Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þjónustan við Jehóva hefur verið mér gleðigjafi

Þjónustan við Jehóva hefur verið mér gleðigjafi

Þjónustan við Jehóva hefur verið mér gleðigjafi

Fred Rusk segir frá

Snemma á ævinni sannreyndi ég orð Davíðs í Sálmi 27:10: „Þótt faðir minn og móðir yfirgefi mig tekur Drottinn mig að sér.“ Ég ætla að segja frá því hvernig það sannaðist á mér.

ÉG ÓLST upp á bómullarbúgarði afa míns í Georgíu í Bandaríkjunum á meðan heimskreppan mikla stóð yfir á fjórða áratug síðustu aldar. Faðir minn var niðurbrotinn eftir að móðir mín lést af barnsförum ásamt nýfæddum bróður mínum. Hann skildi mig eftir hjá föður sínum sem var ekkill og fluttist til fjarlægrar borgar í atvinnuleit. Hann reyndi síðar að fá mig til sín en það varð aldrei neitt úr því.

Eldri föðursystur mínar sáu um heimilishaldið. Afi var ekki trúhneigður maður en dæturnar voru strangtrúaðir baptistar. Mér var hótað barsmíðum færi ég ekki í kirkju á hverjum sunnudegi. Það fór því svo að allt frá unga aldri bar ég litla virðingu fyrir trúarbrögðum. En ég naut þess að vera í skóla og stunda íþróttir.

Heimsókn sem breytti lífi mínu

Dag einn árið 1941, þegar ég var 15 ára, komu roskinn maður og eiginkona hans í heimsókn. Hann var kynntur sem „Talmadge Rusk, frændi þinn“. Ég hafði aldrei heyrt hans getið en fékk að vita að hjónin væru vottar Jehóva. Hann útskýrði að tilgangur Guðs væri að mannkynið ætti að lifa eilíflega á jörðinni en það var harla ólíkt því sem ég hafði heyrt í kirkjunni. Flestir í fjölskyldunni höfnuðu og fyrirlitu það sem hann sagði. Þeim hjónunum var aldrei leyft að koma inn á heimilið aftur. Mary frænka, sem var aðeins þremur árum eldri en ég, þáði samt Biblíu ásamt ritum sem auðvelduðu okkur að skilja boðskap hennar.

Mary sannfærðist fljótt um að hún hefði fundið sannleikann og lét skírast 1942 sem vottur Jehóva. Hún upplifði einnig það sem Jesús hafði sagt fyrir: „Heimamenn manns verða óvinir hans.“ (Matt. 10:34-36) Andstaða fjölskyldunnar var ofsafengin. Ein af eldri systrunum var áhrifamanneskja í málefnum sýslunnar. Hún og bæjarstjórinn lögðust á eitt og fengu því framgengt að Talmadge frændi var tekinn fastur. Hann var ákærður fyrir að stunda farandsölu án leyfis og var dæmdur sekur.

Í bæjarfréttablaðinu var skýrt frá því að bæjarstjórinn, sem var einnig dómarinn, hafi sagt við þá sem voru í dómsalnum: „Ritin, sem þessi maður er að dreifa . . . eru eins hættuleg og eitur.“ Frændi minn áfrýjaði og vann málið en sat í millitíðinni tíu daga í fangelsi.

Mary frænka hjálpaði mér

Mary fór að tala við mig um hina nýfundnu trú sína en þar að auki fór hún að prédika fyrir nágrönnunum. Ég fór með henni til manns sem hafði þegið bókina The New World * en hún var að leiðbeina honum við biblíunám. Eiginkona hans sagði að hann hefði vakað alla nóttina og lesið bókina. Þótt ég hafi ekki ætlað að láta draga mig inn í trúarlegar vangaveltur fannst mér áhugavert það sem ég var að kynnast. Það voru samt ekki fyrst og fremst kenningar Biblíunnar sem sannfærðu mig um að vottarnir væru fólk Guðs heldur hvernig komið var fram við þá.

Dag einn vorum við Mary að reyta illgresi í tómatagarðinum. Á heimleiðinni fundum við ummerki í glæðum sorpbrennsluofnsins um að systurnar hefðu brennt ritum hennar ásamt grammófóni og plötum með biblíuboðskap. Þegar ég lét í ljós að mér væri misboðið svaraði ein þeirra yfirlætislega: „Þú átt eftir að þakka okkur fyrir það sem við gerðum, þótt síðar verði.“

Mary neyddist til þess að fara að heiman árið 1943 því að hún neitaði að gefa hina nýfundnu trú upp á bátinn og hætta að boða nágrönnunum fagnaðarerindið. Þegar hér var komið sögu var ég búinn að læra að Guð ætti sér nafn, Jehóva, og væri auk þess kærleiksríkur og umhyggjusamur. Hann brennir ekki fólk í logandi víti. Mér fannst unaðslegt að vita þetta. Ég komst einnig að raun um að Jehóva ætti sér söfnuð þótt ég hefði enn ekki komið á samkomu.

Ég var að slá grasflötina heima þegar bíl var ekið hægt upp að mér og annar mannanna í honum spurði hvort ég væri Fred. Þegar ég áttaði mig á því að þeir væru vottar sagði ég: „Hleypið mér inn og förum á öruggan stað til að tala saman.“ Mary hafði komið því í kring að þeir heimsæktu mig. Annar mannanna var farandhirðirinn Shield Toutjian sem veitti mér hvatningu og andlega leiðsögn þegar ég þurfti mest á því að halda. Andstaðan frá fjölskyldunni beindist nú að mér þar sem ég kom til varnar trú votta Jehóva.

Mary hafði flust til Virginíu og skrifaði mér þaðan. Hún sagði í bréfinu að væri ég ákveðinn í að þjóna Jehóva gæti ég komið og búið hjá henni. Ég ákvað samstundis að fara. Föstudagskvöld í októbermánuði 1943 lét ég það nauðsynlegasta niður í kassa og batt hann upp í tré skammt frá heimilinu. Daginn eftir sótti ég kassann, fór óséður til húss nágrannans og fékk far í bæinn. Þegar ég kom til bæjarins Roanoke hitti ég Mary á heimili Ednu Fowlkes.

Sterkari trú, skírn og Betel

Edna var ein af hinum andasmurðu og var umhyggjusöm eins og Lýdía forðum daga. Hún hafði leigt stórt húsnæði og tekið að sér Mary frænku og auk þess mágkonu sína og tvær dætur hennar. Stúlkurnar, þær Gladys og Grace Gregory, urðu seinna trúboðar. Gladys er nú á tíræðisaldri en starfar enn trúföst á deildarskrifstofunni í Japan.

Meðan ég bjó á heimili Ednu sótti ég reglulega samkomur og fékk þjálfun í boðunarstarfinu. Mér var nú frjálst að kynna mér orð Guðs og sækja safnaðarsamkomur og það fullnægði vaxandi þörf minni fyrir andlega fæðu. Ég lét skírast 14. júní 1944. Mary, Gladys og Grace gerðust brautryðjendur og fengu verkefni í Norður-Virginíu. Þar áttu þær þátt í að stofnaður var söfnuður í Leesburg. Snemma árs 1946 fór ég að starfa sem brautryðjandi í næstu sýslu. Um sumarið fórum við saman á hið eftirminnilega alþjóðamót sem var haldið í Cleveland í Ohio 4.-11. ágúst.

Nathan Knorr fór með forystu safnaðarins á þeim tíma. Á mótinu lýsti hann í grófum dráttum fyrirhugaðri stækkun á Betelheimilinu í Brooklyn. Byggja átti nýtt íbúðarhúsnæði og stækka prentsmiðjuna. Þörf var á mörgum ungum bræðrum. Ég komst að þeirri niðurstöðu að þar langaði mig til að þjóna Jehóva. Ég lagði inn umsókn og var kominn á Betel nokkrum mánuðum síðar, 1. desember 1946.

Um ári síðar kom Max Larson, umsjónarmaður prentsmiðjunnar, til mín að skrifborðinu í póstdeildinni. Hann tilkynnti mér að ég hefði fengið verkefni á þjónustudeildinni. Ég lærði mikið í því starfi um það hvernig ætti að nota meginreglur Biblíunnar og hvernig söfnuður Guðs starfaði, sérstaklega meðan ég vann með T. J. Sullivan, umsjónarmanni deildarinnar.

Faðir minn heimsótti mig nokkrum sinnum á Betel. Hann hafði gerst trúhneigður með aldrinum. Í síðustu heimsókn sinni árið 1965 sagði hann: „Þú getur komið í heimsókn til mín en ég kem aldrei aftur hingað.“ Ég heimsótti hann í nokkur skipti áður en hann lést. Hann var viss um að hann færi til himna. Ég vona að Jehóva minnist hans, og þá verður hann ekki þar sem hann hélt hann yrði heldur rís upp hér á jörð og á þá von að lifa að eilífu í endurreistri paradís.

Fleiri eftirminnileg mót og byggingaframkvæmdir

Mótin mörkuðu ávallt þáttaskil í viðgangi safnaðarins og framförum mínum í trúnni. Það átti sérstaklega við um alþjóðamótin á Yankee Stadium í New York á sjötta tug síðustu aldar. Leikvangarnir Yankee Stadium og Polo Grounds voru þéttskipaðir á móti árið 1958 en þar voru viðstaddir 253.922 frá 123 löndum þegar flest var. Ég gleymi aldrei einu atviki á þessu móti. Ég var að aðstoða á mótsskrifstofunni þegar bróðir Knorr kom gangandi til mín hröðum skrefum og sagði: „Fred, einhvern veginn yfirsást mér að fá bróður til að tala til allra brautryðjendanna sem eru nú mættir í leigusal hérna rétt hjá. Viltu flýta þér þangað og flytja þeim góða ræðu um það sem þú íhugar á leiðinni?“ Ég bað og bað þar til ég kom á staðinn, móður og másandi.

Þar sem söfnuðunum fjölgaði gífurlega í New York á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar var erfitt að fá leigt húsnæði fyrir ríkissali. Á árunum frá 1970 til 1990 voru því þrjár byggingar keyptar á Manhattan og endurnýjaðar svo að þær yrðu hentugir samkomustaðir. Ég var formaður byggingarnefndanna sem sáu um þessar framkvæmdir. Ég á margar skemmtilegar minningar um það hvernig Jehóva blessaði ríkulega söfnuðina sem unnu saman við að fjármagna og ljúka við þessar byggingar. Þær nýtast enn þá vel sem miðstöðvar fyrir sanna tilbeiðslu.

Lífið breytist

Dag einn árið 1957 var ég á leið í vinnuna og gekk í gegnum garðinn sem liggur milli Betelheimilisins og prentsmiðjunnar. Þá fór að rigna. Fram undan mér sá ég yndislega ljóshærða stúlku sem var nýkomin á Betelheimilið. Hún var ekki með regnhlíf svo að ég bauð henni að nota mína með mér. Þannig hitti ég Marjorie og frá því við giftum okkur 1960 höfum við gengið hamingjusöm saman í þjónustu Jehóva, bæði í blíðu og stríðu. Við héldum upp á 50. brúðkaupsdaginn í september 2010.

Við höfðum varla tekið upp úr töskunum eftir brúðkaupsferðina þegar bróðir Knorr tilkynnti mér að ég hefði fengið það verkefni að vera leiðbeinandi í Gíleaðskólanum. Það var mikil blessun fyrir mig. Á árunum 1961 til 1965 útskrifuðust fimm hópar sem fengu lengri kennslu en þá hefðbundnu. Það var aðallega gert fyrir deildarstarfsmenn en þeir fengu sérstaka kennslu í rekstri deildarskrifstofa. Um haustið 1965 var skólatímabilinu aftur breytt í fimm mánuði og athyglinni beint eins og fyrr að því að mennta trúboða.

Árið 1972 var ég færður frá Gíleaðskólanum til þeirrar deildar ritstjórnar sem svarar fyrirspurnum og þar starfaði ég sem umsjónarmaður. Ég rannsakaði hvernig hægt væri að leysa úr ýmiss konar spurningum og vandamálum. Það hefur hjálpað mér að öðlast betri skilning á kenningum Biblíunnar og hvernig megi beita hinum göfugu meginreglum Guðs til þess að aðstoða aðra.

Árið 1987 var mér falið að starfa á nýstofnaðri deild, svokallaðri upplýsingaþjónustu um spítalamál. Námskeið voru haldin til að kenna öldungum í spítalasamskiptanefndum að eiga samskipti við lækna, dómara og félagsráðgjafa til að ræða um biblíulega afstöðu okkar til blóðgjafa. Það var verulegt vandamál að læknar gáfu börnum okkar blóð að eigin geðþótta, oft að undangengnum dómi.

Þegar stungið var upp á öðrum aðferðum en blóðgjöfum svöruðu læknar venjulega að þær væru ekki til eða væru of kostnaðarsamar. Þegar skurðlæknir hélt þessu fram svaraði ég oft: „Viltu rétta fram höndina.“ Þegar hann gerði það sagði ég: „Þarna ertu með eitt besta verkfærið sem hægt er að nota í stað blóðgjafar.“ Þetta hrós minnti hann á það sem hann vissi reyndar vel – að með því að nota skurðhnífinn með gætni helst blóðmissirinn í lágmarki.

Síðustu tvo áratugina hefur Jehóva ríkulega blessað þessa viðleitni til að fræða lækna og dómara. Viðhorf þeirra breyttist verulega þegar þeir fóru að skilja afstöðu okkar betur. Þeir uppgötvuðu að læknisrannsóknir sýndu fram á að til væru árangursríkar aðferðir aðrar en blóðgjafir og til væru margir samstarfsfúsir læknar og sjúkrahús sem hægt væri að senda sjúklinga til.

Frá árinu 1996 höfum við Marjorie starfað við fræðslumiðstöðina í Patterson í New York sem er um 110 kílómetra fyrir norðan Brooklyn. Þar vann ég um stuttan tíma í þjónustudeildinni og síðan tók ég tímabundið þátt í að fræða starfsmenn deildanna og farandumsjónarmenn. Síðastliðin tólf ár hef ég starfað á ný sem umsjónarmaður þeirrar deildar ritstjórnar sem svarar fyrirspurnum en hún hefur verið flutt frá Brooklyn til Patterson.

Erfiðleikar ellinnar

Ég er kominn á miðjan níræðisaldur og hef því átt erfiðara með að sinna störfum mínum á Betel. Ég hef barist við krabbamein í meira en tíu ár. Mér líður eins og Hiskía en Jehóva lengdi ævi hans. (Jes. 38:5) Eiginkona mín hefur heldur ekki gengið heil til skógar og við vinnum í sameiningu að því að takast á við Alzheimer-sjúkdóminn sem hún er haldin. Hún hefur verið duglegur boðberi Jehóva, leiðbeinandi fyrir ungt fólk, trúföst meðhjálp og dyggur félagi minn. Hún var alltaf góður biblíunemandi og góður biblíufræðari. Mörg andleg börn hennar eru í sambandi við okkur.

Mary frænka lést í mars 2010 og var þá orðin 87 ára. Hún var frábær biblíukennari og hjálpaði öðrum að taka afstöðu með sannri tilbeiðslu. Hún boðaði fagnaðarerindið árum saman í fullu starfi. Ég er henni mjög þakklátur fyrir þátt hennar í að fræða mig um sannindi Biblíunnar og að ég skyldi verða eins og hún, þjónn Jehóva, hins kærleiksríka Guðs. Hún er jarðsett við hliðina á eiginmanni sínum en hann starfaði áður fyrr sem trúboði í Ísrael. Ég er þess fullviss að Jehóva minnist þeirra þegar kemur að upprisunni.

Þegar ég lít yfir farinn veg í þjónustu Jehóva í 67 ár er ég þakklátur fyrir þá ríkulegu blessun sem mér hefur hlotnast. Það hefur verið mér gleðigjafi að gera vilja Jehóva. Ég hef treyst á óverðskuldaða gæsku hans og vona því innilega að fá hlutdeild í loforði sonar hans: „Hver sem hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, föður eða móður, börn eða akra sakir nafns míns, mun fá allt hundraðfalt aftur og öðlast eilíft líf.“Matt. 19:29.

[Neðanmáls]

^ gr. 11 Gefin út 1942, nú ófáanleg.

[Mynd á bls. 19]

Á bómullarbúgarði afa míns í Georgíu í Bandaríkjunum árið 1928.

[Mynd á bls. 19]

Mary frænka og Talmadge frændi.

[Mynd á bls. 20]

Mary, Gladys og Grace.

[Mynd á bls. 20]

Ég lét skírast 14. júní 1944.

[Mynd á bls. 20]

Á þjónustudeildinni á Betel.

[Mynd á bls. 21]

Við Mary á alþjóðamótinu á Yankee Stadium 1958.

[Mynd á bls. 21]

Á brúðkaupsdegi okkar.

[Mynd á bls. 21]

Við hjónin árið 2008.