Keppum þolgóð að eilífa lífinu
Keppum þolgóð að eilífa lífinu
„Þreytum þolgóð það skeið sem við eigum fram undan.“ – HEBR. 12:1.
1, 2. Við hvað líkti Páll postuli æviskeiði kristins manns?
Á HVERJU ári eru haldin maraþonhlaup víða um heim. Bestu keppnismennirnir hafa aðeins eitt markmið með því að taka þátt í hlaupinu. Þeir ætla að sigra. Flestir setja þó markið ögn lægra. Þeir eru ánægðir ef þeim tekst að ljúka hlaupinu.
2 Í Biblíunni er æviskeiði kristins manns líkt við kapphlaup. Páll postuli nefnir þetta í fyrra bréfinu sem hann skrifaði trúsystkinum sínum í Korintu. Hann segir: „Vitið þið ekki að þeir sem keppa á íþróttavelli hlaupa að sönnu allir en einn fær sigurlaunin? Hlaupið þannig að þið fáið sigurlaun.“ – 1. Kor. 9:24.
3. Af hverju nefnir Páll að aðeins einn hljóti sigurlaunin?
3 Ber að skilja orð Páls þannig að aðeins einn þessara kristnu manna hlyti lífið að launum en allir hinir kepptu til einskis? Auðvitað ekki. Þeir sem tóku þátt í kapphlaupi þjálfuðu stíft og lögðu hart að sér í því augnamiði að sigra í keppninni. Páll vildi að trúsystkini hans legðu jafn hart að sér til að vera Jehóva trú og ná í mark. Þá gætu þau hlotið sigurlaunin. Já, allir sem ljúka hlaupinu, hljóta eilíft líf að launum.
4. Hvað þurfum við að hafa í huga varðandi hlaupið sem við tökum þátt í?
4 Orð Páls eru hvetjandi fyrir okkur öll en jafnframt umhugsunarverð. Af hverju? Af því að sigurlaunin eru óviðjafnanleg, hvort sem um er að ræða líf á himnum eða í paradís á jörð. Kapphlaupið er vissulega langt og strangt, það eru margar hindranir og hættur á leiðinni og ýmislegt sem getur truflað. (Matt. 7:13, 14) Sumir hafa því miður hægt á ferðinni, gefist upp eða jafnvel fallið úr keppni. Hvaða hættur og tálgryfjur verða á vegi okkar í þessu kapphlaupi? Hvernig er hægt að forðast þær? Hvað geturðu gert til að ljúka keppni og hljóta sigurlaunin?
Við þurfum að vera þolgóð til að sigra
5. Hvað minnist Páll á í Hebreabréfinu 12:1?
5 Þegar Páll skrifaði kristnum Hebreum í Jerúsalem og Júdeu minntist hann einnig á kapphlaup. (Lestu Hebreabréfið 12:1.) Hann vekur athygli á því hvers vegna við tökum þátt í hlaupinu og einnig hvað við þurfum að gera til að ná í mark. Við skulum kanna hvað varð til þess að Páll skrifaði Hebreabréfið og hvað hann hvetur lesendur sína til að gera. Síðan lítum við á innblásnar leiðbeiningar hans og skoðum hvaða lærdóm við getum dregið af þeim.
6. Hvernig beittu trúarleiðtogar Gyðinga sér gegn kristnum mönnum?
6 Það voru erfiðir tímar hjá kristnum mönnum á fyrstu öld, ekki síst þeim sem bjuggu í Jerúsalem og Júdeu. Trúarleiðtogar Gyðinga voru mjög valdamiklir og vildu þvinga fólk til undirgefni. Næstum þrem áratugum áður hafði þeim tekist að fá Jesú Krist dæmdan fyrir undirróður og tekinn af lífi sem glæpamann. Og þeir höfðu ekki Post. 4:1-3; 5:17, 18; 6:8-12; 7:59; 8:1, 3.
hugsað sér að láta fylgjendur hans í friði. Í Postulasögunni segir frá því hvernig þeir höfðu í hótunum við kristna menn og ofsóttu þá með litlum hléum frá því að heilögum anda var úthellt á hvítasunnu árið 33. Það var ekki auðvelt að vera kristinn á þeim tíma. –7. Hvað annað gerði kristnum mönnum erfitt fyrir?
7 Lífið var ekki heldur auðvelt hjá þessum kristnu mönnum vegna þess að Gyðingar voru í þann mund að líða undir lok sem þjóð. Jesús hafði varað þá við eyðingunni sem var í vændum. Hann hafði sömuleiðis sagt þeim frá atburðum sem myndu eiga sér stað rétt fyrir endalokin og tekið skýrt fram hvað þeir þyrftu að gera til að bjargast. (Lestu Lúkas 21:20-22.) Hvað myndu þeir gera við þessar aðstæður? „Hafið gát á sjálfum yður,“ sagði Jesús, „látið ekki svall og drykkju eða áhyggjur þessa lífs ná tökum á yður svo að sá dagur komi ekki skyndilega yfir yður.“ – Lúk. 21:34.
8. Af hvaða sökum kunna sumir í frumkristna söfnuðinum að hafa hægt á ferðinni eða gefist upp?
8 Þegar Páll skrifaði Hebreabréfið voru liðin næstum 30 ár síðan Jesús sagði orðin hér að ofan. Hvaða áhrif hafði tíminn haft á þessa kristnu menn? Sumir höfðu guggnað undan álagi og áhyggjum daglegs lífs. Þeir höfðu ekki ræktað sinn andlega mann og höfðu þar af leiðandi ekki þann styrk sem það hefði veitt þeim. (Hebr. 5:11-14) Sumir hafa sennilega ímyndað sér að lífið yrði miklu auðveldara ef þeir lifðu eins og Gyðingar almennt. Þeir hugsuðu kannski sem svo að Gyðingar hefðu nú ekki alveg snúið baki við Guði því að þeir fylgdu enn lögmálinu að einhverju marki. Og innan safnaðarins voru menn sem héldu því fast fram að kristnir menn ættu að halda Móselögin og erfðavenjur Gyðinga. Sumir í söfnuðinum trúðu þeim eða létu undan sökum ótta. Hvernig hvatti Páll trúsystkini sín til að halda andlegri vöku sinni og keppa þolgóð að eilífa lífinu?
9, 10. (a) Hvaða hvatningarorð er að finna í lok 10. kafla Hebreabréfsins? (b) Af hverju ræddi Páll um trúarverk votta Guðs til forna?
9 Það er athyglisvert að kynna sér hvernig Páli var innblásið að hvetja og uppörva kristna Hebrea. Í 10. kafla Hebreabréfsins bendir hann á að lögmálið hafi aðeins geymt „skugga hins góða sem er í vændum“, og sýnir fram á gildi lausnarfórnar Krists. Undir lok kaflans segir Páll: „Þolgæðis hafið þið þörf, til þess að þið gerið Guðs vilja og öðlist fyrirheitið. Því að: Innan harla skamms tíma mun sá koma sem koma á og ekki dvelst honum.“ – Hebr. 10:1, 36, 37.
10 Í 11. kafla Hebreabréfsins skilgreinir Páll hvað sé sönn trú. Hann undirstrikar það síðan með því að segja frá þekktum körlum og konum sem báru af fyrir trú sína. Var þetta óþarfur útúrdúr? Alls ekki. Páll vissi að trúsystkini hans þurftu að gera sér grein fyrir að trú helst í hendur við hugrekki og þolgæði. Trúir þjónar Jehóva til forna voru þeim góð fyrirmynd. Ef kristnir Hebrear hugleiddu fordæmi þeirra væru þeir betur í stakk búnir til að takast á við prófraunir og erfiðleika. Eftir að hafa rætt um trúarverk þessara þjóna Guðs sagði Páll: „Fyrst við erum umkringd slíkum fjölda votta léttum þá af okkur allri byrði og viðloðandi synd og þreytum þolgóð það skeið sem við eigum fram undan.“ – Hebr. 12:1.
,Fjöldi votta‘
11. Hvaða áhrif getur það haft á okkur að hugsa um þá sem voru trúir Jehóva til forna?
11 Þegar Páll sagði að kristnir Hebrear væru ,umkringdir fjölda votta‘ átti hann við þjóna Jehóva fyrir daga kristninnar sem höfðu verið Jehóva trúir allt til dauða.
Fordæmi þeirra var til vitnis um að kristnir menn gátu verið Jehóva trúir, jafnvel við erfiðustu skilyrði. Allir þessir vottar voru eins og þátttakendur í hlaupinu sem voru nú þegar komnir í mark. Þar með gátu þeir verið öðrum hvatning til að halda áfram. Myndum við ekki gera okkar ýtrasta til að ná í mark ef við tækjum þátt í kapphlaupi og meðal áhorfenda væru framúrskarandi hlauparar sem hvettu okkur áfram? Kristnir Hebrear þurftu að hafa hugfast að þessir þjónar Jehóva til forna höfðu sýnt og sannað að það væri hægt að komast í mark óháð öllum erfiðleikum sem yrðu á veginum. Fordæmi þeirra gat verið kristnum mönnum á fyrstu öld til hvatningar og minnt þá á að þeir gætu líka ,þreytt þolgóðir skeiðið‘ allt til enda. Hið sama er að segja um okkur.12. Hvað getum við lært af trú þeirra sem Páll nefnir?
12 Margir af þeim trúu vottum, sem Páll nefnir, bjuggu við áþekkar aðstæður og við. Nói var uppi skömmu áður en flóðið skall á og þáverandi heimur leið undir lok. Við lifum á endalokatíma núverandi heims. Abraham og Sara voru beðin um að yfirgefa heimili sitt og tilbiðja hinn sanna Guð í öðru landi. Þau áttu að bíða þess þar að fyrirheit Jehóva rættist. Við erum hvött til að afneita sjálfum okkur og ávinna okkur velþóknun Jehóva og þá blessun sem hann hefur lofað. Móse ferðaðist um hættulega eyðimörk á leið sinni til fyrirheitna landsins. Við erum á ferð um illan heim og stefnum í átt að nýja heiminum sem Jehóva hefur lofað. Það er gott fyrir okkur að íhuga hvað þessir þjónar Guðs gengu í gegnum. Við getum tekið okkur til fyrirmyndar það góða sem þeir gerðu og dregið lærdóm af mistökum þeirra og veikleikum. – Rómv. 15:4; 1. Kor. 10:11.
Hvernig tókst þeim að ljúka hlaupinu?
13. Hvaða verkefni fékk Nói og hvernig tókst honum að gera þeim góð skil?
13 Hvað hjálpaði þessum þjónum Jehóva að vera þolgóðir og ná í mark? Tökum eftir því sem Páll sagði um Nóa. (Lestu Hebreabréfið 11:7.) Nói hafði aldrei séð „vatnsflóð steypast yfir jörðina til að tortíma öllu holdi“. (1. Mós. 6:17) Slíkt hafði aldrei gerst áður, það átti sér ekkert fordæmi í sögunni. En Nói hugsaði ekki sem svo að flóð af þessu tagi væri óhugsandi eða í það minnsta ósennilegt. Hvers vegna? Vegna þess að hann trúði að Jehóva myndi gera allt sem hann sagðist ætla að gera. Nóa fannst verkefnin, sem hann fékk, ekki yfirþyrmandi heldur „gerði allt eins og Guð bauð honum“. (1. Mós. 6:22) Það var ekkert lítilræði sem Nói þurfti að gera. Hann þurfti að smíða örkina, safna saman dýrunum, safna vistum fyrir menn og dýr í örkina, vara fólk við því sem var í vændum og hjálpa fjölskyldunni að eiga sterkt samband við Jehóva. Þetta var gríðarlegt verkefni en Nói var þolgóður og hafði óbilandi trú. Þess vegna blessaði Jehóva hann og fjölskyldu hans og bjargaði lífi þeirra.
14. Hvernig reyndi á trú Abrahams og Söru og hvað getum við lært af þeim?
14 Af þeim ,fjölda votta sem við erum umkringd‘ nefnir Páll næst Abraham og Söru. Líf þeirra tók miklum stakkaskiptum þegar þau fluttust frá Úr og framtíðin virtist ótrygg. En þau höfðu sterka trú og hlýddu Jehóva í blíðu og stríðu. Abraham er kallaður „faðir allra þeirra sem trúa“ vegna þeirra fórna sem hann færði í þágu sannrar tilbeiðslu. (Rómv. 4:11) Páll nefnir aðeins örfá af trúarverkum Abrahams og fjölskyldu hans því að lesendur þekktu sögu þeirra mætavel. En lærdómurinn, sem draga mátti af þeim, var skýr: „Allir þessir menn dóu í trú án þess að hafa öðlast fyrirheitin. Þeir sáu þau álengdar og fögnuðu þeim og játuðu að þeir væru gestir og útlendingar á jörðinni.“ (Hebr. 11:13) Ljóst er að trú þeirra og samband við Jehóva hjálpaði þeim að vera þolgóð.
15. Af hvaða hvötum kaus Móse þá lífsstefnu sem raun ber vitni?
15 Móse var líka einn af þeim „fjölda votta“ sem þjónuðu Jehóva dyggilega. Hann sagði skilið við auðlegð og upphefð og „kaus fremur að þola illt með lýð Guðs“. Af hvaða hvötum gerði hann það? „Hann horfði fram til launanna,“ svarar Páll. Hann „var öruggur eins og hann sæi hinn ósýnilega“. (Lestu Hebreabréfið 11:24-27.) Móse langaði ekki til að „njóta skammvinns unaðar af syndinni“. Guð og fyrirheit hans voru honum svo raunveruleg að hann sýndi einstakt hugrekki og þolgæði. Hann lagði sig allan fram við það verkefni að leiða Ísraelsmenn út úr Egyptalandi og til fyrirheitna landsins.
16. Af hverju varð Móse ekki niðurdreginn þegar hann fékk ekki að ganga inn í fyrirheitna landið?
16 Hvorki Móse né Abraham fengu að sjá fyrirheit Guðs rætast. Þegar Ísraelsmenn voru í þann mund að ganga inn í fyrirheitna landið var Móse sagt: „Þótt þú megir horfa yfir til landsins færðu ekki að koma inn í landið sem ég gef Ísraelsmönnum.“ Ástæðan var sú að Móse og Aron höfðu ,báðir brugðið trúnaði við Guð meðal Ísraelsmanna hjá Meríbavötnum‘. Þeir höfðu reiðst þjóðinni vegna uppreisnar hennar og ekki veitt Guði þann heiður sem honum bar. (5. Mós. 32:51, 52) Varð Móse reiður eða niðurdreginn? Nei, hann blessaði þjóðina og sagði að lokum: „Heill þér, Ísrael. Hver er sem þú? Þjóðin sem Drottinn frelsaði. Hann er skjöldurinn sem ver þig, sverðið sem veitir þér sigur.“ – 5. Mós. 33:29.
Lærdómur fyrir okkur
17, 18. (a) Hvað getum við lært af þeim „fjölda votta“ sem Páll nefnir? (b) Um hvað er fjallað í næstu grein?
17 Við höfum nú rætt um suma af þeim „fjölda votta“ sem Páll nefnir í Hebreabréfinu. Ljóst er af dæmi þeirra að við verðum að trúa skilyrðislaust á Guð og fyrirheit hans til að okkur takist að ljúka hlaupinu og ná í mark. (Hebr. 11:6) Trúin má ekki vera aukaatriði í lífi okkar, hún þarf að vera þungamiðjan. Við horfum ekki aðeins til líðandi stundar heldur vitum að Guð hefur lofað bjartri framtíð. Við getum séð „hinn ósýnilega“ og þar af leiðandi getum við keppt þolgóð að eilífa lífinu. – 2. Kor. 5:7.
18 Kapphlaupið, sem kristnir menn taka þátt í, er ekki auðvelt. Við getum engu að síður lokið hlaupinu. Í næstu grein könnum við fleira sem getur hjálpað okkur til þess.
Geturðu svarað?
• Af hverju talaði Páll í löngu máli um trúa votta fortíðar?
• Hvernig getur sá fjöldi votta, sem Páll nefnir, verið okkur hvatning til að vera þolgóð?
• Hvað hefurðu lært af fordæmi dyggra votta eins og Nóa, Abrahams, Söru og Móse?
[Spurningar]
[Mynd á bls. 19]
Abraham og Sara voru tilbúin til að yfirgefa þægindin sem þau bjuggu við í Úr.