Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Viturlegar leiðbeiningar varðandi einhleypi og hjónaband

Viturlegar leiðbeiningar varðandi einhleypi og hjónaband

Viturlegar leiðbeiningar varðandi einhleypi og hjónaband

„Þetta segi ég . . . til þess að efla velsæmi og óbifanlega fastheldni við Drottin.“ – 1. KOR. 7:35.

1, 2. Hvers vegna ættum við að kynna okkur leiðbeiningar Biblíunnar um einhleypi og hjónaband?

ÞAÐ er fátt í lífinu sem veitir meiri ánægju eða veldur meiri vonbrigðum og áhyggjum en samskiptin við hitt kynið. Við þurfum að biðja um leiðsögn Guðs til að takast á við þessar tilfinningar. Við þurfum einnig á leiðsögn Guðs að halda við ýmsar aðrar aðstæður. Sumir þjónar Guðs eru til dæmis ánægðir með að vera einir en finnst ef til vill að vinir og ættingjar þrýsti á þá að giftast. Suma langar kannski til að giftast en hefur ekki tekist að finna maka við hæfi. Þeir sem eru að draga sig saman þurfa líka leiðbeiningar til að búa sig undir ábyrgðina sem fylgir hjónabandi. Og allir þjónar Guðs, bæði giftir og ógiftir, þurfa að forðast siðleysi.

2 Þessi mál varða vissulega hamingju okkar en þau snerta einnig samband okkar við Guð. Í 7. kafla 1. Korintubréfs gaf Páll ráð varðandi einhleypi og hjónaband. Hann vildi að lesendur sínir gerðu það sem væri rétt og héldu áfram að þjóna Guði af öllu hjarta án truflunar. (1. Kor. 7:35) Ráðleggingar Páls um þessi mikilvægu mál geta orðið þér að miklu gagni. Hann vildi að giftir og ógiftir nýttu sér aðstæður sínar sem best í þjónustu Jehóva.

Alvarleg ákvörðun sem hver og einn þarf að taka

3, 4. (a) Hvað getur gerst ef vinir og ættingjar þrýsta á einhleypt fólk að gifta sig? (b) Hvernig geta leiðbeiningar Páls hjálpað okkur að sjá hjónaband í réttu ljósi?

3 Meðal Gyðinga á fyrstu öld var talið mikilvægt að fólk gengi í hjónaband, og hið sama er uppi á teningnum víða um lönd nú á dögum. Ef karl eða kona nær vissum aldri án þess að giftast getur verið að velviljaðir vinir og ættingjar telji sig tilneydda að ráða þeim heilt. Þeir hvetja kannski hinn ógifta til að leggja meiri áherslu á að finna sér maka. Þeir stinga ef til vill upp á vænlegu manns- eða konuefni. Og þeir leggja jafnvel á ráðin um að ógift fólk hittist svo að það geti kynnst. En stundum getur þetta verið vandræðalegt fyrir fólk og valdið vinaskilnaði og sárindum.

4 Páll þrýsti aldrei á nokkurn mann að giftast eða vera einhleypur. (1. Kor. 7:7) Sjálfur var hann sáttur við að þjóna Jehóva án eiginkonu en virti rétt annarra til að ganga í hjónaband. Þjónar Guðs nú á tímum þurfa líka að ákveða hver fyrir sig hvort þeir giftist eða séu einhleypir. Enginn ætti að beita þá þrýstingi á annan veginn eða hinn.

Nýttu þér einhleypið sem best

5, 6. Af hverju mælti Páll með einhleypi?

5 Af orðum Páls í 1. Korintubréfi má sjá að hann hafði jákvæða afstöðu til einhleypis. (Lestu 1. Korintubréf 7:8.) Þótt Páll væri einhleypur lét hann ekki eins og hann væri hafinn yfir þá sem voru giftir. Að því leyti til var hann ólíkur þeim prestum kristna heimsins sem aðhyllast einlífi. Páll benti öllu heldur á að einhleypir gætu þjónað Guði með ýmsum hætti sem væri utan seilingar fólks í hjónabandi. Hvernig þá?

6 Einhleypur vottur Jehóva hefur oft möguleika á að taka að sér verkefni í þjónustunni sem giftir vottar hefðu ekki tök á. Páli var fengið það sérstaka hlutverk að vera „postuli heiðingja“. (Rómv. 11:13) Lestu kafla 13 til 20 í Postulasögunni og fylgstu með ferðum hans og trúboðsfélaga hans. Þeir fluttu fagnaðarerindið á svæðum þar sem aldrei hafði verið prédikað áður og stofnuðu nýja söfnuði víðsvegar. Í starfi sínu þoldi Páll erfiðleika sem fáir kynnast nú á dögum. (2. Kor. 11:23-27, 32, 33) En Páll var fús til að leggja allt þetta á sig af því að hann hafði svo mikla ánægju af að gera fólk að lærisveinum. (1. Þess. 1:2-7, 9; 2:19) Hefði hann getað gert allt þetta ef hann hefði verið giftur eða átt börn? Líklega ekki.

7. Hvað gátu tvær einhleypar systur gert til að prédika fagnaðarerindið?

7 Margir ógiftir vottar nýta sér aðstæður sínar í þágu boðunarstarfsins. Tvær einhleypar systur, Sara og Limbania, eru brautryðjendur í Bólivíu. Þær fluttust til þorps þar sem fagnaðarerindið hafði ekki verið boðað í mörg ár. Þær segja frá því að ekkert rafmagn sé í þorpinu og fólk stytti sér því stundir við lestur í stað þess að sitja við sjónvarp eða útvarp. Sumir þorpsbúar sýndu systrunum gömul rit sem Vottar Jehóva höfðu gefið út en eru ekki lengur fáanleg. Systurnar hittu áhugasamt fólk við næstum hverjar dyr og þær voru því lengi að komast yfir allt svæðið. Eldri kona sagði við þær: „Endirinn hlýtur að vera að koma því að vottar Jehóva eru loksins komnir til okkar.“ Sumir þorpsbúanna fóru fljótlega að sækja safnaðarsamkomur.

8, 9. (a) Hvað hafði Páll í huga þegar hann sagði að það væri gott að vera einhleypur? (b) Hvaða möguleikar standa ógiftum vottum til boða?

8 Giftir vottar ná að sjálfsögðu líka góðum árangri þegar þeir boða trúna við krefjandi aðstæður. En sum verkefni, sem standa einhleypum brautryðjendum til boða, gætu reynst erfið þeim sem eru giftir eða eiga börn. Þegar Páll skrifaði söfnuðunum vissi hann að enn var margt ógert í boðunarstarfinu. Hann vildi að allir fengju að kynnast gleðinni sem fylgir því að gera fólk að lærisveinum eins og hann hafði oft fengið að reyna. Þess vegna sagði hann að það væri gott að vera einhleypur í þjónustu Jehóva.

9 Einhleyp bandarísk systir, sem er brautryðjandi, skrifaði: „Sumir halda að einhleypt fólk geti ekki verið hamingjusamt. En ég hef komist að raun um að varanleg gleði byggist á sambandi manns við Jehóva. Þótt það sé viss fórn að vera einhleypur er það samt góð gjöf ef maður nýtir það vel.“ Hún hélt áfram: „Það að vera einhleypur hindrar mann ekki í að vera hamingjusamur. Ég veit að ástúð Jehóva nær til allra, hvort sem þeir eru einhleypir eða giftir.“ Hún nýtur nú þeirrar gleði að boða fagnaðarerindið í landi þar sem mikil þörf er á boðberum. Ertu einhleypur? Geturðu þá nýtt frelsið til að einbeita þér betur að því að kenna öðrum sannleikann? Þannig getur einhleypi reynst þér dýrmæt gjöf frá Jehóva.

Þeir sem langar til að giftast

10, 11. Hvernig hjálpar Jehóva þeim sem langar til að gifta sig en hafa ekki enn fundið maka við hæfi?

10 Eftir að hafa verið einir um tíma ákveða margir dyggir þjónar Jehóva að gifta sig. Þeir gera sér ljóst að þeir þurfa á leiðsögn að halda og biðja því Jehóva um hjálp til að finna maka við hæfi. – Lestu 1. Korintubréf 7:36. *

11 Ef þig langar til að finna þér maka sem þjónar Jehóva af heilum hug skaltu halda áfram að minnast þess í bænum þínum. (Fil. 4:6, 7) Örvæntu ekki þótt þér finnist biðin löng. Jehóva veit hvers þú þarfnast og ef þú treystir honum hjálpar hann þér að sýna biðlund. – Hebr. 13:6.

12. Um hvað þarftu að hugsa alvarlega ef einhver af hinu kyninu fer að sýna þér mikinn áhuga?

12 Hvað nú ef einhver sem á ekki sterkt samband við Jehóva eða er ekki einu sinni vottur fer að sýna þér mikinn áhuga? Kannski þráir þú heitt að giftast. En óviturleg ákvörðun í þessum efnum getur valdið miklu meiri sársauka og hugarkvöl en einsemdin sem þú fannst fyrir áður. Mundu að þú ert bundinn maka þínum það sem eftir er ævinnar, hvað sem á dynur. (1. Kor. 7:27) Láttu ekki örvæntingu reka þig út í hjónaband. Þig gæti iðrað þess síðar. – Lestu 1. Korintubréf 7:39.

Búðu þig undir hjónaband

13-15. Hvað ætti fólk að ræða út um áður en það giftir sig?

13 Enda þótt Páll hafi sagt að það væri gott að vera einhleypur í þjónustu Jehóva leit hann ekki niður á þá sem gengu í hjónaband. Innblásnar leiðbeiningar hans auðvelda fólki hins vegar að gera sér raunhæfar væntingar til hjónabandsins og halda saman í blíðu og stríðu.

14 Sumir gera sér of háar hugmyndir um hvernig lífið verði eftir að þeir gifta sig. Í tilhugalífinu gætu hjónaleysin ímyndað sér að ástin milli þeirra sé alveg einstök og tryggi að þau lifi hamingjusöm til æviloka. Þau giftast í sæluvímu og eru sannfærð um að ekkert geti nokkurn tíma varpað skugga á hamingju þeirra. Veruleikinn er þó allt annar. Ástin er auðvitað yndisleg og getur gefið hjónum margar ánægjustundir. En ástin ein býr brúðhjónin ekki undir erfiðleikana sem fylgja öllum hjónaböndum. – Lestu 1. Korintubréf 7:28. *

15 Það kemur mörgum nýgiftum hjónum á óvart að þau skuli greina á í mikilvægum málum. Þau verða jafnvel vonsvikin. Þau eru kannski ósammála um hvernig eigi að ráðstafa peningum og hvað eigi að gera í frístundum, hvar þau eigi að búa og hve oft eigi að heimsækja tengdafólkið. Og bæði hafa sína galla sem geta farið í taugarnar á hinu. Það er auðvelt að gera lítið úr þessu meðan tilhugalífið stendur yfir en seinna meir getur það valdið mikilli spennu milli þeirra. Það er því betra að ræða út um hlutina áður en til giftingar kemur.

16. Hvers vegna ættu hjón að læra að takast sameiginlega á við erfiðleika og vandamál?

16 Til að hjónabandið verði farsælt þurfa hjónin að læra að vinna saman. Þau ættu að koma sér saman um það hvernig þau aga börnin og annast aldraða foreldra. Allar fjölskyldur eiga við sína erfiðleika að stríða en hjón mega ekki láta erfiðleikana stía sér í sundur. Með því að fara eftir leiðbeiningum Biblíunnar geta hjón leyst mörg vandamál, þolað þau sem eftir standa og verið hamingjusöm. – 1. Kor. 7:10, 11.

17. Af hverju er eðlilegt að hjón beri „veraldleg efni“ fyrir brjósti?

17 Páll minnist á annan veruleika varðandi hjónabandið í 1. Korintubréfi 7:32-34(Lestu.) Af illri nauðsyn bera hjón „veraldleg efni“ fyrir brjósti, svo sem fæði, klæði, húsnæði og aðrar nauðsynjar. Hver er ástæðan? Meðan bróðir var einhleypur má vel vera að hann hafi notað krafta sína að mestu leyti í boðunarstarfinu. En eftir að hann gifti sig þarf hann að nota hluta af tíma sínum og kröftum í að annast eiginkonu sína og þóknast henni. Og eiginkonan gerir hið sama fyrir hann. Jehóva veit að hjónin vilja bæði tvö gleðja hvort annað. Þau hafa ekki jafn mikinn tíma og krafta til að sinna boðunarstarfinu og þau höfðu meðan þau voru einhleyp. Núna þurfa þau líka að einbeita sér að því að styrkja hjónabandið.

18. Af hverju gætu nýgift hjón þurft að endurskoða hve miklum tíma þau verja með vinum sínum?

18 Það má líka draga annan lærdóm af orðum Páls. Fyrst hjón þurfa að taka tíma og krafta frá þjónustunni til að sinna hvort öðru ættu þau líka að nota minni tíma en áður í afþreyingu með vinum sínum. Hvernig myndi eiginkonu líða ef maðurinn hennar eyddi jafn miklum tíma og áður í að stunda íþróttir með félögum sínum? Og hvað fyndist eiginmanni um það að konan hans eyddi miklum tíma í að sinna áhugamálum með vinkonum sínum? Sá sem heima situr yrði eflaust einmana, vansæll og fyndist hann vanræktur. Til að afstýra því þurfa hjónin að gera allt sem þau geta til að styrkja hjónabandið. – Ef. 5:31.

Jehóva ætlast til þess að við séum siðferðilega hrein

19, 20. (a) Af hverju þurfa hjón að varast siðleysi? (b) Hvaða áhættu taka hjón ef þau eru langdvölum hvort í sínu lagi?

19 Þjónar Jehóva eru staðráðnir í að vera siðferðilega hreinir. Sumir ákveða að gifta sig til að auðvelda sér það. En það eitt að ganga í hjónaband verndar okkur ekki sjálfkrafa gegn siðleysi. Á biblíutímanum voru oft reistir stórir og sterkir múrar utan um borgir. Fólk var óhult innan borgarmúranna en ef það hætti sér út fyrir þegar ræningjar og stigamenn voru á ferli gat það tapað eigum sínum eða lífi. Hjónabandið verndar heldur ekki hjónin gegn siðleysi nema þau haldi þau lög og þær reglur sem Jehóva hefur sett um kynferðismál.

20 Páll lýsti þessum reglum í 1. Korintubréfi 7:2-5. Það er enginn nema eiginkonan sem á þann rétt að hafa kynmök við eiginmanninn og að sama skapi á eiginmaðurinn einn þann rétt að hafa kynmök við eiginkonu sína. Þau eiga bæði að gæta „skyldu sinnar“ hvort gagnvart öðru á þessu sviði. Þess eru hins vegar dæmi að hjón séu langdvölum hvort frá öðru vegna vinnu eða fari í frí hvort í sínu lagi. Þá geta þau ekki gætt „skyldu sinnar“ hvort gagnvart öðru. Það væri ákaflega sorglegt ef annað hjónanna léti undan þrýstingi frá Satan og fremdi hjúskaparbrot vegna „ístöðuleysis“. Jehóva blessar þá sem sjá fyrir fjölskyldu sinni án þess að stofna hjónabandinu í hættu. – Sálm. 37:25.

Hlýddu ráðum Biblíunnar

21. (a) Af hverju getur það verið þrautin þyngri að velja á milli einhleypis og hjónabands? (b) Hvernig geta leiðbeiningarnar í 1. Korintubréfi 7. kafla verið okkur til góðs?

21 Það getur verið þrautin þyngri að velja á milli einhleypis og hjónabands. Allir eru ófullkomnir og það er einmitt ófullkomleikinn sem veldur flestum vandamálum manna í milli. Jafnvel þótt fólk njóti blessunar Jehóva kemst það ekki hjá öllum vonbrigðum, og gildir þá einu hvort það er gift eða ekki. Ef þú ferð eftir hinum viturlegu leiðbeiningum í 1. Korintubréfi 7. kafla geturðu dregið úr slíkum vandamálum. Þú,gerir þá vel‘ að mati Jehóva hvort sem þú ert einhleypur eða ekki. (Lestu 1. Korintubréf 7:37, 38. *) Velþóknun Jehóva er háleitasta markmið sem þú getur sett þér. Við getum átt blessun hans núna og í framtíðinni þegar nýi heimurinn er genginn í garð. Þá verða karlar og konur laus við álagið og erfiðleikana sem við er að glíma núna.

[Neðanmáls]

^ gr. 10 1. Korintubréf 7:36, NW: „Ef einhver heldur að hann hegði sér ósæmilega gagnvart sveindómi sínum og æskublóminn er hjá, og svo verður að vera, þá geri hann það sem hann vill. Hann syndgar ekki. Þau skulu giftast.“

^ gr. 21 1. Korintubréf 7:37, 38, NW: „Ef einhver er staðfastur í hjarta sínu og óþvingaður, en hefur vald yfir vilja sínum og hefur afráðið í hjarta sínu að varðveita sveindóm sinn, þá gerir hann vel. Þar af leiðandi gerir sá vel sem gefur sveindóm sinn í hjónaband, en sá sem gefur hann ekki í hjónaband gerir betur.“

Veistu svarið?

• Af hverju ætti enginn að þrýsta á annan að gifta sig?

• Hvernig geta einhleypir vottar nýtt tímann sem best?

• Hvernig getur fólk búið sig undir hjónaband?

• Hvers vegna verndar það okkur ekki sjálfkrafa gegn siðleysi að ganga í hjónaband?

[Spurningar]

[Myndir á bls. 14]

Það veitir einhleypum vottum mikla gleði að leggja sig fram í þjónustu Jehóva.

[Mynd á bls. 16]

Hvað gætu sumir þurft að endurskoða eftir að þeir gifta sig?