Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Er hægt að segja nákvæmlega til um hve margir spádómar um Messías eru í Hebresku ritningunum?

Með því að rannsaka vandlega Hebresku ritningarnar getum við greint marga spádóma sem uppfylltust á Jesú Kristi. Þessir spádómar sögðu fyrir atriði úr forsögu Messíasar, hvenær hann átti að koma, hvað hann myndi gera, hvernig yrði farið með hann og hvaða hlutverki hann myndi gegna í fyrirætlun Jehóva Guðs. Samanlagt draga þeir upp stórbrotna mynd sem sýnir okkur fram á að Jesús sé Messías. Við þurfum samt að gæta varúðar ef við reynum að ákvarða nákvæmlega hve margir spádómar um Messías finnast í Hebresku ritningunum.

Það eru ekki allir sammála um hvað sé spádómur um Messías og hvað ekki. Alfred Edersheim skýrir frá því í bók sinni The Life and Times of Jesus the Messiah að í fornum rabbínaritum hafi 456 textar í Hebresku ritningunum verið flokkaðir sem spádómar um Messías þótt margir þeirra minnist ekki sérstaklega á Messías. Nákvæm athugun á þessum 456 textum vekur þá spurningu hvort sumir þeirra séu í raun og veru spádómar um Jesú Krist. Edersheim segir til dæmis að Gyðingar hafi litið á 1. Mósebók 8:11 sem spádóm um Messías. Þeir álitu að „ólífuviðarblaðið, sem dúfan kom með, væri tekið af fjalli Messíasar“. Edersheim nefndi einnig 2. Mósebók 12:42. Í útskýringu sinni á því hvernig Gyðingar mistúlkuðu þennan texta skrifaði hann: „Messías myndi koma út úr Róm eins og Móse kom út úr eyðimörkinni.“ Margir fræðimenn og fleiri ættu örugglega erfitt með að tengja þessa tvo texta og þessar röngu skýringar við Jesú Krist.

Þótt við beinum athygli okkar aðeins að þeim spádómum sem uppfylltust í raun og veru á Jesú Kristi er erfitt að koma sér saman um nákvæma tölu. Lítum til dæmis á 53. kafla Jesaja sem hefur að geyma nokkur spádómleg atriði varðandi Messías. Í Jesaja 53:2-7 er spáð: „Hann var hvorki fagur né glæsilegur ásýndum . . . Hann var fyrirlitinn og menn forðuðust hann . . . Vorar þjáningar voru það sem hann bar . . . Hann var særður vegna vorra synda . . . [eins og] lamb sem leitt er til slátrunar.“ Ætti að telja allan þennan hluta 53. kaflans einn spádóm eða ætti að líta á hvert og eitt þessara atriða sem aðskilda spádóma um Messías?

Lítum einnig á Jesaja 11:1 en þar stendur: „Af stofni Ísaí mun kvistur fram spretta og sproti vaxa af rótum hans.“ Í versi 10 kemur þessi spádómur aftur fyrir með líku orðalagi. Ætti að líta á þessi tvö vers sem tvo spádóma eða einn sem er endurtekinn? Mat okkar á 53. kafla Jesaja og þeim 11. hefur greinilega áhrif á heildartölu spádómanna um Messías.

Það er því ástæðulaust að reyna að telja hve marga spádóma sé að finna um Messías í Hebresku ritningunum. Á vegum safnaðar Votta Jehóva hafa verið birtir listar sem sýna fjölmarga spádóma um Jesú og uppfyllingu þeirra. * Þessir listar geta komið okkur að gagni og orðið okkur til hvatningar bæði í fjölskyldunámi okkar og sjálfsnámi og einnig í boðunarstarfinu. Þar að auki eru allir þessir spádómar um Messías, óháð fjölda þeirra, óyggjandi sönnun um að Jesús sé Kristur eða Messías.

[Neðanmáls]

^ gr. 7 Insight on the Scriptures, 1. bindi, bls. 1223; 2. bindi, bls. 387; „All Scripture Is Inspired of God and Beneficial,“ bls. 343-344; Hvað kennir Biblían? bls. 200.