Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Gleðjumst saman

Gleðjumst saman

Gleðjumst saman

ÞAÐ er sífellt erfiðara að öðlast hamingju og gleði. Mörgum reynist næstum ómögulegt að finna eitthvað jákvætt til að segja við aðra. Daglegt líf í nútímaþjóðfélagi, sérstaklega í stórborgum, veldur því að fólk dregur sig inn í skel og einangrast.

„Það er mjög algengt að fólk þjáist af einmanaleika,“ segir Alberto Oliverio, prófessor í taugasálfræði, og „það leikur enginn vafi á því að í borgum er hættara við að fólk einangrist. Í mörgum tilfellum leiðir það til þess að við látum okkur engu varða daglegt líf vinnufélaga, nágranna eða afgreiðslumannsins í hverfisversluninni.“ Slík einangrun leiðir oft til depurðar.

Aðstæður og hugarástand trúsystkina okkar eru þó ekki þannig. Páll postuli skrifaði: „Verið ætíð glöð.“ (1. Þess. 5:16) Við höfum margar ástæður til að vera glöð og gleðjast með öðrum. Við tilbiðjum Jehóva, hinn hæsta Guð, við skiljum sannleiksboðskap Biblíunnar, við höfum von um hjálpræði og eilíft líf og við getum einnig hjálpað öðrum að fá sömu blessun. – Sálm. 106:4, 5; Jer. 15:16; Rómv. 12:12.

Sannkristnir menn eru þekktir fyrir að vera glaðir og gleðjast með öðrum. Það er því ekkert undarlegt að Páll skyldi skrifa til Filippímanna: „Þá gleðst ég og samgleðst ykkur öllum. Af hinu sama skuluð þið einnig gleðjast og samgleðjast mér.“ (Fil. 2:17, 18) Í þessum stutta texta talar Páll tvisvar um að gleðjast og samgleðjast hvert öðru.

Kristnir menn þurfa auðvitað að forðast sérhverja tilhneigingu til að einangra sig. Enginn sem útilokar sig frá öðrum getur glaðst með trúsystkinum sínum. Hvernig getum við „verið glöð í Drottni“ með bræðrum okkar og systrum eins og Páll hvetur til? – Fil. 3:1.

Gleðjumst með trúsystkinum

Þegar Páll skrifaði bréf sitt til Filippímanna var hann líklega fangi í Róm vegna fagnaðarerindisins. (Fil. 1:7; 4:22) Fangelsisvistin dró þó ekki úr áhuga hans á boðunarstarfinu. Þvert á móti gladdist hann yfir að þjóna Jehóva af fremsta megni og ,verða sjálfum fórnað‘ við þjónustu sína. (Fil. 2:17, Biblían 1912) Viðhorf Páls sýnir að gleði er ekki undir aðstæðum okkar komin. Þrátt fyrir fangelsisvistina sagðist hann halda gleði sinni. – Fil. 1:18.

Páll hafði stofnað söfnuðinn í Filippí og honum þótti sérstaklega vænt um bræðurna þar. Hann vissi að hann gæti hvatt þá með því að miðla gleðinni sem hann upplifði í þjónustu Jehóva. Hann skrifaði því: „Ég vil að þið, systkin, vitið að það sem fram við mig hefur komið hefur í raun orðið fagnaðarerindinu til eflingar. Því að það er augljóst orðið í allri lífvarðarhöllinni og öllum öðrum að ég er í fjötrum vegna Krists.“ (Fil. 1:12, 13) Það var uppörvandi fyrir söfnuðinn í Filippí að heyra þessa frásögu og ánægjulegt fyrir Pál að segja hana. Söfnuðurinn hlýtur að hafa samglaðst honum. En Filippímenn máttu ekki láta það draga úr sér kjarkinn að Páll skyldi vera í fangelsi heldur urðu þeir að líkja eftir fordæmi hans. (Fil. 1:14; 3:17) Auk þess gátu þeir haldið áfram að minnast Páls í bænum sínum og stutt hann og styrkt eftir bestu getu. – Fil. 1:19; 4:14-16.

Gleðjumst við eins og Páll? Leggjum við okkur fram um að sjá jákvæðu hliðarnar á boðunarstarfinu og aðstæðum okkar í lífinu? Þegar við erum með trúsystkinum okkar er gott að ræða saman um boðunarstarfið. Við þurfum ekki að bíða eftir að eitthvað stórkostlegt gerist í starfinu. Við gátum kannski vakið áhuga á fagnaðarerindinu með sérstaklega áhrifaríkri kynningu eða rökfærslu. Við áttum ef til vill gott samtal við húsráðanda út frá ákveðnum ritningarstað í Biblíunni. Eða það gæti einfaldlega hafa gerst að fólk á svæðinu þekkti okkur sem votta Jehóva og það eitt reyndist ágætur vitnisburður. Ein leið til gleðjast saman er að miðla slíkum frásögum.

Margir vottar Jehóva hafa fært fórnir og færa enn til að sinna prédikunarstarfinu. Brautryðjendur, farandhirðar, Betelítar, trúboðar og vottar, sem starfa á alþjóðavettvangi, leggja sig fram í fullu starfi og ganga glaðir til verks. Erum við glöð og gleðjumst með þeim? Sýnum þá þakklæti okkar fyrir þessa „samverkamenn . . . í þjónustu við Guðs ríki“. (Kól. 4:11) Þegar við erum saman á safnaðarsamkomum eða fjölmennum mótum getum við verið hlýleg og uppörvandi við þá. Við getum einnig líkt eftir fordæmi þeirra og verið kappsfull eins og þeir. Og við getum skapað okkur tækifæri til að heyra hvetjandi frásögur þeirra með því að sýna þeim gestrisni, til dæmis með því að bjóða þeim í mat. – Fil. 4:10.

Gleðjumst með þeim sem líða prófraunir

Páll var staðráðinn í að vera Jehóva trúr og styrktist við ofsóknir og prófraunir. (Kól. 1:24; Jak. 1:2, 3) Hann vissi að bræðurnir í Filippí yrðu fyrir svipuðum prófraunum og að þolgæði hans myndi uppörva þá. Þess vegna fannst honum ástæða til að vera glaður og gleðjast með þeim. Hann skrifaði því: „Guð veitti ykkur þá náð, ekki einungis að trúa á Krist heldur og að þola þjáningar hans vegna. Nú eigið þið í sömu baráttu sem þið sáuð mig heyja og heyrið enn um mig.“ – Fil. 1:29, 30.

Líkt er komið fyrir kristnum mönnum nú á tímum. Þeir verða fyrir andstöðu vegna boðunarstarfsins. Stundum er andstaðan ofsafengin en oft frekar lúmsk. Hún getur birst sem falskar ákærur fráhvarfsmanna, óvinátta einhvers í fjölskyldunni eða sem háðsglósur samstarfsmanna eða skólafélaga. Jesús sagði að þessar prófraunir ættu hvorki að koma okkur á óvart né draga úr okkur kjark. Það væri frekar ástæða til að gleðjast yfir þeim. Hann sagði: „Sæl eruð þér þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. Gleðjist og fagnið því að laun yðar eru mikil á himnum.“ – Matt. 5:11, 12.

Við ættum ekki að verða hrædd þegar við heyrum að bræður okkar og systur verði fyrir grimmilegum ofsóknum einhvers staðar. Öllu heldur ættum við að gleðjast yfir þolgæði þeirra. Við getum beðið fyrir þeim og beðið Jehóva að styrkja trú þeirra og þrautseigju. (Fil. 1:3, 4) Það er lítið annað sem við getum gert fyrir þessi elskulegu trúsystkini okkar. Hins vegar getum við hjálpað bræðrum og systrum í okkar eigin söfnuði sem lenda í raunum. Við getum haft samband við þau og veitt þeim stuðning. Við getum fengið tækifæri til að gleðjast með þeim með því að bjóða þeim af og til að vera með okkur á biblíunámskvöldinu, fara með þeim í boðunarstarfið og njóta annarra samverustunda með þeim.

Við höfum margs konar tilefni til að gleðjast saman. Við skulum ekki einangra okkur eins og tilhneiging er til í heiminum heldur halda áfram að deila gleði okkar með bræðrum og systrum. Með því móti stuðlum við bæði að kærleika og einingu innan safnaðarins og njótum að fullu kristna bræðrafélagsins. (Fil. 2:1, 2) Já, „verið ávallt glöð í Drottni“, eins og Páll hvetur til, og hann bætir við: „Ég segi aftur: Verið glöð.“ – Fil. 4:4.

[Rétthafi myndar á bls. 6]

Hnattlíkan: Með góðfúslegu leyfi Replogle Globes.