Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Huggum þá sem hryggir eru

Huggum þá sem hryggir eru

Huggum þá sem hryggir eru

„Drottinn hefur smurt mig . . . til að hugga þá sem hryggir eru.“ – JES. 61:1, 2.

1. Hvað gerði Jesús fyrir þá sem voru hryggir og hvers vegna?

JESÚS KRISTUR sagði: „Minn matur er að gera vilja þess sem sendi mig og fullna verk hans.“ (Jóh. 4:34) Þegar Jesús sinnti því verkefni sem Guð fól honum endurspeglaði hann stórfenglega eiginleika föður síns, þar á meðal þann mikla kærleika sem Jehóva ber til manna. (1. Jóh. 4:7-10) Páll postuli nefndi eina birtingarmynd þessa kærleika þegar hann kallaði Jehóva „Guð allrar huggunar“. (2. Kor. 1:3) Jesús sýndi slíkan kærleika þegar hann gerði það sem sagt var fyrir í spádómi Jesaja. (Lestu Jesaja 61:1, 2.) Jesús las hluta af þessum spádómi í samkundunni í Nasaret og heimfærði upp á sjálfan sig. (Lúk. 4:16-21) Þegar hann þjónaði hér á jörð hughreysti hann hlýlega þá sem voru hryggir með því að uppörva þá og veita þeim hugarró.

2, 3. Af hverju þurfa fylgjendur Krists að líkja eftir honum og hugga aðra?

2 Allir fylgjendur Jesú ættu að líkja eftir honum með því að hugga þá sem eru hryggir. (1. Kor. 11:1) Páll sagði: „Hvetjið því og uppbyggið hvert annað.“ (1. Þess. 5:11) Núna er sérstaklega mikil þörf á því að hugga aðra þar sem við lifum á erfiðum tímum. (2. Tím. 3:1) Um allan heim á sífellt fleira hjartahreint fólk í samskiptum við þá sem með orðum sínum og verkum valda öðrum sorg, hugarkvöl og þjáningum.

3 Eins og spáð var í Biblíunni eru margir núna á síðustu dögum þessa illa heimskerfis „sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, illmálgir, óhlýðnir foreldrum, vanþakklátir, guðlausir, kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir og andsnúnir öllu góðu, sviksamir, framhleypnir, drambsamir og elska munaðarlífið meira en Guð“. Hegðun sem þessi er nú meira áberandi en nokkru sinni fyrr því að ,vondir menn og svikarar hafa magnast í vonskunni‘. – 2. Tím. 3:2-4, 13.

4. Hvernig hefur ástandið í heiminum orðið á okkar dögum?

4 Ekkert af þessu ætti að koma okkur á óvart því að í Biblíunni kemur skýrt fram að „allur heimurinn er á valdi hins vonda“. (1. Jóh. 5:19) „Allur heimurinn“ felur í sér pólitísk og trúarleg öfl og viðskiptaheiminn ásamt öllum áróðursmiðlum. Satan djöfullinn er réttilega kallaður „höfðingi heimsins“ og „guð þessarar aldar“. (Jóh. 14:30; 2. Kor. 4:4) Ástandið um allan heim heldur stöðugt áfram að versna því að Satan er í miklum móð þar sem hann veit að hann hefur aðeins stuttan tíma áður en Jehóva tekur hann úr umferð. (Opinb. 12:12) Það er mjög hughreystandi að vita að Guð mun ekki umbera Satan og illan heim hans mikið lengur og að deilumálið, sem Satan vakti varðandi drottinvald Jehóva, verður útkljáð. – 1. Mós. 3. kafli; Job. 2. kafli.

Fagnaðarerindið er boðað um allan heim

5. Hvernig er spádómurinn um prédikunarstarfið að uppfyllast á þessum síðustu dögum?

5 Núna á þessu erfiða tímabili mannkynssögunnar er spádómur Jesú í Matteusi 24:14 að rætast. Hann sagði: „Fagnaðarerindið um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina til þess að allar þjóðir fái að heyra það. Og þá mun endirinn koma.“ Þetta alþjóðlega prédikunarstarf er nú unnið í ríkari mæli en nokkru sinni fyrr. Núna eru meira en 7.500.000 votta Jehóva í rúmlega 107.000 söfnuðum um allan heim. Þeir líkja eftir Jesú með því að boða Guðsríki og gera það að þungamiðju kennslu sinnar. (Matt. 4:17) Með þessu starfi hafa þeir hughreyst marga sem eru hryggir. Við sjáum það meðal annars af því að á síðustu tveimur árum létu alls 570.601 skírast sem vottar Jehóva.

6. Hvað finnst þér merkilegt við umfang prédikunarstarfsins?

6 Umfang þessa mikla prédikunarstarfs sést best á því að Vottar Jehóva þýða nú og dreifa biblíutengdum ritum á meira en 500 tungumálum. Ekkert þessu líkt hefur áður átt sér stað í mannkynssögunni. Það er stórkostlegt að fylgjast með jarðneskum hluta alheimssafnaðar Jehóva, starfi hans og vexti. Þetta gæti ekki gerst í þessum heimi, sem er undir stjórn Satans, án leiðsagnar og hjálpar hins kröftuga anda Guðs. Þar sem fagnaðarerindið er prédikað um allan heim eru það ekki aðeins trúsystkini okkar sem njóta þeirrar huggunar sem ritningarnar veita heldur líka þeir sem taka við boðskapnum um Guðsríki.

Hughreysting innan safnaðarins

7. (a) Af hverju getum við ekki ætlast til að Jehóva fjarlægi allt sem veldur okkur erfiðleikum núna? (b) Hvernig vitum við að það er hægt að þola ofsóknir og þrengingar?

7 Heimurinn er fullur af illsku og þjáningum og því eigum við örugglega eftir að lenda í einhverju sem veldur okkur hugarangri. Við getum ekki ætlast til þess að Guð fjarlægi allt sem veldur óhamingju eða sorg fyrr en hann eyðir þessum illa heimi. Þangað til reynir á hollustu okkar við Jehóva og stuðning við alheimsdrottinvald hans þegar við verðum fyrir þeim ofsóknum sem búið var að spá. (2. Tím. 3:12) Þar sem við fáum hjálp og huggun frá föður okkar á himnum getum við verið eins og andasmurðir kristnir menn í Þessaloníku til forna sem þoldu ofsóknir og þrengingar með þolgæði og trú. – Lestu 2. Þessaloníkubréf 1:3-5.

8. Hvaða dæmi í Biblíunni sanna að Jehóva hughreystir þjóna sína?

8 Það leikur enginn vafi á því að Jehóva veitir þjónum sínum þá huggun sem þeir þurfa á að halda. Þegar líf Elía spámanns var í hættu, vegna þess að hin illa drottning Jesebel hafði hótað honum, missti hann kjarkinn og flúði og sagðist jafnvel vilja deyja. En í stað þess að ávíta Elía hughreysti Jehóva hann og gaf honum hugrekki til að halda áfram starfi sínu sem spámaður. (1. Kon. 19:1-21) Frásagan af kristna söfnuðinum á fyrstu öld sýnir okkur líka að Jehóva hughreystir þjóna sína. Við getum til dæmis lesið um tímabil þegar söfnuðurinn hafði „frið um alla Júdeu, Galíleu og Samaríu“. Auk þess byggðist hann upp og „lifði í guðsótta og óx við örvun og styrk heilags anda“. (Post. 9:31) Við erum einnig mjög þakklát fyrir að hafa „örvun og styrk heilags anda“.

9. Af hverju getur verið hughreystandi að fræðast um Jesú?

9 Við sem erum kristin höfum fengið hughreystingu með því að fræðast um Jesú Krist og feta í fótspor hans. Hann sagði: „Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ (Matt. 11:28-30) Þegar við sjáum hversu uppörvandi Jesús var í framkomu við aðra og líkjum eftir góðu fordæmi hans er það eitt og sér góð leið til að draga úr streitu sem við gætum fundið fyrir.

10, 11. Hverjir í söfnuðinum geta veitt hughreystingu?

10 Við getum sömuleiðis fengið huggun frá trúsystkinum okkar. Hugleiddu til dæmis hvernig öldungarnir í söfnuðinum aðstoða þá sem eiga við erfiðleika að stríða. Lærisveinninn Jakob skrifaði: „Sé einhver sjúkur [veikur í trúnni] ykkar á meðal, þá kalli hann til sín öldunga safnaðarins og þeir skulu . . . biðja fyrir honum.“ Hver var árangurinn? „Trúarbænin mun gera hinn sjúka heilan og Drottinn mun reisa hann á fætur. Þær syndir, sem hann kann að hafa drýgt, verða honum fyrirgefnar.“ (Jak. 5:14, 15) Aðrir í söfnuðinum geta líka hughreyst okkur.

11 Konum finnst oft auðveldara að tala við aðrar konur um ýmis vandamál. Eldri og reyndari systur eru sérstaklega vel í stakk búnar til að veita yngri systrum góð ráð. Þessar þroskuðu systur gætu sjálfar hafa gengið í gegnum svipaða hluti. Samkennd þeirra og skilningur á kvenlegu eðli getur verið til mikillar hjálpar. (Lestu Títusarbréfið 2:3-5.) Auðvitað geta öldungar og aðrir ,hughreyst ístöðulitla‘ okkar á meðal og þeir ættu að gera það. (1. Þess. 5:14, 15) Gott er að muna að Guð ,hughreystir okkur í sérhverri þrenging okkar svo að við getum hughreyst alla aðra í þrengingum þeirra‘. – 2. Kor. 1:4.

12. Af hverju er mikilvægt að sækja safnaðarsamkomur?

12 Ein mikilvæg leið til að fá huggun er að vera viðstaddur safnaðarsamkomur þar sem biblíuumræður uppörva okkur. Í Biblíunni segir um Júdas og Sílas: „[Þeir] hvöttu bræðurna og systurnar með mörgum orðum og styrktu þau.“ (Post. 15:32) Fyrir og eftir samkomur getum við átt uppbyggjandi samræður við trúsystkini okkar. Þótt okkur líði illa út af einhverjum erfiðleikum skulum við ekki einangra okkur því að það bætir ekki stöðuna. (Orðskv. 18:1) Við ættum frekar að fylgja innblásnum ráðleggingum Páls postula: „Gefum gætur hvert að öðru og hvetjum hvert annað til kærleika og góðra verka. Vanrækið ekki safnaðarsamkomur ykkar eins og sumra er siður heldur uppörvið hvert annað og það því fremur sem þið sjáið að dagurinn færist nær.“ – Hebr. 10:24, 25.

Leitum huggunar í orði Guðs

13, 14. Útskýrðu hvernig Biblían getur hughreyst okkur.

13 Hvort sem við erum skírðir vottar Jehóva eða rétt að byrja að kynnast Guði og fyrirætlunum hans getum við fengið mikla huggun í rituðu orði hans. Páll skrifaði: „Allt það sem áður er ritað er ritað okkur til fræðslu til þess að við héldum von okkar vegna þess þolgæðis og uppörvunar sem ritningarnar gefa.“ (Rómv. 15:4) Hinar heilögu ritningar hughreysta okkur og gera okkur ,albúinn og hæf til sérhvers góðs verks‘. (2. Tím. 3:16, 17) Það er sannarlega mikil huggun í því að þekkja sannleikann um vilja Guðs og hafa örugga von fyrir framtíðina. Við skulum því nýta okkur orð Guðs og biblíutengd rit til fullnustu því að þau geta hughreyst okkur og nýst okkur á margan hátt.

14 Jesús gaf okkur gott fordæmi með því að nota ritningarnar til að leiðbeina öðrum og hughreysta þá. Þegar Jesús birtist eitt sinn eftir upprisu sína ,lauk hann upp ritningunum‘ fyrir tveimur lærisveinum. Þegar hann talaði við þá voru þeir djúpt snortnir. (Lúk. 24:32) Páll postuli fylgdi frábæru fordæmi Jesú og „lagði út af ritningunum“. Áheyrendur hans í Beroju „tóku við orðinu með mesta áhuga og rannsökuðu daglega ritningarnar“. (Post. 17:2, 10, 11) Það er því mjög viðeigandi að við lesum daglega í Biblíunni og nýtum okkur hana og biblíutengd rit sem eru samin til að veita okkur huggun og von á þessum erfiðu tímum.

Fleiri leiðir til að veita öðrum huggun

15, 16. Nefndu sumt sem við getum gert til að hjálpa bræðrum og systrum og hughreysta þau.

15 Við getum hjálpað trúsystkinum á ýmsa vegu og þar með veitt þeim hughreystingu. Við gætum til dæmis farið í innkaupaferð fyrir þá sem eru aldraðir eða veikir. Við gætum hjálpað trúsystkinum með heimilisstörfin og þannig sýnt þeim persónulegan áhuga. (Fil. 2:4) Og kannski gætum við hrósað bræðrum og systrum fyrir góða eiginleika þeirra eins og kærleika, skynsemi, hugrekki og trú.

16 Ef við viljum hughreysta eldri trúsystkini getum við heimsótt þau og hlustað vandlega á það sem þau segja okkur um reynslu sína og blessanir í þjónustu Jehóva. Það getur í rauninni verið okkur til uppörvunar og huggunar. Þegar við heimsækjum aðra gætum við líka lesið í Biblíunni eða biblíutengdum ritum. Kannski gætum við skoðað efnið sem farið verður yfir í Varðturnsnáminu eða safnaðarbiblíunáminu þá vikuna. Við gætum horft saman á mynddisk sem söfnuðurinn gefur út. Og við gætum lesið eða endursagt uppörvandi frásögu úr ritunum okkar.

17, 18. Af hverju getum við verið viss um að Jehóva styðji og hughreysti trúa þjóna sína?

17 Ef við tökum eftir því að trúbróðir eða -systir þarf á huggun að halda getum við nefnt hann eða hana í einkabænum okkar. (Rómv. 15:30; Kól. 4:12) Þegar við tökumst á við erfiðleika lífsins og leitumst við að hughreysta aðra getum við haft sama trúartraust og sálmaskáldið sem söng: „Varpa áhyggjum þínum á Drottin, hann mun bera umhyggju fyrir þér, aldrei að eilífu lætur hann réttlátan mann hrasa.“ (Sálm. 55:23) Já, Jehóva verður alltaf til staðar til að hughreysta og styðja trúfasta þjóna sína.

18 Guð sagði þjónum sínum til forna: „Ég hugga yður, ég sjálfur.“ (Jes. 51:12) Jehóva gerir það sama fyrir okkur og hann blessar okkur í því sem við segjum og gerum til að hugga þá sem eru hryggir. Hvort sem við höfum himneska von eða jarðneska getur hvert og eitt okkar sótt huggun í orð Páls til andasmurðra trúsystkina sinna: „Sjálfur Drottinn vor Jesús Kristur og Guð, faðir vor, sem elskaði oss og gaf oss í náð eilífa huggun og góða von, huggi hjörtu yðar og styrki í sérhverju góðu verki og orði.“ – 2. Þess. 2:16, 17.

Manstu?

• Hversu víða starfa vottar Jehóva við að hugga þá sem eru hryggir?

• Hvað getum við meðal annars gert til að hughreysta aðra?

• Hvaða sannanir höfum við í Biblíunni fyrir því að Jehóva huggi þjóna sína?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 28]

Tekurðu þátt í að hugga þá sem eru hryggir?

[Mynd á bls. 30]

Ungir jafnt sem aldnir geta hughreyst aðra.