Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sögulegur fundur

Sögulegur fundur

Sögulegur fundur

„ÞEGAR þessum fundi lýkur munuð þið segja: ,Þetta var svo sannarlega sögulegur ársfundur!‘“ Með þessum orðum vakti Stephen Lett, sem situr í hinu stjórnandi ráði Votta Jehóva, mikla eftirvæntingu áheyrenda á fundinum. Þeir voru samankomnir til að sækja 126. ársfund Biblíu- og smáritafélagsins Varðturninn í Pennsylvaníu sem haldinn var 2. október 2010 í mótshöll Votta Jehóva í Jersey City í New Jersey-ríki í Bandaríkjunum. Við skulum skoða það helsta sem kom fram á þessum sögulega fundi.

Stephen Lett hóf fundinn á líflegri umfjöllun um himneskan stríðsvagn Jehóva eins og honum er lýst í Esekíelsbók í Biblíunni. Þetta firnastóra og dýrlega farartæki lýsir á myndrænan hátt alheimssöfnuði Jehóva Guðs sem hann hefur fullkomna stjórn á. Himneskur hluti safnaðarins samanstendur af andaverum sem sækja fram á leifturhraða – á sama hraða og Jehóva hugsar, eins og bróðir Lett komst að orði. Jarðneskur hluti safnaðar Jehóva stefnir sömuleiðis fram á við. Bróðir Lett minntist á nokkrar spennandi breytingar sem gerðar hafa verið á jarðneskum söfnuði Guðs síðastliðin ár.

Nokkrar deildarskrifstofur hafa til að mynda verið sameinaðar þannig að margir sem áður þjónuðu á Betelheimilum í þessum löndum geta nú einbeitt sér að boðunarstarfinu. Bróðir Lett hvatti áheyrendur til að biðja þess að bræðurnir í hinu stjórnandi ráði haldi áfram að vera bæði trúir og hyggnir, en þeir eru fulltrúar þjónsins. – Matt. 24:45-47.

Uppörvandi frásögur og einlæg viðtöl

Tab Honsberger, sem situr í deildarnefndinni á Haítí, gaf hjartnæma skýrslu um ástand mála þar eftir jarðskjálftann 12. janúar 2010 sem varð um 300.000 manns að bana. Hann greindi frá því að prestar þar teldu fólki trú um að Guð hefði refsað fórnarlömbum jarðskjálftans fyrir trúleysi en hlíft góðum mönnum. Þó höfðu þúsundir dæmdra glæpamanna náð að flýja úr fangelsi þegar veggir þess hrundu í skjálftanum. En mörgum hjartahreinum Haítíbúum finnst hughreystandi að læra sannleikann um það hvers vegna tímarnir sem við lifum á eru svona erfiðir. Tab Honsberger vitnaði í trúfastan bróðir frá Haítí sem hafði misst eiginkonu sína í hamförunum. Bróðirinn sagði: „Ég græt enn þá og ég veit ekki hversu lengi ég mun syrgja en það gleður mig ósegjanlega að finna ástúðina frá söfnuði Jehóva. Ég hef von fyrir framtíðina og er staðráðinn í að segja öðrum frá henni.“

Mark Sanderson, sem nú tilheyrir Betelfjölskyldunni í Brooklyn, greindi frá starfinu á Filippseyjum þar sem hann hafði áður starfað með deildarnefndinni. Hann hreinlega geislaði af gleði þegar hann sagði að fjöldi boðbera þar í landi hefði náð nýju hámarki 32 mánuði í röð, og að biblíunámskeiðin væru mun fleiri en boðberarnir. Hann sagði frá bróður að nafni Miguel en sonarsonur hans hafði verið myrtur. Miguel hafði unnið hörðum höndum að því að fá morðingjann dæmdan og fangelsaðan. Seinna meir þegar Miguel var að prédika í fangelsinu hitti hann morðingjann. Þótt Miguel væri taugaóstyrkur heilsaði hann honum vingjarnlega. Um síðir fór hann að lesa Biblíuna með manninum sem sýndi mikinn áhuga. Hann lærði að elska Jehóva og er nú skírður bróðir. Miguel er orðinn náinn vinur mannsins og vinnur að því að fá fangelsisdóm hans styttan. *

Mark Noumair, sem er kennari við skólaskrifstofuna, tók síðan viðtöl við þrenn hjón. Það voru hjónin Alex og Sarah Reinmueller, David og Krista Schafer og Robert og Ketra Ciranko. Alex Reinmueller, sem er aðstoðarmaður útgáfunefndarinnar, sagði frá því hvernig hann tileinkaði sér sannleikann þegar hann var brautryðjandi í Kanada, aðeins 15 ára gamall, og starfaði oft einsamall. Aðspurður hverjir hefðu haft mest áhrif á hann á Betel nefndi bróðir Reinmueller þrjá trúfasta bræður og útskýrði hvernig þeir hefðu hjálpað honum að styrkja sambandið við Jehóva. Sarah, eiginkona hans, sagði frá vináttu sinni við systur sem hélt út áratugalanga fangavist í kínverskum fangelsum vegna trúar sinnar. Sarah sagðist hafa lært að treysta á Jehóva með því að hafa sterkt bænasamband við hann.

David Schafer, sem er aðstoðarmaður fræðslunefndarinnar, sagðist þakklátur móður sinni fyrir að hafa sýnt sterka trú og sagði einnig frá bræðrum sem voru skógarhöggsmenn og höfðu stutt hann í aðstoðarbrautryðjandastarfinu þegar hann var unglingur. Krista, eiginkona hans, talaði hlýlega um eldri trúsystkini á Betel sem höfðu haft mikil áhrif á hana með því að vera ,trú í því smæsta‘ eins og Jesús ráðlagði. – Lúkas 16:10.

Robert Ciranko, sem er aðstoðarmaður ritnefndarinnar, minntist á föður- og móðurforeldra sína, en þau höfðu öll verið ungverskir innflytjendur og voru andasmurð. Á sjötta áratugnum, þegar hann var lítill strákur, hafði honum þótt tilkomumikið að vera viðstaddur mót og sjá að söfnuður Jehóva var miklu stærri en heimasöfnuður hans. Eiginkona hans, Ketra, sagði frá því hvernig hún hafði lært að sýna hollustu þegar hún var brautryðjandi í söfnuði sem varð fyrir áhrifum af fráhvarfi og öðrum vandamálum. Hún reyndist staðföst og fékk síðar boð um að þjóna sem sérbrautryðjandi í söfnuði þar sem einingin var sterk. Það snart hana djúpt.

Því næst skýrði Manfred Tonak frá boðunarstarfinu í Eþíópíu. Þetta land á sér ævaforna sögu, allt frá biblíutímanum, og þar eru nú 9.000 boðberar fagnaðarerindisins. Flestir þeirra búa í höfuðborginni Addis Ababa eða í nágrenni hennar. Það er því þörf á boðberum til að vitna á afskekktari svæðum. Til að uppfylla þessa þörf voru eþíópískir vottar, sem búa í öðrum löndum, hvattir til að koma og starfa á sumum þessara afskekktu svæða. Margir komu og fundu þar áhugasama. Þetta var mikil hvatning fyrir vottana sem búa í landinu.

Það sem bar einna hæst á fundinum var ræðusyrpa um votta Jehóva í Rússlandi og lagabaráttu þeirra. Aulis Bergdahl, sem situr í deildarnefndinni í Rússlandi, sagði frá þeim ofsóknum sem rússneskir vottar hefðu orðið fyrir, sérstaklega í Moskvu. Philip Brumley, sem starfar í lögfræðideildinni á deildarskrifstofunni í Bandaríkjunum, sagði frá þeirri spennandi framvindu sem hefði átt sér stað undanfarna mánuði eftir að Mannréttindadómstóll Evrópu tók til málsmeðferðar níu ákærur á hendur vottunum. Dómstóllinn var einróma í þeim úrskurði að allar níu ákærurnar væru tilhæfulausar og í sumum tilvikum útskýrði dómstóllinn jafnvel ýtarlega hvers vegna sumar þeirra væru með öllu rangar. Bróðir Brumley sagðist vongóður um að dómurinn hefði góð áhrif á mál frá öðrum löndum.

Í framhaldi af þessum athyglisverðu fréttum tilkynnti bróðir Stephen Lett að Mannréttindadómstóllinn hefði samþykkt að taka til málsmeðferðar hina langvinnu deilu um skattakröfu yfirvalda í Frakklandi á hendur Vottum Jehóva þar í landi. Þessi mikilsvirti dómstóll tekur fá mál til meðferðar af þeim sem lögð eru fyrir hann. Hingað til hefur dómstóllinn tekið 39 mál til meðferðar sem fjalla um votta Jehóva og hefur dæmt 37 þeirra okkur í vil. Bróðir Lett hvatti alla þjóna Guðs til að hafa þetta mál í huga þegar þeir biðja til Jehóva.

Eftir þetta kom skýrsla frá Richard Morlan sem er kennari í Skólanum fyrir safnaðaröldunga. Hann talaði af eldmóði um skólann og hversu þakklátir öldungar hafa verið eftir að hafa sótt hann.

Aðrar ræður fluttar af bræðrum í hinu stjórnandi ráði

Guy Pierce, sem á sæti í hinu stjórnandi ráði, flutti hjartnæma ræðu sem byggð var á árstextanum 2011, „Leitaðu hælis í nafni Jehóva“. (Sef. 3:12) Hann sagði að jafnvel þótt nú væru á ýmsan hátt gleðitímar fyrir þjóna Jehóva þá væru þetta einnig alvarlegir tímar og því nauðsynlegt fyrir okkur að vera algáð. Hinn mikli dagur Jehóva er nálægur en fólk heldur samt áfram að leita öryggis í fölskum trúarbrögðum, hjá stjórnmálstofnunum, í efnishyggju, veruleikaflótta og öðru þvíumlíku. Til að finna öruggt skjól þurfum við að ákalla nafn Jehóva. Það felur í sér að þekkja, virða og treysta persónunni sem stendur að baki nafninu. Við þurfum að elska Jehóva skilyrðislaust.

David Splane, sem situr í hinu stjórnandi ráði, flutti þar á eftir einlæga og hugvekjandi ræðu um efnið: „Hefurðu gengið inn til hvíldar Guðs?“ Hann benti á að hvíld Guðs þýddi ekki aðgerðarleysi. Jehóva Guð og sonur hans starfa enn á þessum táknræna hvíldardegi til þess að fyrirætlun Jehóva með jörðina og mennina nái fram að ganga. (Jóh. 5:17) Hvernig komumst við þá inn til hvíldar Guðs? Að halda okkur frá synd og eigingjörnum verkum er aðeins hluti af svarinu. Við þurfum að sýna trú og hafa fyrirætlun Jehóva stöðugt í huga og gera allt sem í okkar valdi stendur til að styðja hana. Stundum getur það tekið verulega á en við verðum að taka við leiðbeiningunum og fylgja þeirri leiðsögn sem Jehóva gefur okkur í gegnum söfnuð sinn. Bróðir Splane hvatti áheyrendur til að gera allt sem þeir gætu til að ganga inn til hvíldar Guðs.

Anthony Morris, sem á sæti í hinu stjórnandi ráði, flutti lokaræðuna. Hún nefndist: „Eftir hverju bíðum við?“ Með föðurlegri umhyggju minnti bróðir Morris áheyrendur á spádóma sem enn eiga eftir að rætast – atburði sem allir trúfastir þjónar Guðs bíða með eftirvæntingu. Á meðal þessara atburða er yfirlýsingin: „Friður og engin hætta“ og eyðing falskra trúarbragða. (1. Þess. 5:2, 3; Opinb. 17:15-17) Bróðir Morris varaði við því að bregðast við með fullyrðingum eins og: „Þetta hlýtur að vera Harmagedón,“ þegar við fáum fréttir í fjölmiðlum sem uppfylla ekki þessa spádóma. Við ættum að bíða vongóð og þolinmóð eins og lýst er í Míka 7:7. Hann hvatti líka alla til vinna enn betur með hinu stjórnandi ráði og færast þéttar saman eins og hermenn á leið í bardaga. „Verið sterkir og hughraustir, allir sem bíðið Drottins,“ sagði hann. – Sálm. 31:25.

Að lokum voru fluttar nokkrar spennandi og sögulegar tilkynningar. Geoffrey Jackson frá hinu stjórnandi ráði tilkynnti að til reynslu yrði gefin út einfölduð útgáfa af námsblaði Varðturnsins, fyrir þá sem hefðu takmarkaða enskukunnáttu. Síðan sagði Stephen Lett að hið stjórnandi ráð myndi gera ráðstafanir til að umdæmishirðar í Bandaríkjunum og eiginkonur þeirra fengju hirðisheimsóknir. Hann sagði því næst að héðan í frá yrði Þjónustuþjálfunarskólinn nefndur Biblíuskóli fyrir einhleypa bræður og að bráðlega yrði Biblíuskóli fyrir hjón settur á laggirnar. Sá skóli gæfi hjónum frekari þjálfun þannig að þau gætu unnið enn betur fyrir söfnuð Jehóva. Bróðir Lett tilkynnti einnig að farandhirða- og deildarnefndaskólarnir yrðu nú haldnir tvisvar á ári til að þeir sem hefðu sótt þá áður geti gert það í annað sinn.

Auðmjúk og einlæg bæn hins 97 ára gamla Johns E. Barrs, sem setið hefur í hinu stjórnandi ráði um langt árabil, snart hjörtu allra viðstaddra og var góður endir á dagskránni. * Þeim sem setið höfðu fundinn fannst þetta svo sannarlega hafa verið sögulegur dagur.

[Neðanmáls]

^ gr. 7 Sjá árbók votta Jehóva 2011 bls. 62-63.

^ gr. 20 Bróðir John E. Barr lauk jarðnesku lífsskeiði sínu 4. desember 2010.

[Innskot á bls. 19]

Áheyrendur nutu þess að hlusta á einlæg viðtöl.

[Innskot á bls. 20]

Jehóva hefur blessað boðunarstarfið í Eþíópíu.