Spurningar frá lesendum
Spurningar frá lesendum
Hvernig ber að skilja tölurnar í ársskýrslunni?
Á hverju ári hlökkum við til að sjá starfsskýrsluna í árbókinni. Það er spennandi að sjá hverju þjónar Jehóva sem hópur hafa áorkað í boðunarstarfinu um allan heim. En til þess að hafa gagn af skýrslunni þurfum við að skilja skráninguna á réttan hátt og hafa rétt viðhorf til talnanna. Skoðum nokkur dæmi.
Þjónustuár. Það byrjar í september á hverju ári og nær fram í lok ágúst næsta árs. Skýrslan í árbókinni er frá þjónustuárinu á undan. Þess vegna er skýrslan í árbókinni 2011 frá þjónustuárinu sem byrjaði 1. september 2009 og endaði 31. ágúst 2010.
Hámark boðbera og meðaltal boðbera. „Boðberar“ eru skírðir þjónar Jehóva og einnig þeir sem eru hæfir til þess að vera óskírðir boðberar. „Hámark boðbera“ er mesti fjöldi þeirra sem skila starfsskýrslu einhvern mánuð þjónustuársins. Í þeirri tölu gætu verið starfsskýrslur sem var skilað seint og voru því ekki taldar með í mánuðinum á undan. Þess vegna getur verið að sumir boðberar séu taldir tvisvar. En hámarkstalan inniheldur ekki þá boðbera sem tóku þátt í boðunarstarfinu en gleymdu að skila starfsskýrslu. Þetta minnir á hversu mikilvægt það er að allir boðberar skili skýrslum á réttum tíma. „Meðaltal boðbera“ segir til um hve margir boðberar skila starfsskýrslu að jafnaði í hverjum mánuði.
Heildarstundir. Samkvæmt árbókinni 2011 notuðu vottar Jehóva rúmlega 1,6 milljarða klukkustunda í boðunarstarfinu. Þessi tala nær þó ekki yfir allan þann tíma sem við notuðum í tilbeiðslu okkar, því að hún inniheldur ekki tímann sem var notaður í hirðisstarf, sjálfsnám og hugleiðingu eða í að sækja samkomur.
Notkun fjármuna. Þjónustuárið 2010 vörðu Vottar Jehóva rúmlega 155 milljónum dollara til uppihalds fyrir sérbrautryðjendur, trúboða og farandumsjónarmenn. Í þessari upphæð er þó ekki meðtalinn kostnaðurinn við prentunina á ritum okkar né þeir fjármunir sem notaðir eru til að halda uppi meira en 20.000 Betelsjálfboðaliðum sem starfa á deildarskrifstofum um allan heim.
Minningarhátíð, þátttakendur. Þetta er tala yfir alla skírða einstaklinga sem neyta af brauðinu og víninu á minningarhátíðinni. En er þetta nákvæm tala yfir alla andasmurða einstaklinga á jörðinni? Ekki endilega. Vegna gamalla trúarkenninga eða jafnvel vegna andlegs eða tilfinningalegs ójafnvægis gætu sumir ranglega haldið að þeir hafi himneska von. Af þeim sökum er ómögulegt að hafa nákvæma tölu á andasmurðum einstaklingum á jörðinni, það er heldur engin þörf á því. Hið stjórnandi ráð skráir ekki niður nöfn allra þeirra sem neyta af brauðinu og víninu á minningarhátíðinni því að þeir mynda ekki með sér alþjóðlegt tengslanet. *
Það sem við vitum er að einhverjir andasmurðir ,þjónar Guðs‘ verða enn á jörðinni þegar eyðingarvindum þrengingarinnar miklu er sleppt lausum. (Opinb. 7:1-3) En þangað til munu hinir andasmurðu taka forystuna í mesta prédikunar- og kennslustarfi mannkynssögunar, eins og vel sést af ársskýrslunni.
[Neðanmáls]
^ gr. 8 Sjá greinina „Trúi ráðsmaðurinn og hið stjórnandi ráð“ í Varðturninum 15. júní 2009, bls. 20.