 skopmynd af tveimur hundum sem sátu fyrir framan tölvu. Annar hundurinn sagði við hinn: „Á Netinu veit enginn að þú ert hundur.“ Fyrir löngu síðan notaði Satan höggorm sem „spjallrás“ til að geta talað við Evu án þess að sýna sig og hann sagði henni að hún gæti
orðið eins og Guð. Núna þarf maður bara að vera með nettengingu til að geta orðið „sérfræðingur“ á skjánum og þóst vita allt um umræðuefnið. Maður þarf ekki einu sinni að gefa upp nafn. Engar reglur eru heldur til um það hver fær að veita upplýsingar, koma með hugmyndir og tillögur eða setja inn myndir.Líkjumst ekki Evu þegar við erum á Netinu. Verum gagnrýnin og tortryggin á upplýsingarnar. Áður en við treystum þeim ættum við að spyrja: (1) Hver veitir þessar upplýsingar? Er hann öruggur heimildarmaður á þessu sviði? (2) Hvers vegna birti höfundurinn þetta og af hvaða hvötum gerði hann það? Er hann hlutdrægur? (3) Hvaðan fékk hann upplýsingarnar? Vísar hann í heimildir sem hægt er að athuga? (4) Eru upplýsingarnar enn í gildi? Á fyrstu öld gaf Páll Tímóteusi ráð sem eiga jafnt við um okkar daga. Hann skrifaði: „Varðveit það sem þér er trúað fyrir og forðast hinar vanheilögu hégómaræður og mótsagnir þeirrar speki sem svo er rangnefnd.“ – 1. Tím. 6:20.
Tímasparnaður eða tímasóun?
Þegar við notum Netið skynsamlega spörum við án efa bæði tíma, krafta og peninga. Við getum verið fljót að versla án þess að þurfa að fara út úr húsi. Við spörum peninga með því að bera saman verð. Netbankar einfalda mörgum lífið og hægt er að sjá um fjármálin úr sófanum heima hjá sér hvenær sem er sólarhringsins. Netið er líka hentugt ef við ætlum að ferðast. Við getum bæði pantað það sem þarf og reiknað út kostnaðinn. Með lítilli fyrirhöfn getum við fundið símanúmer, póstföng og margar leiðir til að komast á áfangastað. Á deildarskrifstofum Votta Jehóva um heim allan notfæra menn sér þjónustu sem er í boði á Netinu og það sparar tíma, starfsfólk og fé.
En við þurfum að hafa í huga að Netið hefur líka sínar svörtu hliðar. Hversu miklum tíma eyðum við fyrir framan skjáinn? Hjá sumum hefur Netið orðið að heillandi leikfangi frekar en hjálpargagni. Þeir nota óhóflega mikinn tíma í tölvuleiki, netverslun og spjall og í að leita upplýsinga, vafra um og senda tölvupóst. Með tímanum gætu þeir farið að vanrækja það sem meira máli skiptir eins og fjölskyldu, vini og söfnuðinn. Þannig getur netnotkun orðið að áráttu. Í könnun, sem birt var árið 2010, kom fram að 18,4 prósent kóreskra unglinga hefðu ánetjast Netinu að einhverju leyti. Þýsk rannsókn leiddi í ljós að „æ fleiri konur kvarta undan netáráttu hjá mönnum sínum“. Kona nokkur segir að maðurinn sinn hafi breyst mikið þegar netáráttan fór að gera vart við sig og að þetta hafi að lokum eyðilagt hjónaband þeirra.
Maður, sem kallaði sig netfíkil, skrifaði einni af deildarskrifstofum Votta Jehóva. Stundum var hann í allt að tíu tíma á dag á Netinu. Hann segir: „Til að byrja með fannst mér þetta vera svo saklaust,“ en heldur svo áfram: „Með tímanum minnkaði samkomusóknin og ég hætti að biðja.“ Þegar hann mætti á samkomur var hann óundirbúinn og það eina sem hann hugsaði um var að
komast aftur á Netið. Sem betur fer áttaði hann sig á alvarleika málsins og tókst á við það. Göngum aldrei svo langt að netnotkun verði að áráttu hjá okkur.Eru upplýsingarnar siðsamlegar?
Við lesum í 1. Þessaloníkubréfi 5:21, 22: „Prófið allt, haldið því sem gott er. En forðist allt illt í hvaða mynd sem er.“ Þegar við skoðum eitthvað á Netinu þurfum við að athuga hvort það sé Guði þóknanlegt og samræmist háum stöðlum hans. Það sem við skoðum ætti að vera siðferðilega hreint og við hæfi fyrir kristið fólk. Netklám er orðið mjög útbreitt og ef við pössum okkur ekki gætum við látið freistast af því.
Það er gott að spyrja sig að þessu: Væri ég fljótur að fela það sem er á skjánum ef maki minn, foreldri eða trúsystkini kæmi óvænt inn í herbergið? Ef svo er væri skynsamlegt að vera bara á Netinu í návist annarra. Með tilkomu Netsins hafa vissulega opnast nýjar leiðir til að versla og eiga samskipti við aðra. En auk þess hefur opnast nýr heimur tækifæra til að ,drýgja hór í hjarta sínu‘. – Matt. 5:27, 28.
Ætti ég að áframsenda?
Á Netinu fáum við bæði upplýsingar og dreifum þeim og við höfum fullt frelsi til þess. Við berum samt þá ábyrgð að fullvissa okkur um að upplýsingarnar séu áreiðanlegar og siðferðilega við hæfi. Getum við ábyrgst það sem við skrifum eða áframsendum? Höfum við leyfi til að áframsenda það? * Hafa upplýsingarnar eitthvert gildi og eru þær uppbyggilegar? Hvers vegna birtum við efnið? Gæti það verið aðallega til að sýnast fyrir öðrum?
Ef við notum tölvupóst með skynsamlegum hætti getur hann komið að góðum notum. En upplýsingastreymið getur orðið yfirþyrmandi. Erum við með langan lista af kunningjum sem við íþyngjum með alls konar fréttum og óþarfa fróðleik? Við gætum verið að sóa dýrmætum tíma þeirra. Áður en við sendum eitthvað ættum við að hugsa um ástæðuna fyrir því. Hver er tilgangurinn með því að senda það? Fólk sendi vinum sínum og ættingjum yfirleitt bréf til að segja frá því sem hafði gerst og til að fá að vita hvað væri um að vera hjá þeim. Ætti þetta ekki að vera markmiðið með tölvupósti líka? Hvers vegna ættum við að dreifa upplýsingum sem við getum ekki staðfest?
Hvernig eigum við þá að hugsa um Netið? Eigum við að forðast það með öllu? Fyrir suma gæti það verið nauðsynlegt. Netfíkillinn, sem vitnað var í áður, gerði það til sigrast á áralöngum vanda. Hins vegar getur Netið komið okkur að gagni ef við látum ,aðgætnina vernda okkur og hyggindin varðveita okkur‘. – Orðskv. 2:10, 11.
[Neðanmáls]
^ gr. 17 Það sama á við um myndir. Þótt við getum tekið myndir af öðrum til eigin nota höfum við kannski ekki leyfi til að dreifa þeim og alls ekki til að gefa upp nöfn og heimilisföng þeirra sem eru á þeim.
[Mynd á bls. 4]
Hvernig getum við komið í veg fyrir að hugurinn spillist af röngum upplýsingum?
[Mynd á bls. 5]
Hvað þarftu að hugsa um áður en þú smellir á „senda“?