Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vel ég mér uppbyggilega afþreyingu?

Vel ég mér uppbyggilega afþreyingu?

Vel ég mér uppbyggilega afþreyingu?

„Metið rétt hvað Drottni þóknast.“ – EF. 5:10.

1, 2. (a) Hvernig má sjá í Biblíunni að Jehóva vill að við njótum lífsins? (b) Hvað gerum við ef við lítum á afþreyingu sem „Guðs gjöf“?

Í BIBLÍUNNI kemur skýrt fram að Jehóva vill ekki aðeins að við lifum heldur líka að við njótum lífsins. Í Sálmi 104:14, 15 segir til dæmis að Jehóva láti jurtir vaxa „svo að jörðin gefi af sér brauð og vín sem gleður mannsins hjarta, olíu sem lætur andlit hans ljóma og brauð sem veitir honum þrótt“. Já, Jehóva sér okkur fyrir plöntum sem vaxa og gefa af sér korn, olíu og vín. En vín ,gleður líka hjarta mannsins‘ og gefur okkur meira en það sem er algerlega nauðsynlegt til að viðhalda lífinu. Það eykur á gleði okkar. (Préd. 9:7; 10:19) Jehóva vill greinilega að við séum ánægð, hann vill ,fylla hjörtu okkar gleði‘. – Post. 14:16, 17.

2 Við þurfum því ekki að fá samviskubit þegar við af og til tökum frá tíma til að skoða „fugla himinsins“ og ,liljur vallarins‘ eða til að njóta annarrar afþreyingar sem hressir okkur og endurnærir. (Matt. 6:26, 28; Sálm. 8:4, 5) Hamingjuríkt og heilbrigt líf er „Guðs gjöf“. (Préd. 3:12, 13) Ef við lítum á afþreyingarstundir sem hluta af þessari gjöf notum við þær á þann hátt sem gleður gjafarann.

Fjölbreytni þrátt fyrir takmarkanir

3. Af hverju er rökrétt að afþreying geti verið fjölbreytileg?

3 Þeir sem hafa skynsamlegt viðhorf til afþreyingar vita að hún getur verið fjölbreytt þótt þeir geri sér grein fyrir að takmarkanir séu nauðsynlegar. Af hverju? Til að svara því skulum við líkja afþreyingu við mat. Það er mismunandi eftir heimshlutum hvers konar matur er vinsæll. Það sem fólki í einu landi finnst vera veislumatur gæti öðrum jafnvel þótt ólystugt. Á sambærilegan hátt gætu kristnir menn í einum heimshluta haft gaman af afþreyingu sem höfðar ekki til kristinna manna annars staðar. Það á jafnvel við um þá sem búa á sama svæði. Það sem einum finnst afslappandi (kannski að sitja upp í sófa með góða bók) gæti öðrum fundist leiðinlegt. Það sem einum finnst hressandi (til dæmis að fara í hjólreiðatúr) gæti öðrum fundist of mikil áreynsla. Við sjáum að það er svigrúm fyrir fjölbreytni og persónulegan smekk í ýmsum málum, eins og mat og afþreyingu. – Rómv. 14:2-4.

4. Af hverju þurfum við að takmarka þá afþreyingu sem við veljum okkur? Lýstu með dæmi.

4 Hins vegar gerum við okkur grein fyrir því að þótt svigrúm sé fyrir fjölbreytilega afþreyingu getum við ekki leyft okkur hvað sem er. Tökum aftur dæmið um mat. Þótt við getum borðað fjölbreytta fæðu myndum við ekki vísvitandi borða neitt sem er skemmt. Það gengi gegn heilbrigðri skynsemi og gæti verið heilsuspillandi. Það er eins með afþreyingu. Þótt við séum opin fyrir heilnæmri skemmtun af ýmsu tagi tökum við ekki þátt í neinu sem er lífshættulegt, ofbeldisfullt eða siðferðilega rotið. Það færi gegn meginreglum Biblíunnar og myndi stofna andlegri og líkamlegri heilsu okkar í voða. Til að tryggja að við höldum okkur innan skynsamlegra marka er gott fyrir okkur að ákveða fyrir fram hvort afþreying, sem við höfum áhuga á, sé uppbyggileg eða ekki. (Ef. 5:10) Hvernig getum við gert það?

5. Hvernig getum við gengið úr skugga um að ákveðin afþreying samræmist meginreglum Guðs?

5 Til að afþreying sé uppbyggileg og Guði velþóknanleg verður hún að samræmast meginreglum Biblíunnar. (Sálm. 86:11) Þú getur notað einfaldan gátlista til að ganga úr skugga um að afþreying, sem höfðar til þín, geri það. Á listanum eru þrjár spurningar sem mætti draga saman með orðunum hvað, hvenær og hverjir. Skoðum hverja spurningu fyrir sig.

Hvað felur hún í sér?

6. Hvaða afþreyingu þurfum við alfarið að hafna og hvers vegna?

6 Áður en þú tekur þátt í einhverri afþreyingu verðurðu að spyrja „hvað?“ – það er að segja: „Hvað er fólgið í afþreyingunni sem ég laðast að?“ Þegar þú leitar svara við því er gott að hafa í huga að í rauninni má skipta afþreyingu í tvennt. Í fyrsta lagi afþreyingu sem við höfnum alfarið og í öðru lagi afþreyingu sem við tökum ef til vill þátt í. Hverju höfnum við alfarið? Í þessum illa heimi einkennist stór hluti afþreyingar af því sem gengur í berhögg við meginreglur Biblíunnar og lög Guðs. (1. Jóh. 5:19) Sannkristnir menn hafna alfarið öllu slíku. Undir það flokkast sadismi, andatrú, samkynhneigð, klám, ofbeldi og allt sem upphefur annan andstyggilegan eða siðlausan verknað. (1. Kor. 6:9, 10; lestu Opinberunarbókina 21:8.) Ef við neitum að koma nálægt slíkri afþreyingu, sama hvar við erum, sönnum við fyrir Jehóva að við höfum „andstyggð á hinu vonda“. – Rómv. 12:9; 1. Jóh. 1:5, 6.

7, 8. Hvernig getum við metið hvort afþreying sé uppbyggileg eða ekki? Lýstu með dæmi.

7 Afþreyingin, sem við tökum ef til vill þátt í, snýst hins vegar ekki um verknað sem er hreint og beint fordæmdur í orði Guðs. Í slíkum tilfellum verðum við fyrir fram að skoða vandlega hvort afþreyingin samræmist meginreglum Biblíunnar og viðhorfi Jehóva á því hvað er heilnæmt. (Orðskv. 4:10, 11) Síðan verðum við að taka persónulega ákvörðun sem stríðir ekki gegn samvisku okkar. (Gal. 6:5; 1. Tím. 1:19) Hvernig getum við gert það? Lítum aftur á dæmið um mat. Áður en við smökkum nýjan rétt viljum við vita hver helstu hráefnin eru. Eins verðum við að athuga um hvað afþreying snýst áður en við tökum þátt í henni. – Ef. 5:17.

8 Þú gætir til dæmis haft gaman af íþróttum og það er mjög skiljanlegt. Íþróttir geta verið skemmtilegar og spennandi. En hvað ef þú laðast að einhverri íþrótt vegna keppnisandans, mikillar áhættu, hárrar slysatíðni, óhóflegra fagnaðarláta, þjóðernisákafa eða einhvers í þeim dúr? Eftir að hafa kynnt þér um hvað íþróttin snýst kemstu líklega að þeirri niðurstöðu að þessi afþreying samræmist ekki hugsunarhætti Jehóva eða þeim friðar- og kærleiksboðskap sem við boðum. (Jes. 61:1; Gal. 5:19-21) Ef afþreying snýst á hinn bóginn um það sem er heilnæmt í augum Jehóva getur hún vel verið uppbyggileg og hressandi. – Gal. 5:22, 23; lestu Filippíbréfið 4:8.

Hvenær stunda ég hana?

9. Hvað kemur í ljós þegar við svörum spurningunni: „Hvenær stunda ég afþreyingu?“

9 Önnur spurningin, sem við verðum að spyrja okkur, er „hvenær?“ – það er að segja: „Hvenær stunda ég afþreyingu? Hve miklum tíma eyði ég í hana?“ Svarið við spurningunni hvað? segir til um viðhorf okkar – hvað okkur finnst boðlegt og hvað ekki. En svarið við spurningunni hvenær? segir til um forgangsröðun okkar – hvað okkur finnst mikilvægt og hvað ekki. En hvernig getum við þá metið hvort við leggjum of mikla áherslu á afþreyingu?

10, 11. Hvernig geta orð Jesú í Matteusi 6:33 hjálpað okkur að ákveða hve miklum tíma við verjum í afþreyingu?

10 Jesús Kristur sagði við fylgjendur sína: „Þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum.“ (Mark. 12:30) Kærleikurinn til Jehóva er því það mikilvægasta í lífi okkar. Við sýnum að svo sé með því að fylgja hvatningu Jesú: „Leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.“ (Matt. 6:33) Hvernig getur þetta vers hjálpað okkur að ákveða hve miklum tíma við verjum í afþreyingu og hve stóran sess hún ætti að skipa?

11 Taktu eftir að Jesús sagði okkur að leita fyrst Guðsríkis. Hann sagði okkur ekki að leita aðeins Guðsríkis. Hann vissi greinilega að við þyrftum líka að huga að mörgu öðru. Við þurfum húsnæði, mat, klæðnað, grunnmenntun, atvinnu, afþreyingu og svo framvegis. En þótt við þurfum að sinna öllu þessu er aðeins eitt sem er í fyrsta sæti – Guðsríki. (1. Kor. 7:29-31) Þessi staðreynd ætti að fá okkur til að stunda annað, þar á meðal afþreyingu, þannig að það geri okkur kleift að vinna aðalstarf okkar – að sinna hagsmunum Guðsríkis. Ef við gerum það getur hófleg afþreying verið til góðs.

12. Hvernig má heimfæra meginregluna í Lúkasi 14:28 upp á afþreyingu?

12 Þegar við ákveðum hve miklum tíma við verjum í afþreyingu ættum við að reikna kostnaðinn fyrir fram. (Lúk. 14:28) Við verðum að reikna út hve mikinn tíma viss afþreying kostar. Síðan verðum við að ákveða hve miklum tíma við ætlum að eyða í hana. Ef afþreyingin veldur því að við vanrækjum mikilvæga hluti eins og persónulegt biblíunám, biblíunámsstund fjölskyldunnar, safnaðarsamkomur eða boðunarstarfið er hún ekki þess virði. (Mark. 8:36) En ef það að stunda afþreyingu einstöku sinnum gefur okkur kraft til að halda áfram að sinna hagsmunum Guðsríkis gæti okkur fundist hún vera þess virði.

Hverjir eru félagar mínir?

13. Af hverju þurfum við að huga vandlega að því með hverjum við stundum afþreyingu?

13 Þriðja spurningin, sem við þurfum að spyrja okkur, er „hverjir?“ – það er að segja: „Með hverjum vil ég stunda afþreyingu?“ Það er mikilvægt að hugleiða þetta atriði. Af hverju? Af því að félagarnir, sem við veljum okkur, hafa áhrif á það hvort afþreyingin sé uppbyggileg eða ekki. Yfirleitt er skemmtilegra að borða máltíð ef maður er í góðra vina hópi og á sama hátt er oft skemmtilegra að stunda afþreyingu ef maður er í félagsskap góðra vina. Það er því skiljanlegt að margir okkar á meðal, sérstaklega unga fólkið, hafi gaman af að stunda afþreyingu með öðrum. En til að tryggja að það sem við ætlum að gera sé uppbyggilegt er viturlegt að ákveða fyrir fram hverja við viljum hafa að vinum og hverja ekki. – 2. Kron. 19:2; lestu Orðskviðina 13:20; Jak. 4:4.

14, 15. (a) Hvaða fordæmi gaf Jesús þegar hann valdi sér vini? (b) Hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur þegar við veljum okkur vini?

14 Það er mjög gagnlegt að fylgja fordæmi Jesú þegar við veljum okkur vini. Allt frá sköpun heims þótti Jesú vænt um mannkynið. (Orðskv. 8:31) Þegar hann var á jörðinni sýndi hann alls konar fólki umhyggju. (Matt. 15:29-37) En Jesús gerði greinarmun á því að vera vingjarnlegur og vera náinn vinur. Þótt hann hafi verið vingjarnlegur við fólk almennt var hann aðeins náinn vinur þeirra sem uppfylltu viss skilyrði. Hann sagði við 11 trúfasta postula sína: „Þér eruð vinir mínir ef þér gerið það sem ég býð yður.“ (Jóh. 15:14; sjá einnig Jóhannes 13:27, 30) Þeir einu sem Jesús áleit vera vini sína voru þeir sem fylgdu honum og þjónuðu Jehóva.

15 Þegar þú hugleiðir hvort þú viljir að einhver verði náinn vinur þinn eða ekki væri viturlegt að hafa orð Jesú í huga. Spyrðu þig spurninga eins og þessara: Sýnir þessi einstaklingur í orði og verki að hann fylgi boðum Jehóva og Jesú? Fylgir hann sömu biblíulegu gildum og siðferðisreglum og ég? Þegar ég er í félagsskap hans fæ ég þá hvatningu til að setja Guðsríki í fyrsta sæti og vera trúfastur þjónn Jehóva? Ef þú ert viss um að þú getir svarað þessum spurningum játandi hefurðu fundið góðan vin sem þú getur notið afþreyingar með. – Lestu Sálm 119:63; 2. Kor. 6:14; 2. Tím. 2:22.

Stenst afþreyingin prófið?

16. Hvað þurfum við að ganga úr skugga um áður en við veljum okkur afþreyingu?

16 Nú höfum við skoðað stuttlega þrjár hliðar á afþreyingu – gæði, magn og félagsskap. Til að afþreying sé uppbyggileg verður hún að samræmast meginreglum Biblíunnar á þessum þremur sviðum. Áður en við tökum þátt í einhverri afþreyingu verðum við því að vega hana og meta. Varðandi gæðin þurfum við vita: Hvað felur hún í sér? Er hún heilnæm eða siðspillt? (Orðskv. 4:20-27) Hvað varðar magn ættum við að hugleiða: Hve miklum tíma myndi ég eyða í hana? Er það hæfilegur tími eða ekki? (1. Tím. 4:8) Og varðandi félagsskapinn þurfum við að ákveða: Með hverjum ætla ég að stunda þessa afþreyingu? Eru þeir góður eða slæmur félagsskapur? – Préd. 9:18; 1. Kor. 15:33.

17, 18. (a) Hvernig getum við gengið úr skugga um að afþreying uppfylli mælikvarða Biblíunnar? (b) Hvað ert þú staðráðinn í að gera þegar þú velur þér afþreyingu?

17 Ef afþreying uppfyllir ekki mælikvarða Biblíunnar á einhverjum af þessum þremur sviðum, stenst hún ekki prófið. En ef við gætum þess að velja okkur afþreyingu sem uppfyllir skilyrðin á öllum þessum sviðum er það Jehóva til lofs og okkur til uppbyggingar. – Sálm. 119:33-35.

18 Leggjum okkur því fram um að gera það sem er rétt, á réttum tíma og með rétta fólkinu. Það ætti að vera einlæg löngun okkar allra að fylgja þessum ráðum Biblíunnar: „Hvort sem þið því etið eða drekkið eða hvað sem þið gerið, þá gerið það allt Guði til dýrðar.“ – 1. Kor. 10:31.

Geturðu útskýrt?

Hvernig geturðu heimfært eftirfarandi ritningarstaði upp á afþreyingu?

Filippíbréfið 4:8.

Matteus 6:33.

Orðskviðina 13:20.

[Spurningar]

[Skýringarmynd á bls. 9]

(Sjá uppsettan texta í ritinu)

Hvað

[Skýringarmynd á bls. 10]

(Sjá uppsettan texta í ritinu)

Hvenær

[Skýringarmynd á bls. 12]

(Sjá uppsettan texta í ritinu)

Hverjir

[Mynd á bls. 10]

Hvernig getum við líkt eftir Jesú þegar við veljum okkur vini og afþreyingu?